Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Spoke too soon...

Bleh, bleh, bleh ekkert mál að skokka upp og niður Esjuna...  Ég er með harðsperrur dauðans í lærunum, þær komu bara ekki fyrr en í gær og eru bara nokkuð kröftugar ennþá.

Karlinn minn er ekkert skárri en hann fór í Bootcamp með bróður sínum í vikunni.  Hann tók aðeins of vel á þvi, var svo fljótur að hlaupa að hann þurfti að gera armbeygjur og hnébeygjur meðan hinir kláruðu.  Getur varla burstað tennurnar  og í gær þá kallaði hann á mig inn í eldhús, þar stóð hann með vonleysis svip og tissjú í hendinni.  Lilja hafði sullað graut á gólfið...  'Ertu til í að þurrka þetta upp, get ekki beygt mig svona langt niður...' 

Annars er bara fjör í félagslífinu.  Skokkaði aðeins með Oddi vinnufélaga mínum og Glitnishópnum í gær eftir vinnu og fór  svo með mömmu í bíó, á 'Love in the time of cholera'.  Frábær kvöldstund með mömmu minni.  Í dag er óvissuferð með vinnunni, allt að gerast...


Fjölskyldulíf

Nú nýtur maður þess að taka þátt í venjulegu fjölskydulífi í staðinn fyrir að allt snúist um æfingar. 

Í gær eftir vinnu kom tengdapabbi til okkar og feðgarnir fóru út í garð og settu niður kartöflur.  Leigjendurnir okkar, Przemek og Pavel, höfðu nefnilega tekið sig til einn góðviðrisdaginn fyrir nokkru og stungið upp garðinn og gert alla undirbúningsvinnuna, þannig að það var allt klárt og bara að pota niður útsæðinu. 

Gabríel er alla daga á gervigrasinu eftir skóla og nú fáum við póst i hverri viku um fótboltamót hér eða fótboltamót þar.  Ekki alvega að syncha við hlaupadagskránna....  Ég klippti hann aftur um daginn og skerpti á hanakambinum, hrikalega flottur drengurinn Wink .

Agga kom uppveðruð í vinnuna í gær og sagðist vera búin að finna nýjan tíma í sólarhringnum!  Hún hafði skellt sér í sund með krakkana, eftir vinnu, fyrir kvöldmat.  Frábær hugmynd, þetta er nefnilega hálf ómögulegur tími hjá skottinu okkar, þreytt eftir daginn en ekki komin háttatími.  Dreif mig með hana Lilju í sund á meðan karlarnir voru í kartöflustússinu.  Það var þvílíkt gaman hjá okkur en þetta er eiginlega í fyrsta sinn sem við förum í sund og það er ekki skítakuldi.  Lilja æfði sig með handleggjakútana, buslaði í heita pottinum og reyndi svo að stinga af með reglulegu millibili, fínasta æfing fyrir mömmuna. 

'Hvaredda?' ,  'Hvaredda?', 'Hvaredda?'...  Þetta er blómið, þetta er kútur, þetta er sturta... Ótrúlega skemmtilegur tími hjá henni Lilju en hún er eins og svampur, lærir ný orð og nýja hluti á hverjum degi núna.  Ég er búin að sýna henni hvar koppurinn er geymdur og hún fer reglulega og nær í hann, sest á hann og þykist pissa.  Hún tók svo syrpu með dúkkuna sína, fyrst átti hún að dansa, svo lúlla og svo pissa í koppinn.

Lilja í maí

Hún er líka mikil ævintýrakona, klifrar upp um allt og það er eins gott að hafa auga með henni úti, annars er hún horfinn.  Hérna er hún búin að ná í Indiana Jones hattinn og svipuna og kominn í gírinn.

 


Esjan

Undirbúningur fyrir undirbúning eða þannig.  Dreif mig upp Esjuna í gær, hugsaði sem svo að það væri bara fínt að klára Esju harðsperrurnar ógurlegu í þessari viku, svo þær verði ekki fyrir mér í næstu viku þegar maður fer að taka á því aftur. 

Í þetta sinn var ég ein á ferð og það var fínt, þá getur maður stýrt hraðanum og svo er það ágætis þjálfun fyrir mig að passa uppá að velja bestu leiðina upp.  Ég er nefnilega vön að láta aðra rigsa á undan og þurfa ekkert að hugsa...  Fór lengri leiðina, hægra megin upp og niður og þetta gekk alveg ótrúlega vel, Esjan hefur eitthvað hlaupið í þvotti miðað við minninguna.  Ég skokkaði upp að steini á 36:59 og komin niður aftur á 58:28.  Esjumarkmiðin eru svo að bæta tímann á uppleiðinni, ætla nú bara að taka þetta á skynseminni niður.  Gleðilegasta við þetta allt saman er það að ég fékk engar harðsperrur (alla vega ekki ennþá) en ég hef sennilega klárað þær þegar við hlupum úr Skálafelli og heim í undirbúningi fyrir maraþonið.

Önnur góð ástæða til að fara Esjuna er sú að það bregst ekki að það verður svona hálft kíló eftir í brekkunum.  Ekki er vanþörf á núna því ég vaknaði upp við vondan draum á mánudagsmorgun eftir stóru  sukk- og hreyfingarleysisvikuna, að vigtin gargaði á mig 66 kg.  Tvö kíló nældi ég mér í fyrir maraþonið og það var nú svo sem alveg meðvitað, en seinni tvö voru ekki eins velkomin.  Nú er ekkert meira sukk og svínarí, byrjuð að hreyfa mig + 1 Esja og staðan í morgun var 64,8 kg.  Næsta markmið er að ná aftur sub 40 þyngdinni sem er 62 kg.  Eins og Elfa vinkona mín komst svo skemmtilega að orði, 'Maður kemst ekki undir 40 með lærin í skónum!'.  Tounge

IMG00047
  

 

 


Rútínan

Viku hlaupaleysi lokið og hrikalega gott að komast út aftur.  Þessi vika verður á rólegu nótunum, hlaup annan hvern dag og í næstu viku er komin tími til að koma sér í gírinn aftur. 

Frábær helgi að baki.  Fórum með guttann okkar á Indiana Jones.  Þórólfur keypti miða áður en við fórum út og þegar við komum heim var komin tölvupóstur, 'Þú varst einn af 50 sem unnu Indiana Jones hatt og svipu...'.  Gabríel alsæll. 

Á sunnudaginn var kaffiboð hjá okkur, aðallega til þess að geta hitt fjölskylduna án þess að þau væru að koma til að passa eða fara eftir að hafa passað...

 Gaman að heyra af honum Gunnlaugi og frábæru 24 stunda hlaupi hjá honum í Borgundarhólmi, 217,7 km, það er alvöru og jafnframt Íslandsmet.  Glæsilegt, enda er hann skáfrændi minn eða ég segi það alla vega.


Yfir og út

Jæja komið að því að binda slaufu á Köben ævintýrið.   Við fórum út að hlaupa í fyrsta sinn eftir þon í dag og allt eins og það á að vera.  Tökum því rólega næstu vikuna og svo er bara að komast í rútínuna aftur.  Hlakka til að fá minn venjulega skammt af hreyfingu og endorfíni.  En smá samantekt á undirbúningi okkar fyrir hlaupið, margir að spyrja hvernig við gerðum þetta.

Við ákváðum að skella okkur í Köben maraþonið seint síðasta haust og skráðum okkur þá og gengum frá hóteli.  Í framhaldinu fór ég að skoða prógrömm á netinu og hafði þá nokkur atriði í huga.  Í fyrsta lagi vildi ég ekki of langt prógramm, ekki lengra en 12 vikur því fyrir mér var áríðandi að prógrammið væri ekki svo langt að ég myndi missa fókus eða fá hlaupaleiða.  Í öðru lagi þá þurfti að falla vel að okkar lífi með börnunum okkar, þ.e. ekki að taka of mikinn tíma.   Í þriðja lagi þá þurfti það að vera þannig að ég hafði trú á að það myndi skila árangri.  Ég fann tvö prógrömm sem uppfylltu þessi skilyrði, við skoðuðum þau bæði vel og völdum þetta

Vikurnar áður en við byrjuðum á prógramminu notaði Þórólfur til að ná sér alveg góðum af hlaupameiðsum í kálfanum, sleppti því að keppa og var hjá sjúkraþjálfara.  Við vorum alveg með það á hreinu að það væri grundvallaratriði að vera stríheill áður en við byrjuðum á prógramminu.  Ég var í góðu lagi og notaði tímann til að undirbúa mig með því að ná upp meiri hraða og byrja á að lengja hlaupin hjá mér um helgar.

Þegar komið var að því að byrja á prógramminu, 1. mars, þá settum við tímana okkar inní Hlaupareikni til að sjá hvaða tíma væri raunhæft að stefna á.  Við lögðum upp með að hlaupa á 3:15 og miðuðum æfingarnar til að byrja með við það.  6 æfingar í viku í 11 vikur.  Langar æfingar um helgar, bæði laugardag og millilöng sunnudag á maraþonpace, styttri æfingar í miðri viku, rólegar eða sprettir/tempó.  Ég held að samsetningin á prógramminu sé bara mjög góð en ég hef sérstaklega mikla trú á æfingunum á maraþonpace.   

Ég missti ekki úr eina einustu æfingu, Þórólfur missti úr tvær æfingar í veikindum.  Við náðum að klára allar æfingarnar okkar eins og þær voru í prógramminu, þ.e halda pace.  Á tímabilinu kepptum við 5 sinnum, ég bætti tímann minn í hálfu maraþoni, tvíbætti tímann minn í 10 km og bætti tímann minn í 5km á þessu tímabili.  Ég uppfærði tímana mína í hlaupareikninum og þegar verulega var farið að nálgast hlaup þá sá ég að það væri raunhæft fyrir mig að reyna við 3:10 og planinu var snarlega breytt í samræmi við það.

Fyrir utan hlaupaæfingar voru stundaðar stífar andlegar æfingar Wink.  Þórólfur hafði áður lent í vandræðum í sínum maraþonum og við unnum sérstaklega í því að laga það.  Við mættum oft dauðþreytt á æfingar eftir vinnu og vökunætur með Lilju en við gátum alltaf klárað okkar og sannfærðum okkur þá um að óþreytt gætum við rúllað þessu upp. 

Við spáðum í allt sem gæti komið uppá og hvernig við ætluðum að bregðast við.  Hvað ef þú klikkar, ég klikka, verðrið klikkar...   Við vorum með plan b, c, d, o.s.frv.   Við æfðum okkur að hlaupa í keppnisskónum og keppnisgallanum.  Við spáðum í mataræði og borðuðum fullt af hollum mat, ekkert duft.  Ég tók Omega 3 en Þórólfur tók lýsi og steinefni síðustu 10 dagana.  Við æfðum okkur að taka gel á löngum æfingum og borðuðum alltaf sama matinn.  Við vorum svo 'anal' í þessu að við tókum með okkur matinn sem við vorum vön að borða (beygla með hnetusmjöri og sultu fyrir mig, hafragrautur með banana fyrir Þórólf) og vinir okkar gátu nú ekki annað en gert grín að okkur þegar við mættum í hrikalega flott morgunverðar hlaðborð með nesti...  Fyrir hlaupið var Þórólfur búin að ákveða hvar við tækjum inn gel og hann stjórnaði því eins og herforingi.

Í hlaupinu gerðum við svo nákvæmlega það sem við lögðum upp með.  Pössuðum uppá pace-ið af mikilli nákvæmni, vorum snögg að drekka á drykkjarstöðvum, vorum búin að opna gel bréfin í tíma fyrir inntöku, minntum hvort annað á að njóta, reyndum að finna/segja eitthvað fyndið, hrósa hvort öðru og pössuðum bara að vera algjörlega fókuseruð.  Við hlupum bæði með negative split, seinni helmininn hraða en fyrri helminginn, en það er rosa flott sko...

03:09:18Thorolfur ThorssonLaugaskokk03:10:2701:34:5501:34:22

03:09:47Eva Margrét EinarsdóttirGlitnir03:10:5501:34:5501:34:51
 

Þá er uppskriftin komin eins og hún leggur sig...

Það er bara það mikilvægasta í þessu öllu saman (því miður fyrir ykkur) sem ég get ekki deilt með ykkur og það er besti hlaupafélagi í heimi, hann er frátekinn InLove.

Að lokum þá finnst mér ég verða að minnast á hvernig var tekið á móti okkur Oddi í vinnunni, félaga mínum sem hljóp líka í Köben.  Við fengum afhenta glæsilega viðurkenningu og með þessum skilaboðum.

Um síðustu helgi náðu tveir starfsmenn þeim merka áfanga að hlaupa maraþon á innan við 4 klst. Það sem merkilegra er að þessir tveir starfsmenn settu það sem persónuleg markmið sín í upphafi árs að ná þessum áfanga. Markmiðin  voru í senn vel skilgreind, mælanleg, raunhæf, árangursdrifin og tímasett. Í ofanálag voru þau mjög krefjandi.

 

Oddur Kristjánsson setti sér það markmið að ná að hlaupa maraþon á innan við 4 klst sem hann náði með glæsibrag.

Eva Margrét Einarsdóttir setti sér það markmið að vera innan við 3 klst og 15 mín ef ég man rétt, hún hljóp á 3:09

 Þetta sýnir hvað það er mikilvægt að setja sér markmið og vinna markvisst í átt að þeim.  

Til hamingju bæði tvö.

 

 

DSC06083

 

 

 


Copenhagen Marathon 2008 – Í pilsi og bleikum sokkum...

Sex mínútur í start, erum búin að skila af okkur aukafötunum og pissa bak við skúr.  Best að koma sér þægilega fyrir á milli 3:00 blöðrunnar og 3:15 blöðrunnar.  Skokkum fyrir horn og áttum okkur þá á því að það eru hátt í sjö þúsund manns á milli okkar og blaðranna! 

Það verður að viðurkennast að hjartað tók nokkur aukaslög á þessari stundu, síðan var bara að ná fókus og fyrsta verkefni dagsins var að sjá hversu langt við næðum að troða okkur í gegnum þvöguna áður en skotið reið af.  Skjúsmí, sorry, blakaði augnahárunum eins og ég gat og leiddi Þórólf í gegnum þvöguna og við náðum að mjaka okkur einhvers staðar á milli 3:30 og 3:15 héranna.  Komust ekki tommu lengra, horfðum hvort á annað og gátum ekki annað en flissað vandræðalega og ehemm... „við ætluðum hvort eð er að byrja rólega“.

Myndi segja að þetta væru einu „mistökin“ í öllum undirbúningnum fyrir maraþonhlaupið okkar.  En á móti kom að við vorum búin að ákveða að sama hvað kæmi uppá, þá myndum við bara takast á við það af yfirvegun, ekkert panikk. 

Það tók 2 til 3 km að koma okkur á réttan stað og detta í 4:30 gírinn.  Og svo var bara að rúlla þetta.  Við vorum búin að prenta út og plasta millitímana á 5 km fresti miðað við lokatíma 3:10 og ég var búin að næla miðann í pilsfaldinn svo það væri auðvelt að stemma sig af.  Þá var bara að reyna að negla hvern km á nákvæmlega réttum tíma og að öllu jöfnu vorum við 1 sek frá tímanaum okkar á hverjum km.  Mest skeikaði 8 sek undir á einum stað og 5 sek yfir þegar síga fór á seinni hlutann.  Eftir 14 km nákvæmlega á réttum tíma þá sagði ég við Þórólf að þessir 14 væru fyrir Gabríel, næstu 14 myndum við hlaupa til heiðurs Lilju og síðustu 14 væru fyrir okkur!   Þetta var það sniðugasta sem ég gat sagt á þessari stundu, því það var ekki séns að við færum að gera upp á milli barnanna okkar og næstu 14 km voru nákvæmlega á réttu tíma líka. 

Ég fékk ótrúlega mikla athygli í pilsinu mínu og konurnar sem voru að hvetja fíluðu þetta í botn.  Ég tók svo öðru hvoru í pilsfaldinn og hneigði mig þar sem ég var sérstaklega ánægð með hvatninguna og þá varð allt vitlaust.  Síðustu 14 km hugsaði ég um allar æfingarnar okkar og alla sem höfðu hjálpað okkur að komast hingað.  Ég hugsaði líka um alla þá höfðu trú á okkur, meiri trú á okkur en við sjálf jafnvel.  Ég hugsað um hinar afmælisstelpurnar í fjölskyldunni, Ástu systur, Söru bróðurdóttur mína og Diljá mágkonum mína.  Við hjónin minntum svo hvort annað reglulega á að njóta þess sem fyrir augu bar.  Nokkrir fimm aura brandarar voru líka látnir flakka og svo var náttúrulega pósað fyrir allar myndatökur.   

Þessi síðasti hluti hlaupsins var mjög súrrealískur, það virkaði eins og við hjónin værum á Fast Forward meðan allir aðrir væru í Slow Motion.  Var pínu truflandi því ég var alltaf að tékka hvort við værum að fara of hratt en það var ekki það, hinir voru bara að hægja á sér.  Fólk með krampa, fólk með í maganum, fólk að labba, fólk að ströggla og áfram héldum við.  Síðustu 10 km sá Þórólfur algjörlega um að halda uppi hraðanum, passaði uppá að við stoppuðum ekki of lengi á drykkjarstöðvum og var ótrúlega flottur.  Ég hugsaði oftar en einu sinni til hennar Helgu Árna síðustu 7 km Joyful.    

Þegar 5 km voru eftir sagði ég mínum manni að láta nú vaða og tryggja sér Boston tíma, ég var í góðum málum en ég fann að hann var ennþá sprækari en ég.  Við vorum nú samt samferða næstu 2 og þegar 3 km voru eftir  tók minn maður flugið og ég var að springa úr stolti. 

Missti aldrei sjónar af honum en sá bilið svona smá breikka milli okkar næsta km en var bara sátt við að halda sama dampi í mark.  Það entist ekki lengi, 2 km eftir og þá kem ég auga á kvenmannsrass soldinn spotta fyrir framan mig...  Og það var nákvæmlega það sem ég þurfti til að hysja upp um mig pilsið og ég sagði við sjálfa mig hingað og ekki lengra, engan helv... aumingjaskap!  Ef  hann getur þetta, þá get ég það líka og þá byrjaði endaspretturinn.  Hristi duglega upp í kollinum á mér og setti í fluggírinn, 41 km á 4:05, 42 km á 4:12 og síðustu 200 m var ég á 3:50 pace.  Ég reykspólaði fram úr tæplega 50 manns á þessum kafla og fann meira að segja aðra kellu sem ég fór fram úr í rennunni að markinu.

Brjálæðislega gaman að sjá tímann minn, undir 3:10 og sjá manninn minn sem var eitt stórt sólskinsbros og kom ekki við jörðina.  Hann tók á móti mér með opinn faðminn og lyfti mér upp í loft og snéri mér í hringi.  „Nú skal ég sko halda á þér ástin mín!“   Fullkomið.   

DSC06071

 

Afmælisbörn

I'm on the top of the...
 
Laugaskokkarar rúla


TAKK!

Fyrir allan stuðninginn, hlýjar hugsanir og hamingjuóskirnar.   Ómetanlegt.  Æðislegt að vera kominn heim.  Meira á morgun, bólið kallar...

DSC06057

Þrír í þon

Ja núna verður gott að komast úr stressinu og í smá afslöppun í Köben Grin

Er byrjuð að súpa aðeins á Carbo Loadinu, nammi namm...


Næsta síða »

Höfundur

Eva Margrét Einarsdóttir
Eva Margrét Einarsdóttir

Ætlar að hlaupa styttra og hraðar...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband