Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Þríþraut Árbæjarþreks 2008

Vorum stútfull af orku eftir sumarbústaðardvölina, skrúfuðum saman fataskápana sem biðu hérna heima eftir okkur í gærkvöldi og í dag var það glæný áskorun, Þríþraut Árbæjarþreks, takk fyrir.

Þríþrautin var haldin í tilefni af 10 ára afmæli Árbæjarþreks, fengum tilkynningu í pósti í vikunni og vorum svona að spá í að vera með en gátum einhvern veginn ekki ákveðið okkur, Þórólfur var nú samt spenntari fyrir þessu en ég.  Fengum svo pössun hjá afa Þór í morgun og drifum okkur af stað. 

Þríþrautin samanstóð af 500 m sundi, 10,2 km hjól og 3,2 hlaup á eftir.  Það mættu 8 karlar og 3 konur til leiks.  Við stelpurnar syntum saman á braut og ég tók forystuna strax.  Ég synti bringusund, þó ég geti svo sem synt skriðsund þá fer öndunin oft í stöppu þegar adrenalínið kikkar inn.  Var sem sagt aldrei þessu vant ekki síðust upp úr lauginni sem er náttúrulega sigur út af fyrir sig, held reyndar að einn karlinn hafi líka verið á eftir mér!

Var búin að plana skiptinguna vel, henti mér í peysu, sokka, hlaupaskó, hjálm og hanska og rauk af stað.  Á hjólinu upplifði ég smá sigur líka því áður en leið á löngu þá sá ég glitta í skottið á elskunni minni og það eru tíðindi því hann rústar mér yfirleitt á hljólinu.  Dró á hann alla leið og var komin í hælana á honum í lokin enda maðurinn með gríðarlegt aðdráttarafl Tounge.  Fyrir hann að sjá í mig var líka hvatning og hann reykspólaði af stað í hlaupið.

Það er ekki hægt að undirbúa sig fyrir tilfinninguna að hoppa af hjóli og hlaupa af stað.  Lappirnar eru eins og úr gúmmíi og manni finnst maður ekki komast úr sporunum.  Ótrúlega þungt og erfitt.  Óskar sem hefur verið að keppa við hann Þórólf í Powerade náði mér á hlaupunum og flaug fram úr mér.  Hann var greinilega með karlinn í sigtinu en þegar á leið sá ég að minn maður bætti í og hélt forskotinu.  Ég náði svo einum á hlaupunum og var fyrsta skvísa í mark. 

Það er alveg ótrúlega gaman og hrikalega erfitt að keppa í þríþraut.  Eftir á fær maður svona ofurmenna fíling dauðans því manni finnst maður geta allt.  Erum ennþá pínu þannig núna og finnst þríþrautin voðalega göfug íþróttagrein Grin

Vegleg verðlaun hjá honum Begga í Árbæjarþreki, fékk þennan líka flotta bikar og Powerade.  Úrslit og myndir eru væntanleg á síðunni hjá honum.  Eftir þrautina var okkur svo boðið í afmælisveisluna í Árbæjarþreki en þar var á boðstólnum 10 metra löng súkkulaðikaka, brauð og meðlæti, snúða, vínarbrauð og ég veit ekki hvað og hvað.  Fórum þreytt, södd og alsæl úr Árbænum, þetta er sko lífið!


Sveitalúðar

Við elskum að komast aðeins í burtu í sveitina.  Núna erum við í sumarbústað í Brekkuskógi og njótum lífsins í sólskini og skúraveðri.  Ótrúlega gott að hvíla sig og Lilja slær ný met í útsofi dag eftir dag.

Við höldum okkur nú samt alveg við efnið í hlaupunum og tókum til dæmis gæða æfingu í gær.  6 sinnum 1000 m upp og niður hæðóttan og holóttan sumarbústaðarveg í roki.  Þar sem það var frekar erfitt að halda einhverjum hraða þá ímyndaði ég mér að þetta myndi skila svona eins og Rocky æfing (þegar hann er að lyfta trjábolum og berja í kindaskrokka)....   Vann hann ekki örugglega?  Tounge

Ég þurfti reyndar að bregða mér í bæinn og er í þessu að undirbúa mig fyrir að halda annan fyrirlestur!!!  Það var nefnilega þannig að það var hringt í mig á föstudagsmorgun frá Rotary klúbb Gravarvogs og ég beðin að halda fyrirlestur hjá þeim í kvöld.  'Um hvað?' spurði ég.  Bara eitthvað til að peppa mannskapinn upp áður en við höldum inn í veturinn.  Ég var ekki einu sinni búin að halda fyrsta fyrirlesturinn minn... og ég sagði bara já. 

En svona höfum við það í sveitinni, það var leiðinlegt sjónvarp og við ákváðum að búa til kvöldvöku eins og ég mundi eftir í Kerlingarfjöllum í gamla daga.  Herna erum við mæðginin eða feðginin komin í gírinn...

DSC00229

Og svo nokkrar í viðbót...

collage


Til hamingju!

Reykjavíkurmaraþon, á þessum degi samgleðjumst við öllum þeim sem taka þátt í sportinu sem er okkur svo mikilvægt og það er engu líkt að vera innan um ótrúlegan fjölda sigurvegara.  Sérstaklega til hamingju allir sem þurftu að taka sér tak til að vera með en gerðu það samt, létu vaða! 

Fyrir okkur voru hápunktar dagsins að fá að hlaupa með börnunum okkar og mömmu minni, en þau sáu um bætingarnar í ár.  Gabríel hljóp 3 km á 15:18, mamma á 22:47 (bætti sig um 5 mínútur frá því í fyrra!!!) og Lilja rúllaði upp fyrsta Latabæjarhlaupinu með dyggum stuðningi mömmu sinnar.

Latabæjarhlaup

 

 


Hoppandi glöð

Undanfarna viku hefur bullandi crosstraining verið í gangi á heimilinu.  Þeir sem ætla sér að ná hámarksárangri á laugardaginn ættu alls ekki að láta svona.  Fyrir okkur er Reykjavíkurmaraþon miklu meiri fjölskyldudagur en keppni og þess vegna megum við láta svona.  Ég ætla að skokka hálft, Þórólfur 10 km, við hlaupum svo 3 km með Gabríel og Mömmu (jafnvel Lilju í kerrunni) og svo ætlar Lilja að hlaupa 1 km í Latabæjarhlaupinu.   

En alla vega erum við hjónin búin að nota þessa viku til að:

  • Rífa niður fataskápana okkar
  • Mála svefnherbergið, loft og veggi
  • Leggja parket á svefnherbergið
  • Halda matarboð
  • Leggja parket á eldhúsið
  • Mála sökkulinn á eldhúsinnréttingunni
  • Mála loftið í okkar herbergi aftur (varð grátt í fyrri umferð)
  • Mála ganginn niður í kjallara
  • Ná í hluta af fataskápunum okkar og hillur fyrir Gabríel í Ikea
  • Skrúfa saman hillurnar hans Gabríels
  • Fara 4 sinnum í Húsdýragarðinn
  • Fara 3 sinnum í fallturnin og 1 sinni í Krakkafoss (frúin Wink
  • Fara í gegnum öll fötin okkar og flokka í Sorpu
  • Undirbúa fyrirlestur
  • Baka kanelkringlur (karlinn)
  • Fara í nokkrar Sorpuferðir
  • Tína rifsber og búa til rifsberjahlaup (loksins eitthvað í sambandi við hlaup!)

Til að fullkomna þetta allt saman (frúin var samt alveg svaka ánægð fyrir) þá mætti hann Ívar á svæðið í gær ásamt fríðu föruneyti og fjarlægði fyrir okkur vegg við þvottahúsinnganginn sem var stórhættulegur.  Sannarlega þungu fargi af okkur létt!  Þúsund milljón þakkir Ívar, ekki í fyrsta sinn sem þú skiptir sköpum fyrir okkur.

collage


Bart og ég

Fæ fína upphitunar fyrirlesara á föstudagskvöldið Grin.  Meira spennt fyrir þessum náunga en Brad Pitt skal ég segja ykkur, ja hérna hér, hvar endar þetta eiginlega.

Fyrirl

 


1,2 og 7

Fengu flest atkvæði í þessari könnun hjá mér og ég bar þetta undir þá sem skipuleggja ráðstefnuna og þeim leist vel á þetta.  Ég  ætla þá að rabba um það hvernig ég nýti mér markmiðasetningu til að ná árangri í lífinu sem og í hlaupunum, fylli upp með litlu trikkunum sem ég nota til að halda mér á beinu brautinni.

Annars er allt á haus hérna heima hjá okkur, búið að henda öllu út úr herberginu okkar en nú á að mála, parketleggja og setja nýja fataskápa.  Leigjendurnir komu náttúrulega eins og pantaðir heim frá Póllandi og það fyrsta sem hann Pzremeck gerði var að banka uppá og segja okkur að hann væri í fríi fram á mánudag, hvort hann gæti nokkur hjálpað til Grin.  Strákarnir eru búnir að vera á fullu í allan dag og ég er búin að útrétta og baka vöfflur ofan í mannskapinn á meðan. 

Erum bara nokkuð dugleg að æfa okkur, munar öllu að fá kallinn með sér á æfingar.  Rifjaði upp kynnin við 2 km spretti dauðans á miðvikudaginn, hljóp svo smá rúnt með syni mínum í gær morgun, Gabríel er nefnilega búin að ákveða að vera með í RM (var sko komin með hlaup upp í kok og vildi fyrst ekki vera með), vííí...   Í dag byrjuðum við Þórólfur daginn á því að hlaupa rúma 16 km eftir að við röltum með Lilju í leikskólann. 

Aðlögunin gengur eins og í sögu, Lilja syngur og dansar á leikskólanum eins og heima hjá sér og búin að vefja þessum fóstrum utan um litla fingurinn sinn. 


Segðu bara já

Fyrir nokkrum mánuðum var ég að rabba við yfirmann minn, hana Arndísi, yfir kaffisopa.  Hún hafði þá akkúrat verið að taka að sér að stýra stórri ráðstefnu.  Ég spurði hana hvort hún hefði gert eitthvað svoleiðis áður en nei þetta var í fyrsta sinn.  'Maður á bara að segja já þegar maður fær svona tækifæri, svo finnur maður bara út úr þessu.'.

Í síðustu viku var hringt í mig frá Reykjavíkur maraþoni og ég var beðin um að halda fyrirlestur í Höllinni daginn fyrir RM.  Áður en ég vissi af var ég búin að segja já og núna er ég einmitt að reyna að finna út úr því hvað ég ætla að tala um.  Fyrirlesturinn minn hefst kl. 20:30 og ég hef hálftíma til ráðstöfunar.  Það sem vefst helst fyrir mér er við hvaða efni ég eigi að takmarka mig við.  Enginn sem þekkir mig vel hefur nokkrar minnstu áhyggjur af því að ég geti ekki blaðrað í hálftíma Grin.

Ég þarf að senda inn heiti fyrirlestrarins og smá yfirlit.  Er komin með svona tuttugu útgáfur í kollinn, hér eru nokkrar...  

  • Markmiðasetning til að ná persónulegum hámarksárangri
  • Svona gerði ég það; saga fyrrverandi keðjureykjandi fitubollu...
  • Eiginkona, móðir, dóttir, systir, starfsmaður, vinkona... 'Hvenær á ég eiginlega að hlaupa?'
  • Hlaup fyrir, á og eftir meðgöngu
  • Maraþon, þjálfun og undirbúningur
  • Laugavegurinn, þjálfun og undirbúningur
  • Litlu leyndarmálin til að ná árangri í hlaupum (og lífinu :)
  • Hlaupið yfir hlaupaferilinn á harðakani...

Nú er bara spurningin, hvað mynduð þið vilja heyra mig tala um í hálftíma (bannað að segja 'Ekki neitt' Tounge  )  Endilega kommentið og komið með tillögur.


Fyrsti leikskóladagurinn

Leikskóladama

Hún var hvergi bangninn, hún Lilja litla í dag, þegar við röltum af stað á leikskólann í fyrsta sinn.  Fengum frábærar móttökur, meira að segja búið að merkja henni hillu fyrir skóna og töskuna.  Hún er nú svo mikil félagsvera að það voru ekki liðnar margar mínúturnar áður en hún sleppti mömmu sinni og fór að leika við krakkana.  Hlíðarendi er pínulítill og kósí leikskóli.  Það eru bara 24 börn í leikskólanum, á þremur deildum, 8 börn á hverri deild. 

Notuðum góða veðrið vel í dag, skelltum okkur í Húsdýragarðinn með skvísuna eftir mat.  Gabríel var upptekinn með félögunum í fótbolta og stóru stráka stússi.  Hitti tvær gullfallegar, stórskemmtilegar og haltrandi Glennur, ekki skemmdi það fyrir. 

Húsdýragarðurinn

Tók nokkrar myndir af honum Gabríel um daginn til að senda pabba hans í Ameríku, svei mér þá ef hann er ekki bara þokkalega vel heppnaður Grin.

Gabríel sætasti


Fiskidagurinn mikli

Orri bróðir er einstakur höfðingi heim að sækja, hvort sem hann er heima eður ei.  Þegar hann flutti í nýja húsið sitt var hans fyrsta verk að útbúa aukalykla fyrir okkur mömmu svo við gætum komið í heimsókn hvenær sem er.

Við drifum okkur norður og vorum Orralaus fyrsta sólarhringinn en núna er hann kominn frá Amsterdam og er í þessu að útbúa heljarinnar grillveislu handa okkur.  Við höfðum það kósí hérna í gærkvöldi, Börkur kom til okkar með kínamat og við ræddum stór og smá framtíðar hlaupaplön.  Í dag fórum við á Fiskidaginn mikla.  Frábær stemmning og verður örugglega ekki í síðasta sinn sem við gerum okkur ferð á Dalvík.  Við sáum Brúðubílinn, smökkuðum Hrefnusteik, hráa bleikju, plokkfisk, bollur, fiskborgara og ferskar rækjur.  Við fylgdumst líka með pollunum renna fyrir fisk á bryggjunni og skemmtum okkur í alla staði vel.

Núna erum við nýskriðin úr sundi og við erum eiginlega alveg gáttuð á því að alls staðar út á landi þar sem við förum í sund er betri aðstaða fyrir börn en í Laugardalnum.  Þetta er náttúrulega hneisa að það er eiginlega vonlaust að vera með krakka yngri en 5 í Laugardalslauginni, engin gunn laug með leiktækjum eða skemmtilegheitum.  Við vorum búin að útnefna Selfoss laugina sem uppáhalds laugina okkar er laugin hérna er ekki síðri.  Vorum orðin vel rúsínuð þegar við loksins dröttuðums uppúr.  Já og svo er hörku æfingarsvæði inná laugarsvæðinu og hægt að æfa upphífingar í bikiní, jeeehawww...  Fjögur sett, 10 - 8 - 14 (var með áhorfendur og keppni við einn 11 ára) - 8.  Er að fá þokkalega fína bibba (biceps Tounge) eins og einn einkaþjálfarinn í Laugum komst að  orði.


Leikskóladama

Fengum frábærar fréttir í dag, Lilja er komin með leikskólapláss á Hlíðarenda, sem er lítill leikskóli hérna rétt hjá okkur.  Hoppuðum af gleði því við áttum eiginlega ekki von á því að fá pláss í bili og dagmamman okkar að hætta í haust.  Lilja byrjar í aðlögun strax í næstu viku, flott að hafa nógan tíma og ekkert stress í aðlöguninni.

Sumó

Annars byrjuðum við fríið okkar á að fara í bústaðinn, bara svona til að koma okkur í afslöppunar og leik gírinn.  Komum svo í bæinn á sunnudaginn og fórum á tónleikana í Laugardalnum.  Vorum undir allt búin og létum ekkert á okkur fá þó það kæmi hellidemba á okkur.  Krakkarnir fíluðu þetta í tætlur og við vorum ekki komin heim fyrr en upp úr tíu, þá var lítil skvísa líka alveg búin á því.

Við erum líka búin að vera hörkudugleg í að gera fínt hjá okkur.  Keyptum parket í vikunni á herbergið okkar og eldhúsið en við frestum frekari framkvæmdum þangað til í næstu viku, þegar við verðum að vera heima hvort eð er.  Stefnum norður í land til Orra bróður og það væri þá aldrei nema maður fengi að upplifa Fiskidaginn mikla á Dalvík!

Hlaup, um hlaup, frá hlaupum...  Er búin að vera dugleg að æfa mig, styðst við Sub 40 prógrammið með smá breytingum, tek aðeins lengri æfingar svona yfirleitt og miða við keppni í hálfu í Reykjavík.  Sprettæfingarnar ganga bara vel og ég finn að ég er alveg tilbúin að breyta um gír.  Nýt þess að eiga fullt af aukatíma á hverjum degi og svo er maður ekki eins þreyttur eftir svona stuttar æfingar.  Bara gaman.

Að lokum, við mæðgur matreiddum Maríulaxinn hans Gabríels í gær.  Lilja var mjög hrifin og kyssti hann meira að segja áður en við pökkuðum honum inn í álpappír og grilluðum.  Við buðum líka ömmu og afa í Norðurbrún í veisluna.  Namminamm!

Maríulaxinn

 


Höfundur

Eva Margrét Einarsdóttir
Eva Margrét Einarsdóttir

Ætlar að hlaupa styttra og hraðar...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband