Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

Eyjar

Nú er hann Gabríel minn að gera sig kláran fyrir keppnisferð í handbolta til Eyja.  Hann fer á eftir og kemur aftur á sunnudaginn og við eigum eftir að sakna hans heilmikið.    Hann tók sér hlé frá handboltanum um tíma því álagið var of mikið að vera bæði í fótbolta og handbolta en hann saknaði félaganna og byrjaði að æfa aftur núna eftir áramót.  Hann þurfti að sjálfsögðu að vinna sér sess á ný hefur verið að spila með B-liðinu.  Nú í vikunni fékk hann hins vegar að vita að hann væri komin í  A-liðið og ég held að hann eigi það alveg inni.  Hann er ótrúlega samviskusamur að mæta á æfingar og er bara orðinn mjög góður.  Svo stolt af guttanum mínum Grin.

Þórólfur ætla að keppa í 10 km á morgun í Hérahlaupinu og ég er að gæla við að vera með í 5 km, alla vega ef það verður ekki hrikalega leiðinlegt veður.  Ekkert betra en að henda sér út í keppnishlaup til að ná sér í form.  Sé að það er heill hellingur af skemmitlegum hlaupum framundan, var annars ekkert búin að vera að skoða hlaupadagskránna síðustu vikur. 

Annar reíkna ég með rólegheita langri helgi, ekkert of mikið planað en nóg af skemmtilegu í boði.   

 


Allt að gerast

Stundum er svo mikið líf og fjör i gangi að manni finnst eiginlega nóg um... en það er bara í smá stund, svo skilur maður að þetta er lífið!

Ég var í löngu helgarfríi, við hjónin tókum okkur frí á föstudaginn, þvílíkur lúxus.  Við notuðum daginn vel, börnin í skóla og leikskóla, útréttuðum heilmikið og komum fullt af hlutum í verk sem annars hefðu beðið betri tíma.  Svei mér þá ef maður gæti ekki vanist 3 daga vinnuviku...

Á laugardaginn var ég búin að ráða mig sem brautarvörð í Vorþoninu ásamt henni Jóhönnu vinkonu minni og vá hvað það var gaman hjá okkur.  Ég er ennþá með smá harðsperrur í klappvöðvunum, frábært að fylgjast með félögunum standa sig með sóma í eindæma veðurblíðu.  Þórólfur og Lilja komu líka til okkar og Lilja klappaði og heyjaði heil ósköp á hlauparana, meira skottið.  Um miðjan dag gíruðum við okkur svo upp í hjólagallann og hjóluðum með Lilju í blíðunni og komum við í höllinni til að kjósa.  Ég var enn óákveðin þegar ég kom inn í kjörklefann og mín taktík var sú að kjósa þann lista sem ekki innihélt nafn sem lét mig fá ógeðsbragð í munninn.  Það tókst og ég er nokkuð ánægð með valið sem kom sjálfri mér mjög á óvart.  Sölvi, vinur hans Gabríels fékk svo að gista hjá okkur og við slógum upp grillveislu með tilbehör, horfðum bara á bíó og rétt nenntum að kíkja á fyrstu tölur.

Á sunnudaginn var svo hefðbundin hjólreiðatúr hjá frúnni, nema í þetta sinn ákvað bóndinn að koma með.  Hann var alveg búin að sjá þetta fyrir sér sem huggulega stund með konunni sinni, passlega þægilegt eftir erfitt keppnishlaup og fyrir væntanlega sprettæfingu.  Hann var sum sé ekki að átta sig á því að þetta er eina langa æfingin sem ég fæ þessa dagana.  Það er skemmst frá því að segja að hann var nær dauða en lífi þegar heim var komið, "Rosalega ertu sterk!".   Jamm, maður er ekkert að væflast þetta.  í eftirmiðdaginn voru svo tvær fermingarveislur, svei mér þá ef maður er ekki komin á þann aldur (maður er orðin gamla frænkan sem er steinhissa á því hvað börnin stækka alltaf hreint) að manni finnst bara þræl gaman á svoleiðis samkomum...Tounge.

í dag voru svo kaflaskil hjá mér.  Fór út að hlaupa með Oddi félaga mínum í hádeginu og ég segi það satt, það vottar ekki lengur fyrir streng í lærinu.  Það hefur örugglega verið eins og að hleypa belju út að vori, varð alveg spriklandi af gleði.   Oddur kvartaði sáran yfir því að við værum komin á 4:17 pace, það væri ekki furða að hann væri móður.  Vííí...

Pabbi minn á afmæli í dag og eftir vinnu fórum við í snarl og snemmbúið afmæliskaffi, sniðið að þörfum yngstu fjölskyldumeðlimanna.  Nú eru börnin komin í bólið, bóndinn að horfa á Lost og ég með rauðvínstár í glasi að hugsa um hvað ég á það ótrúlega gott.


17:47

Þórólfur sá um að halda uppi hlaupaheiðri fjölskyldunnar á Sumardaginn fyrsta.  Við Gabríel ætluðum að vera með líka en það kom í ljós að Gabríel átti að keppa í fótbolta á sama tíma svo við Lilja ákváðum bara að nýta krafta okkar í klappstýruhlutverkinu.  Ekki leiðinlegt hjá okkur að hvetja bóndann/pabbann sem gerði sér lítið fyrir, bætti sig um hálfa mínútu og varð 10. í hlaupinu.  Laaaangflottastur! 

Á endasprettinum.


Örlög???

Í kjölfarið á Viku viðtalinu hafa þónokkrar konur sett sig í samband við mig og beðið mig um aðstoð og góð ráð varðandi matarræði og hreyfingu.  Þær eiga það sameiginlegt annars vegar að sagan mín höfðar til þeirra og hins vegar að vera nógu kjarkaðar til að láta vaða og treysta ókunnugri manneskju fyrir sér.  Ég tek þeim að sjálfsögðu opnum örmum. 

Ég trúi því að oftar en einu sinni á lífsleiðinni komum við að krossgötum þar sem við höfum tækifæri til að breyta um stefnu, en oft nýtum við þau ekki.  Það geta verið milljón ástæður fyrir því.  Ég fékk leyfi til að birta úrdrátt úr bréfi frá einni konunni minni en það hafði þessa yfirskrift "Örlög???".  Ég segi það satt ég þurfti að lesa það nokkrum sinnum, þetta er nákvæmlega það sem ég er að tala um, secret og ég veit ekki hvað! 

Komdu sæl Eva.

Mig langar að segja þér frá sérstökum atburði sem var að henda mig.  Kannski finnst þér ég "ekki í lagi", en mér er sama, ég trúi á þessa hluti :).  Þannig er mál með vexti að þegar ég las viðtalið við þig í Vikunni þá fannst mér ég hafi fundið sjálfan mig, vegna sömu erfiðleika með aukakílóin, er í eilífri baráttu, en byrjaði að reyna að hlaupa í haust og gengur bara þokkalega.  Get hlaupið 40 til 45 mín. í einu og ég sem hef aldrei hlaupið á ævinni fyrr.

Eg las allt viðtalið og sagði við samstarfskonu mína; "Þessa kröftugu konu myndi ég vilja þekkja, þó ekki væri nema að spjalla aðeins við hana".  "En þú getur kíkt á bloggið hennar og fundið kannski netfang eða eitthvað", svaraði hún. Já, svaraði ég en gerði ekki meir.

EN í dag sat ég í vinnunni og fór að blaða í blöðum á borðinu og rak þá augun í Vikuna góðu.  Ég lagði bloggið á minnið og eftir að hafa hitt fjölsk. mína og horfst í augu við vigtina eftir MJÖG langan tíma, fengið ÁFALL, langað að henda mér í gólfið, öskra , grenja og hvað eina, settist ég við tölvuna og fann bloggið...  Ég byrjaði að lesa aðeins, stikla svona á stóru aftur í tímann og dáðst af dugnaði þínum, þá rak ég augun í myndir af þér og börnunum og viti menn....augun ætluðu út úr mér!  Ég kannaðist eitthvað við klippinguna á þessum myndarlega dreng þínum og mundi eftir að ég hafði hugsað, þegar ég þakkaði ykkur fyrir komuna á hárgreiðslustofuna mína í Keflavík, hvað þið væruð eitthvað heilbrigðið uppmálað.

Ég er sem sagt konan sem rakaði rendurnar í hann son þinn og hafði þann draum að fá að hitta þig og spjalla við þig.  Því trúi ég því að mér hafi verið ætlað að hitta þig, mig vantar svo nauðsynlega einhverja hjálp og væri í skýjunum ef þú gætir veitt mér hana.  Ef þú sérð þér það ekki fært, skil ég það vel og óska þér alls hins besta.

Hverjar eru líkurnar...  Í Keflavík...  Sonur minn fór síðast í klippingu á hárgreiðslustofu þegar hann var tveggja ára...  Í ævintýraferðinni okkar var það á toppi óskalistans að fara í alvöru klippingu þannig að hagsýna mamman gat ekki annað en samþykkt það...  Við reyndum fyrst fyrir okkur á annarri stofu en þar var ekkert laust...  Örlög???


Færa fókusinn

Lenti í fyndnu atviki í vinnunni í síðustu viku.  Vinnufélagi minn kom til mín og sagði að hann hefði verið í heimsókn hjá ættingjum sínum og þá var mynd af mér og blaðagrein á ísskápnum hjá þeim...  Kom í ljós að þau vilja gjarnan koma sér í betra form og hafa áhuga á hlaupum og sáu í mér fyrirmynd sem hentaði þeim.   Við flissuðum bara af þessu en á hjólinu á leiðinni heim úr vinnunni fór ég að spá í þetta.

Ég man að þegar ég var að alast upp, n.b. á ofætu heimili þá gerðist það öðru hverju, þegar allt var komið í óefni, að það var hengd upp mynd af einhverri spikfeitri konu á ísskápinn.  Það var gert til að fæla mann frá.  Þarf ekki að taka það fram að þetta virkaði ekki og í dag þá get ég ekki ímyndað mér neitt vitlausara! 

Einhvers staðar á leiðinni frá því að vera of feit og þangað sem ég er komin núna, áttaði ég mig á að hætta að vera með fókusinn á feitu fólki.  Ég gat nefnilega alveg endalaust velt mér upp úr því ef einhver annar var feitur og tala nú ekki um hvað það var gott að hafa einhvern sem var feitari en maður sjálfur í grenndinni.  Eins gat ég hneykslast endalaust á því hvað feitt fólk borðaði mikið eða óhollt o.s.frv. 

Í dag þá spái ég bara ekkert í feitt fólk eða hvað það lætur ofan í sig.  Ég hef aftur á móti mjög gaman að því að fylgjast með hvernig grannt fólk borðar.  Ótrúlegt en satt þá borðar það yfirleitt minna og velur hollari mat.  Og ég sem hélt að það væri bara heppið...  Ég reyni að læra af þeim sem eru grannir, spái í hvernig þeir borða, hvað þeir borða, hversu oft, hversu mikið o.s.frv. 

Ég var t.d. alveg gáttuð þegar ég kom að manninum mínum (sem er og hefur alltaf verið grannur)einn morguninn með mæliskeið að mæla haframjöl í morgungrautinn.  'Hva, slumparðu ekki bara á þetta.'  'Það stendur á pakkanum að hæfileg skammtastærð séu 4 matskeiðar.'  Skemmst frá því að segja að mæliskeiðin er ofan í haframjöls dallinum og ég byrja daginn alltaf hæfilega södd.  Sniðugt.

En þá aftur að innganginum, þá held að ættingjar vinnufélaga míns séu bara í góðum málum.


Hvatning

Ég gleymi ekki þegar það rann almennilega upp fyrir mér hversu mikilvægt og dýrmætt það er að fá tækifæri til að hvetja aðra til dáða.

Ætli það hafi ekki verið svona einu og hálfu ári eftir að ég byrjaði að hlaupa.  Ég átti mér keppinaut sem var dugleg að taka þátt í keppnishlaupunum og við vorum svona að skiptast á að vinna hvor aðra.  Ég var alltaf pínu vonsvikin að sjá hana á start línunni, það þýddi að ég þurfti aldeilis að hafa fyrir hlutunum.  Í þau skipti sem ég vann hana, þá var það oftast vegna þess að hún fór frekar hratt af stað og átti ekki eins mikið eftir í lokin.  Það var svo í einu Powerade  hlaupinu (hét Aquarius þá :), í miðri Rafstöðvarbrekkunni að ég næ í skottið á skvísunni, negli mig á hælana henni en á ekki alveg nógu mikið inni til að taka af skarið.  Ég er svo komin upp að hlið hennar, þegar hún lítur á mig, brosir fallega og segir 'Flott hjá þér Eva, komaso!'.   Mér dauðbrá og rauk af stað, en það hefði ekki hvarflað að mér á þeim tíma að gera það sama í hennar sporum.  Ég hefði sennilega vonast til að hún fengi hlaupasting dauðans eða eitthvað álíka.

Eftir hlaupið þá var ég mjög mikið að hugsa um þetta.  Hvers lags kjáni var þetta eiginlega að vera eitthvað að hjálpa mér í miðri keppni, þetta stemmdi alls ekki.  En málið var, að þegar hún kom til mín eftir hlaupið og óskaði mér til hamingju með að hafa unnið í þetta sinn, þá sá ég í augunum á henni að hún átti eitthvað verðmætt sem ég átti ekki.  Og mig langaði í svoleiðis.  Langaði meira í það en að vinna einhvern, í einhverju hlaupi...

Í dag geri ég mér fullkomlega grein fyrir því að það er ég sem græði mest ef mér hlotnast tækifæri til að hvetja, aðstoða eða gleðja aðra.  Þannig er það bara.


Litla barnið

Lilja er algjörlega sjúk í litla krakka.  Hún klappar þeim, strýkur, knúsar og kyssir og er svo blíð og góð.  Við vorum svo heppin að eignast lítinn frænda fyrir nokkru og fórum og kíktum á hann í síðustu viku.  Lilja tók að sjálfsögðu lagið:


Gleðilegir endurfundir

Þegar ég var tvítug fór ég eitt ár til USA sem Au Pair stelpa.  Ég var hjá góðri fjölskyldu í Hartford CT og á margar góðar minningar þaðan.  Ég var aðeins í sambandi við þau næstu ár á eftir en svo einhvern veginn gufaði það upp, sennilega allt of upptekin af öðru...   Ég passaði 3 gutta, 12, 6 og 3 ára og eftir árið voru þetta eins og ungarnir manns. Við Daníel, sá yngsti, vorum sérstaklega miklir mátar og þegar ég fór frá þeim þá faldi hann sig undir borði og vildi ekki segja bless... sniff... 

En mikill er máttur Facebook.  Ég fann fjölskylduna mína og viti menn, haldiði ekki að litlu ormarnir mínir séu orðnir að myndarmönnum.  Sá elsti, Josh, gifti sig síðasta sumar og hér er mynd af allri fjölskyldunni við það tækifæri.  Gaman!

Fjölskyldan í CT.

Orðlaus


Næsta síða »

Höfundur

Eva Margrét Einarsdóttir
Eva Margrét Einarsdóttir

Ætlar að hlaupa styttra og hraðar...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband