24.9.2009 | 09:56
Spettir, framstig og ballett
Hörku æfingadagur í gær. Fór með nokkrum úr vinnunni í hádegisskokk, en þessi hópur fer upp í Árbæjarlaug á miðvikudögum, hleypur þaðan svona 5 km hring og fer svo í pottinn. Ég var ekki með sunddót þannig að ég skokkaði bara úr vinnunni og hitti þau þar. Á leiðinni fékk ég hugmynd, þ.e. að það væri alveg brilljant fyrir mig að nota miðvikudagshádegin til þess að synda. Ég get þá verið samferða einhverjum úr hópnum upp í laug, synt á meðan þau skokka og hitt þau svo í pottinum á eftir og afgreitt þannig langsundsæfingu vikunnar!
Ég er bara að verða nokkuð leikinn í skiptingum frá hjóli yfir í hlaup. Kem venjulega skransandi heim á hjólinu eftir vinnu, skipti um skó, hendi af mér hjálminum og skokka svo annað hvort að ná í Lilju eða á æfingu. Þetta á örugglega eftir að koma sér vel í einhverjum Járnkarlinum í framtíðinni .
Í gær var það beint á æfingu, upphitun og svo sprettir á Laugardalsvellinum. Á dagskránni voru hraðir sprettir 400 - 500 - 600 - 500 - 400 og 4 mínútna skokk á milli. Eftir sprettina var svo farið 2 * 40 framstig og svo lærðum við nýja æfingu til að styrkja lappirnar. Þá teygir maður aðra löppina fram og sest niður á hækjur sér. Til að byrja með er best að halda sér í til að missa ekki jafnvægið og við vorum vægast sagt fyndin, eins og litlar ballerínur í röð, sem halda sér í stöngina að gera 'plie'.
Eftir þetta allt saman fórum við í könnunarleiðangur upp á ÍSÍ tún að skoða brautina í Víðavangshlaupi Framfara. Get ekki sagt að hún hafi verið neitt sérstaklega freistandi á þeirri stundu, lærin níðþung eftir spretti og framstig... Sé til hvernig stuði ég verð í á laugardaginn.
Nú er komið haust og það þá kemst ég í prjónagírinn. Er með eina lopapeysu í gangi en svo stalst ég til að byrja að prjóna trefil sem ég fékk uppskrift af í prjónaklúbbi ÍR stelpna. Það er eins með þetta og svo margt annað, það er alveg eins og ég sé í kappi við sjálfa mig... Ein umferð í viðbót, bara ein enn áður en ég fer inn að... já lesa smá, eina blaðsíðu í viðbót, bara eina enn. Ég var nefnilega að fá þriðju Millenium bókina (Karlmenn sem hata konur) og þarf að klára bókina sem ég er að lesa til að geta byrjað á henni.
Ég á ekki í nokkrum vandræðum með svefn, eins og skotinn þangað til klukkan hringir .
Hlaup | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.9.2009 | 13:52
Betra er seint...
Í kvöld er afmæliskaffiboð fyrir familínuna heima hjá okkur. Það á reyndar engin afmæli núna. Við erum bara að fara að halda uppá afmæli strákanna (17. og 19. júlí) og vorum ekki búin að finna tíma fyrr... Í gær sleppti ég þess vegna sprettæfingunni með ÍR-ingum og hljóp í staðinn smá hring inn í Elliðaárdal beint eftir vinnu, til að geta svo útréttað fyrir veisluna. Í gærkvöldi krúttuðumst við hjónin svo við að baka (Þórólfur sér um gerbaksturinn á heimilinu) og undirbúa heita rétti ofan í mannskapinn. Á meðan gátum við horft á litla sjónvarpið okkar inní eldhúsi, allt annað líf!!!
Í dag var ég í þjálfarahlutverki í hádegisskokkinu, það er voða gaman til tilbreytingar. Samstarfskona mín er að fara eftir Sub 50 prógramminu og það voru 3 * 2000 m sprettir á 4:55 pace á dagskránni. Hún stóð sig eins og hetja, rúllaði þessu upp stelpan. Gaman.
Ég var búin að ímynda mér að nú færi að róast hjá mér í keppnum, þ.e. að það færi að minnka úrvalið, ég veit vel að ég þarf ekki að vera með í öllu . En það er nóg um að vera, Víðavangshlaup Framfara, Hjartadagshlaupið, Víðavangshlaup Íslands, Powerade, Haustþon... Við erum þá bara að tala um næsta mánuð, jeehawww... Maður verður ekki feitur, fúll og slappur á meðan.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.9.2009 | 21:09
Kerlingarfjöll
Vorum að koma heim úr frábærri jeppa- og skemmtiferð í Kerlingarfjöll með vinnunni hans Þórólfs. Fengum topp veður og frábært að rifja upp gamlar minningar úr skíðaferðum í denn.
Ferðalög | Breytt 22.9.2009 kl. 14:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.9.2009 | 10:45
Saucony 5 km 2009
Við Gabríel vorum vel stemmd fyrir hlaupið í gær. Lögðum af stað rétt um sjö og ég keyrði smá rúnt um Rofabæinn til að sýna honum leiðina. Við hituðum upp saman, hlupum út að brú svo hann gæti séð hverni hlaupið endaði. Þegar við komum aftur upp í Árbæjarþrek þá var minn maður orðin pollrólegur og ekki lengur hræddur um að villast.
Þetta var alveg frábært hlaup fyrir mig. Mér fannst gaman að mæta á staðinn, var afslöppuð og fín af stað og keyrði eins og ég gat án þess að vera að drepast. Svona á þetta að vera. Ég stefndi á að sjá 19 eitthvað og það verður spennandi að sjá hvað tímatakan segir, stoppaði klukkuna aðeins eftir að ég kom í mark og hún sagði 20:01 (kannast eitthvað við þessa tölu...). Það er greinilegt að ég er þessi týpa sem vill lifa á brúninni! Var þriðja kona í mark á eftir Fríðu Rún og Veroniku, dolla og brons í aldursflokki. Staðfestur tími: 19:58 JIBBÍ...
Það sem toppaði nú samt daginn var árangur frumburðarins. Áður en við lögðum í hann var einhver að spyrja á hvaða tíma hann ætlaði að hlaupa. Hann hafði ekki hugmynd um það, ég giskaði á rétt undir 25. Ég var búin að lofa að hlaupa á móti honum eftir að ég kláraði mitt hlaup og fylgja honum í mark. Ég náði ekki einu sinni að komast aftur að brú, þá sá ég minn mann koma á fljúgandi ferð, mjög einbeittan og ég þurfti að hafa mig alla við að fylgja honum og hvetja. Hann kom í mark á 23:30, annar í 19 ára og yngri, á eftir Tómasi Zoega. (Í staðfestum úrslitum kom í ljós að Gabríel var 3. þannig að hann fær brons). Guttinn var ekkert smá glaður með tímann sinn, silfurpeninginn og það sem skiptir mestur máli: 'Mamma, þetta var GEÐVEIKT GAMAN!'. Slökuðum vel á í pottinum með hlaupafélögunum eftir átökin og komum alsæl heim eftir góðan dag.
Verð líka að segja smá 'Back to basics' sögu eða svona alls ekki 2007...
Í ár höfum við gert alveg heilmikið í að púkka uppá húsið okkar. Við fengum nefnilega aldrei iðnaðarmenn í góðærinu, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, en nú er það ekki lengur vandamál. Við erum búin að láta pússa upp parketið, skipta um gólfefni þar sem það þurfti og nú síðast vorum við að láta skipta um glugga á allri austur hliðinni. Við fengum nýjan franskan glugga eins og var upprunalega í húsinu og svo létum við setja svalahurð úr eldhúsinu í staðinn fyrir glugga þar. Það er svo gaman að sjá breytingarnar og við vorum að ræða það að nú langar okkur til að halda áfram, safna peningum og framkvæma í staðinn fyrir að eyða í dót.
Við erum túbusjónvarps fólk og t.d. þá ákváðum við að setja flatskjásplön laaannngg aftast í forgangsröðina. Eins það að fá lítinn flatskjá í eldhúsið, en það var pínu freistandi til þess að geta fylgst með því sem er að gerast í heiminum, með tvö börn og æfingaprógramm eins og okkar þá erum við ekki komin í ró inn í stofu fyrr en í fyrsta lagi hálf níu. Á leiðinni heim úr klippingu í gær (var þess vegna á bíl aldrei þessu vant) rak ég augun í Notað og Nýtt búð í Mörkinni og ákvað að kíkja í gamni, var svona aðallega að spá í hvort ég sæi sjónvarpsskenk sem myndi henta okkur. Rak þá augun í nokkur sjónvörp út í horni, ekki flatskjái heldur gömul túbusjónvörp. Þau voru í nokkrum stærðum og viti menn eitt var pínulítið, með loftneti, akkúrat passlegt í hornið á litlu gamaldags eldhúsi!!! Og hvað kostuðu svo herlegheitin? 5000 kall . Frúin er alsæl með pening í banka og sjónvarp í eldhúsinu, lifi hagsýnin!
Franski glugginn okkar
Hlaup | Breytt 22.9.2009 kl. 14:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.9.2009 | 20:40
Breyttir tímar
Afi minn sagði einhvern tíma, 'Allir hlutir hafa tilhneigingu til að enda heldur vel'. Afi minn var enginn rugludallur.
Í fyrsta skipti á hlaupaferlinum erum við hjónin komin með alvöru hlaupaþjálfara, þ.e.a.s. fyrir utan okkur sjálf . Í stórum skokkhópum þá er ekki hægt að ætlast til annars en að leiðbeinandi skipuleggi almennar æfingar sem henta meirihlutanum. Það eru mörg ár síðan við hjónin fórum að grúska sjálf í að finna prógrömm og setja upp okkar eigin æfingaáætlanir með tilheyrandi pælingum og vinnu.
Það er þess vegna þvílíkt dekur að fá prógramm tilbúið með slaufu, fá aðhald frá þjálfara (sem er ekki í hjónabandinu...) og æfa með sér betri hlaupurum. Æfingin byrjaði á þéttri upphitun að hætti ÍR-inga en þeim er meinilla við að gera nokkurn skapaðan hlut á yfir 5:00 pace-i. Í dag voru svo hraðir sprettir í aðalrétt, 800 m (pace 3:33) - 4 mín skokk - 600 m (pace 3:35) - 3 mín skokk - 400 m (pace 3:25) - 2 mín skokk og svo 200 m (pace 3:13) að lokum.
Bara svo það sé skjalfest og opinbert, þá kom í ljós eftir sprettina að allir mínir sprettir voru örlítið hraðari en ektamannsins! Það eru fréttir til næsta bæjar og ef ég þekki minn mann rétt þá mun það ekki gerast aftur í bráð, fái hann einhverju um það ráðið .
Eftir sprettina var svo farið í framstig, 2 * 40 stykki, takk fyrir, við létum annað settið duga... Við vorum eitthvað að væla í þjálfaranum um að við ætluðum að keppa annað kvöld. 'Já flott, þið eigið þá eftir að þakka mér fyrir 200 m sprettinn áðan þegar þið tætið á fljúgandi ferðí mark!'. Einmitt.
Við Gabríel erum búin að skrá okkur í Saucony 5 km í Árbænum annað kvöld, bóndinn er ennþá að ákveða sig hvort það sé girnilegra að passa eða blasta með okkur...
Bloggar | Breytt 17.9.2009 kl. 12:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
15.9.2009 | 09:21
Hlaupari verður til
Það gerðist svolítið merkilegt í Reykjanesbæ um daginn. Það fæddist nefnilega glænýr hlaupari. Hann Gabríel okkar hefur nú reyndar hlaupið með okkur öðru hvoru frá því hann var smá strákur en það hefur meira verið af því að við 'hvöttum' hann 'mjög mikið' (ok, og mútuðum...) til þess heldur en að hann hafi beint langað. Á tímabili missti hann allan áhuga, vildi ekki sjá það að vera með og það var eiginlega bara í vor sem hann fór að vera tilkippilegur aftur. Hann fór í Flugleiðahlaupið, meira bara til að hanga með mömmu sinni, fá að vaka lengur og fá Subway samloku. Eins fórum við saman í Stífluhlaup í Árbænum. Hann ætlaði ekki að nenna að vera með í RM en ákvað á síðustu stundu að fara í skemmtiskokkið, langaði líka í bol...
Það er fastur liður hjá okkur fjölskyldunni að vera í Reykjanesbæ á Ljósanótt. Við tökum þátt í Reykjanesmaraþoni og þannig er það bara. Gabríel var ekkert að malda í móinn, var alveg til í að hlaupa 3,5 km. En það var eitthvað aðeins öðruvísi núna, hann var mjög mikið að spá í leiðina, þannig að við keyrðum með hann hringinn fyrir hlaup. Hann var eitthvað voða spenntur, 'Mamma, mamma, þú verður að festa númerið fyrir mig'. Hann var í síðum íþróttabuxum og var ekki á því að fara í stuttbuxur. 'Mamma, mamma, þurfum við ekki að fara út núna'... Við vorum eitthvað að væflast og ég að gera mig klára í að hita upp þegar dóttir vinafólks okkar kom að og ég stakk upp á að þau myndu hita upp saman, sem þau og gerðu. Eftir upphitun sá minn maður að hann myndi kafna í öllum þessum fötum, fór í stuttbuxur og bol.
Við Þórólfur vorum ræst aðeins á undan skemmtiskokkinu, afi og Lilja fylgdust með fyrir okkar hönd. Þegar ég kom í mark eftir mitt hlaup og náði andanum aftur, þá sá ég annan pilt en ég hafði skilið við. Hann labbaði svona 10 cm fyrir ofan jörðina, brosti hringinn og stökk upp um hálsinn á mér og hvíslaði: 'Mamma, ég vann!'. Hann hljóp 3,5 km á 15:32, lang fyrstur. Hann fékk gullpening í verðlaun og pizzuveislu fyrir fjölskylduna.
En það sem gerðist eftir þetta hlaup er það sem ég er svo glöð með. 'Mamma, kannski næst þegar þú ferð í keppnishlaup, má ég þá koma með?'. Og svo í síðustu viku þegar ég kom heim úr vinnunni hljóp heldur betur glaður strákur á móti mér, 'Mamma, Norræna skólahlaupið var í dag og ég hljóp 10 km á 51:06 og var fyrstur (5., 6. og 7. bekkur)!!!'. Svo fékk ég alla sólarsöguna um hvernig þeir voru þrír sem leiddu hlaupið fyrstu 5 km, þá fóru hinir tveir að dragast aftur úr og svo þegar km var eftir þá kom annar þeirra í hælana á honum. Hvernig hann hefði beðið rólegur með að taka endasprettinn þangað til það voru ca. 400 m eftir, sett allt á fullt en þá átti hinn ekki séns...
Þetta er komið, ég á lítinn hlaupara .
Hlaup | Breytt 22.9.2009 kl. 14:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
14.9.2009 | 11:23
Hvíld
Er búin að nota síðustu daga aðallega til að safna kröftum. Þegar við loksins horfðumst í augu við ástandið þá helltist yfir mann ólýsanleg þreyta. Þreyta sem á ekkert skylt við góða þreytu eftir erfiða keppni, bara svona þreyta sem dregur úr manni allan mátt og alla gleði. En eftir að allt varð tímabundið miklu verra eftir síðustu færslu, þá fór að mjakast í rétta átt, einstaklingar fóru að ræða málin og finna viðunandi lendingu, þ.e. að sýna hvort öðru virðingu og vinsemd þrátt fyrir skiptar skoðanir. Langar til að þakka fyrir stuðninginn, ég er fyrir löngu búin að átta mig á því að með því að deila gleðinni þá margfaldast hún og að sama skapi, deili maður sorginni þá verður hún þeim mun léttari að bera.
Eitt af því sem ég var skömmuð fyrir er að ég sé allt of jákvæð í þessu bloggi mínu, tali aldrei um neitt erfitt eða neikvætt og sé þannig að setja mig á háan hest. Það er meðvitað hjá mér, hafi fólk áhuga á að lesa eitthvað neikvætt þá er nóg af því í boði annars staðar. Ég ætla að skrifa um það sem er jákvætt í mínu lífi og já, líka um það hvernig mér finnst að hlutirnir eigi að vera og hvernig manneskja ég vil vera. Það gefur mér aðhald og hjálpar mér að fókusa á það sem skiptir máli.
Ég var líka skömmuð fyrir pistla um hitt og þetta sem fólk tók til sín af einhverjum ástæðum og sá sem árásir í sinn garð. Ég er þannig að ég get heyrt eða séð eitthvað sem kveikir hugmynd og svo mallar hugmyndin í hausnum á mér, mjög oft á hlaupum, þangað til ég sest niður og skrifa það sem mér finnst um málefnið. Það sem kveikti hugmyndina þarf ekkert endilega að vera það sem ég á endanum skrifa um. Ég er líka þannig að mér myndi ekki detta í hug að taka til mín eitthvað sem mér finnst ég ekki eiga. Þess vegna finnst mér ekkert sérstaklega erfitt að fá gagnrýni, ég hugsa málið, reyni að finna út hvað mér raunverulega finnst og annað hvort skipti ég um skoðun eða held mér við mína. Búið. Ég get ekki ímyndað mér hversu þreytandi það væri að vera alltaf að spá í hvað einhverjum öðrum finnst um mig, það eina sem skiptir máli er hvað mér og mínum finnst um mig.
Ég fékk stóra gusu yfir kommentunum sem skrifuð voru við síðustu færslu. Hvort ég væri virkilega að halda því fram að öfundsýki væri ástæðan fyrir eineltinu. Ég held að öfundsýki sé eitt og einelti sé annað, einelti er vísvitandi hegðun til þess gerð að meiða einhvern annan. Ég held að allir hafi einhvern tímann fundið fyrir öfund, öfundin er hættulegust manni sjálfum.
Eins fékk ég að heyra það að það væri nú óþolandi að ég hlypi í blöðin um leið og tækifæri gæfist... Ég hef aldrei nokkurn tíma hringt í blaðamann, þeir hringja í mig. Yfirleitt er ég alveg til í að rabba við þá, bara gaman en stundum langar mig ekki til þess og þá geri ég það ekki. Það sem ég er að reyna að segja er að ég get bara borið ábyrgð á mínum orðum, ekki orðum annarra. Það er sjálfsagt að hafa skoðun á því sem ég segi og geri, ég hef gaman af því, en ekki gera orð annarra að mínum og skamma mig svo fyrir þau.
En nóg um þetta, við erum í góðum málum og farin að skoða næstu áskoranir. Bibba vinkona mín var búin að hóta að setja inn komment á síðuna um að ég eigi nú að drullast til að hætta að vorkenna mér og fara að blogga aftur. Hún hefur oftast rétt fyrir sér.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
4.9.2009 | 22:24
Síðasta opna færslan í bili :)
Spennandi helgi framundan, við hjónin og Gabríel ætlum að taka þátt í Reykjanes maraþoninu á morgun. Tengdapabbi passar Lilju fyrir okkur á meðan við hlaupum og svo ætlum við að taka þátt í hátíðarhöldunum sem eru í tengslum við Ljósanótt, það er fastur liður hjá okkur enda bóndinn úr Keflavík.
Þegar ég var lítil stelpa var ég alveg svakalega feimin, svo feimin að ég þorði varla að fara til dyra heima hjá mér ef það skyldi vera einhver ókunnugur á ferð. Þegar ég byrjaði í skóla þá var ég alveg tilvalið fórnarlamb hrottanna í skólanum og það leið ekki á löngu þar til að líf mitt, sex ára skottu, varð að algjörri martröð. Tveir strákar úr bekknum mínum ákváðu að leggja mig í einelti, þeir eltu mig heim úr skólanum eða sátu fyrir mér á leiðinni heim, tuskuðu mig til eða stríddu mér þangað til ég fór að grenja. Ég reyndi að hlaupa eins hratt og ég gat heim, þeir voru fljótari. Ég beið stundum í skólanum í heila eilífð (að mér fannst), læddist svo heim en þá stukku þeir úr felum einhvers staðar á leiðinni. Í lok þessa tímabils var í rauninni nóg fyrir þá að segja 'böhhh' þá fór ég að gráta. Ég, eins og flestir sem verða fyrir svona reynslu sagði engum neitt í langan tíma og það var ekki fyrr en stóri bróðir minn gaf sig ekki, heldur heimtaði að fá að vita af hverju ég væri aldrei glöð lengur að ég sagði honum alla sólar söguna. Ég var heppinn, bróðir minn (einn af fjórum stóru bræðrum mínum) var stór og sterkur og tók málið í sínar hendur. Ég var laus úr martröðinni, í lok skólaársins fluttu báðir strákarnir í burtu og fóru í annan skóla.
Í dag er ég stór stelpa og voða sterk finnst mér stundum. En eins skrýtið og það nú kann að virðast, þá er ég núna að upplifa sömu hluti og þegar ég var 6 ára. Fullorðins einelti er reyndar aðeins dannaðra heldur en krakka einelti, hrottarnir láta ekki hanka sig á neinu, þeir nota illt augnaráð, fara í burtu þegar þolandinn nálgast, senda nafnlaus skilaboð, baktal og sterkasta vopnið, útskúfun. Þú ert bara ekki lengur til. Það virkar voða vel...
Já og hvað gerir maður til að koma sér í þessa stöðu. Maður gæti t.d. orðið sekur um að segja eitthvað eða gera sem hópnum þóknast ekki.
Ég er heppin. Ég á svo ótrúlega marga góða að, trúi stundum ekki hvað ég á það gott. Ég get farið annað og valið að vera þar sem ég er velkomin. Það þýðir samt ekki að ég finni ekki spörkin og að maginn í mér snúist ekki við þegar ég fæ einhvern ógeðspóst frá sjúkum hrotta. Eða að ég fái ekki sting í hjartað þegar fólk sem mér þykir vænt um umber eineltið, situr hjá og lætur eins og það sé ekki til.
En það sem einkennir hrottana líka sem stunda ofbeldi í mynd eineltis er að þeir hafa sjúklegan áhuga á þolandanum. Ef þú ert alltaf með hurðina opna heima hjá þér þá máttu svo sem alveg búast við að fá eitthvað skítapakk inn um dyrnar. Stundum er maður nógu sterkur til að segja, skítt með það ég ætla bara samt að hafa opið. En svo fær maður kannski bara nóg einn daginn, kannski þarf maður bara pásu, hver veit. Alla vega, þá ætla ég að leyfa mér að velja mér mína gesti í bili.
Hvernig er best að enda þetta... Já, hérna er smá fróðleikur og svo heyrði ég að það væri strákur að hjóla í kringum landið til að safna fyrir málefnið. Sendi honum þúsara á eftir. Ég held örugglega áfram að blaðra hinu megin við lokuðu dyrnar og þeir sem vilja mér vel eru hjartanlega velkomnir í heimsókn!
Kær kveðja, Eva litla.
Pælingar | Breytt 24.9.2009 kl. 13:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (38)
31.8.2009 | 21:45
Svipmyndir úr Hellishólum
Maríanna og Lilja fundu hvor aðra og voru óaðskiljanlegar
Strákarnir á fullu í fótbolta
Allir orðnir svangir eftir ratleik og aðra leiki
Ferðalög | Breytt 22.9.2009 kl. 14:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.8.2009 | 12:04
Sveitaferð og Íslandsmeistaramót
Við fjölskyldan lögðum af stað í sveitina á laugardaginn en á dagskrá var fjölskylduútilega, í Hellishólum, með vinnunni hans Þórólfs. Þetta var heilmikið fyrirtæki hjá okkur, við þurftum að fara á tveimur bílum, því ég var að fara að keppa á Íslandsmeistaramóti í götuhjólreiðum á sunnudeginum. Við skildum hjólið eftir upp í bústað hjá okkur þar sem við gistum svo um nóttina og héldum áfram að Hellishólum.
Þvílík blíða! Fullt af skemmtilegu fólki, ratleikur og grill í lokin. Krakkarnir voru alveg í essinu sínu, fundu sér leikfélaga og nutu þessa að vera úti í blíðunni. Eftir grillveisluna og spjall þá héldum við aftur í bústaðinn og komum öllum í ból.
Ekki var sunnudagurinn síður fallegur. Vaknaði snemma, tók keppnisrútínuna mína og brunaði að Nesjavöllum. Við vorum fjórar konur sem mættum til leiks og okkur var startað rétt á eftir körlunum. Í fyrstu bekkunum slitum við Lára okkur frá þeim Bryndísi og Sibbu, við hjóluðum svo saman rúma 40 km mjög spakar og skiptumst á að brjóta vindinn. Keppni í hjólreiðum er mjög frábrugðin hlaupunum, það er deginum ljósara, gengur miklu meira út á taktík og hluti af því er að hjóla frekar hægar og vera í samfloti því það er svo gríðarlegur (30%) munur á því að drafta og kljúfa vind.
Þegar við vorum búnar með hringinn á Þingvöllum hófst slagurinn og það hefur örugglega verið mjög kómískt að horfa á okkur stöllur. Ég leiddi alla leiðina til baka, með Láru í 'rassinum' á mér. Hún neitaði að gefa sig og ég hjólaði sikk sakk til að þreyta hana. Var örugglega eins og ótemja að reyna að hrista hana af mér. Það var nú samt ekki fyrr en við komust í alvöru brekkur að ég gat rifið mig í burtu og þá var þetta líka komið. Ég var óþreytt og brekkurnar voru því lítið mál. Var lang fyrst í mark á 2:11:03 en þetta var 64 km leið, meðalhraðinn rétt um 30 km/klst.
Íslandsmeistarar í götuhjólreiðum 2009
Haffi og Eva
Mynd frá Kidda af www.hfr.is en þar er að finna nánari úrslit!
Hjól | Breytt 22.9.2009 kl. 14:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Tenglar
Skapandi skrif
- Gjöfin Gjöfin
- Litlu leyndarmálin Litlu leyndarmálin
Hitt og þetta...
- Fyrir myndir... Einu sinni var
- Afrekin mín Þetta getur maður...
- Afrekin hans Þórólfs Þetta getur kallinn...
- Afrekin hans Gabríels Þetta getur guttinn...
- Afrekin hennar Lilju Afrekin hennar Lilju
- VO2 MAX Mæling í þrekprófi - Apríl 2006
- Gamla bloggið mitt Í denn...
Hlaup
- Búdapest Maraþon 2003 Fyrsta maraþonið mitt
- Laugavegurinn 2005
- Reykjavíkur Maraþon 2005 Annað maraþonið mitt...
- Glitnir Copenhagen Marathon 2008
- Laugavegurinn 2008 Laugavegurinn 2008
- Almost Famous
- Viðtal í 24 Stundum Viðtal í 24 Stundum
- Viðtal í Fréttablaðinu Viðtal í Fréttablaðinu
Þríþraut
- Ultra IronMan ÞRÍH Ultra IronMan ÞRÍH
- Þríþrautafélag Reykjavíkur Þríþrautafélag Reykjavíkur
Hinir...
vitleysingarnir...
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.4.): 1
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 226765
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar