Leita í fréttum mbl.is

Laugavegurinn minn

Það var ekki fyrr en í rútunni á heimleiðinni, Gabríel lá sofandi í fanginu á mér, Þórólfur að hugsa um Lilju hinu megin við ganginn, þá kom það af fullum krafti.   Það byrjaði í maganum og læddist upp brjóstið, hálsinn og breiddist svo yfir andlitið.  Ég réði ekkert við það, brosti út að eyrum, ein með sjálfri mér, 'Ég gerði það, ég vann...'.

Svaf svona þokkalega nóttina fyrir hlaup, fór snemma inn en það tók tíma að koma sér almennilega í ró.  Ég vaknaði hálf fjögur og fannst ég hafa nógan tíma enda stutt að fara fyrir mig.  Fór í langa sturtu, borðaði hafragrautinn minn og dúllaðist svo við að útbúa nesti.  Áður en ég vissi af var klukkan rúmlega fjögur.  Smá panikk, klára að taka dótið saman, setja á mig armabandið og kippa með drykkjarbeltinu.  Í dyrunum snéri ég við og ákvað að skjótast á klóið, eins gott því þá fattaði ég að númerið mitt lá ennþá inni á borðstofuborði.  Renndi í hlað á ÍSÍ þrem mínútum fyrir brottför, pjúff, gott að eiga góðar vinkonur sem voru búnar að passa sæti fyrir mig... 

Landmannalaugar - Hrafntinnusker     1:09:36 

Vorum mætt rétt hálftíma fyrir start inn í Landmannalaugar, enginn tími til að stressa sig á neinu, bara gefa sig fram, pissa og koma sér fyrir í startinu.  Æðislegt að komast loksins af stað.  Ég fylgdi Ingu Dagmar fyrsta spottann, vissi að hún var sterk í brekkunum en ég nýtti mér það að vera hraðari á jafnsléttu og vonaði að það myndi duga til að veita mér forskot.  Var fljótlega í samfloti við Ævar og Halldór, gott að hafa einhvern til að elta því fyrirfram var það aðaláhyggjuefnið að rata ekki nógu vel.  Stoppaði nánast ekkert, rétt fyllti á brúsann minn og hljóp á eftir strákunum.   

Hrafntinnusker - Álftavatn    1:06:49 

Fylgdi strákunum eftir langleiðina að Jökultungunum en þegar þangað var komið hurfu þeir á undan mér niður.  Ég fór frekar ákveðið en samt varlega niður og ég fann að Esju æfingarnar skiluðu sér heldur betur, fann ekkert fyrir þessu.  Ég lenti strax aðeins í vandræðum með leiðina þegar ég hafði engan að elta.  Endaði með að ég hægði aðeins á mér, hleypti næsta manni framúr og elti hann þangað til við komum að veginum síðasta spottann og ég sá í hús, þá gaf ég aftur í.  Fékk mér bananabita, fyllti á brúsana og brunaði af stað.   

Álftavatn - Emstrur   1:39:51  (lappaði á leið frá Emstrum) 

Var í bölvuðum vandræðum frá Álftavatni og þangað til ég var vel komin inn á Sandana með að finna réttu leiðina.  Á þessum kafla fór ég alla vega fjórum sinnum af leið og þurfti að taka auka króka.  Það var enginn fyrir framan mig en einn maður sem kom í humátt á eftir mér og ég þurfti sífellt að vera að kíkja aftur fyrir mig til að vera viss um að ég væri á réttri leið.  Á einum stað hljóp ég áfram eftir vegi þegar maður átti að beygja út af og fara yfir brú, á öðrum stað (Hvanngil held ég, nokkur hús við á) þá fylgdi ég veginum lengri leið í staðinn fyrir að taka stíginn, beygði svo af leið þar sem ég sá göngubrú (í staðinn fyrir að fara vaðið) og endaði  í hestagirðingu og þurfti að hlaupa til baka.  Þegar ég kom að húsinu spurði ég starfsmann hvaða leið ég ætti að fara og hún benti mér í rétta átt.  Nokkru síðar skiptist stígurinn í þrennt og ekkert af skiltunum sagði Emstrur/Laugavegur/Þórsmörk.  Ákvað að fara beint áfram og sem betur fer var það rétt og nú veit ég að Botnar og Emstrur eru sami staður...  Í Bláfjallakvísl spurði ég líka hvort það væri ekki pottþétt að ég myndi finna leiðina inná Sandana og fékk þau svör að það væri ekkert mál, það væri drykkjarstöð þar sem maður beygði af leið.  Það var ekki rétt.  Sem betur fer rámaði mig í að hafa farið yfir stóran sandhól og tók sénsinn að fara af veginum þar sem ég sá troðning, vonaði svo að næsti maður myndi elta mig.  Það var ekki fyrr en næst þegar átti að beygja af leið að það var drykkjarstöð og allt á tæru.  Eftir það var ekkert mál að rata og ég var á fínum dampi langleiðina yfir sandana.   Svona 3 km fyrir Emstrur fékk ég algjörlega óvænt krampa í allt vinstra lærið!  Ég hef n.b. aldrei áður fengið krampa, vissi ekki hvað það var.  Var með nokkrar saltpillur með mér og japlaði á þeim og drakk eins og ég gat, teygði aðeins á lærinu og hélt áfram.  Það hægðist töluvert á mér á þessum kafla og ég var svo sem ekkert að stressa mig þannig, þangað til að ég heyri allt í einu óminn af kvenmannsrödd!  Rækatlans, beit á jaxlinn og bætti í og var ótrúlega glöð að sjá brekkuna niður að Emstrum. 

Emstrur - Þórsmörk   1:46:05 

Ívar og Örn náðu mér í Emstrum og sögðu mér að Björg væri á fínu skriði ekkert svo langt á eftir mér.  'Þú verðu bara að vera ákveðin og taka þetta, koma svo, áfram með þig'; o.s.frv.  'Eva, þú þarft að fara af meiri hörku í brekkurnar', kallaði Ívar á eftir mér og Örn á móti 'Þetta er flott hjá þér'.  Ég vissi ekki hvort mig langaði meira að knúsa þá eða berja (Núna knúsa Wink).  Ívar hægði fljótlega á sér og sendi Örn áfram með mér.  Eftir nokkra km var Örn komin með svo mikla krampa að hann þurfti að hægja og sendi mig áfram með hvatningarorðum.

Hérna byrjaði möntru kafli dauðans, fyrst 'Halda áfram, halda áfram, halda áfram' meðan ég var að berjast við verstu krampana í kálfunum.  Svo var það kaflinn sem ég var voða mikið að spá í Björgu, sá hana í fjarlægð þegar ég leit við í stærstu brekkurnum.  Barðist við sjálfa mig, 'Það er nú ekki slæmt að vera önnur'...  'Hættu þessum aumingjaskap og kláraðu þetta'... 'Ég verð samt fyrst í mínum flokki, það er bara flott'... 'Ef þú klárar þetta ekki núna þá færðu kannski aldrei sama tækifæri aftur'.   'Má ekki ná mér, má ekki ná mér, má ekki ná mér'.   Svo allt í einu hrökk ég í kút...'Secretið skilur ekki 'EKKI', shit, þetta þýðir að hún megi ná mér og þá gat ég ekki annað en hlegið upphátt!    Skipt yfir í nýja möntru í snatri, 'Ég skal sigra, ég skal sigra, ég skal sigra...' og næstu 8 km leit ég aldrei um öxl.  Elti Burkna hluta af leiðinni og það hjálpaði að geta neglt sig á hælana á einhverjum.   Fleiri og fleiri kunnugleg andlit á leiðinni, var ekkert svakalega kammó enda átti ég fullnóg með mig.  Þegar ég nálgaðist Kápunu þá fannst mér voða fyndið að hugsa 'Þér verður ekki kápan úr því klæðinu væna mín', vá hvað maður verður steiktur í hausnum. 

Á drykkjarstöðinni hjá Kápu henti ég af mér drykkjarbeltinu, tók einn fullan brúsa með mér og hélt áfram.  Þegar ég var komin upp Kápuna leit ég við og sá að ég myndi hafa þetta.  Þá tók við fínn kafli niður Kápu, yfir Þröngá og upp, upp, upp og svo var bara að rúlla restina.  Þvílík gleði að sjá fyrir endann á Laugaveginum, heyra hrópin í fólkinu, sjá markið.  Maður verður alltaf að taka endasprett og ég veit ekki hvort það er rétt en mér fannst ég svífa síðustu metrana í mark, ólýsanlegt.  Tíminn 5:42:23. 

Eftir hlaup 

Best í heimi að sjá fólkið mitt í markinu, Gabríel rauk upp um hálsinn á mér og svo fékk ég að knús frá  Lilju og Þórólfi.  Man bara eftir óteljandi fallegum, vingjarnlegum, brosandi og hjálplegum andlitum.  Skrokkurinn kveinaði hástöfum yfir meðferðinni og ekki leið á löngu þangað til ég fór að hríðskjálfa úr kulda, enda rennandi blaut í gegn.  Ætlaði að drífa mig í sturtu og hlý föt en þá kom í ljós að taskan mín var í rútu sem festist í ánni á leiðinni.  Engin föt, ekkert handklæði, köld sturta og það hafði gleymst að kveikja á gufunni.  Allir reyndu að gera allt sem þeir gátu til að láta mér líða vel, ég fékk aukateppi, Þórólfur lét mig fá flíspeysuna sína og fékk lánað handklæði.  Staðan var samt ekkert sérstaklega góð.  Hraus hugur við því að fara í kalda sturtu og hafa ekkert annað að fara í en flíspeysu og flísteppi.  Nokkru síðar kom Björg og hún var með aukaföt sem hún bauðst til að lána mér, hún reddaði líka gufunni í gang og þá fór nú að birta til aftur hjá gömlu konunni.  Eftir hálftíma setu í gufunni, komin með il í kroppinn, var lífið aftur orðið eins og það átti að vera og í því skilaði taskan mín sér með öllum Janus ullarfötunum mínum, ohhh dásemd.  Næstu tímarnir liðu bara í hálfgerðri vímu, takk, takk, já þetta var rosalega erfitt, takk... 

Svo vorum við bara allt í einu komin í rútuna, fólkið mitt og ég.  Allt gott í heiminum.

Viðtal

Smá grein í Mogganum í dag.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

innilega til hamingju, frábært hjá þér!

baun (IP-tala skráð) 14.7.2008 kl. 22:41

2 identicon

Gaman að lesa frásögnina þína Eva. Það er mikið rétt að það er bara fyrir kunnuga að rata í gegnum Hvanngil og vita hvar á að beygja út af á Söndunum.

Gunnlaugur (IP-tala skráð) 14.7.2008 kl. 23:03

3 Smámynd: Örn elding

Til hamingju. Virkilega gaman að lesa lýsingu þína og þá sérstaklega þar sem þú segir frá ferð þinni yfir sandinn eða sandana, þegar þú þurfti að velja, eins og í ævintýrunum, um þrjá kosti.

Örn elding, 14.7.2008 kl. 23:31

4 identicon

Til hamingju, kæra vinkona

Gaman að fylgjat með afrekum þínum, ákveðni og dugnaður, það ert þú.

Kossar,

Aníta

Aníta (IP-tala skráð) 14.7.2008 kl. 23:33

5 identicon

Sendi Rvk. maraþoni tölvupóst fyrir hlaupið og bað þau um að sjá til þess að það yrði vel merkt þar sem hlaupið er út af veginum á Söndunum því að í fyrra hlupu tveir útlendingar veginn alla leið að brúnni.  Sá síðan að það var engin merking þegar ég hljóp þar framhjá.

Börkur (IP-tala skráð) 15.7.2008 kl. 00:39

6 Smámynd: Gísli Ásgeirsson

Til hamingju, Eva!! Frábært hlaup og góð saga. Þú ert til fyrirmyndar.

Gísli Ásgeirsson, 15.7.2008 kl. 07:28

7 identicon

Til hamingju Eva - þú ert laang flottust

Nanna

Nanna (IP-tala skráð) 15.7.2008 kl. 08:07

8 identicon

Þú ert svo mikill snillingur. Mikið er ég stolt af þér!!!

....secretið skilur ekki 'Ekki'...hahahahha, brilliant!!

Ýrr (IP-tala skráð) 15.7.2008 kl. 18:15

9 identicon

Þú ert algjör snilli tilli.  Ég elska secret dæmið.  Nú heitir það ekki lengur Secret fyrir mér heldur Evan og ætla ég að trúa á það.

Ásta (IP-tala skráð) 16.7.2008 kl. 00:08

10 identicon

Innilega til hamingju Eva, frábær árangur!

Valdís (IP-tala skráð) 16.7.2008 kl. 09:50

11 identicon

Hjartanlega til hamingju. Virkilega vel hlaupið hjá þér. 

Inga Dagmar (IP-tala skráð) 16.7.2008 kl. 13:27

12 identicon

Lýst vel á að kalla Secret-ið Evuna því að hitt var eitthvað svo meinstrím mar. Frábært að lesa þetta. Þar sem ég er áttavillt ugla með eindæmum mun ég gæta þess að hanga í einhverjum sem ratar alla leiðina. Mun þó ekki reyna að hanga í þér!

Sóla (IP-tala skráð) 16.7.2008 kl. 20:53

13 Smámynd: Agga

já, núna tökum við Evuna á þetta og hitt :D En vil koma því á framfæri að það er mjög einmanalegt hér í kaffinu á Lynghálsinum ...

Agga, 17.7.2008 kl. 08:57

14 identicon

Enn og aftur ertu að toppa. Þú ert orðin besti hlauparinn okkar. Ég er stoltur af að þekkja þig. Þú átt líklega eftir að slá mörg met á næstu árum!!!!

Geir (IP-tala skráð) 17.7.2008 kl. 16:29

15 Smámynd: Helen Garðarsdóttir

úlala!!! Innilega til hamingju með þennan glæsilega árangur!

Helen Garðarsdóttir, 17.7.2008 kl. 21:46

16 identicon

Til hamingju !!

Heiða Björk (IP-tala skráð) 18.7.2008 kl. 07:57

17 Smámynd: Eva Margrét Einarsdóttir

Takk, takk og milljón sinnum takk! 

Eva Margrét Einarsdóttir, 18.7.2008 kl. 21:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Eva Margrét Einarsdóttir
Eva Margrét Einarsdóttir

Ætlar að hlaupa styttra og hraðar...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband