Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Töff

Eða þannig...  Fór í ræktina í morgun og svo beint í nudd hjá honum Guðbrandi.  Eins og venjulega skottast ég á klóið áður en tíminn byrjar.  Setti símann minn á vaskinn og þegar ég er að fara að ná mér í handþurrkur, rekst ég í símann, reyni að grípa hann í loftinu, tekst ekki og blúbbbsss....  Beint ofan í klósettið!

Þetta er flottur Blackberry sími sem ég var ekki alveg til í að sturta niður (þó þetta sé vinnusími) og þá var ekkert annað að gera en bretta upp ermar Blush.

Eftir rækilegan hand/handleggs og símaþvott, þurrkun með hárþurrku og tveggja tíma dvöl á ofninum virðist hann samt vera búin að syngja sitt síðasta þrátt fyrir þetta frækilega björgunarafrek...  

Hugga mig við það að mér hefur tekist að skemmta ansi mörgum í vinnunni í dag; "Eva..., Eva..., segðu þeim hvað gerðist við símann þinn, hahahhahaha...."


Vikan

Það á eitthvað svo einstaklega vel við að fá þær fréttir að ég þyrfti að hafa það huggulegt í eina viku, þar sem ég var með nýjasta eintakið af Vikunni falið ofaní tösku hjá mér...

Prófaði að hlaupa pínulítið í hádeginu í dag og lærið var alls ekki að gera sig.  Hringdi í Rúnar sjúkraþjálfara og fékk í fyrsta lagi tíma á þriðjudaginn í næstu viku.  Bað um að láta hóa í mig ef eitthvað losnaði og klukkutíma síðar fékk ég símtal, mátti koma strax. 

Greiningin:  Ég hef tognað aðeins efst í lærinu/rassinum við að húsgagnalyftingar.  Af því að ég fann aðeins fyrir því á hlaupum þá fór ég að reyna að hlífa mér og hlaupa eitthvað asnalega sem hafði þær afleiðingar að ég fékk þennan fína streng frá rassi niður í hnésbót.  Rúnar hamaðist á mér eins og honum væri borgað fyrir það (ehhhh... ) og skildi mig svo eftir á bekknum eins og nálapúða, sagði mér að slaka á...  Má ekki hlaupa í viku en öll önnur hreyfing sem ekki hefur sársauka í för með sér er í fínu lagi.  Teygja og fara í nudd og bara bing þá verð ég eins og ný.

Í gær hjólaði ég í klukkutíma og í morgun kíkti ég aftur á stigvélina í hálftíma.  Ég finn lappirnar styrkjast með hverjum deginum, held þessi cross training geri mér ekkert nema gott.  Og mér finnst þetta ekkert leiðinlegt, í alvöru!  Ætla líka loksins að finna mér yoga tíma, gef mér aldrei tíma í það þegar ég er að hlaupa. 

Þegar ég er inní Laugum svona dag eftir dag þá nota ég líka tækifærið að gera upphífingar.  Það er skemmtilegast þegar einhverjir guttar eru nýbúnir að gera 5 eða 10 alveg að drepast.  Bið þá aðeins að leyfa mér að komast að, fæ svona: æ, æ, hvað heldur kerlingin að hún geti svip.  Geri svo að minnsta kosti 20 Devil


Hætt að hlaupa?

Vinkona mín í vinnunni tók á móti mér á mánudagsmorgun með áhyggjusvip.  'Ertu hætt að hlaupa?'    Ég var örugglega mjög skrýtin á svipinn, ehhhh ég hljóp ekkert í gær en nei ég ekki HÆTT að hlaupa.  Hún hafði lesið í hlaupadagbókinni að ég væri komin í hlaupapásu út af strengnum í lærinu.  Ég var fljót að leiðrétta misskilninginn, ég er að tala um hlaupapásu í dögum talið, kannski 3-4 dagar.

Á fimmtudaginn fann ég smá tak í lærinu, sennilega eftir að hafa lyft einhverju þungu heima hjá mér í flutningunum.  Á föstudaginn skokkaði ég smá hring og fannst ég ekki verri.  Á laugardaginn fann ég aftur á móti verulega fyrir lærinu á æfingu og endaði með því að eftir 14 km þurfti ég að labba síðasta km heim. 

Sjálfsmeðferðin felst í hita/kæla lærið, 3 íbúfen á dag í 3 daga og engin hlaup þangað til að ég er algjörlega laus við strenginn.  Ég er búin að endurnýja kynni mín við stigvélar og við erum komin í gott daglegt samband, er betri með hverjum deginum sem líður.

Fátt er svo með öllu illt...   Strákarnir í vinnunni eru svakalega glaðir með þetta, þeir sjá gullið tækifæri til að taka mig í nefið í hlaupamagni í vikunni.  Svo gaman að gleðja aðra... Joyful.


Rán?

Í vikunni dreif ég mig loksins í að hjálpa Przemek og Karolinu að skila skattskýrslunum sínum.  Þegar ég var að fara yfir pappírana þeirra, sá ég að þau höfðu á tímabili verið að greiða í séreignalífeyrissjóð.  Ég fór að spyrja þau út í hvers vegna í ósköpunum þau höfðu verið að því, þau sem ætla sér ekki að vera hérna til frambúðar og þá kom í ljós að þau höfðu bara ekki vitað betur, atvinnurekandinn sá um alla pappíra þegar þau komu fyrst hingað og þau kunnu náttúrulega ekkert á kerfið og tungumálalaus í ofanálag.  Þau hættu svo að láta draga þetta af sér um leið og þeim var bent á að það væri óþarfi og óskynsamlegt í þeirra tilfelli.

Ég var nú aldeilis ánægð að upplýsa þau um það að nú væru komin ný lög á Íslandi þannig að þau gætu leyst út þessa aura sína, ég skyldi með glöðu geði aðstoða þau við það, jamm það hélt ég nú.  Á launaseðlinum sá ég að lífeyrissjóðurinn hét Vista.  Ég fann út að þetta er sjóður á vegum Kaupþings og hringdi í gær til að fá að vita hversu mikið þau ættu inni og hvernig ætti að sækja um endurgreiðslu hjá þeim.

'Sko málið er að þau hafa bara borgað í 6 mánuði og fyrstu 2 mánuðirnir fara í bónusgreiðslu sem þú færð borgað út við sextugt ef þú heldur áfram að greiða í alla vega 6 mánuði.  Næstu 4 mánuðir fara í kostnað svo þau eiga nákvæmlega ekkert inni hjá okkur.'

Ha?

'Já ég myndi sko ráðleggja þeim að borga alla vega tvær greiðslur í viðbót, þá myndu þau geta fengið bónusgreiðsluna þegar þau verða sextug'.

Ég spurði konuna hvort hún væri í alvöru að ráðleggja þeim að borga tvær greiðslur í viðbót í sjóðinn til þess að fá tvær greiðslur endurgreiddar eftir 35 ár??? 

'Já annars fá þau sko ekkert'.

Ég sagði konunni að mér fyndist þessi ráðgjöf jaðra við dónaskap og mér fyndist að hún ætti eiginlega að skammast sín að láta þetta út úr sér og bað hana vel að lifa.  Í alvöru talað, er þetta hægt?


Hótel Mamma

Hef gaman af því að segja frá því að ég sé flutt til mömmu...  Fólk verður eins og spurningarmerki í framan, thí hí.  En það er allt í góðu, við erum sko öll flutt heim til mömmu og pabba.  Vorum að láta slípa og lakka hjá okkur parketið á stofu og borðstofu og mála allt saman.  Þurftum þess vegna að flytja öll húsgögnin inn í herbergin okkar.  Það er orðið alveg svakalega fínt hjá okkur núna og við flytjum, með örlitlum trega þó, aftur heim á eftir.

Á Hótel Mömmu er maður vakin með smá blístri niður ganginn.  Þegar maður er búin að skottast í sturtu bíður eftir manni sjóðandi heitur hafragrautur, annars vegar með miklu salti og hins vegar með litlu salti fyrir prinsessuna (mig sum sé...).  Verði flík óhrein á Hótel Mömmu þá hverfur hún í tvo - þrjá tíma og birtist svo aftur, tandurhrein og fín.  Á Hótel Mömmu þarf maður ekkert að spá í barnapössun þegar manni langar að skottast út í hlaupatúr eða ef maður þarf eitthvað að útrétta.  Í rauninni er það eina sem maður þarf að passa að vera komin heim rétt um sex til að verða ekki of seinn í kvöldmatinn sem boðið er uppá, alveg gratís.  Get alveg ímyndað mér að svona hafi fjölskyldulífið verið í gamla daga, afi, amma, pabbi, mamma og krakkarnir...

En það er nú líka gott að komast heim til sín, sem betur fer.  Smá vandamál að nú þegar allt er orðið svona fínt hjá okkur þá er soldið erfitt að fara með gamla ljóta sófann, túbu sjónvarpið o.s.frv. inn í stofu aftur.  En við ætlum ekkert að vera neitt 2007, um leið og krakkarnir eru komnir í sófann þá er hann orðin flottasti sófi í heimi Grin.


Powerade slemma

Hélt ég yrði ekki eldri þegar nafnið mitt var lesið upp fyrir fyrsta sætið í mínum flokki í Powerade.  Af því ég missti úr eitt hlaup og keppinautur minn í flokknum hafði mætt í öll hlaupin þá var ég alveg með það á tæru að ég væri í öðru sæti.  Kom á daginn að hún missti úr síðasta hlaupið og þá var sigurinn minn, óvænt og gaman.  Þórólfur tók sinn flokk líka svo það var heldur betur kátt í höllinni.

Powerade 2009

37:40

Síðasta Powerade hlaupið í bili, alltaf sama góða tilfinningin að klára eitthvað sem maður hefur byrjað á.  Sigurvegari hlaupsins í mínum huga er án vafa MAÐURINN MINN, sem uppskar eins og hann sáði og setti pb í 10 km hlaupi á tímanum 37:40, hálfrar mínútu bæting.  Glaðari mann og stoltari eiginkona eru erfitt að finna!  Það er svoooo gaman að sjá hvað þessar æfingar sem við erum að taka eru skila miklu og við höldum inní næstu æfingalotu full eftirvæntingar, gaman, gaman! 

Ég var bara mjög sátt við mitt hlaup, var algjörlega eftir plani fystu 9 km og endaði á 43 mín.  Hefði viljað vera svona 20 sek hraðari með síðasta km en eins og vitur maður sagði eitt sinn;  "Betra er að hægja á sér en að hægja sér í keppnishlaupi" Blush.

 


Hroki og hleypidómar

Enn einu sinni var ég rækilega minnt á það að stærsta og verðugasta verkefnið sem snýr að sjálfri mér hér í lífinu, er að eiga við átfíkilinn í sjálfri mér.  Að takast á við tímabundnar áskoranir, Maraþon, Laugavegur eða hvað það nú heitir, er leikur einn miðað við þetta lífstíðarverkefni.  Ég á löng, góð tímabil nú til dags þar sem ég er í góðri rútínu og allt í góðu jafnvægi.  Stundum á ég svo löng, góð tímabil að ég trúi því að þetta sé bara ekkert mál, ég sé búin að sigrast á ofætunni, sé læknuð!

Döhhhh, það eru tvær vikur síðan ég henti fram yfirlýsingu í hálfkæringi um að nú myndi ég 'kveðja' (með tón) langhlauparakílólið mitt, bara svona eins og ekkert sé.  Síðan þá er ég búin að þyngjast um tvö kíló!!!  Eins og algjör njóli fór ég nánast í 'megrun' sem er náttúrulega það heimskulegasta sem ég gat gert, hætti að borða smjör og fór í að narta í þurrt hrökkbrauð milli mála.  Á sama tíma er ég að auka álagið í hlaupunum, taka erfiðar sprettæfingar til að auka hraðann.  Þetta gengur náttúrulega engan veginn saman og gat ekki endað nema með fyrrgreindum afleiðingum. 

En ég er eldri en tvævetra í baráttunni og hvað gerir maður þegar maður fer út af sporinu?  Maður horfist í augu við staðreyndir, hysjar upp um sig og heldur áfram.


Góðan daginn strákar!

Alveg spurning um að tékka á Dr. 90210.  Við Oddur skokkuðum hádegisrúntinn okkar í dag að venju og mættum eldri manni sem er alltaf á vappinu en ekkert mikið fyrir að heilsa.  Í dag heilsaði hann okkur aldrei þessu vant með virktum: "Góðann daginn strákar!".  Humfnnnn...

Annars er kvef og eymingjaskapur vonandi á undanhaldi.  Bóndinn er með svipuna á lofti og tekur hlutverk sitt sem þjálfara afar alvarlega.  Á morgun eru það 5 km og þá fæ ég að hlaupa 'no faster than 19:10 (jeiii...)  - no slower than 19:55. 

Update: Ég hef alltaf haldið því fram að ég sé óvenju hlýðin og góð eiginkona.  Eftir vinnu í dag, 5 km @ 3:58 pace = 19:50  LoL


Nýr mánuður

Enn ein sprettæfingin í dag og nú voru það 6 * 1000 m á 15.  Ég er að gíra mig upp í þessum sub hring, venja líkamann á meiri hraða.  Ég er að ráða mjög vel við þessar æfingar, er með hálfgert samviskubit að finna ekki meira fyrir þessu en næsti hringur á subbinu verður örugglega meira krefjandi.

Febrúar var bæði góður og erfiður mánuður hjá okkur, góðu stundirnar standa upp úr og hér eru nokkrar sem festust á filmu.  Svipmyndir frá konudeginum en strákarnir mínir komu mér á óvart með því að bjóða upp á Sushi veislu með öllu tilheyrandi, jeiiii!

Konudagur

Og svo er það sitt lítið af hverju:

Febrúar


Höfundur

Eva Margrét Einarsdóttir
Eva Margrét Einarsdóttir

Ætlar að hlaupa styttra og hraðar...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband