Leita í fréttum mbl.is

Fullkominn dagur?

Sumir dagar eru bara þannig að allt er eins og það best getur orðið.  Sunnudagurinn var akkúrat þannig dagur.  Litla skottið okkar svaf óvenju lengi.  Við drifum okkur á lappir rétt um átta, smá hafragrautur og svo var mamma mætt á svæðið að passa ungana okkar meðan við fórum út að hlaupa. 

Hlupum inn í Elliðaárdal í rólegheitunum og fórum öfugan Powerade.  Heilmikil hálka á leiðinni svo það var ennþá meiri ástæða að taka því rólega og njóta þess bara að vera úti í góða veðrinu.  Við hjónin leystum eina til tvær lífsgátur í leiðinni á þessum 16 km.

Fórum beint í sund í Árbæjarlaugina með hana Lilju okkar, Gabríel fór í heimsókn til ömmu og afa á meðan.  Lilja fór með pabba sínum í klefann í þetta skiptið og var rosalega dugleg.  Hún verður áræðnari með hverju skiptinu sem við förum, er alveg farin að bjarga sér með armkútana og finnst þetta svoooo gaman.

Náðum okkur í smá kríu eftir sundið á meðan Lilja lagði sig.  Þórólfur pumpaði í dekkin á hjólinu hans Gabríels og hann hjólaði í afmæli til vinar síns. Þvínæst ryksugaði Þórólfur bílinn og ég fór í smá tölvustúss fyrir tengdapabba.  Þórólfur og Lilja fóru síðan í heimsókn til afa og ömmu í Garðabæ, á meðan dundaði ég mér við að strauja (í fyrsta sinn í marga mánuði) allar skyrturnar mínar.  Maður getur afkastað ótrúlega miklu þegar maður er bara einn með sjálfum sér, skipti um á rúminu hennar Lilju, bakaði pestóbrauðið hennar Elínar og hafrakökurnar góðu í framhaldi.

Lilja gerði sér síðan lítið fyrir og kúkaði í klósettið í fyrsta skipti á ævinni!  Það brutust út þvílík fagnaðarlæti meðal annarra fjölskyldumeðlima og þeim ætlaði aldrei að linna, fimmfalt húrra fyrir Lilju.

Kvöldmatur, tannburstun, knús og kósíheit fyrir svefninn og krílinu komið í bólið.  Ég ryksugaði á meðan strákarnir flokkuðu flöskur og dósir fyrir Sorpu.  Við Þórólfur kíktum aðeins á CSI áður en við læddumst inn í rúm (já já klukkan tíu).  Þar beið mín ein af mínum uppáhaldsbókum í þessum heimi, The Road Less Travelled, en ég fékk hana lánaða fyrir vinkonu mína og stenst ekki freistinguna, ætla að rúlla í gegnum hana fyrst sjálf. 

Finnst ég hafa gert alveg ótrúlega mikið á einum degi.  Það sem er best samt er að þetta var allt einhvern veginn svo létt og í góðu jafnvægi.  Krakkarnir voru góð við hvort annað og við líka.  Ég var bara alveg mátulega þreytt að degi loknum enda gaf ég mér líka tíma í að leggja mig og slaka á, inn á milli og ekkert stress.  Fullkominn dagur?  Svei mér þá ég bið ekki um meira. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Eva Margrét Einarsdóttir
Eva Margrét Einarsdóttir

Ætlar að hlaupa styttra og hraðar...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband