Leita í fréttum mbl.is

Angistaróp meðalmennskunnar

Já það er smá urgur í gömlu konunni, best að blogga hann úr sér. 

Í dag var ég að spjalla við vin minn um Laugaveginn og það kom á daginn að hann hafði orðið vitni að umræðum 'alvöru' hlaupara sem voru að pirra sig á því að það væri búið að loka fyrir skráningu og það væri fullt af 'ekki alvöru' hlaupurum sem væru að taka öll plássin.  Ég sjálf heyrði eitthvað álíka um daginn frá hlaupafélaga og það fór bara inn um eitt og út um hitt, gaf því ekki gaum frekar en annarri vitleysu sem verður stundum á vegi manns. 

En í dag þá var mér ekki sama því að það eru margir vinir mínir að fara Laugaveginn í fyrsta sinn sem þurfa ekkert á því að halda að heyra svona bull.  Bara það að ákveða að fara, skrá sig og hefja æfingar krefst mikils hugrekkis og við sem höfum reynslu eigum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að styðja við bakið á þeim.

Við vorum öll byrjendur einhvern tíma og vei þeim sem ætlar að halda því fram, að þegar ég fór Laugaveginn í fyrsta sinn, hafi ég ekki verið 'alvöru' hlaupari.  Ég varð 'alvöru' hlaupari frá þeirri stundu sem ég ákvað það sjálf að ég væri 'alvöru' hlaupari.  Mikið er ég þakklát fyrir allan þann stuðning og þá hvatningu sem ég fékk þá, frá mér reyndara fólki, þrátt fyrir að hafa aldrei hlaupið lengra en hálft maraþon.    

Ég þekki hlaupara sem hlaupa ekkert sérstaklega hratt eða mikið en eru svo sannarlega 'alvöru' hlauparar sem taka þátt í öllum almenningshlaupum sem þeir geta og leggja þannig sitt af mörkum til hlaupasamfélagsins.  Ég þekki líka hlaupara sem geta hlaupið alveg svakalega hratt en af því að þeir eru ekki bestir eða að ná sínum besta árangri þá taka þeir ekki þátt í almenningshlaupum.  Hvor er 'alvöru'?  Ég sjálf hef örugglega á einhverjum tímapunkti tilheyrt báðum þessum hópum.

Upplýsingar um að skráningu á Laugaveginn hafa verið aðgengilegar á netinu mánuðum saman.  Allir eiga sama möguleika á að skrá sig og reyndir hlauparar, með allar sínar félagslegu tengingar ættu að vera í enn betri aðstöðu en aðrir ef eitthvað er.  Jú, jú, leitt fyrir þá sem voru of seinir að skrá sig.  Lærið af reynslunni!

Megi ég um aldur og ævi reyna að lifa í auðmýkt og aldrei falla gryfju hrokans, sem einkennir meðalmennskuna.

Amen.      


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hæ Eva, les oft bloggið þitt en commenta sjaldan   Vildi bara lýsa ánægju minni með þessa færslu enda algjör hlaupa-byrjandi. Hef svo sannarlega fengið minn skammt af svona hroka viðbrögðum og myndi alveg vilja vera án þeirra enda getur maður því miður oftast séð alveg óstuddur um að draga sjálfan sig niður og vil miklu frekar fá velviljaða hvatningu frá reynsluboltunum 

Sjáumst á hlaupum!

Snjólaug (IP-tala skráð) 19.1.2009 kl. 16:40

2 identicon

Heyr heyr,,, mikið rétt allir eru byrjendur einhverntímann, og að halda öðru fram er bara HROKI, og þessir einstaklingar sem halda því fram að í skráningunni á Laugavegin séu eitthvað sem ekki eru "Alvöru hlauparar" þurfa greinilega að hugsa til þess tíma þegar þeir fóru sína fyrstu ferð þarna yfir á hlaupum.  Eva skvís það er virkilega gaman að lesa færslurnar þína og oftar en ekki þá eru þær hvatning.  Og eins og Snjólaug segir "Sjáumst á hlaupum"  kv. Erna Hlín

Erna Hlín (IP-tala skráð) 19.1.2009 kl. 17:42

3 Smámynd: Gísli Ásgeirsson

Þessi umræða heyrðist einhvers staðar í fyrra.  Ég get tekið undir hvert orð í færslunni hjá þér.  Hvað skráninguna varðar áttu allir sömu möguleika.Hroki er synd.  

Til að vera sjálfum mér samkvæmur þá sagði ég í fyrra, af því ég var spurður, að það þyrfti að bera virðingu fyrir öllum vegalengdum og ekki síst þeirri miklu þrekraun sem Laugavegurinn er. Hvert einasta skipti af þessum 8,6 var erfitt. Ég sagði líka þá og segi enn, að mér finnst maraþon eða álíka vegalengd vera hálfgerð forsenda. Maður byrjar ekki fjallgönguferilinn á Mont Blanc.

Sannur hlaupari er sá sem klárar vegalengdina sína.Það tekst vonandi öllum sem leggja upp í ár.

Gísli Ásgeirsson, 19.1.2009 kl. 19:32

4 identicon

Takk fyrir þetta, takk takk Eva.   Mikið er ég fegin að það eru fleiri en ég sem láta þessa umræðu fara í taugarnar á sér.   Ég er orðin hundleið á umræðu og úrtölum "alvöru hlaupara" sem eru ekki til neins fallin annars en að brjóta niður sjálfstraust þeirra sem hafa ekki reynsluna til að sjá í gegnum hrokagikkina.
Frá mér fóru fimm hlauparar Laugaveginn í fyrsta sinn í fyrrasumar eftir innan við árs undirbúning.    Þau stóðu sig öllsömul frábærlega, komu heil og hress út úr þessu og eru á fullu að hefja undirbúning undir næsta Laugaveg.    Ég get ekki séð að vöntun á maraþonum í undirbúningi þeirra hafi komið verulega niður á þeim nema síður sé þar sem hið mjúka og fjölbreytta undirlag fer miklu betur með skrokkinn en malbikið.
Ég mæli tvímælalaust með Laugaveginum sem undirbúningi fyrir maraþon.

Bibba (IP-tala skráð) 19.1.2009 kl. 21:28

5 identicon

Sammála, sammála, sammála. Hef aldrei hlaupið Laugaveginn ("bara" gengið) en ætlar að gera það einhern tíma þegar ég verð alvöru hlaupari! Hahahaha... Til hamingju til allra sem náði að skrá ser. Setningin á undan "Amen" er æði. Takk Eva fyrir að vera til.

Corinna (IP-tala skráð) 19.1.2009 kl. 21:39

6 identicon

Sæl Eva

Ég fór að hugsa hvað það væri að vera "alvöru" hlaupari, er það sá sem að hefur tekið þátt í mörgum keppnishlaupum og hlaupið mörg maraþon? Ef svo er þá er ég ekki "alvöru" hlaupari þar sem ég hef ekki farið maraþon eða á langan keppnisferil að baki í langhlaupum. En samt sem áður myndi ég telja mig sem alvöru hlaupara þar sem ég hef ánægju af hlaupunum og þetta er mitt áhugamál

 En svo er hinsvegar annað mál hvað hverjum og einum þykir heppilegur bakgrunnur fyrir Laugaveginn. Það hefur allavega sýnt sig og sannað að það eru ekki endilega þeir sem eiga flest maraþonin að baki sem ganga betur en þeim sem ekki hafa hlaupið maraþon enda er svo margt sem spilar þar inní í þessari þrekraun. 

Bogga (IP-tala skráð) 19.1.2009 kl. 22:07

7 identicon

Ég held reyndar að þessi svokallaði hroki í þessum "alvöru" hlaupurum sé í raun bara svekkelsi yfir að komast ekki með.  Áður voru ekki svo margir sem sóttust eftir að hlaupa Laugaveginn og ekkert þurfti að berjast um sætin.  Nú eru bara svo margir farnir að hlaupa að það þarf að hafa fyrir því að komast, enda mjög eftirsóknarvert hlaup og hlaupaleið. 

 Ég er hundsvekkt yfir að hafa verið of sein að skrá mig en er líka mjög ánægð með að fullt fullt af fólki fái að upplifa það sem ég gerði þegar ég hljóp hann.  Laugavegurinn er tvímælalaust mitt uppáhaldshlaup.

Ásta (IP-tala skráð) 19.1.2009 kl. 22:27

8 identicon

Sammála. Var hugsað til þess þegar við fórum fyrst Laugaveginn og ég horfði á þig á Kápu og lét það m.a toga mig áfram. Ég er þakklát fyrir að þá var enginn að draga okkur niður heldur margar raddir að segja okkur að við gætum þetta alveg. Þetta er ein af mínum frábærustu minningum.

Jóhanna (IP-tala skráð) 19.1.2009 kl. 23:25

9 identicon

Takk fyrir þetta Eva!

Ég held einmitt að það að vera "alvöru hlaupari" sé fyrst og fremst e-ð sem við ákveðum sjálf. Ég hef hlaupið nokkur 10 km hlaup og 3 hálfmaraþon og tel sjálfa mig sko algjörlega vera alvöru hlaupara enda hleyp ég reglulega og hef ánægju af, keppist fyrst og fremst við sjálfa mig hef náð að bæta mig með góðum æfingum og viljastyrk en líka gengið illa.

Ég myndi segja að alvöru hlaupari sé sá sem keppist við sjálfan sig - hleypur vegna ánægjunnar og tekst á við áskoranir hvort sem þær eru manns eigin eða keppnishlaup.

Einhvern tíma er allt fyrst og það er alveg jafn mikið alvöru ef ekki meira alvöru að fara í fyrsta sinn eða tíunda

Anna (IP-tala skráð) 20.1.2009 kl. 09:14

10 Smámynd: Gísli Ásgeirsson

Bara svo það sé á hreinu.

Þótt ég hafi þessa skoðun varðandi Laugaveginn fell ég vonandi aldrei í þá gryfju að draga hlaupara í einhverja dilka. Gens una sumus.

Gísli Ásgeirsson, 20.1.2009 kl. 13:54

11 Smámynd: Eva Margrét Einarsdóttir

Takk fyrir þetta feedback, enginn urgur í mér lengur .

Eva Margrét Einarsdóttir, 20.1.2009 kl. 22:05

12 Smámynd: Jens Viktor

Úbbs, ég gerði mig sekan um að hugsa þessar hugsanir þegar ég heyrði nokkra vöðvabolta vera að spjalla í búningsklefanum í Laugum um daginn, einhverjir þeirra voru skráðir í Laugaveginn í fyrsta sinn.  Man að ég hugsaði að þeir gætu nú varla hlaupið fyrir vöðvum og svo væru "alvöru hlauparar" sem kæmust ekki með.  En... svo fór ég bara að hlaupa og gleymdi þessum hugsunum

Jens Viktor, 20.1.2009 kl. 23:01

13 identicon

Heyr heyr Eva. Ég get algjörlega tekið undir þín orð og fleiri hér. Ég tel mig sko alveg vera alvöruhlaupara þó svo að ég hafi ekki enn farið heilt maraþon og bara gengið Laugaveginn (við hlið hlauparanna sem var algjört æði) enda hleyp ég mér til ánægju reglulega og stefni alltaf á að bæta mig.  Er strax farin að hlakka til að hlaupa Laugaveginn í fyrsta sinn með öllum hinum alvöru hlaupurunum.

Alma María (IP-tala skráð) 21.1.2009 kl. 19:27

14 identicon

Man eftir ómi af þessari umræðu í fyrra þegar ég var að fara minn fyrsta Laugaveg, án þess að hafa farið heilt maraþon, og ég lét það pirra mig aðeins. En bara pínu.

Lét það ekki draga úr mér, eiginlega gerði það mig bara ákveðnari, og svo var ég með fullt af fólki í kringum mig sem hafði trú á því sem ég var að gera!

Frábært innlegg og þarft!

kv. Heiða

Heiða (IP-tala skráð) 23.1.2009 kl. 08:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Eva Margrét Einarsdóttir
Eva Margrét Einarsdóttir

Ætlar að hlaupa styttra og hraðar...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband