10.8.2009 | 21:51
Sagan öll...
Á laugardagskvöldið var allt klárt hjá mér. Ég var búin að útbúa tékklista út frá þríþrautarbókinni góðu og pakkaði niður eftir honum. Ég var búin að hugsa þrautina alla leið og ímynda mér hvað ég þyrfti á hverjum stað og pakkaði í nokkra mismundani poka samkvæmt því. Svaf bara vel og vaknaði spræk klukkan 6:30 og tók hefðbundna maraþonrútínu, ristaða beyglu með hnetusmjöri og sultu, tvö glös af vatni og kaffibolli. Lagði af stað að heiman fyrir átta, keyrði í rólegheitum og hafði nógan tíma til að koma dótinu mínu fyrir í röð og reglu þar sem það átti að vera.
Sund: Eftir æfingarnar síðustu daga var ég orðin alveg pollróleg yfir sundinu. Ég hafði í upphafi vikunnar áætlað sundtíma u.þ.b. 48 mínútúr en sá á æfingum að ég ætti að geta farið eitthvað hraðar og var á keppnisdegi farin að vonast eftir að klára sundið á 45 mínútum. Ég fann mig strax vel í lauginni og við Gummi sammæltumst um að synda fyrst 100 m hlið við hlið og sá sem væri þá á undan myndi leiða. Ég notaði tímann í sundinu til að hugsa til skiptis eftir umferðum um þrjú atriði sem Bibba og Ásgeir bentu mér á: 1) Passa að horfa í botninn og þrýsta höfðinu niður til að búa til beina línu við hrygginn 2) Taka grynnri tök og passa að fylgja þeim eftir alla leið 3) Reyna að renna eins langt á milli sundtaka og ég gat. Maður missir talninguna ótrúlega fljótt í svona sundi, eftir 5-600m og þá byrjaði ég bara að telja upp á nýtt, 5 ferðir og svo 3 og aftur 3... Svo fór maður að vonast eftir flautunni góðu en teljararnir krjúpa niður að manni við síðasta snúning og blása eins og brjálaðir bananar í dómaraflautu til að láta vita að það sé ein ferð eftir. Í bókinni góðu sagði að það væri skynsamlegt sprikla vel síðustu metrana í sundinu til að ná blóðflæði í lappirnar fyrir hjólið og síðustu 40-50 m buslaði ég sem mest ég mátti. Ég var það spræk þegar ég kláraði að ég ákvað að vippa mér upp á bakkann á brautinni minni, í staðinn fyrir að synda að stiganum og hlaupa að skiptisvæðinu. Tími í sundi: 43:20
Hjól: Það tók mig 2:38 (T1) að skipta og koma mér af stað á hjólinu. Ég lagði mikla áherslu á að lágmarka skiptitíma þar sem ég vissi að hinar konurnar voru allar betri í sundinu en ég. Ég var búin að leggja allt dótið í rétta röð á handklæði og þurfti ekkert að hugsa, sokkar, skór, sólgleraugu, hjálmur, jakki og númer og út. Ég var búin að kveikja á Garminum fyrir keppnina og var með hann í litlu hólfi á hjólinu , bara að ýta á start um leið og ég vippaði mér upp á hjólið. Ég var innan við 10 km að ná fremstu konu og það var mjög góð tilfinning þar sem ég vissi að ég var sterkasti hlauparinn í hópnum. Þegar ég var komin á beinu brautina setti ég á mig Garmin í rólegheitunum. Ég var með tvö orkusúkkulaði með mér á hjólinu, eitt í litla hólfinu með garminum og hitt var ég búina að teipa á hjólið. Ég var líka með einn brúsa af orkudrykk, einn af vatni og eina túbu af geli. Ég drakk vel á fyrsta hringnum á hjólinu og borðaði fyrsta stykkið. Borðaði seinna stykkið á hring 3 (af 6) og drakk reglulega, fyrst orkuna og svo vatn. Ég smakkaði aðeins á gelinu á hring 4 og 5 en mér fannst það frekar ógirnilegt og fann að ég var með nóg af orku. Hjóla leggurinn var ótrúlega skemmtilegur, var ánægð með hraðann, átti nóga orku og alltaf jafn gaman að koma að skreiðarstæðunum þar sem starfsfólk og áhorfendur stóðu, stundum í hellidembu, með bros á vör, hvatningarhróp, banana (Bibba :) og drykki. Ég á ekki orð að lýsa því hversu þakklát ég er, ég veit að ég á ennþá eftir að brosa yfir þessu, hundrað ára hrukkukerling, einhvers staðar að gera eitthvað skemmtilegt... Fyrr en varði var ég komin á síðsta hring og um leið og maður var komin að snúningpunkti þá fannst manni þetta bara búið, bara að láta sig gossa niður að skiptisvæði og bingó. Í bókinni góðu var mælt með því að létta um 1-2 gíra síðasta km, stíga hratt og létt til að fá líf í leggina fyrir hlaupið og það gerði ég. Ég notaði líka allan síðasta hringinn á hjólinu til að kreppa og rétta úr tánum því þær verða anski kaldar og stífar í hjólaskónum. Tími á hjóli: 3:07:43
Hlaup: Skiptitími frá hjóli yfir í hlaup var 1:12 (T2). Ég hef áður tekið þátt í tvíþrautum og hoppað af hjóli í hlaup. Það er alltaf mjög óþægilegt að fara að hlaupa, maður veit það og bítur bara á jaxlinn þangað til það líður hjá. Það tekur lærin svona hálfan km að komast í gang. Ég var alveg 4-5 km að fá almennilega tilfinningu í tærnar aftur og að komast í góðan rythma. Ég var að hlaupa á vel innan við 5:00 pace fyrstu km og var svo um og rétt yfir restina. Fyrstu 10 km í hlaupinu liðu mjög hratt og svei mér þá ef það hvarflaði ekki að mér eitt stundarkorn að þetta væri nú ekkert svo mikið mál... Næstu 5 km liðu mjög mikið hægar... Síðustu 5 km voru bara ótrúlega lengi að líða og síðasta km lykkjan var barasta ekkert spes skemmtileg. Það sem bjargaði gjörsamlega geðheilsunni í hlaupinu var enn og aftur ótrúlegt starfsfólk sem átti alltaf til einhver uppbyggileg orð og áhorfendur sem létu sig hafa það að koma í úrhellið til að hvetja. Ef ég færi að telja alla upp sem hjálpuðu mér á þessum kafla þá væri þetta eins og allt of löng ræða á Óskarsverðlaunahátíð og svo væri ég í öngum mínum ef ég gleymdi einhverjum þess vegna ætla ég í staðinn að ráðast á alla sem ég næ í skottið á og knúsa þá í eigin persónu og segja þeim hversu mikils virði þeirra stuðningur var á þessum tíma. Ég var innst inni fyrir þrautina að vonast eftir að hlaupa í kringum 1:45 (svipað og Ásgeir hennar Bibbu :) og það gekk upp. Tími í hlaupi: 1:45:09
Við vorum 19 sem hófum keppni, 18 tókst að ljúka henni og ég var 7. í mark í heildina. Ég setti nýtt Íslandsmet á 5:40:02 to bætti gamla metið um 33 mínútur. Ég náði 10. besta tíma Íslendings en hingað til hafa 26 einstaklingar klárað Hálfan Járnkarl. Já, ég er strax farin að hugsa um næsta og heilan .
Eftirköst... Ég var frekar slöpp í gærkvöldi, fékk bara að lufsast upp í sófa og þegar við fórum í bólið fann ég töluvert fyrir lærum og mjöðmum, stirð og stíf. Ég var miklu betri í morgun, göngulagið bara nokkuð þokkafullt en var mest megnis í fyrsta og öðrum gír. Fór í sund eftir vinnu, synti 500 m og slakaði svo á í heita pottinum í hálftíma og nú get ég sagt að ég finn nánast ekki fyrir þessu.
Hérna eru myndir af minni upplifun teknar af Sigrúnu Þöll, Ölmu og Þórólfi og hérna eru fleiri myndir sem Sigrún Þöll mín tók af keppninni.
Tenglar
Skapandi skrif
- Gjöfin Gjöfin
- Litlu leyndarmálin Litlu leyndarmálin
Hitt og þetta...
- Fyrir myndir... Einu sinni var
- Afrekin mín Þetta getur maður...
- Afrekin hans Þórólfs Þetta getur kallinn...
- Afrekin hans Gabríels Þetta getur guttinn...
- Afrekin hennar Lilju Afrekin hennar Lilju
- VO2 MAX Mæling í þrekprófi - Apríl 2006
- Gamla bloggið mitt Í denn...
Hlaup
- Búdapest Maraþon 2003 Fyrsta maraþonið mitt
- Laugavegurinn 2005
- Reykjavíkur Maraþon 2005 Annað maraþonið mitt...
- Glitnir Copenhagen Marathon 2008
- Laugavegurinn 2008 Laugavegurinn 2008
- Almost Famous
- Viðtal í 24 Stundum Viðtal í 24 Stundum
- Viðtal í Fréttablaðinu Viðtal í Fréttablaðinu
Þríþraut
- Ultra IronMan ÞRÍH Ultra IronMan ÞRÍH
- Þríþrautafélag Reykjavíkur Þríþrautafélag Reykjavíkur
Hinir...
vitleysingarnir...
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Svona til viðmiðunar þá eru hér úrslitin úr Noregsmeistaramótinu í hálfum sem haldið var í júlí: http://www.holmestrandtri.com/K_Senior__2039_AXr_.htm
Held að þú eigir bara góðan séns utan landsteinanna.....
Börkur (IP-tala skráð) 11.8.2009 kl. 06:53
Fín frásögn Eva. Svona samantektir eru mjög gagnlegar. Í fyrsta lagi fyrir þig sjálfa að sjá keppnina sem eina heild. Í öðru lagi fyrir aðra keppendur til að fá viðmiðmum uppleggið, hvað gátu þeir gert betur eða hvað gerðu þeir betur. Síðast en ekki síst er þetta uppörfun og fróðleikur fyrir þá sem eru að velta fyrir sér að láta slag standa og stökkva út í djúpu laugina. Fínt hjá Berki að koma með slóð á norsku úrslitin. Það er ekki spurning að Eva og vafalaust fleiri konur (og karlar náttúrulega líka) myndu gera það gott á þessum vettvangi í okkar nágrannalöndum. Það er nefnilega mjög gott að fá víðari samanburð til að sjá hvar maður stendur.
Gunnlaugur (IP-tala skráð) 11.8.2009 kl. 08:54
Ótrúlega gaman að lesa þetta sem og aðrar færslur hjá þér. Til hamingju með flottan árangur.
Guðbjörg (IP-tala skráð) 11.8.2009 kl. 09:08
Gaman að lesa þetta - til hamingju aftur :)
Valdís (IP-tala skráð) 11.8.2009 kl. 11:07
Til hamingju Eva
Fjóla Þorleifsd (IP-tala skráð) 11.8.2009 kl. 16:13
Til hamingju. Mikid afrek! Gaman ad lesa sögu og sja myndir.
Corinna (IP-tala skráð) 13.8.2009 kl. 12:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.