Leita í fréttum mbl.is

Síðasta opna færslan í bili :)

Spennandi helgi framundan, við hjónin og Gabríel ætlum að taka þátt í Reykjanes maraþoninu á morgun.  Tengdapabbi passar Lilju fyrir okkur á meðan við hlaupum og svo ætlum við að taka þátt í hátíðarhöldunum sem eru í tengslum við Ljósanótt,  það er fastur liður hjá okkur enda bóndinn úr Keflavík.

Þegar ég var lítil stelpa var ég alveg svakalega feimin, svo feimin að ég þorði varla að fara til dyra heima hjá mér ef það skyldi vera einhver ókunnugur á ferð.  Þegar ég byrjaði í skóla þá var ég alveg tilvalið fórnarlamb hrottanna í skólanum og það leið ekki á löngu þar til að líf mitt, sex ára skottu, varð að algjörri martröð.  Tveir strákar úr bekknum mínum ákváðu að leggja mig í einelti, þeir eltu mig heim úr skólanum eða sátu fyrir mér á leiðinni heim, tuskuðu mig til eða stríddu mér þangað til ég fór að grenja.  Ég reyndi að hlaupa eins hratt og ég gat heim, þeir voru fljótari.  Ég beið stundum í skólanum í heila eilífð (að mér fannst), læddist svo heim en þá stukku þeir úr felum einhvers staðar á leiðinni.  Í lok þessa tímabils var í rauninni nóg fyrir þá að segja 'böhhh' þá fór ég að gráta.  Ég, eins og flestir sem verða fyrir svona reynslu sagði engum neitt í langan tíma og það var ekki fyrr en stóri bróðir minn gaf sig ekki, heldur heimtaði að fá að vita af hverju ég væri aldrei glöð lengur að ég sagði honum alla sólar söguna.  Ég var heppinn, bróðir minn (einn af fjórum stóru bræðrum mínum) var stór og sterkur og tók málið í sínar hendur.  Ég var laus úr martröðinni, í lok skólaársins fluttu báðir strákarnir í burtu og fóru í annan skóla.

Í dag er ég stór stelpa og voða sterk finnst mér stundum.  En eins skrýtið og það nú kann að virðast, þá er ég núna að upplifa sömu hluti og þegar ég var 6 ára.  Fullorðins einelti er reyndar aðeins dannaðra heldur en krakka einelti, hrottarnir láta ekki hanka sig á neinu, þeir nota illt augnaráð, fara í burtu þegar þolandinn nálgast, senda nafnlaus skilaboð, baktal og sterkasta vopnið, útskúfun.  Þú ert bara ekki lengur til.  Það virkar voða vel... 

Já og hvað gerir maður til að koma sér í þessa stöðu.  Maður gæti t.d. orðið sekur um að segja eitthvað eða gera sem hópnum þóknast ekki. 

Ég er heppin.  Ég á svo ótrúlega marga góða að, trúi stundum ekki hvað ég á það gott.  Ég get farið annað og valið að vera þar sem ég er velkomin.  Það þýðir samt ekki að ég finni ekki spörkin og að maginn í mér snúist ekki við þegar ég fæ einhvern ógeðspóst frá sjúkum hrotta.  Eða að ég fái ekki sting í hjartað þegar fólk sem mér þykir vænt um umber eineltið, situr hjá og lætur eins og það sé ekki til.

En það sem einkennir hrottana líka sem stunda ofbeldi í mynd eineltis er að þeir hafa sjúklegan áhuga á þolandanum.  Ef þú ert alltaf með hurðina opna heima hjá þér þá máttu svo sem alveg búast við að fá eitthvað skítapakk inn um dyrnar.  Stundum er maður nógu sterkur til að segja, skítt með það ég ætla bara samt að hafa opið.  En svo fær maður kannski bara nóg einn daginn, kannski þarf maður bara pásu, hver veit.  Alla vega, þá ætla ég að leyfa mér að velja mér mína gesti í bili.

Hvernig er best að enda þetta...  Já, hérna er smá fróðleikur og svo heyrði ég að það væri strákur að hjóla í kringum landið til að safna fyrir málefnið.  Sendi honum þúsara á eftir.  Ég held örugglega áfram að blaðra hinu megin við lokuðu dyrnar og þeir sem vilja mér vel eru hjartanlega velkomnir í heimsókn!

Kær kveðja, Eva litla.

 

Eva litla

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er agndofa eftir lesturinn......

Stuðningskveðjur.

Komaso!!

Gísli ritari (IP-tala skráð) 5.9.2009 kl. 07:15

2 Smámynd: Sigrún Þöll

Jössúss minn ert þetta þú á myndinni!!! Þú ert alveg eins og Lilja!!! Rassgatarófanþín! hihihih :)

En annars sendi ég þér *knús* á færsluna hér að ofan um eineltið :( Ég á líka svona pakka og skil vel hvað þú ert að tala um.

Leitaðu í fólkið sem styður þig og stendur með þér, við erum margfalt fleiri þarna úti en þú nokkurn tíman gerir þér grein fyrir! og í guðanna bænum haltu áfram að vera eins og þú ert!

Gangi þér vel á hlaupum í dag!

Sigrún Þöll, 5.9.2009 kl. 08:26

3 identicon

Ja hérna hér! knús á þig Eva

Valdís (IP-tala skráð) 5.9.2009 kl. 08:52

4 identicon

Sæl Eva þetta er nú bara í annað sinn sem ég kvitta í gestabókina þína en bloggið þitt les ég alltaf. Ég er bara ekki að skilja hvað fólki gengur til eins og hvað þú hefur verið mikil hvatning fyrir marga. Ég er ein af þeim sem les þessar færslur eingöngu til að fá kraft til að halda áfram í því sem ég er byrjuð á og hugsa í hvert skipti sem þú rífur einhvern múrinn hvort sem er á hlaupi eða hjóli, nú svo ekki sé talað um skemmtulegu frásagnir þínar af því sem þú tekur þér fyrir hendur. Þá hugsa ég "nú þá get ég líka haldið áfram". Gangi þér vel í dag og ég á sko alveg sannarlega eftir að sakna þín í netheimum nema ég verði svo heppin að verða valin ein af þínum vinum. :-) Kv. Anna María Grundarfirði.

Anna María (IP-tala skráð) 5.9.2009 kl. 09:29

5 identicon

Hef ég eitthvað sagt þér nýlega hvað ég elska þig mikið? 

Annars var pabbi að spyrja áðan hvort það væri ekki hægt að fá "hana hlaupavinkonuna þína" í réttirnar um næstu helgi. (Alltaf verið frekur lélegur að muna nöfn...)  Ókeypis brekkuhlaupaæfing og kjötsúpa innifalin ;-)

Guðrún Harpa (IP-tala skráð) 5.9.2009 kl. 12:00

6 identicon

Sæl! ég hef ekki heldur kvittað hérna en les alltaf síðuna þína.

Það er svona þegar öfundin leikur lausum hala og fólk í djúpum skít getur ekki ráðið við að stýra sínu eigin lífi á sómasamlegan hátt, þá er nú gott að geta sparkað í einkvern og fengið fleiri í lið með sér sem svipað ástatt er með.  En þú mátt vera stolt af sjálfri þér og þínum sigrum.

Vonandi fæ ég að vera "vinur" þinn áfram :)  bestu kveðjur

                                                                                 Guðrún

Guðrún Egilsdóttir (IP-tala skráð) 5.9.2009 kl. 13:20

7 identicon

Knús á þig og haltu áfram að vera svona frábær og gefandi!!!!

Kv. Bubba Sigurvegari

Bubba (IP-tala skráð) 5.9.2009 kl. 17:05

8 identicon

Sæl, ég er nú einn af þeim sem hef lesið bloggið þitt í gegnum tíðina og haft gagn og gaman af, hafðu þökk fyrir það.

Það er greinilegt að velgengni þín vekur öfund annara og er mér óskiljanlegt.  Það verður leiðinlegt að geta ekki lesið bloggið þitt framvegis.

kv Jón Kr.

Jón Haraldsson (IP-tala skráð) 5.9.2009 kl. 19:22

9 identicon

Knúúús Eva mín.   

Bibba (IP-tala skráð) 5.9.2009 kl. 19:23

10 identicon

ég þakka þér fyrir skrifin ... hef lesið mikið af þeim .. gangi þér vel um ókomna tíð..

písl (IP-tala skráð) 5.9.2009 kl. 20:06

11 identicon

Á ekki til eitt einasta orð yfir fullorðnu fólki. Þú ert einn af föstu punktunum í blogghringnum mínum og oftar en einu sinni náð að rífa mann upp úr 'ég-get-ekki' gírnum. Jákvæðnin og hjálpsemin sem einkenna þig og þín skrif er ótrúleg og hefur gefið mörgum afskaplega mikið. Knús til þín og takk fyrir mig. Mun samt örugglega sækja um aðgang, vonandi get ég haldið áfram að sækja kraft í síðuna þína :)

R (IP-tala skráð) 5.9.2009 kl. 20:09

12 identicon

Knús á þig og þína, þú nærð þér upp úr þessu. Þeir sem þekkja þig vita hvað er rétt í þessu máli. Leyfir mér vonandi að fylgjast með

bkv að Vestan Gugga Rós

Guðbjörg Rós (IP-tala skráð) 5.9.2009 kl. 21:15

13 identicon

Áfram Eva,

Leiðinlegt að heyra þetta Eva. Alltaf gaman að lesa bloggið þitt og vonandi byrjar þú að skrifa fljótt aftur.

Kv.

Jói

Jóhann Sigurðsson (IP-tala skráð) 5.9.2009 kl. 21:35

14 identicon

Stórt knús á þig Eva!

Guðrún Lauga (IP-tala skráð) 6.9.2009 kl. 01:11

15 identicon

Ja hér ljótt að heyra..Ég verð að segja eins og margir hér á undan þá er svo ótrúlega gefandi og hvetjandi að lesa bloggið þitt, og ég get svo svarið það að ég veit ekki hversu oft sem ég hef setið fyrir framan tölvuna mína og lesið bloggið þitt og í framhaldinu drifið mig í hlaupagallann!!

Baráttukveðjur til þín.

Kv.Hildur lögga

Hildur (IP-tala skráð) 6.9.2009 kl. 04:12

16 identicon

Elsku Eva mín

 Ég hafði ekki hugmynd um þetta fyrr en í fyrradag enda ekkert hitt þig í langan tíma vegna sumarfrís og hlaupaheftu (hölt og feit, gömul geit). Ég las á sínum tíma færsluna þína sem olli svona miklu fjaðrafoki, auk þess sem ég renndi yfir flestar athugasemdirnar sem komu í kjölfarið. Margar þeirra voru áhugaverðar og málefnalegar, en sumar þannig að sendiboðinn var hreinlega skotinn í tætlur (sem mér þótti sárt að horfa upp á) á sama tíma og umræddur hlaupari varð einnig skotspónn besserwissera, þannig að undan sveið og jafnvel blæddi.

Ég var alveg sammála því sem þú sagðir í þeirri færslu en á sama tíma hugsaði ég: "Ég hefði alveg getað lent í þessu." Þarna varð einhver röð mannlegra mistaka, sérstaklega hjá mótsstjórn sem kannski vissi ekki betur, og því fór sem fór. Mér hefði sjálfri liðið illa að lesa alla umræðuna sem fylgdi í kjölfarið frá dómstóli götunnar. Á hinn bóginn hefði mér íka liðið illa við að fá þessi hörðu og óvæntu viðbrögð inn á mína eigin bloggsíðu. En svo hélt ég nú bara að málið væri grafið og gleymt, fólk væri búið að pústa og lífið héldi áfram sinn vanagang.

Ég er því miður mín yfir að heyra að einhver hópur fólks sé enn að velta sér upp úr þessu og hunsa gamla vinkonu og hlaupafélaga í stað þess að ræða málin. Fólk getur verið ósammála og sammála um að vera það...og málið dautt...and keep on smiling.  Það að fólk sé að skrifa nafnlaust níð á síðuna þína er fyrir neðan allar hellur en ég á mjög bágt með að trúa því að margir standi á bak við það. Ég vona bara og trúi því að þessi færsla þín núna opni augu þessa litla hóps af fólki og það komi frekar til þín og ræði málin, leysi þau og allt verði gott á ný.

Ég á sjálf mjög erfitt með koma fram á opinberum vettvangi og taka afstöðu með svona erfiðum málum sem geta aldrei verið bara svört eða hvít. Tilfinningar og sálarlíf fólks er alltaf með í spilunum. Ég met þig mikils fyrir hvað þú ert óhrædd við að rugga bátnum á meðan ég sigli lygnan sjó. En það er kannski ekkert vit í því að gera hið síðarnefnda þegar maður er á seglskútu ;-).  Ég var andvaka yfir þessu öllu saman í gær og eftir að hafa loksins sofið á þessu finnst mér ég algjörlega knúin til þess að verða þinn stóri bróðir í þessu máli.

Ég hvet þig eindregið til þess að halda bloggsíðunni þinni opinni. Ég er sannfærð um að það mun gróa um heilt eftir þessa "síðustu opnu færslu í bili". Þú ert alveg einstök manneskja, hjartahlý, ofurgreind og sterk en samt svo viðkvæm sem gerir þig einmitt svo frábæra. Ekki láta nokkra einstaklinga skemma allt fyrir þér. Þó að fólk þurfi ekki alltaf að vera sammála átt þú fjölmarga stóra bræður þarna úti sem láta einelti sem þetta aldrei viðgangast.

Baráttukveðja!

Þín vinkona

Sóla

Sóla (IP-tala skráð) 6.9.2009 kl. 09:44

17 identicon

Sæl

Ég tek undir með mörgum hérna á undan að ég mun sakna þess að lesa bloggið þitt.  Þitt blogg er mörgum og þar á meðal mér hvatning til að bæta mig og ég dáist að dugnaði þínum, skil bara ekki hvar þú færð alla þessa orku :-).  Opinber umræða um hin ýmsu mál eru nauðsynleg og gaman og fróðlegt að heyra skoðanir fólks en það verður líka að sætta sig við að það hafa ekki allir sömu skoðun.  Ég vona allavegana innilega að þú haldir blogginu þínu áfram opnu .

Kveðja

Helga T.

Helga T. (IP-tala skráð) 6.9.2009 kl. 14:08

18 identicon

Ég er ein af þeim sem les bloggið þitt og dáist að afrekunum. Hef meira að segja gerst sek um að hnippa í æfingafélagann í World class og pískra um þig þegar þú hefur labbað framhjá.... pískrið hefur þá reyndar verið í formi aðdáunar "pældu í því hvað þessi gerir"

Mér finnst þú vera mögnuð kona - nærð ótrúlegum árangri í því sem þú tekur þér fyrir hendur og hefur haft mikil og góð áhrif á ótrúlega marga.

Mér þykir mjög leitt að þú hafir orðið fyrir einelti og upplifir það aftur núna. Hefði nú haldið að fullorðið fólk léti ekki svona. En á móti verð ég að benda á að konan sem allt fjaðrafokið varð yfir hefur líklega upplifað skrif þín á sama hátt - sem óvægna árás frá einhverjum sem hún hefur líklegast ekki átt von á að myndi skrifa um þetta sorglega atvik á netinu. Nu þekki ég hvorki þig né þessa umræddu konu en vildi bara benda á að stundum þarf maður líka að líta í eigin barm og þrátt fyrir að það afsaki á engan hátt framkomu fólks við þig - þá skuldar þú líklega þessari konu eins og eina litla afsökunarbeiðni.

Ég vona að þú haldir áfram að skrifa um hlaupin og hjólreiðarnar því það er reglulega gaman og hvetjandi að fylgjast með þér

J (IP-tala skráð) 6.9.2009 kl. 15:07

19 identicon

Elsku Eva, það væri mikill missir af þér ef þú hættir alveg, það er með mig eins og svo marga aðra að ég sæki heilmikla jákvæða strauma til þín og þú hefur verið mjög hvetjandi í öllu því sem þú ert að gera, og það eru forréttindi að fá að fylgjast með þessu öllu, þú er sífellt að toppa sjálfa þig og það á einstaklega jákvæðan hátt.  Hvað sem þú gerir varðandi bloggið, þá veit ég að það verður rétt ákvörðun fyrir þig og yndislegu fjölskylduna þína, ég bara krossa fingur og vona að þú teljir mig til vina ef til kemur að þú læsir blogginu þínu.  Knús og kossar til ykkar allra.  Baráttukveðjur Erna Hlín

Erna Hlín (IP-tala skráð) 6.9.2009 kl. 15:41

20 identicon

Sæl Eva, fór að hlaupa fyrir tæpum 2 árum. Þín skrif og magnaðar lýsingar á hlaupum þínum í keppnum hafa hvatt mig og leiðbeint. Er útá landi og nýt ekki þess að vera í hlaupahóp með reyndari hlaupurum. Því hefur lestur bloggsíðu þinnar verið mér mikilsvirði. Leiðinlegt að þessi staða skuli koma upp. Kveðja Guðbjörg

Guðbjörg Björnsdóttir (IP-tala skráð) 6.9.2009 kl. 16:07

21 identicon

Ég er alveg bit Eva mín. Mikið getur nú mannfólkið lagst lágt.  Það finnast greinilega líka skemmd epli í hópum hlaupara

Alma (IP-tala skráð) 6.9.2009 kl. 16:38

22 identicon

Sæl Eva, hef af og til kíkt á vefsíðuna þína en aldrei skrifað komment.  En nú get ég ekki látið vera.  Bjartsýnni og jákvæðari mannseskju er erfitt að finna.  Finnst aflar leiðinlegt að heyra að einhverjir getí ekki unað þér velgengni þína og þína gefandi lífsorku.  Gangi þér ávallt sem best.  Kveðja, Eyrún

Eyrún Baldvinsdóttir (IP-tala skráð) 6.9.2009 kl. 17:03

23 identicon

Ég styð þig.

Hákon Hrafn (IP-tala skráð) 6.9.2009 kl. 21:43

24 identicon

Elsku Eva,

 Mér finnst líka ákaflega leitt að svona sé í pottinn búið núna. Þú hefur svo sannarlega verið  hvetjandi fyrir aðra hlaupara með blogginu þínu og árangri í hlaupum og verið mörgum sönn fyrirmynd. Það er sárt að hugsa til þess að það virðist vera einhverjir sem geta ekki unnt þér þess.

Kærar kveðjur frá okkur Úlfari

 Bryndís Magnúsdóttir

Bryndís Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 6.9.2009 kl. 21:56

25 identicon

Komdu sæl Eva.

Ég heiti Geir og hef lesið bloggið þitt í tvö ár og tel mig orðið þekkja þig og þitt ágæti vel. Mér þykir afskaplega leitt að lesa hvernig þetta mál á Akureyri hefur þróast þar sem þú hefur fullan rétt til að tjá þig um það mál og gerðir það vel á sínum tíma. Þú reyndir að halda þessari persónu, sem um ræðir á Landsmóti, algjörlega fyrir utan þetta í þessari færslu. Enda fjallaði þetta ekki beint um hana heldur þann gjörning sem átti stað sem svo sannarlega hefur verið sportinu til vansa. Það er engin spurning að þú hefur mikinn meirihluta af hlaupafjölskyldunni á bak við þig sem er fylgjandi þinni skoðun. Ég hvet þig til að blogga áfram því þú hefur veitt mörgum hlaupurum mikinn innblástur til frekari dáða. Þú hefur svo sannarlega verið að stækka þann lesendahóp því nú hafa hjólreiðamenn bæst við. Haltu áfram ótrauð, þú hefur allan minn stuðning og ég er greinilega ekki alveg einn um það

Geir Harðarson (IP-tala skráð) 6.9.2009 kl. 22:26

26 identicon

Sæl vinkona.

Það er umhugsunarvert að lesa að þú kjósir að hætta að blogga m.a. vegna áreitis blogggungna. Ég er einn af mörgum sem hafa lesið bloggið þitt reglulega sér til ánægju og fróðleiks. Það er alveg á hreinu að þú hefur fyrst og fremst komist þangað sem þú ert í dag vegna eigin dugnaðar og verðleika. Sú vegferð hefur ekki alltaf verið auðveld. Hún er hins vegar mörgum öðrum fyrimynd um hvað hægt er að gera ef vilji og kraftur er til staðar. Kraftaverkin gerast nefnilega enn. Láttu ekki draga úr þér kjarkinn en haltu þínu striki. 

Gunnlaugur (IP-tala skráð) 7.9.2009 kl. 09:27

27 identicon

Knús til þín elsku Eva mín

Ásta (IP-tala skráð) 7.9.2009 kl. 10:11

28 identicon

Sæl Eva og takk fyrir síðast.

'Eg fæ hnút í magan að lesa þetta, því ég á dóttir sem er 20 ára og er svo þunglynd sökum langvarandi eineltis, en þú sem gefur svo mikið af þér til allra í kring um þig.

Eva ég stend með þér ekki láta fólk sem er afbríðisamt út í velgengni þína brjóta þig niður því það er það sem á erfitt.

Stórt knús til þín Eva.

Kveðja Gugga

Gugga (IP-tala skráð) 7.9.2009 kl. 11:01

29 identicon

Sæl Eva,

Ég er orðlaus, Ég hef lesið bloggið frá því ég hitti þig fyrst á hlaupum (vorið 2007) og hef mikið gagn og gaman af. Ég ætla að vona að ég geti fylgst með þér áfram!! Og eins og ritarinn segir gjarnanKomaso!!

Geir Jóhnnsson (IP-tala skráð) 7.9.2009 kl. 12:50

30 identicon

Kæra Eva Ég er svo hissa og hrygg eftir að hafa lesið þennan póst.  Eftir að hafa lesið bloggið þitt í mörg ár veit ég að þú ert mikil keppnismanneskja, ósérhlífin og dugleg og mér finnst það hljóma pínku  eins og “úr karakter” að loka og segja bless í bili jafnvel þótt að ég skilji þína afstöðu. Þess vegna spyr ég keppniskonuna Evu, "er fólkið sem veldur þér vanlíðaninni ekki búið að vinna eða ná fram því sem það vildi ná fram ef þú lokar blogginu þínu?  Ekki gleyma öllu því fólki sem hefur komið til þín og þakkað þér fyrir það sem þú hefur gert með því að skrifa um hversdagsævintýri þín og sigra.  Það er líka fullt af fólki sem þú hefur áhrif á sem talar aldrei við þig.  Eva ekki láta nokkrar manneskjur brjóta þig niður, þú ert sterk og þú ert sigurveigari í því sem þú tekur þér fyrir hendur ekki satt?

Guðrún Helga (IP-tala skráð) 7.9.2009 kl. 16:43

31 identicon

hæ hæ Eva,

þú ert svo mörgum innblástur og þar með talinni mér. Bara takk ofsalega mikið fyrir gott blogg og vonandi fæ ég að halda áfram að stela hjá þér innblæstri

knús og kveðja,

Helen

Helen einu sinni leigjandi :) (IP-tala skráð) 7.9.2009 kl. 16:58

32 identicon

Mér sýnist þú vera sigurvegari í flestu sem þú tekur þér fyrir hendur og ég er viss um að þú stendur uppi sem sigurvegari í þessu eins og öllu öðru - þú ERT greinilega MÖRGUM MIKIР það sannast best á þeim skrifum til ÞÍN hér  - haltu áfram að vera sigurvegari fyrir þig og okkur hin.

Bestu Kveðjur Inga

Inga (IP-tala skráð) 7.9.2009 kl. 20:44

33 identicon

Elsku Eva,

 ég segi það sama og ein hérna fyrir ofan - ég hef ekki lesið bloggið þitt í svolítinn tíma og skildi fyrst ekki um hvað þessi færsla snérist - enda datt mér ekki í hug að fólk væri enn að velta sér uppúr því sem gerðist í sumar!!!! 

Ég tek enn og aftur ofan fyrir því að þú skyldir láta heyra í þér, um það sem svo margir hugsuðu og furðuðu sig á út í horni ....... og takk fyrir að vera málsvari okkar sem erum þeirrar skoðunar að undarlega hafi verið staðið að í þessu tilviki..... en þorðum ekki að koma athugasemdum á framfæri ("hvað er nýliðinn að ibba sig!!!???").....

Þú átt stuðning minn allan - enda hef ég kynnst því af eigin raun hversu hvetjandi og gefandi þú ert fyrir alla í kringum þig.....og ég efast ekki um að þú komist yfir þennan hjalla, einsog þú hefur gert hingað til.......haltu bara áfram að vera þú - sterk og sönn í því sem þú tekur þér fyrir hendur !!!

ég vona að við fáum að njóta þess áfram að fylgjast með þér og því sem þú tekur þér fyrir hendur í hlaupunum og hjólreiðunum......og öðru sem þér dettur í hug - þú frábæra kona !!

þín vinkona,

Ása Dóra

Ása Dóra (IP-tala skráð) 8.9.2009 kl. 02:35

34 identicon

Þetta er ljótta málið, það hafa allir rétt á að hafa sínar skoðanir. Vona að þetta verði nú ekki til þess að þú hættir að blogga.

kveðja, Hafdís

Hafdís (IP-tala skráð) 8.9.2009 kl. 09:31

35 identicon

Ég vil þakka þér fyrir skemmtilegt og oft áhugavert blogg gegnum tíðina.  Ég hef oft kíkt á síðuna en aldrei kvittað fyrir mig og vil því nota tækifærið og gera það núna.  Ég vona að við hlauparar fáum útrás á hlaupum þannig að við getum þolað hvort öðru mismunandi skoðanir án meiðing.

Geir Atli (IP-tala skráð) 8.9.2009 kl. 12:01

36 identicon

Sæl Eva

Ég þekki þig ekki neitt en mætti á hjólaæfingu hjá þér og Bibbu fyrir nokkrum árum og fór að fylgjast með þér á blogginu svona af og til síðan þá, en hef aldrei kvittað.  Ég hef haft mjög gaman að lesa bloggið hjá þér sérstaklega tvö síðustu ár þar sem að ég hef verið svo til stöðugt ólétt ;) og ekki getað æft né keppt eins og ég hefði vilja og hef ég eiginlega verið að lifa mig í gegnum keppnis reynslu þína og þá sérstaklega í sumar þegar þú hefur verið farin að keppa í hjólreiðum en það er mitt aðal áhugamál.  Ég vil bara þakka þér fyrir að vera ótrúlega hvetjandi og vona að þér gangi vel í framtíðinni það verður leiðinlegt að geta ekki fylgst með þér lengur en vonandi hitti ég þig í einhverjum hjólakeppnum næsta sumar.

Kv. Ása Guðný

Ása Guðný Ásgeirsdóttir (IP-tala skráð) 9.9.2009 kl. 08:17

37 identicon

Sæl,

Ég er ein af leyndu lesendum síðunnar þinnar.

MIg langaði bara að þakka þér fyrir ótrúlega hvetjandi og skemmtilegar færslur.

Ég heyrði líka í þér á fyrirlestri fyrir RM í fyrra og síðan þá hef ég haft "litlu leyndarmálin" þín í huga.

Leiðinlegt að geta ekki sótt innblástur á síðuna þína lengur.

Bestu kveðjur, Greta

Greta (IP-tala skráð) 9.9.2009 kl. 09:06

38 identicon

Hæ hæ Eva

 Ég hef lesið bloggið þitt og Bibbu lengi og finnst mjög gaman og fróðlegt. Ég er farin að hlaupa meira síðustu ár en er alltaf ein þar sem ekki er til hlaupahópur sem fer út kl 06:20 til að hlaupa. Kannski finn ég svoleiðis hóp einhvern timan. En þú hefur gefið mér góð ráð sem hefur komið sér vel. Ekki hætta en já einelti er glatað. Kær kveðja og takk fyrir mig  

Auður Ýr (IP-tala skráð) 11.9.2009 kl. 17:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Eva Margrét Einarsdóttir
Eva Margrét Einarsdóttir

Ætlar að hlaupa styttra og hraðar...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband