Leita í fréttum mbl.is

Hvíld

Er búin að nota síðustu daga aðallega til að safna kröftum.  Þegar við loksins horfðumst í augu við ástandið þá helltist yfir mann ólýsanleg þreyta.  Þreyta sem á ekkert skylt við góða þreytu eftir erfiða keppni, bara svona þreyta sem dregur úr manni allan mátt og alla gleði.  En eftir að allt varð tímabundið miklu verra eftir síðustu færslu, þá fór að mjakast í rétta átt, einstaklingar fóru að ræða málin og finna viðunandi lendingu, þ.e. að sýna hvort öðru virðingu og vinsemd þrátt fyrir skiptar skoðanir.  Langar til að þakka fyrir stuðninginn, ég er fyrir löngu búin að átta mig á því að með því að deila gleðinni þá margfaldast hún og að sama skapi, deili maður sorginni þá verður hún þeim mun léttari að bera. 

Eitt af því sem ég var skömmuð fyrir er að ég sé allt of jákvæð í þessu bloggi mínu, tali aldrei um neitt erfitt eða neikvætt og sé þannig að setja mig á háan hest.  Það er meðvitað hjá mér, hafi fólk áhuga á að lesa eitthvað neikvætt þá er nóg af því í boði annars staðar.  Ég ætla að skrifa um það sem er jákvætt í mínu lífi og já, líka um það hvernig mér finnst að hlutirnir eigi að vera og hvernig manneskja ég vil vera.  Það gefur mér aðhald og hjálpar mér að fókusa á það sem skiptir máli. 

Ég var líka skömmuð fyrir pistla um hitt og þetta sem fólk tók til sín af einhverjum ástæðum og sá sem árásir í sinn garð.  Ég er þannig að ég get heyrt eða séð eitthvað sem kveikir hugmynd og svo mallar hugmyndin í hausnum á mér, mjög oft á hlaupum, þangað til ég sest niður og skrifa það sem mér finnst um málefnið.  Það sem kveikti hugmyndina þarf ekkert endilega að vera það sem ég á endanum skrifa um.  Ég er líka þannig að mér myndi ekki detta í hug að taka til mín eitthvað sem mér finnst ég ekki eiga.  Þess vegna finnst mér ekkert sérstaklega erfitt að fá gagnrýni, ég hugsa málið, reyni að finna út hvað mér raunverulega finnst og annað hvort skipti ég um skoðun eða held mér við mína.  Búið.  Ég get ekki ímyndað mér hversu þreytandi það væri að vera alltaf að spá í hvað einhverjum öðrum finnst um mig, það eina sem skiptir máli er hvað mér og mínum finnst um mig. 

Ég fékk stóra gusu yfir kommentunum sem skrifuð voru við síðustu færslu.  Hvort ég væri virkilega  að halda því fram að öfundsýki væri ástæðan fyrir eineltinu.  Ég held að öfundsýki sé eitt og einelti sé annað, einelti er vísvitandi hegðun til þess gerð að meiða einhvern annan.  Ég held að allir hafi einhvern tímann fundið fyrir öfund, öfundin er hættulegust manni sjálfum. 

Eins fékk ég að heyra það að það væri nú óþolandi að ég hlypi í blöðin um leið og tækifæri gæfist...  Ég hef aldrei nokkurn tíma hringt í blaðamann, þeir hringja í mig.  Yfirleitt er ég alveg til í að rabba við þá, bara gaman en stundum langar mig ekki til þess og þá geri ég það ekki.  Það sem ég er að reyna að segja er að ég get bara borið ábyrgð á mínum orðum, ekki orðum annarra.  Það er sjálfsagt að hafa skoðun á því sem ég segi og geri, ég hef gaman af því, en ekki gera orð annarra að mínum og skamma mig svo fyrir þau.

En nóg um þetta, við erum í góðum málum og farin að skoða næstu áskoranir.  Bibba vinkona mín var búin að hóta að setja inn komment á síðuna um að ég eigi nú að drullast til að hætta að vorkenna mér og fara að blogga aftur.  Hún hefur oftast rétt fyrir sér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir að treysta mér fyrir lykilorðinu þínu, gangi þér allt í haginn

kv gua

Guðrún Egilsdóttir (IP-tala skráð) 14.9.2009 kl. 13:50

2 identicon

Jákvæðir lifa lengur.

Hinir deyja úr leiðindum.
Komaso!

Gisli Asgeirsson (IP-tala skráð) 14.9.2009 kl. 14:55

3 Smámynd: Agga

Hlakka til að heyra hverjar næstu áskoranir verða ... mín næsta áskorun er að ná að drullast upp Rafstöðvarbrekkuna og klára fyrsta Powerade :)

Agga, 15.9.2009 kl. 09:30

4 Smámynd: Eva Margrét Einarsdóttir

Hvernig væri nú að hita upp á fimmtudaginn og taka 5 km hlaupið upp í Árbæ?  Engin brekka, bara eintóm gleði!

Eva Margrét Einarsdóttir, 15.9.2009 kl. 09:51

5 identicon

:)

Bibba (IP-tala skráð) 15.9.2009 kl. 12:39

6 identicon

Takk fyrir að hleypa mér inn.......og takk fyrir alla jákvæðnina í blogginu þínu.....keep it up!!!

Ása Dóra (IP-tala skráð) 23.9.2009 kl. 22:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Eva Margrét Einarsdóttir
Eva Margrét Einarsdóttir

Ætlar að hlaupa styttra og hraðar...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband