Bloggfærslur mánaðarins, október 2008
31.10.2008 | 09:42
Vigtun og annað skemmtilegt
Einn dag í mánuði borða ég engan morgunmat af því að ég er ennþá svo södd... Vigtunardagur í gær og þá er gaman. Prógramm frá hálf sjö um morguninn, til hálf tólf um kvöldið, algjör snilld. Í gær var vigunin líka söguleg, 5 skvísur mættu og mestu frávik voru 800 grömm sem mér finnst alveg magnað.
Fyrir mig persónulega var þetta líka sérstaklega góð vigtun, 0 í frávik en það hefur ekki gerst lengi, eiginlega ekki frá því að ég fór að æfa á fullu fyrir maraþonið í vor. Þá þyngdist ég um 1-2 kíló en ég hef sennilega bara þurft á því að halda í langhlaupunum. Núna er ég farin að hlaupa styttra og hraðar, þarf ekki eins mikinn forða og þá kvöddu þau aftur. Dagurinn í hnotskurn, hnetuvínarbrauð í morgunmat, dýrindis grænmetismáltíð og kaka 'Á grænni grein' í hádeginu og svo veisla hjá Öggu um kvöldið með öllum Vigtunar-/Glennunum. Dásemd!
Þessi vika hefur verið sérstaklega gjöful. Ég fór til vina minna í Asics og þeir leystu mig út með æfingatösku, eyrnabandi og tvennum nýjum skóm til að nota í vetrarfærðinni. Annars vegar voru það Asics Gel Artic skór sem eru negldir! Þvílíkir snilldar skór í hálkunni og svo er hægt að taka gaddana úr ef maður þarf ekki á þeim að halda. Hitt parið var Asics Gel Trail Sensor - Gore Tex skór sem eru fullkomnir í slabbið.
Fórum að sjá Reykjavík-Rotterdam í vikunni, frábær mynd og að mínu mati besta íslenska bíómyndin, BRAVÓ!
Góða helgi!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.10.2008 | 13:18
Uppeldi
Lilja að klóra mömmu sinni á bakinu en það er eitt það besta sem mamma veit... Vel þjálfuð
Svo er hún Lilja líka dugleg í íþróttaskólanum, passar vel uppá Önnu dúkku, hjálpar mömmu að baka og hlustar á tónlist hjá honum pabba sínum...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.10.2008 | 23:01
Okkar dagur
Tókum þátt í hálfmaraþoni/paraþoni í Haustmaraþoninu í dag. Þetta var sannarlega okkar dagur, Þórólfur varð þriðji á 1:26 og ég var fyrst kvenna á 1:31. Saman unnum við Paraþonið en við stefndum að sjálfsögðu leynt og ljóst að því.
Fyrir utan fjóra bikara í hús, fengum við hjónin stitt hvora töskuna í úrdráttarverðlaun og síðast en ekki síst að njóta dagsins með skemmtilegasta fólki í heimi, öðrum hlaupurum. Stundum trúi ég eiginlega ekki hvað við erum ótrúlega rík, en á dögum sem þessum þá er ekki þverfótað fyrir merkjum um það. 'Áfram Eva', 'Flott hjá ykkur' og ég tala nú ekki um öll brosin og knúsin sem við fengum í dag, ómetanlegt.
Afi Þór stóð vaktina með hana Lilju á meðan við hlupum og það var æðislegt að fá litla krúttið okkar í fangið í markinu. Stóri strákurinn okkar var fjarri góðu gamni í sumó með vini sínum, heyrði í honum áðan og það er: 'Geðveikt gaman'. Til þess að fullkomna hlaupaþema dagsins horfðum við gömlu hjónin á - Run fat boy, run - hérna rétt áðan. Enn einn góður dagur í safnið, erum orðin frekar framlág, over and out.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
24.10.2008 | 11:29
Vinningar vikunnar
Í þessari viku gerðist margt gott, t.d.:
- Ég fékk vinnu í Nýja Glitni, fæ nýja tölvu og nýjan skjá heim (já, já, tövufólkið átti ekki tölvu heima hjá sér)
- Við unnum 5000 krónur í Happadrætti Háskólans
- Fékk tvo frímiða á Reykjavík Rotterdam
- Í kvöld förum við á Fló á skinni, fengum miðana í jólagjöf í fyrra og pössun fylgdi með!
- Notaði inneign í Álafossbúðinni (vinningur úr Áfosshlaupinu) til að kaupa garn í geggjaða peysu sem ég hlakka til að fara að prjóna
- Fórum með fullt af flöskum/dósum sem við fáum úr vinnunni/fjölsk og nágrönnum í Sorpu . Sorpusjóðurinn er að nálgast 15.000,- (nýir skvísuskór???)
- Fékk vinkonur mínar úr Nobex í kaffi í eftir vinnu, hef ekki séð þær allt of lengi og önnur þeirra var með sprelllifandi gleðifréttir, víííí...
- Fékk mömmu mína í litun og plokkun sem þýðir nátturulega bara gæðastund og knús
- Pabbi bauð mér á kaffihús í gær, tvöfaldur Kaffi Latte og Moonstykki, mmmmm. Fékk svo nesti með heim handa fólkinu mínu!
- Unnum stóra vinninginn í Lottóinu (æ ruglaðist, það er á morgun)
Góða helgi!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
23.10.2008 | 13:22
Brauðraunir
Það fór illa fyrir gömlu hagsýnu bakarakonunni í vikunni. Á mánudaginn bakaði ég eins og venjulega tvö All Bran brauð. Það var eitthvað voða mikið að gerast hjá okkur á sama tíma, krakkarnir á fullu og gestir og þegar ég tek brauðin út úr ofninum, ilmandi og fín tek ég eftir því að þau eru eitthvað aðeins öðruvísi en venjulega. Læt þau kólna og svo þegar ég ætla að skera þau í tvennt, þá kemur í ljós að þau eru ekkert bökuð nema rétt að utan...
Ég hélt nú helst að ég hefði bara verið svo utan við mig að ég hefði óvart tekið þau út eftir hálftíma en ekki einn og hálfan tíma. Taka tvö á þriðjudaginn og passaði uppá allar stillingar og tímann. Nákvæmlega sama sagan aftur!!! Fallega bökuð að utan, drulluklessa að inna og brauð númer 3 0g 4 í ruslið.
Ofninn er sem sagt búin að gefa sig á öllum kreppubakstrinum. Sem betur fer er hann ennþá í ábyrgð og ég á von á viðgerðarmanni í fyrramálið. Þangað til verður bara vatn, ekkert brauð, verð orðin hel köttuð á laugardaginn... .
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.10.2008 | 12:32
Snilld!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.10.2008 | 09:53
Björt framtíð
Nú er ég glöð að hafa harkað af mér á Laugaveginum, það verður ekki frá mér tekið!!!
En nóg af drama, hún Sibba gerði sér lítið fyrir í Amsterdam og smeygði sér fram fyrir mig á ársbesta í maraþoni. Eftir pínu, oggulítið svekkelsi þá er ég bara stolt af stelpunni, hún hljóp þetta eftir bókinni og ég óska henni hjartanlega til hamingju með árangurinn. Fyrir utan að vera frábær íþróttakona þá er Sibba fyrirmynd sem gefur manni von um að eiga möguleika á að bæta sig næstu 10 - 15 árin, en hún varð fimmtug á árinu. Respect!
Af mér er það helst að frétta að stemmningin í víddinni milli gamla og nýja Glitnis er orðin frekar súr og það eru miklar væntingar hérna um að fá fast land undir fæturnar í dag. Maðurinn minn er farin að sakna gömlu geðgóðu konunnar sinnar .
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.10.2008 | 21:48
Tvíþraut í Heiðmörk
Búin að vera á báðum áttum hvort ég ætti að taka þátt í Haust Tvíþrautinni í Heiðmörk. Ég hef alltaf verið með þegar ég hef haft tækifæri en núna var ég meira að hugsa um að spara mig fyrir næstu helgi. Það er ekki einleikið hvað það hefur alltaf verið brjálað veður í bæði vor og haust tvíþrautunum, man ekki eftir þessu öðruvísi en að berjast við hífandi rok, úrhellis rigningu og í versta falli glerhálku á brautinni. Þegar ég vaknaði í blíðunni í morgun var bara ekki annað hægt en að vera með, maður veit ekkert hvað gerist á morgun hvort eð er...
Eftir að hafa áður upplifað skelfinguna við að hljóla á harðakani á svelli þá þorði ég ekki annað en að henda nagladekkjunum undir hjólið. Tengdapabbi kom og passaði krakkana og ég brunaði upp í Heiðmörk.
Brautin er þannig að það eru hlaupnir 3,74 km, hjólaðir 14,5 km og svo hlaupið 3,74 aftur. Bæði hlaupahringurinn og hjólahringurinn er farinn tvisvar í hvert sinn.
Þrautin gekk í alla staði vel, skokkaði þetta létt fyrri hringina. Var ekkert að stressa mig í skiptingunum og hjólaði rólega af stað, lærði af fyrri reynslu. Ég var 6. eftir hlaupið og hélt hreinu fyrri hringinn á hjólinu en á seinni hringnum voru tveir hjólarar sem náðu mér. Ég náði þeim svo aftur á hlaupunum og hélt 6. sætinu af öllum, var fyrst kvenna eða fyrri því það eru bara allra mestu naglarnir sem þora í svona keppni (skammist ykkar stelpur þarna úti sem þorðu ekki/nenntu ekki að mæta!). Hérna eru úrslitin!
Tók saman tímana úr fyrri tvíþrautum sem ég hef tekið þátt í:
Hlaup | T1 | Hjól | T2 | Hlaup | Heildartími | |
Haust 2005 | 00:19:55 | 00:01:17 | 01:06:20 | 00:00:46 | 00:11:31 | 01:39:49 |
Vor 2006 | 00:16:59 | 00:00:27 | 00:46:48 | 00:00:06 | 00:17:44 | 01:22:04 |
Vor 2007 | 00:08:10 | 00:00:38 | 00:19:15 | 00:00:27 | 00:08:52 | 00:37:22 |
Haust 2008 | 00:16:28 | 00:41:08 | 00:16:48 | 01:14:24 |
Árið 2005 var brautin aðeins öðruvísi, hlaupið 4,5 km, hjólað 17,5 km og hlaupið 2,5 km. Vorið 2007 tók ég bara hálfa þraut, enda nýborin... Í þetta sinn var ekki haldið utan um skiptitímann, hann er inní hjól og hlaupatíma.
Bloggar | Breytt 20.10.2008 kl. 09:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.10.2008 | 08:51
Kanntu brauð að baka...
Ég lærði að baka All-Bran brauð fyrir einhverjum grilljónum ára, í einhverju aðhaldinu. Ég er búin að baka þetta brauð regluglega í gegnum árin, svona u.þ.b. einu sinni í viku með einhverjum smá hléum. Á tímabili skipti ég út rúsínunum og apríkósunum fyrir banana. Hérna er uppskriftin:
All Bran Brauð frá Lindu
- 3 Bollar All Bran
- 3 Bollar Fjörmjólk
- 3 Msk Hunang
- 1 Bolli Púðursykur (voru 3 í upprunalegri uppskrift)
- 200 grömm rúsínur og þurrkaðar apríkósur í bland, smátt niðurskorið (hægt að nota stappaða banana i staðinn)
Læt þetta standa í smá stund meðan ég kveiki á ofninum 180° og smyr 2 brauðform, svo að All Branið verði mjúkt. Bæti svo í skálina:
- 3 Bollar hveiti (nota stundum heilhveiti)
- 3 Tsk lyftiduft
- 1 og 1/2 Tsk salt
Set í tvö brauðform og baka í 30 mínútur á 180°, lækka síðan hitann í 150° og baka í 60 mínútur í viðbót.
Þegar brauðin eru tilbúin sker ég þau í tvennt og hendi í frysti og tek þau svo bara út jafnóðum. Fyrir utan að vera svakalega góð og holl þá getur maður slegið í gegn og hent svona brauði í vinkonur sínar þegar þær skutla manni heim af æfingu .
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.10.2008 | 10:21
In the twilight zone...
Sem betur fer hef ég nóg fyrir stafni í víddinni milli gamla og nýja vinnustaðarins...
Lilja litla er búin að liggja í flensu alla vikuna. Þórólfur fór með hana á læknavaktina í gær til að athuga hvort hún væri kannski komin með í eyrun, en nei hún er bara lasin og jafnar sig með tíma. Hún er voðalega lítil í sér og vill helst vera í fanginu á manni ALLTAF...
Meðan litli sjúklingurinn sefur þá prjóna ég og nú er ég búin að klára lopapeysu fyrir mig. Ég átti soldinn lopa afgangs eftir peysuna hans Þórólfs og maður má ekki sjá neitt fara til spillis þessa dagana...
Já og svo var það Selfoss. Ég lagði snemma í hann úr vinnunni svo ég gæti tekið því rólega yfir heiðina. Það var leiðindaveður og slydda á leiðinni austur. Ég læddist þetta bara, hlustaði á Gufuna, mjög róandi. Fór beint í sundlaugina, í hlaupagallann og tók tempóæfinguna mína í mígandi rigningu. Ég man bara ekki eftir að hafa hlaupið í svona miklu úrhelli! Eftir hlaup hitti ég Sigmund járnkarl og gat óskað honum til hamingju með sitt afrek, en ég hafði einmitt lesið frásögnina hans á hlaup.is um morguninn. Ég hafði ennþá nógan tíma og lagðist í heita pottinn og slakaði á fyrir kvöldið. Náði meira að segja kaffisopa hjá Elfu vinkonu áður en ég mætti á Hótel Selfoss.
Það sem ég tek með mér frá svona kvöldi er hvað það er mikilvægt að eiga góða félaga. Þarna var hópur manna og kvenna sem hittist, spjallar saman um allt mögulegt, borðar saman góðan mat, fræðist og vinnur í því að láta gott af sér leiða. Fyrirlesturinn tókst vel og þetta verður auðveldara og markvissara með þjálfun (hmmm hljómar kunnuglega). Hafi ég getað skilið eitthvað eftir hjá þeim, þá tók ég jafn mikið með mér. Frábær kvöldstund í frábærum félagsskap.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Tenglar
Skapandi skrif
- Gjöfin Gjöfin
- Litlu leyndarmálin Litlu leyndarmálin
Hitt og þetta...
- Fyrir myndir... Einu sinni var
- Afrekin mín Þetta getur maður...
- Afrekin hans Þórólfs Þetta getur kallinn...
- Afrekin hans Gabríels Þetta getur guttinn...
- Afrekin hennar Lilju Afrekin hennar Lilju
- VO2 MAX Mæling í þrekprófi - Apríl 2006
- Gamla bloggið mitt Í denn...
Hlaup
- Búdapest Maraþon 2003 Fyrsta maraþonið mitt
- Laugavegurinn 2005
- Reykjavíkur Maraþon 2005 Annað maraþonið mitt...
- Glitnir Copenhagen Marathon 2008
- Laugavegurinn 2008 Laugavegurinn 2008
- Almost Famous
- Viðtal í 24 Stundum Viðtal í 24 Stundum
- Viðtal í Fréttablaðinu Viðtal í Fréttablaðinu
Þríþraut
- Ultra IronMan ÞRÍH Ultra IronMan ÞRÍH
- Þríþrautafélag Reykjavíkur Þríþrautafélag Reykjavíkur
Hinir...
vitleysingarnir...
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar