Leita í fréttum mbl.is

Í myndum :)

2009 04 Símamyndir


Við mæðginin

Í dag er "Börnin í vinnuna" dagur hjá mér.  Gabríel kom til mín í hádeginu og hérna var boðið upp á pizzur og ís og svo verður skúffukaka í kaffinu.  Krakkarnir fá að rápa um hjá okkur og skoða vinnustað foreldranna og svo verður bíó í matsalnum.

En það er bara byrjunin.  Í fyrra vann ég nótt á Hótel Keflavík í Reykjanesmaraþoninu og ég ætla að bjóða syni mínum í skemmtiferð til Keflavíkur, bara við tvö.  Við leggjum af stað eftir kaffi og komum okkur fyrir á hótelinu.  Við ætlum svo bara að slæpast saman, fara út að borða, skella okkur í bíó í kvöld og ætli við byrjum ekki morgundaginn á að kíkja í ræktina.  Þvílík sæla að fá mömmu alveg út af fyrir sig og losna við litla dýrið í smá stund...  

Ég er náttúrulega líka þvílíkt ánægð með að fá að hanga með syni mínum, geri mér alveg grein fyrir því að tíminn flýgur og áður en langt um líður verður það ekki mest spennandi í heimi að vera með mömmu sinni.   Carpe Diem Joyful.


Get ekki hætt...

...að hjóla!  Fór í ræktina í morgun og tók klukkutíma á hjólinu.  Ég fann í gær á hlaupunum að ég er ekki að fara á fullt einn, tveir og þrír og þá er gott að hafa þetta svona í bland.  Fátt er svo með öllu illt, hvað haldiði?  Ég var svo mikið að hugsa um að koma mér í lag að ég er búin að fara tvisvar á dag í ræktina og voilà... ég sé kílóið mitt!!!  


2:35:51

Hugurinn hefur verið hjá félögum okkar sem tókust á við maraþon í dag, annars vegar hjá honum Bigga í París og hins vegar hjá Steini í Þýskalandi.  Það skiptast á skin og skúrir í þessum heimi, þeir hafa báðir æft ótrúlega vel og ekkert smá gaman að fylgjast með þeim í undirbúningnum.  Steinn hefur greinilega þurft að hætta keppni sem er bara sárgrætilegt. 

Lítur út fyrir að allt hafi gengið eins og í sögu hjá honum Bigga, tíminn 2:35:51 sem er 9. besti tími Íslendings frá upphafi og besti tíminn síðustu 10 ár, ótrúlega flott!

Hjartanlega til hamingju Biggi!


Ég fékk vísu líka!

Aldrei of seint að biðja...   Meðan aðrir hlaupa apríl yrkir ritstjórn Málbeinsins níðvísur um fólk.   

Galla finnur öllu á
aldrei brosað getur
Enginn virðist Evu þrá
eftir þennan vetur.


Ný vika

Síðasta vika var að mörgu leyti óvenjuleg en líka mjög skemmtileg og viðburðarrík.  Ég fékk mikil viðbrögð við greininni í Vikunni og fyrir mig var þetta jákvæð reynsla sem ég lærði heilmikið af og sé ekki eftir.

Framkvæmdunum á heimilinu lauk í gær og þá fluttum við aftur heim (eftir aðra lotu) frá mömmu og pabba.  Í þetta sinn var sambýlið enn nánara þar sem við bjuggum öll í kjallaranum því nú er verið að taka efri hæðina hjá þeim í gegn.  Farvell sérútbúni hafragrautur og sjálfvirki fataþvottur...

Annað sem var óvenjulegt var að ég hljóp ekki neitt þessa vikuna en í staðinn var ég dugleg að fara í Laugar á stigvélina og að hjóla.  Síðustu 11 daga er ég búin að stíga tæplega 70 km og hjóla rúmlega 150 km, kemur sér vel fyrir tví/þríþrautir framundan!  

Á þessari inniveru minni er ég búin að horfa á fullt af skemmtilegum þáttum en það sem stendur upp úr er að á laugardaginn hlustaði ég í fyrsta sinn á Simma og Jóa.  Vá hvað þeir eru hrikalega fyndnir!!!  Ég skellti uppúr oftar en einu sinni og nú er málið að ná sér í nokkra þætti á iPodinn, þvílíkir snillingar.

Fór í sjúkraþjálfun hjá Rúnari í gær og eftir pot, nudd og nokkrar stungur þá var ég útskrifuð, betri en ný og bila aldrei (aftur).  Má fara að hlaupa á laugardaginn, bíð með spretti í viku en má hlaupa eins langt og mig langar, jeeehawww...


Töff

Eða þannig...  Fór í ræktina í morgun og svo beint í nudd hjá honum Guðbrandi.  Eins og venjulega skottast ég á klóið áður en tíminn byrjar.  Setti símann minn á vaskinn og þegar ég er að fara að ná mér í handþurrkur, rekst ég í símann, reyni að grípa hann í loftinu, tekst ekki og blúbbbsss....  Beint ofan í klósettið!

Þetta er flottur Blackberry sími sem ég var ekki alveg til í að sturta niður (þó þetta sé vinnusími) og þá var ekkert annað að gera en bretta upp ermar Blush.

Eftir rækilegan hand/handleggs og símaþvott, þurrkun með hárþurrku og tveggja tíma dvöl á ofninum virðist hann samt vera búin að syngja sitt síðasta þrátt fyrir þetta frækilega björgunarafrek...  

Hugga mig við það að mér hefur tekist að skemmta ansi mörgum í vinnunni í dag; "Eva..., Eva..., segðu þeim hvað gerðist við símann þinn, hahahhahaha...."


Vikan

Það á eitthvað svo einstaklega vel við að fá þær fréttir að ég þyrfti að hafa það huggulegt í eina viku, þar sem ég var með nýjasta eintakið af Vikunni falið ofaní tösku hjá mér...

Prófaði að hlaupa pínulítið í hádeginu í dag og lærið var alls ekki að gera sig.  Hringdi í Rúnar sjúkraþjálfara og fékk í fyrsta lagi tíma á þriðjudaginn í næstu viku.  Bað um að láta hóa í mig ef eitthvað losnaði og klukkutíma síðar fékk ég símtal, mátti koma strax. 

Greiningin:  Ég hef tognað aðeins efst í lærinu/rassinum við að húsgagnalyftingar.  Af því að ég fann aðeins fyrir því á hlaupum þá fór ég að reyna að hlífa mér og hlaupa eitthvað asnalega sem hafði þær afleiðingar að ég fékk þennan fína streng frá rassi niður í hnésbót.  Rúnar hamaðist á mér eins og honum væri borgað fyrir það (ehhhh... ) og skildi mig svo eftir á bekknum eins og nálapúða, sagði mér að slaka á...  Má ekki hlaupa í viku en öll önnur hreyfing sem ekki hefur sársauka í för með sér er í fínu lagi.  Teygja og fara í nudd og bara bing þá verð ég eins og ný.

Í gær hjólaði ég í klukkutíma og í morgun kíkti ég aftur á stigvélina í hálftíma.  Ég finn lappirnar styrkjast með hverjum deginum, held þessi cross training geri mér ekkert nema gott.  Og mér finnst þetta ekkert leiðinlegt, í alvöru!  Ætla líka loksins að finna mér yoga tíma, gef mér aldrei tíma í það þegar ég er að hlaupa. 

Þegar ég er inní Laugum svona dag eftir dag þá nota ég líka tækifærið að gera upphífingar.  Það er skemmtilegast þegar einhverjir guttar eru nýbúnir að gera 5 eða 10 alveg að drepast.  Bið þá aðeins að leyfa mér að komast að, fæ svona: æ, æ, hvað heldur kerlingin að hún geti svip.  Geri svo að minnsta kosti 20 Devil


Hætt að hlaupa?

Vinkona mín í vinnunni tók á móti mér á mánudagsmorgun með áhyggjusvip.  'Ertu hætt að hlaupa?'    Ég var örugglega mjög skrýtin á svipinn, ehhhh ég hljóp ekkert í gær en nei ég ekki HÆTT að hlaupa.  Hún hafði lesið í hlaupadagbókinni að ég væri komin í hlaupapásu út af strengnum í lærinu.  Ég var fljót að leiðrétta misskilninginn, ég er að tala um hlaupapásu í dögum talið, kannski 3-4 dagar.

Á fimmtudaginn fann ég smá tak í lærinu, sennilega eftir að hafa lyft einhverju þungu heima hjá mér í flutningunum.  Á föstudaginn skokkaði ég smá hring og fannst ég ekki verri.  Á laugardaginn fann ég aftur á móti verulega fyrir lærinu á æfingu og endaði með því að eftir 14 km þurfti ég að labba síðasta km heim. 

Sjálfsmeðferðin felst í hita/kæla lærið, 3 íbúfen á dag í 3 daga og engin hlaup þangað til að ég er algjörlega laus við strenginn.  Ég er búin að endurnýja kynni mín við stigvélar og við erum komin í gott daglegt samband, er betri með hverjum deginum sem líður.

Fátt er svo með öllu illt...   Strákarnir í vinnunni eru svakalega glaðir með þetta, þeir sjá gullið tækifæri til að taka mig í nefið í hlaupamagni í vikunni.  Svo gaman að gleðja aðra... Joyful.


Rán?

Í vikunni dreif ég mig loksins í að hjálpa Przemek og Karolinu að skila skattskýrslunum sínum.  Þegar ég var að fara yfir pappírana þeirra, sá ég að þau höfðu á tímabili verið að greiða í séreignalífeyrissjóð.  Ég fór að spyrja þau út í hvers vegna í ósköpunum þau höfðu verið að því, þau sem ætla sér ekki að vera hérna til frambúðar og þá kom í ljós að þau höfðu bara ekki vitað betur, atvinnurekandinn sá um alla pappíra þegar þau komu fyrst hingað og þau kunnu náttúrulega ekkert á kerfið og tungumálalaus í ofanálag.  Þau hættu svo að láta draga þetta af sér um leið og þeim var bent á að það væri óþarfi og óskynsamlegt í þeirra tilfelli.

Ég var nú aldeilis ánægð að upplýsa þau um það að nú væru komin ný lög á Íslandi þannig að þau gætu leyst út þessa aura sína, ég skyldi með glöðu geði aðstoða þau við það, jamm það hélt ég nú.  Á launaseðlinum sá ég að lífeyrissjóðurinn hét Vista.  Ég fann út að þetta er sjóður á vegum Kaupþings og hringdi í gær til að fá að vita hversu mikið þau ættu inni og hvernig ætti að sækja um endurgreiðslu hjá þeim.

'Sko málið er að þau hafa bara borgað í 6 mánuði og fyrstu 2 mánuðirnir fara í bónusgreiðslu sem þú færð borgað út við sextugt ef þú heldur áfram að greiða í alla vega 6 mánuði.  Næstu 4 mánuðir fara í kostnað svo þau eiga nákvæmlega ekkert inni hjá okkur.'

Ha?

'Já ég myndi sko ráðleggja þeim að borga alla vega tvær greiðslur í viðbót, þá myndu þau geta fengið bónusgreiðsluna þegar þau verða sextug'.

Ég spurði konuna hvort hún væri í alvöru að ráðleggja þeim að borga tvær greiðslur í viðbót í sjóðinn til þess að fá tvær greiðslur endurgreiddar eftir 35 ár??? 

'Já annars fá þau sko ekkert'.

Ég sagði konunni að mér fyndist þessi ráðgjöf jaðra við dónaskap og mér fyndist að hún ætti eiginlega að skammast sín að láta þetta út úr sér og bað hana vel að lifa.  Í alvöru talað, er þetta hægt?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Eva Margrét Einarsdóttir
Eva Margrét Einarsdóttir

Ætlar að hlaupa styttra og hraðar...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband