Leita í fréttum mbl.is

Hótel Mamma

Hef gaman af því að segja frá því að ég sé flutt til mömmu...  Fólk verður eins og spurningarmerki í framan, thí hí.  En það er allt í góðu, við erum sko öll flutt heim til mömmu og pabba.  Vorum að láta slípa og lakka hjá okkur parketið á stofu og borðstofu og mála allt saman.  Þurftum þess vegna að flytja öll húsgögnin inn í herbergin okkar.  Það er orðið alveg svakalega fínt hjá okkur núna og við flytjum, með örlitlum trega þó, aftur heim á eftir.

Á Hótel Mömmu er maður vakin með smá blístri niður ganginn.  Þegar maður er búin að skottast í sturtu bíður eftir manni sjóðandi heitur hafragrautur, annars vegar með miklu salti og hins vegar með litlu salti fyrir prinsessuna (mig sum sé...).  Verði flík óhrein á Hótel Mömmu þá hverfur hún í tvo - þrjá tíma og birtist svo aftur, tandurhrein og fín.  Á Hótel Mömmu þarf maður ekkert að spá í barnapössun þegar manni langar að skottast út í hlaupatúr eða ef maður þarf eitthvað að útrétta.  Í rauninni er það eina sem maður þarf að passa að vera komin heim rétt um sex til að verða ekki of seinn í kvöldmatinn sem boðið er uppá, alveg gratís.  Get alveg ímyndað mér að svona hafi fjölskyldulífið verið í gamla daga, afi, amma, pabbi, mamma og krakkarnir...

En það er nú líka gott að komast heim til sín, sem betur fer.  Smá vandamál að nú þegar allt er orðið svona fínt hjá okkur þá er soldið erfitt að fara með gamla ljóta sófann, túbu sjónvarpið o.s.frv. inn í stofu aftur.  En við ætlum ekkert að vera neitt 2007, um leið og krakkarnir eru komnir í sófann þá er hann orðin flottasti sófi í heimi Grin.


Powerade slemma

Hélt ég yrði ekki eldri þegar nafnið mitt var lesið upp fyrir fyrsta sætið í mínum flokki í Powerade.  Af því ég missti úr eitt hlaup og keppinautur minn í flokknum hafði mætt í öll hlaupin þá var ég alveg með það á tæru að ég væri í öðru sæti.  Kom á daginn að hún missti úr síðasta hlaupið og þá var sigurinn minn, óvænt og gaman.  Þórólfur tók sinn flokk líka svo það var heldur betur kátt í höllinni.

Powerade 2009

37:40

Síðasta Powerade hlaupið í bili, alltaf sama góða tilfinningin að klára eitthvað sem maður hefur byrjað á.  Sigurvegari hlaupsins í mínum huga er án vafa MAÐURINN MINN, sem uppskar eins og hann sáði og setti pb í 10 km hlaupi á tímanum 37:40, hálfrar mínútu bæting.  Glaðari mann og stoltari eiginkona eru erfitt að finna!  Það er svoooo gaman að sjá hvað þessar æfingar sem við erum að taka eru skila miklu og við höldum inní næstu æfingalotu full eftirvæntingar, gaman, gaman! 

Ég var bara mjög sátt við mitt hlaup, var algjörlega eftir plani fystu 9 km og endaði á 43 mín.  Hefði viljað vera svona 20 sek hraðari með síðasta km en eins og vitur maður sagði eitt sinn;  "Betra er að hægja á sér en að hægja sér í keppnishlaupi" Blush.

 


Hroki og hleypidómar

Enn einu sinni var ég rækilega minnt á það að stærsta og verðugasta verkefnið sem snýr að sjálfri mér hér í lífinu, er að eiga við átfíkilinn í sjálfri mér.  Að takast á við tímabundnar áskoranir, Maraþon, Laugavegur eða hvað það nú heitir, er leikur einn miðað við þetta lífstíðarverkefni.  Ég á löng, góð tímabil nú til dags þar sem ég er í góðri rútínu og allt í góðu jafnvægi.  Stundum á ég svo löng, góð tímabil að ég trúi því að þetta sé bara ekkert mál, ég sé búin að sigrast á ofætunni, sé læknuð!

Döhhhh, það eru tvær vikur síðan ég henti fram yfirlýsingu í hálfkæringi um að nú myndi ég 'kveðja' (með tón) langhlauparakílólið mitt, bara svona eins og ekkert sé.  Síðan þá er ég búin að þyngjast um tvö kíló!!!  Eins og algjör njóli fór ég nánast í 'megrun' sem er náttúrulega það heimskulegasta sem ég gat gert, hætti að borða smjör og fór í að narta í þurrt hrökkbrauð milli mála.  Á sama tíma er ég að auka álagið í hlaupunum, taka erfiðar sprettæfingar til að auka hraðann.  Þetta gengur náttúrulega engan veginn saman og gat ekki endað nema með fyrrgreindum afleiðingum. 

En ég er eldri en tvævetra í baráttunni og hvað gerir maður þegar maður fer út af sporinu?  Maður horfist í augu við staðreyndir, hysjar upp um sig og heldur áfram.


Góðan daginn strákar!

Alveg spurning um að tékka á Dr. 90210.  Við Oddur skokkuðum hádegisrúntinn okkar í dag að venju og mættum eldri manni sem er alltaf á vappinu en ekkert mikið fyrir að heilsa.  Í dag heilsaði hann okkur aldrei þessu vant með virktum: "Góðann daginn strákar!".  Humfnnnn...

Annars er kvef og eymingjaskapur vonandi á undanhaldi.  Bóndinn er með svipuna á lofti og tekur hlutverk sitt sem þjálfara afar alvarlega.  Á morgun eru það 5 km og þá fæ ég að hlaupa 'no faster than 19:10 (jeiii...)  - no slower than 19:55. 

Update: Ég hef alltaf haldið því fram að ég sé óvenju hlýðin og góð eiginkona.  Eftir vinnu í dag, 5 km @ 3:58 pace = 19:50  LoL


Nýr mánuður

Enn ein sprettæfingin í dag og nú voru það 6 * 1000 m á 15.  Ég er að gíra mig upp í þessum sub hring, venja líkamann á meiri hraða.  Ég er að ráða mjög vel við þessar æfingar, er með hálfgert samviskubit að finna ekki meira fyrir þessu en næsti hringur á subbinu verður örugglega meira krefjandi.

Febrúar var bæði góður og erfiður mánuður hjá okkur, góðu stundirnar standa upp úr og hér eru nokkrar sem festust á filmu.  Svipmyndir frá konudeginum en strákarnir mínir komu mér á óvart með því að bjóða upp á Sushi veislu með öllu tilheyrandi, jeiiii!

Konudagur

Og svo er það sitt lítið af hverju:

Febrúar


Mission accomplished

Ég hafði um tvennt spennandi að velja eftir vinnu í dag.  Annars vegar að taka þátt í inniþríþraut í Laugum og hins vega að takast  á við erfiðustu æfingu sem ég hef 'lent í' aftur. 

Það voru nokkrar ástæður fyrir að ég valdi seinni kostinn.  Fyrst ber að nefna að það á alls ekki vel við mig að mistakast eitthvað þegar ég einu sinni hef ákveðið að gera það.  Í síðustu viku dru...... ég alveg upp á bak í þessari æfingu og þurfti að hætta með skottið á milli lappanna.  Svo er hann Gabríel minn að fara í sína fyrstu langferð 'ALEINN' með öllum fótboltafélögunum í fyrramálið til Akureyrar og ég fæ ekki að sjá hann aftur fyrr en á mánudagskvöldið.  Þá er náttúrulega must að eiga kósýkvöld í kvöld með honum.  Að lokum þá er ég haldin einhverri sundlauga fóbíu þessar vikurnar, ekki það að ég vilji ekki synda eða skella mér í heita pottinn, en tilhugsunin um að lufsast og bíða hríðskjálfandi í sundlaug er bara ekki að gera neitt fyrir mig.  Er líka að berjast við þessa 'ekki löngun' þegar Lilja lús er í barnasundinu og pabbi hennar hefur tekið það að sér síðustu vikur, brrrr....   

Sem sagt, eftir vinnu voru það brekkusprettir dauðans á bretti í Laugum.  Æfingin er svohljóðandi:  Upphitun - 3 * 3 mínútur á 10 km keppnishraða í 4° halla - 3 til 4 mínútur hvíld í 1° halla á milli - Niðurskokk.  Hjá mér voru sprettirnir á 14,5 og hvíldin á 9.

Í síðustu viku hélt ég út 1 mín í fyrsta, 1 mín í næsta og 1 1/2 m í þriðja og var algjörlega búin eftir þetta, reyndar var hvíldin líka í 4° halla þá sem var bara alls engin hvíld.  Í dag gekk þetta betur og ég kláraði æfinguna.  Í fyrsta sprettinum hugsaði ég nú samt með mér að ég myndi bara taka 3 - 2 - 1 mín.  Í öðrum sprettinum var ég komin á að taka 3 - 3 -2.  Þegar ég var hálfnuð með þriðja þá kom bara ekki til greina annað en að klára þetta.  Hrikalega erfitt en jafn hrikalega gaman að geta klárað.  Tek fjóra næst Grin.


Vönduð vinnubrögð?

Áður en ég var ráðin hjá bankanum var farið yfir öll mín fjármál og gengið úr skugga um að þar væri allt í sómanum.  Það eru stöðluð og viðurkennd vinnubrögð í ráðningarferli starfsmanna í fjármálastofnunum.  N.b. það var ekki verið að ráða mig í æðstu stöðu bankans (ekki í það skiptið... Tounge ). 

Sorry, en ég get ekki annað en flissað (eða snökkt...) þegar maður í einni æðstu stöðu þjóðfélagsins, sem þekktur er fyrir gagnrýni sína á óvönduð vinnubrögð annarra, er eins og kleina í framan og segir að það vildi bara enginn annar starfið og hann kannaðist við kauða frá því í gamla daga...

Rétt eins og þegar æðsti ráðamaður landsins var gripinn með pilsið á hælunum og dæmdur fyrir brot á stjórnsýslulögum.  Þá var skýringin að viðkomandi sem beittur hafði verið þessum órétti, hefði verið algjör frekja og þess vegna væri réttlætanlegt brjóta á honum. 

Ja svei mér þá, þetta eru áhugaverðir tímar sem við lifum á.


Langhlauparakílóið kvatt

Nú er tími til kominn að losa sig við langhlauparakílóið!  Það er nefnilega þannig að kílóið mitt (62) var hugsað út frá því að vera akkúrat hæfilegt til að geta hlaupið svaka hratt, ekkert aukadrasl að drattast með en nægir vöðvar.  Þegar ég fór að æfa fyrir Köben í fyrra þá hoppaði á mig eitt aukakíló, sem ég leit á sem langhlauparakílóið mitt.  Aukaforðinn til að komast 30+ km með sóma.  Svo var það einhvern veginn þannig að það hélt bara áfram að vera á sínum stað þrátt fyrir ég væri ekkert að fara að hlaupa langt.  Þ.e. nema einu sinni í mánuði þegar nálgaðist vigtun, þá var því ýtt til hliðar í nokkra dag og svo kom það bara aftur.  Meðan ég var enn að hugsa um að hlaupa Laugaveginn var það líka svo sem ekkert fyrir mér.  En nú er mál að linni, ekki dugar að vera með langhlauparakílóið í eftirdragi lengur.  Sendi frá mér fréttatilkynningu þegar ég hef verið á kílóinu mínu í 10 daga í röð (annars er ekkert að marka).

Sprettæfing á eftir: 5 * 2 km sprettir dauðans á 14,5 - Bring it on! 

P.s. Gekk eins og í sögu sem þýðir að næst verða þeir teknir á 15.


Þvílík hamingja, gamli garmur

Svei mér þá ef ég secretaði þetta ekki.  Alla vega þá varð ég fyrir því óláni síðasta haust að missa gamla góða Garmin 301 niður af handriðinu á útitröppunum með þeim afleiðingum að hann brotnaði.  Ég fór á stúfana að ná mér í nýjan Garm og þann nýjasta og flottasta á markaðnum, Garmin 405 með snertiskífu og þráðlausum gagnaflutningi! 

OMG þvílíkt crap tæki!

  • Það er ekki hægt að slökkva á honum
  • Batteríið dugar ekki nema í ca. 6 tíma
  • Það er ekki hægt að fara á milli valmynda ef maður er í hönskum
  • Það þarf að strjúka og klappa honum svona u.þ.b. 20 sinnum til að fara á milli íþróttagreina
  • Maður sér bara einn lap í einu í History
  • Maður lendir óteljandi sinnum í því að fara óvart á milli valmynda v/snertiskífunnar
  • Batterí að klársast aðvörunin er yfir allan skjáinn svo maður getur örugglega ekki séð tímann
  • O.s.frv....

Nema hvað allt í einu hætti ljósið að virka hjá mér.  Hann er enn í ábyrgð og ég fór með hann í Garmin búðina og sagði strákunum þar í leiðinni skoðun mína á gripnum.  Nema hvað, þeir hringdu í mig samdægurs og sögðu að það væri ekki hægt að laga þetta og ég gæti komið og náð í nýjan.  'Má ég skipta?'.  Ekki málið og nú er gamla konan alsæl, komin með Garmin 305 og brosir hringinn Grin.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Eva Margrét Einarsdóttir
Eva Margrét Einarsdóttir

Ætlar að hlaupa styttra og hraðar...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband