Leita í fréttum mbl.is

Tilbúin, viðbúin...

Nú er ég búin að gera allt klárt fyrir morgundaginn, nú er bara að reyna að slaka vel á í nótt og svo er bara að gera eins vel og maður getur.  Var alveg svakalega eirðarlaus í dag en nú er ég orðin pollróleg og hlakka bara til.  Allar hlýjar hugsanir vel þegnar milli 9 og 15. 

Í vikunni var haft samband við mig frá Mogganum vegna umfjöllunar um aukin hlaupaáhuga á Íslandi og hlaup.com.  Fékk alveg sérstaklega viðkunnalegan ljósmyndara í heimsókn, hann Ómar, og hann var svo sætur að senda mér nokkrar myndir í pósti.  Viðtalið verður svo birt fljótlega að mér skilst.  Vonandi að maður verði svona léttur á sér á hlaupunum á morgun...

 MG 2198 MG 2269

Síðasta æfingin

Þegar það var runnið upp fyrir mér að ég væri sannarlega að fara að taka þátt í hálfum Járnkarli þá flýtti ég mér að grafa upp þríþrautarbók sem við hjónin keyptum í New York ferðinni okkar í fyrra.  Í bókinni eru fleiri þríþrautar prógrömm bæði fyrir Ólympíska þríþraut og Iron Man.  Ég fann líka eitt prógram fyrir hálfan Iron Man en það var 18 vikur!   Ég smellti mér bara beint inn í viku 17 og er samviskusamlega búin að æfa eftir prógramminu í 9 daga Tounge

Ég náði líka að fara á tvær hjólaæfingar með HFR og var örugglega mjög pirrandi því ég notaði ALLAN tímann til að spyrja og spyrja meira...  Albert þjálfari er örugglega með þolinmóðari mönnum því hann var ekkert nema almennilegheitin og ráðlagði mér sem best hann gat. 

Sundið er klárlega mín veikasta hlið og þá leitaði ég til hennar Bibbu minnar.  Hún og Ásgeir tóku mig í einkaþjálfun um helgina og fínpússuðu það sem hægt var, svona einn tveir og þrír.  Ég er svo búin að vera meira og minna í sundi, mest til að ná því að slaka vel á og sannfæra sjálfa mig um að ég geti komist þessa 1900 m án mikilla átaka.  Bibba og Ásgeir voru líka svo sæt að lána mér allan þann þríþrautarútbúnað sem mig vantaði og miðluðu af reynslu sinni, en það hefur sannarlega skipt sköpum fyrir mig, takk!

Í dag voru síðustu æfingarnar mínar, 30 km hjól og 30 mínútna hlaup í morgun og svo synti ég 1000 m í kvöld.  Kroppurinn er í toppstandi, leið ljómandi vel á öllum æfingunum.

Nú sit ég hér og súpa Cabó Load, alveg tilbúin í að slaka aðeins á í tvo daga og hlakka til að takast á við enn eina áskorunina.  Ég er alveg laus við að vera stressuð núna, ég er eins vel undirbúin og hægt er, miðað við tíma, aldur og fyrri störf...  Þetta verður örugglega gaman!


Nú verður ekki aftur snúið

Orð eru til alls fyrst segir einhvers staðar.  Ekki grunaði mig samt að þegar ég missti það út úr mér í endorfínvímu eftir Powerade hlaup í vetur, að það væri kannski gaman að vera með í Hálfum Járnkarli í ágúst, að sú yrði raunin.  Gísli ritari var eins og 'kid in a candy store' um leið og ég var búin að missa þetta út úr mér og það var sama hvað ég reyndi að segja honum að þetta hefði nú bara verið grín hjá mér, hann var komin með stórhættulegan glampa í augun...

Svo veit ég ekki fyrr en nokkrum mánuðum seinna, þá hitti ég Stein sem segir að það sé nú alveg frábært að ég ætli að vera með í Hálfa Járnkarlinum...  Ha!!!  Nei, það var bara grín o.s.frv.

Nokkrum vikum seinna í símtal við Bibbu, 'Ætlar þú svo að vera með í Hálfa Járnkarlinum?'.  Neihhhhh....  Ja, Gísli var eitthvað að tala um það...

Á leiðinni til Akureyrar keyptum við racerinn hans Gísla, 'Þú verður þá pottþétt með í Hálfa, er það ekki?'   Humpfff.... 

Á Ísafirði í markinu á Óshlíðarhlaupinu hitti ég svo Gumma og Ölmu.  'Já, mín bara búin að skrá sig í Hálfa Járnkarlinn???'.  NEIIIIII!!!!   'Ja, þú ert alla vega skráð'.  Gísliiiiii....

Þegar við vorum í bústaðnum fyrir nákvæmlega viku síðan fórum við í sund á Selfossi og þar sem ég var eignilega alveg farin að geta rétt handlegginn alla leið upp yfir höfuð eftir viðbeinsbrot/brákið í hjólaslysinu mínu þá hvíslaði ég að Þórólfi; 'Ég ætti kannski að prófa hvort ég geti synt skriðsund...'.   Fram að þeirri stundu hafði ég samtals synt 250 m á síðasta ári, 100 m í nóvember og 150 m í maí (þar af 50 bringu Tounge).  Ég synti 500 m og fann ekki fyrir handleggnum.  Nákvæmlega á þeirri stundu fór að renna upp fyrir mér að það væri hugsanlega, mögulega, ef til vill örlög mín að keppa í Hálfum Járnkarli í Hafnarfirði 2009!


Nokkrar myndir úr fríinu okkar

IMG 1361

Kleópatra hans Orra bróður, kúrir hjá henni Lilju á Akureyri.

IMG 1463

Gabríel sýnir flotta takta í nýju takkaskónum í Hnífsdal. 

IMG 1461

Lilja súpermódel... 

Í Bjarkalundi

 Maður verður smá klikk af að búa í herberginu hennar Guggu í Bjarkalundi...

IMG 1532

Tjarnarferð er alltaf vinsæl

IMG 1539

Barbie sundlaugin sem var keypt á Lanzarote í góðærinu kemur að góðum notum út á svölum Wink

IMG 1541

Í Ömmu og Afa bústað í Öndverðanesi.   Gabríel og Sölvi vinur hans, sáu um matseldina einn daginn og elduðu fyrir okkur hakk og spagettí!

2009 07 Sumarfrí og Tvíþraut1

Einn daginn kíktum við á Töfragarðinn á Stokkseyri Smile


Tvíþraut í Hafnarfirði

Stundum þá þarf ég að klípa sjálfa mig til að vera viss um að mig sé ekki að dreyma.  Ég er í alvöru að taka þátt í hverri skemmtuninni á fætur annarri, fá að vera með frábæru, jákvæðu afreksfólki sem finnst ekkert skemmtilegra en að sjá hversu langt það kemst í hverri þraut.  Það er sko langt frá því að vera sjálfsagt mál.

En alla vega þá tókum við hjónin þátt í Tvíþraut í Hafnarfirðinum í gærkvöldi.  Á dagskránni var 5 km hlaup, 30 km hjól og svo aftur 5 km hlaup.  Ég keppti á honum Skotta okkar en Þórólfur fékk lánað hjól hjá honum Steini.  Frábært veður og aðstæður eins og best verður á kosið.  Ég kláraði þrautina á 1:41 en tímarnir voru ca svona - hlaup 5 km 20:34 - hjól 30 km 58:30 - hlaup 5 km 21:30 - plús skipti tímar.  Mjög ánægð með þetta allt saman, sérstaklega sátt að ná að halda yfir 30 km/klst á hjólinu eftir að hafa hlaupið frekar hraða 5 km.  Þórólfur stóð sig líka með miklum sóma og kláraði þrautina á 1:36, 5. í heildina.

Toppaði kvöldið að hitta frábæra afreksíþróttakonu, Karen Axelsdóttur, þríþrautarkonu sem býr í Bretlandi og er í heimsklassa í Ólympískri þríþraut.  Hún rústaði okkur stelpunum að sjálfsögðu en það sem meira var, hún var í hælunum á fyrsta karli, honum Torben, en hann á Íslandsmetið í hálfum járnkarli og annan besta tímann í heilum.  Steinn sem á Íslandsmetið í heilum járnkarli þurfti að játa sig sigraðan fyrir kvenpeningnum í gærkvöldi.  Respect!  Hún var svo dugleg við að hvetja okkur stelpurnar áfram og gefa okkur góð ráð.  Hef svo sannarlega eignast nýja fyrirmynd!

IMG 1576

Fyrstu þrjár konur, Eva (2) , Karen og Lára (3).

 

 


Aftur til fortíðar

Einu sinni á ári eða svo hlaupum við hjónin niður á höfn, framhjá kaffivagninum og út á innsiglingarvita sem er þarna lengst út frá.  Á fyrsta deitinu okkar, þá reyndi Þórólfur nenilega að draga mig þangað í rómantískan göngutúr.  Ég var eitthvað treg í taumi þá og nennti ekki að fara alla leið en nú er ég miklu meðfærilegri Halo.

HTC 205
 

Húsdýragarðurinn með krökkunum seinnipartinn og grillveisla hjá tengdó í kvöld.  Nú er hann Orri bróðir hjá okkur í smá röddara og kósíheitum, mmmm.

 


Ármannshlaupið 2009 og Piotr

Sumir dagar koma manni skemmtilega á óvart, þannig var gærdagurinn.  Við hjónin vorum svona passlega stemmd fyrir Ármannshlaupið, fundum ennþá fyrir átökum síðustu vikna og ákváðum því að láta þetta bara ráðast allt saman.  Fórum í langan hjólatúr um morguninn til að liðka okkur aðeins og vorum nær dauða en lífi af kulda á eftir, þvílíkar verðrabreytingar...

En alla vega, hlaupið gekk vonum framar og ég var 41:39, bara 4 sek frá Óshlíðartímanum mínum þrátt fyrir heilmikið rok á brautinni.  Það segir mér bara að ég er að styrkjast með hverri raun og nú fer að koma tími á pb.  Í þetta skipti fékk ég líka góða keppni um 3. sætið frá henni Margréti Elíasdóttur, á eftir Írisi Önnu og Arndísi Ýr.  Ég átti harma að hefna eftir Miðnæturhlaupið þar sem hún tók mig í nefið á síðasta km en nú var ekkert gefið eftir og 3. sætið var mitt.  Við hjónin tókum svo annað sætið í sveitakeppninni með honum Jósep vini okkar en sveitin okkar hét Koma svo til heiðurs Gísla ritara Wink.

 

DSC 0139 1

Á endaspretti, ekkert gefið eftir!

Hann Piotr félagi okkar tók þessa mynd en við fundum hann á Akureyri hjá honum Orra bróður og tókum hann í tveggja daga fóstur.  Orri tilheyrir nefnilega einhverjum Hospitality Club á netinu og fær iðullega til sín ferðamenn í gistingu.  Oftar en ekki er hann búin að steingleyma hvenær og hverjum hann hefur lofað að koma og það er alltaf spennandi að sjá hvort einhver hringi á dyrabjöllunni með allar pjönkur sínar... 

Piotr er frábær náungi frá Póllandi, sem býr á Írlandi og kom til Íslands til að hjóla um landið.  Hann vinnur við hugbúnað og hefur áhuga á öllu mögulegu, m.a. ljósmyndun og var með flottar græjur með sér.  Hann tók sér mánuð í að hjóla hringinn og svaf nú yfirleitt í tjaldi og var þess vegna alsæll að komast í rúm inn á milli.  Hann var svo glaður að vera með okkur á Akureyri að hann bauð okkur öllum út að borða á Greifanum í þakkarskyni.  Við buðum honum svo að vera hjá okkur í tvær nætur þegar hann kæmi í bæinn og nú er hann á leiðinni til Keflavíkur þar sem hann verður næstu daga, áður en hann heldur heim til Írlands á ný.

DSC 0151

Fjölskyldan og Piotr

Piotr var ekki sá eini sem við tókum að okkur á ferðalaginu.  Á leiðinni norður fengum við nefnilega símtal þar sem við fengum formlegt leyfi til að verða stoltir eigendur Skotta (racerinn hans Gísla Grin ) sem hefur verið í fóstri hjá okkur síðustu mánuði.  Mikil gleði, enda vorum við orðin mjög svo náin og ég gat ekki alveg séð fyrir mér að senda hann frá mér aftur.  Gaman.


Endalaus blíða

Svona er þetta alltaf hjá okkur, endalaus blíða í samskiptum litla fólksins... (hehemmmm...Shocking ).

IMG 1427

í Kjarnaskógi

Í húsinu

Búin að búa til hús úr stólum og sængum í Hnífsdal

IMG 1457

Lesa fyrir litlu systur

IMG 1494

Í bókabúðinni á Ísafirði

IMG 1519

Á heimleið Joyful

 


Þú ert með...

Þetta datt upp úr litlu manneskjunni okkar á ferðalaginu, höfðum aldrei heyrt þetta áður Grin.


Vesturgatan og Bjarkalundur

Heilmikið ferðalag á okkur í gær.  Við byrjuðum daginn á að syngja afmælissönginn fyrir Þórólf og krakkarnir gáfu honum sundskýlu og hjólagrifflur. Við komum svo krökkunum fyrir í pössun hjá barnapíunni okkar og keyrðum á Þingeyri, náðum í skráningargögnin okkar og komum okkur svo að endamarkinu til þess að geta brunað eftir börnunum, eftir hlaup og fyrir verðlaunaafhendingu.  Þetta var allt planað út í ystu æsar en rútan sem átti að ferja keppendurnar lengri leiðina bilaði og allt plan riðlaðist og hlaupunum seinkaði um hátt í tvo tíma.  Við slökuðum bara á, vorum með nægan mat í bílnum og vorum ekkert að stressa okkur.

Hlaupið gekk vel.  Ég var svo heppin að mæta ofjörlum mínum, Anítu litlu Hinriks og mömmu hennar, þannig að ég gat leyft mér að hlaupa útsýnishlaup í rólegheitunum, enda er langt í frá að það sé fullt á tankinum eftir átök síðustu daga og vikna.  Þórólfur varð annar á eftir 13 ára frænda hennar Völu, gott fyrir okkur gamla fólkið að komast á jörðina og vera tekin í nefið af ungviðinu, svakalega flottir krakkar þarna.  Enn einn ótrúlega fallegur dagur, ægifögur leið og minning í safnið. 

Við brunuðum svo beint eftir hlaup inn á Ísafjörð og náðum í börnin sem voru alsæl með vistina hjá henni Særúnu barnapíu og vinkonu hennar, búin að vera úti að leika allan daginn.  Og aftur á Þingeyri í verðlaunaafhendingu.  Mótshaldarar lentu í vandræðum með að klára að vinna úr úrslitum því flögukerfið klikkaði.  Verðlaun fyrir samtals árangur í bæði Óshlíð og Vesturgötu verða send heim þegar búið er að staðfesta úrslitin en við Þórólfur eigum von á flottum verðlaunagrip gerðum úr grjóti úr Óshlíðinni.

Brunuðum í Bjarkalund með smá stoppi í Flókalundi og þar var vel tekið á móti okkur.  Við fengum herbergið hennar Guggu og fengum að skoða herbergið hans Georgs.  Ég held að það sé ekki ofsögum sagt að við hjónin og svo sem börnin líka vorum öll algjörlega á síðustu bensíndropunum þegar við misstum meðvitund um miðnætti...

Nú erum við komin á ról, búin að fá okkur morgunverð og stefnan tekin á Home Sweet Home!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Eva Margrét Einarsdóttir
Eva Margrét Einarsdóttir

Ætlar að hlaupa styttra og hraðar...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband