Leita í fréttum mbl.is

Óshlíðin 2009

Þetta ferðalag okkar ætlar að verða eitt heljarinnar ævintýri!  Óshlíðarhlaupið í gærkvöldi var hreint út sagt frábært, tipp topp skipulagning, frábær stemmning, veðrið eins, best verður og við í stuði.  Það er skemmst frá því að segja að Þórólfur sigraði hlaupið á rétt rúmum 37 mínútum, ótrúlega flottur!  Ég var fyrst kvenna og tók besta tímann minn á árinu 41:35. GrinGrin 

Í dag var svo skemmtiskokk, 4 km frá Silfurtorginu á Ísafirði.  Gabríel hljóp með pabba sínum og stóð sig heldur betur vel, varð 3. í sínum flokki, fór á pall og fékk brons.  Grin

Ég skokkaði með Lilju á bakinu og hún skríkti svoleiðis og hló að það voru allir í kasti í kringum okkur.   Gamanið entist í 3 km, þá vildi mín hlaupa soldið sjálf og fara að leika í leiktækjum sem urðu á vegi okkar svo var mín eiginlega búin að fá nóg.  Þá tók við ævintýrastund að hætti mömmu til að koma henni alla leið í mark án þess að tapa allri lífsgleði...  Það tókst og hún hljóp sjálf síðasta spottann.

Ég var svo með smá fyrirlestur á Hótel Ísafirði í tengslum við hlaupahátíðina og það gekk allt saman vel líka.  í kvöld er svo bara kósíkvöld og afslappelsi fyrir næstu áskorun, Vesturgötuna, en við ætlum að taka styttri vegalengdina.  Rock and roll!

Gabríel í nýju takkaskónum

Gabríel í nýju takkaskónum!

Lilja í bala

Það þarf nú oft ekki mikið til að gleðja mann Grin


Afmæli!

Hann Gabríel okkar á afmæli í dag, litli strákurinn okkar er orðinn ellefu ára!   Við vöknuðum í blíðunni í Hnífsdal og sungum afmælissönginn fyrir strákinn okkar.  Ég eldaði svo uppáhaldið, grjónagraut í morgunmat.  Við stefnum á að fara með krakkana í Raggagarð á Súðavík seinni partinn, með nesti og slá upp bráðabirgða piknikk afmælisveislu.  Afmælisveisla fyrir vini og fjölskyldu bíður betri tíma.

Við njótum þess til hins ítrasta að vera hérna á Vestfjörðum.  Við höfum ekki ferðast neitt hér um að ráði áður og erum þvílíkt hrifin.  Náttúrufegurðin er gríðarleg og maður fyllist af gleði og lífsorku að vakna í glaða sólskini undir snarbröttu fjalli með útsýni yfir hafið.  Það gerist ekki betra.

Í gær sóttum við gögnin okkar fyrir Óshlíðina og Vesturgötuna.  Í sama húsi var flóamarkaður og þar fann Gabríel þvílíkt flotta, ónotaða takkaskó sem pössuðu akkúrat á hann.  Ég fór með honum í afgreiðsluna til að spyrja hvað þeir ættu að kosta og við misstum andlitið þegar afgreiðslukonurnar svöruðu skælbrosandi: 'Þrjú hundruð krónur!'.  Gabríel brosir ennþá hringinn og það var varla hægt að ná honum úr skónum í gærkvöldi Grin.


Kjarninn

Little did I know...  Þegar ég settist niður og skrifaði þessar hugleiðingar mínar eftir aldeilis frábæran dag með vinum og kunningjum á Landsmóti á Akureyri, þá óraði mig ekki fyrir þessum viðbrögðum.  Meginmarkmiðið með pistlinum mínum var að sparka í rassinn á sjálfri mér fyrir að hafa ekki haft kjark til að segja það sem mér fannst á tilteknum stað, á tilteknum tíma og læra rækilega af reynslunni með því að blogga um það.  Það var ástæðan fyrir því að ég átti erfitt með að sofna, ég var svekkt út í sjálfa mig.  Að þessi sjáfsskoðun mín skyldi vekja upp svona sterk viðbrögð er ágætt, umræðan er greinilega mjög þörf og mér finnst mörg góð sjónarmið hafa komið fram.  Mér finnst ekkert skemmtilegra en að skoða vel rökstuddar og málefnalegar ábendingar, hinar trufla mig ekki.  

Svona umræður (engin fundarstjórn...) eiga það til að fara út um víðan völl og það er allt í fína líka, hvort teygja megi reglur, hvenær eiga að framfylgja þeim eða hver sé hinn sanni íþróttaandi o.s.frv.  Það eru til fullt af samkomum þar sem takmarkið er ekki að keppa til sigurs, þ.e. tilgangurinn felst í því að taka þátt.  Til dæmis er skemmtiskokk oft haldið í tengslum við keppnishlaupin og þar er það klárt markmið atburðarins að taka þátt, vera með, skemmta sér.  Ég hef sjálf síðustu 10 árin eða svo, verið með í Kvennahlaupinu, ólétt, með mömmu eða með börnin mín í kerru og skemmt mér konunglega.  Ég hljóp með dóttur mína á öxlunum í Blóðbankahlaupinu um daginn, sem er skemmtiskokk haldið til að vekja athygli á málstað, án tímatöku.  En ég er líka metnaðarfullur íþróttamaður og ég legg heilmikið á mig til að ná eins langt og ég get í minni íþróttagrein og keppi iðullega til sigurs.  

Margar íþróttagreinar eru þannig að árangur er metinn huglægt, þar sem stíll og fagurfræði skipta máli (sbr. skíðastökk, fimleikar o.s.frv.).  Hlaupin eru ekki þannig. Sá sem hleypur hraðast alla leið í mark vinnur.  Hann má vera alveg eins og njóli á leiðinni og satt að segja þekki ég nokkra þrusu góða hlaupara, sem ég ber mikla virðingu fyrir, sem hafa mjög áhugaverðan stíl Grin.    

Það voru einkum tvær spurningarnar sem ég var að velta upp í mínum pistli:

a) Er hægt að sigra maraþon án þess að ljúka maraþoni?

b) Er í lagi að taka á móti sigurverðlaunum í maraþoni án þess að hafa lokið keppni?

Í mínum huga eru svörin við báðum þessum grundvallarspurningum, nei.  Með því að svara báðum spurningunum neitandi er ég annars vegar að gagnrýna þá sem standa að hlaupinu og hins vegar að gagnrýna þátttakanda.  Mér finnst báðir aðilar eiga sína ábyrgð í þessu tilviki, annars vegar þá ábyrgð að fylgja grundvallarreglunni að nauðsynlegt sé að ljúka þeirri keppni sem tekið er þátt í til að sigra (burtséð frá öllu öðru) og siðferðislegri ábyrgð á hvað er rétt og hvað er rangt, svona almennt.  Mín skoðun er að enginn atburður né persóna sé hafin yfir alla gagnrýni, gagnrýni er af hinu góða sé hún málefnaleg, þannig lærum við að gera betur.  Sem íþróttamaður þá borga ég fyrir að fá uppbyggilega gagnrýni (þjálfun/gagnlega rýni).  Heyri ég aldrei hvað það er sem ég geri rangt eða hvernig ég get bætt mig, myndi ég staðna og ekki ná neinum framförum.  Eins er það í lífinu, ég elska að skoða, analysera og velta fyrir mér hinum og þessum siðferðilegum spurningum.  Mér finnst ekkert skemmtilegra en að komst í kynni við fólk sem getur komið sinni skoðun þannig á framfæri að það fær mig til að skipta um skoðun, það er mikið spunnið í svoleiðis fólk finnst mér.  Ég var farin að gæla við að svara hverri og einni athugasemd en ég hafði vit fyrir sjálfri mér, sem betur fer Tounge.

En aftur að Landsmótinu...  Ég vil taka það skýrt fram að upplifun mín og minnar fjölskyldu á Landsmóti var aldeilis frábær!  Við mættum ekkert nema frábæru viðmóti starfsfólks og brautarvarða, upplýsingar um hlaupaleiðir voru skýrar og starfsfólk á drykkjarstöð stóð sig með mikilli prýði.  Það var sérstaklega gaman að hlaupa inn göngugötuna, þar var hópur starfsmanna hlaupsins að hvetja og sprella, fékk mann til að brosa hringinn. 

Það er mannlegt að gera mistök og mér sýnist að allir sem standa málinu nærri sjái að mistök hafi verið gerð.  Það sem mér finnst skipta öllu máli hér (sem og annars staðar) eru viðbrögðin við mistökum.  Sé einhver leið að leiðrétta mistökin skal það gert og allir bera virðingu fyrir því.  Í fótbolta geri dómari mistök sem kosta annað liðið sigurinn og því er ekki haggað.  Séu aftur á móti reglur í leiknum þverbrotnar, t.d. ólöglegir leikmenn á vellinum þá eru úrslit kærð og leiðrétt.  Jafnvel dögum eftir leik.  Það geta líka allir lent í því að þurfa að hætta keppni, það er engin skömm af því.  Í flestum tilfellum kemur maður tvíefldur til baka.  Ég ber mikla virðingu fyrir þeim sem átta sig á mistökum sínum sjálfir og leiðrétta þau, hverjar svo sem afleiðingarnar verða.  Það er göfugt. 

Ég persónulega er mjög 'anal' í að fylgja öllum reglum, ekki fyrir aðra, heldur vegna þess að þegar ég hef lokið einhverri keppni eða þraut, þá vil ég geta staðið teinrétt og brosað út að eyrum, fullviss um að ég hafi ekki notið fríðinda umfram aðra keppendur.  Ég tók ekki þátt í maraþonhlaupinu, (það var enginn vafi á því hver sigraði 10 km hlaupið Tounge )og átti því engra hagsmuna að gæta persónulega.  Ég hef aldrei áður séð konuna sem sannarlega lauk hlaupinu fyrst kvenna, þó svo ég þekki nafnið hennar og veit af afspurn að hún er hörku keppnismanneskja.  Ég get rétt svo ímyndað mér hvað sú kona hefði kallað yfir sig hefði hún kært úrslitin!

Ég er ekki tapsár.  Ég tapa reglulega í keppnum fyrir mér fremri íþróttamönnum.  Ég ber ómælda virðingu fyrir þeim sem sigra mig, hugsa 'djö... er hún góð mar...', fyllist aðdáun, tilfinningin er pínulítið eins og þegar maður varð skotin í einhverjum sem krakki Blush.  En ég er alveg svakalega svindlsár og kannski er það eitthvað sem ég þarf að vinna í með sjálfa mig.  Það er sama hvort það er vinnustaðaleikur, íþróttakeppni eða annað (hér mætti t.d. setja inn dæmi að eigin vali úr íslensku viðskiptlífi síðastliðin ár). 

Læt þetta vera mín lokaorð um þetta mál, fagna áframhaldandi umræðu þar sem hún á heima.


Nýju fötin keisarans

Akureyri tók aldeilis vel á móti okkur með sól og blíðu.   Við vöknuðum snemma á keppnisdag og vorum mætt tímanlega út á völl til að hitta barnapíurnar okkar og koma okkur í réttan fíling.  Þórólfur tók forystuna í hlaupinu strax í upphafi en það voru 3 á milli okkar fyrstu km.  Hlaupið byrjar á langri brekku niður í móti og fyrstu km liðu ótrúlega hratt.  Á 3 km náði ég öðrum manni og við hlupum samsíða næstu tvo km eða svo.  Á þeirri stundu var ég að velta því fyrir mér hvort það væri möguleiki að ná öðru sæti í hlaupinu og á 5. km jók ég hraðann til að athuga hvort ég gæti hrist hann af mér.  Mér tókst að búa til bil á milli okkar og á bakaleiðinni, þrátt fyrir töluverðan mótvind þá hélt ég mínu og jók bilið.  Bibba og Ásgeir voru fremst meðal jafningja að hvetja og maður fékk auka endorfín skammt þegar maður heyrði hrópin í þeim og sá þau svo skælbrosandi á hliðarlínunni.  Síðustu 2 km var bara að bíta á jaxlinn og klára brekkuna góðu sem var mun skemmtilegri á leiðinni niður...  Um leið og maður kom inn á völlinn fékk maður vængi og spændi í mark.

Við fylgdumst svo með hinum hlaupurunum koma í mark og það var gaman að sjá Sigga sigra maraþonið.  Við urðum líka vitni að því, ásamt tugum eða hundruðum annarra áhorfenda, þegar konan sem hafði verið í forystu í maraþoni kvenna, ráfaði inná völlinn í mjög slæmu ástandi, örmagnaðist algjörlega nokkra metra frá markinu og tókst ekki að ljúka keppni.  Við urðum vitni að því þegar tveir menn, þrátt fyrir andmæli viðstaddra, báru konuna yfir marklínuna þar sem sjúkraliðar hlúðu að henni og í framhaldi var hún flutt á brott með sjúkrabíl.  Skömmu síðar kom fyrsta kona í maraþonin í mark, Sigríður Einarsdóttir.

Við mættum svo á verðlaunaafhendinguna seinna um daginn til að taka á móti glæsilegum verðlaunum en þá urðum við vitni að því að konunni sem ekki lauk hlaupinu voru afhent sigurverðlaunin, sem hún og þáði.  Við urðum vitni að því að langflestir í salnum vissu að þetta var ekki sanngjarnt.  Enginn sagði neitt og ég svo sem ekki heldur en ég óskaði Sigríði til hamingju og lét hana vita að í mínum huga og annarra sem ég þekkti til væri hún sigurvegarinn.  Til að toppa skrípaleikinn vorum við hjónin svo dreginn í myndatöku, þar sem mynda átti alla sigurvegara sem tilheyrðu Laugaskokki og í meðvirknikasti létum við okkur hafa það.

Þessi uppákoma hafði svo mikil áhrif á mig að ég átti erfitt með að sofna í gærkvöldi.  Í mínum huga eru hlaupin nefnilega táknmynd göfugra íþrótta.  Sá sigrar sem lýkur keppni á skemmstum tíma, þannig er það bara.  Það skiptir engu máli hvort þú hættir eftir 10, 20, 30 eða 42,1 km.  Eina leiðin til að sigra maraþon er að hlaupa alla 42,195 km, punktur.


Landsmót á Akureyri

Þórólfur vann 10 km hlaupið!  Ég var önnur í hlaupinu, næst á eftir mínum manni og fyrst kvenna :)  Orri bróðir fékk gull í sínum aldursflokki.  Magnaður dagur, meira síðar!  

IMG 1392

 

 

 


Hneturúnnstykki í morgunmat

Það þýðir bara eitt, já einmitt í dag var vigtunardagur.  Það var fámennt en góðmennt í þessari vigtun, mættar voru Bibba, Vala og Jóhanna.  Það er skemmst frá því að segja að Jóhanna tók þetta á Ipponi eina ferðina enn með 0 í frávik, við hinar vorum allar aðeins yfir okkar markmiðum.

Ég var með nákvæmlega eitt kg í frávik sem er náttúrulega ekki mjög gott vigtunarkeppnislega séð en ...  Eftir þessa lotu (þetta var vigtun 5 af 6) reikna ég með að sækja um breytingu upp á + 1 kg eða í 63 kg.  Það er n.b. mjög vel ígrunduð ákvörðun og hér fyrir neðan verða taldar til nokkrar ástæður þess: 

  • Í fyrsta lagi var ákvörðun um að létta mig í 62 kg (úr 64 kg/ úr 66 kg sem var upprunalega kílóið mitt í keppninni) tengd keppnismarkmiðum í hlaupunum og átti að vera tímabundin. 
  • Í annan stað finnst Jóhönnu ég miklu sætari þegar ég er 63. 
  • Í þriðja lagi þá þarf voðalega lítið til að leggja mann í rúmið þegar maður er með svona lága fituprósentu (13 - 17% eftir mismundi mælingaraðferðum...).  
  • Í fjórða lagi þá verður rassinn á manni soldið asnalegur ef maður er of grannur (það segir Bibba alla vega). 
  • Í fimmta lagi þá held ég að ég verði búin að ná hlaupamarkmiðunum áður en til formlegrarar þyngingar kemur, sem verður einhvern tíma í september Grin

Hnetuvínabrauð og kaffi, Laugavegsspjall og slúður að vigtun lokinni, mmmmm.  Framundan er hádegismatur á einhverjum sjávarréttarstað rétt hjá Gullinbrú, spennandi. 

Ja, vi rike har det gott, eins og hún mor-mor sagði alltaf!


Kominn heim :)

Mikið vorum við glöð að fá hann Gabríel heim til okkar aftur!  Það ískraði í henni Lilju af spenningi þegar jeppinn hans afa renndi í hlaðið.  Gabríel var svo glaður að sjá litlu systur sína að hann gaf henni ísinn sinn Joyful.  Það er mikil gleði hjá henn Lilju með nýju rólurnar og hún getur endalaust rólað og syngur svo hástöfum að það tekur undir í öllu hverfinu...

IMG 1346
 Ofsalega góð saman (rétt á meðan ég smellti af...)
IMG 1327
Lilja nartar í græn rifsber...

IMG 1343

Atti katti nóa, atti katti nóa...


Gull, silfur og brons!

Íþróttaálfarnir á heimilinu létu allir ljós sitt skína í dag.  Við hjónin sóttum sitt hvorn bikarinn á Skagann í 10 km hlaupinu, Þórólfur var annar í hlaupinu og ég var fyrst kvenna.  Var í góðum félagsskap á palli, Vala samGlenna mín varð önnur og Fjóla fyrrum samNFRari í þriðja.  Sérstaklega skemmtilegt hlaup þar sem saman voru komnar fullt af gömlum góðum vinkonum mínum sem og nýjum, getur ekki verið betra.

Eva og Þórólfur
Fjóla var svo sæt að taka mynd af okkur hjónum eftir hlaup.
.

Gabríel var líka á palli í dag en liðið hans varð í 3. sæti á N1 mótinu.  Þeir töpuðu bara einum leik og það var í undanúrslitunum í vítaspyrnukeppni.  Ótrúlega flottir stákar og við Þórólfur hefðum svo gjarnan viljað vera þarna fyrir norðan til að upplifa þetta og fagna með stráknum okkar, en við vitum að amma og afi í Norðurbrún standa sig frábærlega sem okkar staðgenglar á staðnum.  Við sláum bara upp veislu um leið og við fáum guttann okkar heim á morgun!

Bikarinn

Eftir hlaupið fórum við á skemmtilegt kaffihús á Akranesi og þegar heim var komið tók við rólusmíði, en við vorum að klára fyrir stundu.  Rétt í þessu var elskan mín að koma heim með eitthvað gúmmelaði frá Austurlandahraðlesinni, later...

IMG 1326
IMG 1325
Lilja að fá retouch á prinsessunaglalakkið sem hún er b.t.w. líka með á táslunum...

 


Meira um N1 mótið

Gabríel hringdi í okkur heldur betur glaður seinnipartinn, þeir eru komnir í undanúrslit!  Í dag voru 3 leikir, eitt jafntefli og 2 sigrar í viðbót og strákarnir eru efstir í sínum riðli.  Nú er bara að krossa allt sem hægt er að krossa og hugsa til hans Gabríels á morgun!

Við Þórólfur tókum okkur sólarfrí eftir hádegi í dag og notuðum seinnipartinn til að lakka og pússa nýja elshúsplötu og svo keyptum við svaka flottar rólur í garðinn.  Erum hálfnuð með uppsetningu en við gátum ekki klárað alveg vegna þess að frúin átti pantaðan tíma í 60 mínútna Comfort Zone andlitsbað og spa (afmælisgjöf Grin).  Hef ekki prófað svoleiðis dekur áður og svei mér þá, I loved it!  Ég steinsofnaði með einhvern maska á fésinu, á upphituðum bekk, innvafin í mjúk handklæði og með eitthvað svalandi yfir augun (gúrka???).  Er með svona mmmmm tilfinningu, á leið upp í sófa að kúra hjá kallinum.

Á morgun eru það svo 10 km á Skaganum.  Engar yfirlýsingar, við ætlum bæði að láta þetta bara ráðast hjá okkur.  Megin fókus verður á að skemmta sér á írskum dögum með Lilju og tengdapabba í för.


N1 og Guðmundarlundur 2009

Heyrði í guttanum okkar í gærkvöldi og hann var nú heldur betur glaður.  Strákarnir unnu báða leikina sína í gær og Gabríel skoraði 2 mörk í seinni leiknum í 3-1 sigri.  Lifi Þróttur!

Update:  Var að heyra í Gabríel og þeir gerðu jafntefli í fyrri leiknum í dag og voru að vinna seinni leikinn 1-0 en Gabríel skoraði sigurmarkið úr vítaspyrnu Grin.

Gamla konan hélt uppteknum hætti og mætti svellköld (eða þannig Undecided) í Guðmundarlundinn þar sem fram fór hrikaleg fjallahjólakeppni delux.  Eftir brautarskoðun á mánudag var stemmningin þannig að eftir fyrsta hring hugsaði ég með mér, ekki séns að taka þátt í þessari vitleysu.  Eftir annan hring, nei ég held að þetta sé ekkert fyrir mig.  Eftir þriðja hring, mmmm kannski, sé til hvernig ég verð stemmd...

Fyrst hjóluðum við hring fyrir utan Guðmundarlundinn á moldarvegi og svo lá leiðinn inn í lundinn þar sem hjólaðir voru sex (Meistaraflokkur kvenna og B flokkur karla) eða 12 (Meistaraflokkur karla) hrikalegir hringir upp og niður snarbratta, örmjóa, malar-, skógar-, lúpínubreiðu-, grjót- og tröppustíga!  Við vorum 5 sem lögðum af stað í styttri vegalengdina, þar af 3 konur. 

Var mjög ánægð með startið hjá mér í þetta sinn og náði í fyrsta sinn að hanga í Láru fyrsta hringinn og inn í lundinn (gleðjast yfir litlu sigrunum...).  Ég er mjög seig upp brekkurnar en vantar sárlega æfingu í að þora að láta vaða niður brekkurnar og á fyrstu tveim hringjunum var ég að fara fram úr upp og svo þutu strákarnir fram úr mér niður.  Á þriðja hring náði ég að halda mínum hlut alla leið næst á eftir Láru þrátt fyrir að hafa þurft að snarstoppa út af grjóti í brautinni og henda mér af hjólinu áður en það fór tvo hringi fram yfir sig.  Varð ekkert meint af og stökk á hjólið aftur og hjakkaðist áfram.  Hrikalega erfitt að hjóla upp snarbrattar brekkurnar á kræklóttum stígum og maður mátti ekki missa fókus í augnablik, þá fór maður að spóla eða átti á hættu að flengjast út úr brautinni.  Passaði að víkja vel þegar stóru strákarnir hringuðu okkur.  Kláraði 1 og 1/2 mínútu á eftir Láru og ca. 5 mínútum á undan næsta manni, mjög sátt eftir erfiða þraut.  

Það voru 25 einstaklingar sem lögðu af stað í þrautina, 21 sem kláraði, nokkrir sem krambúleruðu sig og sigurvegarinn, hann Haffi, nefbrotnaði eftir árekstur í 9. hring!  Myndir og úrslit á www.hfr.is og www.hjolamenn.is .

Hérna er nokkrar af gömlu koninni af hfr.is síðunni, ljósmyndarar Albert og Elvar Örn:

Eva1
Tætt upp brekkurnar...
Eva9
Rétt áður en maður hjólar niður tröppunar...
Eva6
Eva og Lára á palli, ekki leiðinlegt hjá okkur :)

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Eva Margrét Einarsdóttir
Eva Margrét Einarsdóttir

Ætlar að hlaupa styttra og hraðar...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband