Leita í fréttum mbl.is

Betri í dag en í gær

Var ansi stirð og stíf í morgun en er öll að koma til.  Það sem háir mér mest er að ég fékk ansi þungt högg á öxlina og á erfitt með að lyfta einhverju með hægri hendinni og ég var frekar dösuð í dag. 

Besta er að lappirnar á mér sluppu alveg ótrúlega vel, smá sár á hnénu og einn marblettur sem ég finn ekki fyrir nema þegar ég sest á hækjur mér, sem ég þarf náttúrulega ekkert endilega að gera þessa dagana.  Búin að prófa að skokka hring í kringum borðstofuborðið og það var ekkert mál, þá hlýt ég að geta lufsast Gullsprettinn ef ég plasta mig í bak og fyrir..., erhaggi?


Glanni

Held ég verði að segja skilið við Glennurnar og sækja um hjá Glönnunum...

Fór á hjólinu (n.b. mínu hjóli) í vinnuna í morgun, ákvað að slaka aðeins á í hlaupunum fyrir keppnirnar framundan.  Ég er svona eins og 10 ára strákur á hjóli, ég hjólaði aldrei neitt sem heitir sem krakki og er þess vegna ennþá að læra mín takmörk, sbr. að það er ekki hægt að hjóla í mjög djúpum snjó og hvernig á að láta sig vaða niður tröppur og svoleiðis.

Akkúrat núna er ég líka eins og 10 ára strákur sem þarf að læra sína lexíu...  Það var svo gaman að hjóla í morgun í góða veðrinu að ég lét mig þvílíkt gossa niður allar brekkur og tók vel á því.  Á hvínandi siglingu lagðist ég vel í síðustu beygjuna inn á bílaplanið í vinnunni og ... krashhhbaaaannggg!!!  Rak pedalann í jörðina í vinstri beygjunni, flengdist í loft upp og lenti á hægri hliðinni á malbikinu.  Eins og alltaf þá eru fyrstu viðbrögð að dröslast á fætur og athuga hvort einhver hafi séð mann, næst skakklappaðist ég með hjólið inn í bílageymsluna en þegar þangað var komið var ég að missa rænuna, gat ekki læst hjólinu og ráfaði inn á skrifstofunar á neðstu hæðinni.  Þá var mér orðið svo óglatt að ég settist úr í horn með hausinn á milli hnjánna og reyndi að ná áttum.  Eftir nokkrar mínútur tók ég stöðuna og sá að ég var hvergi brotin, en ansi illa krambúleruð á hægri hliðinni.  Ég náði ekki í Þórólf svo ég endaði með að hringja í Pabba gamla, 'Pabbi, ég datt á hjólinu, geturðu sækt mig...'  (liggur við), alla vega leið mér eins og hálfskömmustulegri smástelpu.

Ég þykist nú oftast vera voða mikill jaxl og vildi bara komast heim og í sturtu, en pabba leist ekkert á ástandið á mér, fékk mig til að samþykkja að bíða eftir að mamma liti á mig.  Henni leist heldur ekki nógu vel á blikuna og keyrði mig upp á slysó.  Ég var ennþá með svona aulahroll þar sem ég sat á biðstofunni, þrátt fyrir að vera öll blóðug og rifin.  En það var sennilega eins gott að ég hlustaði á mömmu gömlu.  Ég hafði fengið vægan heilahristing, sárin voru hreinsuð almennilega, olnboginn á mér var saumaður saman og mjöðmin límd og plástruð.  Ég þarf að hafa saumana í 10 daga og má helst ekki bleyta þetta mikið.

Ég setti upp besta hvolpasvipinn minn og spurði lækninn þegar hann var búin að tjasla mér saman: 'Má ég ekki samt fara Gullsprettinn laugardaginn ef ég pakka þessu voða vel inn og ...Blálónsþrautina á sunnudaginn (voða lágt)?  'Ef þú treystir þér í það, þá ætla ég ekki að banna þér það, en það er nú þannig að þegar maður lendir í svona slysi þá er yfileitt dagur númer tvö og þrjú sem eru verstir...'

Ohhh well, sjáum til GetLost 


Hann Gabríel okkar

Guttinn okkar stóð sig með stakri prýði í skólanum, var með yfir 9 í meðaleinkunn og fékk góða umsögn að öllu leyti.  Okkur fannst heldur betur tilefni til að verðlauna góðan árangur, fórum á stúfana í gær og keyptum glænýja takkaskó.    Hann gat ekki beðið eftir því að komast á æfingu í dag til að prófa, var komin út í garð um leið og við komum heim og svo niður á gervigras í Laugardalnum.

Til að toppa daginn þá heyrðum við í Sverri bróður, hann ætlar að sækja strákinn í dag og bjóða honum með sér í sveitina.   Gabríel elskar að vera hjá Sverri í sveitinni, hugsa um dýrin og hjálpa til.  Til að toppa þetta allt saman þá á Sverrir nokkur torfæruhjól og það er ekkert í heiminum skemmtilegra en að leika sér á torfæruhjólum og keppa við stóra frænda sinn þegar maður er 10 að verða 11.

Já, glaðari strák er ekki hægt að finna, það er sko alveg á tæru.


Mig langar...

...til að vera með í Álafosshlaupinu á föstudaginn, Gullsprettinum á laugadaginn og Bláalónsþrautinni á sunnudaginn!

A little bit of Stockholm...

2009 06 Stokkhólmur

Starfsmenn Ericsson

Vid tokum leigubil fra flugvellinum ad hotelinu og fast verd a taxa i baeinn er 565 SEK.  Vid vorum rett lagdar af stad thegar vid vorum komnar i hörkusamraedur vid leigubilstjorann sem var innflytjandi fra Iran.  Hann sagdi okkur medal annars ad hann byggi i Uppsala og aetti islenska nagrannakonu, Gudbjörg...  Thegar vid erum svo komnar a leidarenda segir hann, 'You work for Ericsson, right?'.  'No, no I work for a bank in Iceland'.  'No, no, you work for Ericsson and I will give you the discount price, 490 SEK.  And when you order a taxi to go back to the airport you ask for the Ericsson fixed rate, it's even less going back.'

Ekki leidinlegt hja okkur Tounge.

Annars vorum vid ad koma heim af Kina restaurant thar sem vid gaeddum okkur a fjorum smarettum og fengum djupsteiktan banana (voda litinn skammt samt) med is i eftirrett.  Life's good!


Stockholm

Ekki leidinlegt hja okkur mommu.  Erum bunar ad labba okkur upp ad herdablodum og versla oggu ponsu litid... (eda thannig).  Vid vorum ekki komnar i rumid fyrr en seint og sidar meir i gaer eftir ad hafa skodad Sollentuna (thar sem vid buum) og midborgina.  Bordudum kvoldmatinn inn i bae a griskum veitingastad, alveg ljomandi gott. 

I dag byrjudum vid a ad skoda Gamla Stan, Konungshollina, Akademiuna, Radhusid og Thingid, bara svona til ad vera menningarlegar og tokum svo einn godan shop till you drop a Drottnigsgata.  Bordudum hadegismatinn i Gamla Stan a veitingahusinu Svortu saudirnir, sem okkur fannst eiga serstaklega vel vid.

A morgun aetlum vid ad fara i hopp on/hopp off tur a bat um eyjarnar herna og svo forum vid i Operuna annad kvold.

Nu er eg a leidinni i raektina herna a hotelinu, flottur aefingasalur, SPA og sundlaug a stadnum.  Rakst ta a thessa tolvu og akvad ad tekka inn Grin.


Ekkert að gera...

Einu sinni þá var það einmitt raunveruleikinn hjá mér, ekkert að gera...  Tímabilið frá því að ég varð ófrísk að Gabríel og næstu tvö, þrjú árin var ég mest bara ein með sjálfri mér og honum.  Eftir að hafa dregið mig út úr þeim félagsskap sem ég var í og þangað til ég fann leiðina aftur að gömlu góðu vinunum og nýjum vinum þá man ég að ég velti stundum fyrir mér hvort að það yrði alltaf þannig.   Enginn sem hringdi, síminn hefði allt eins getað verið dauður og ekkert um að vera nema þetta venjulega.  Ekki það að ég hafi vorkennt sjálfri mér, ég hafði það ósköp gott í holunni minni með frumburðinum en jú, það hvarflaði stundum að mér að það væri nú gaman að hafa örlítið meiri fjölbreytni í lífinu.

Í dag þá er þetta svo fjarri mínum raunveruleika að stundum finnst mér nóg um.  Eftir 100 km daginn minn þá var dagskráin svo þétt að ég var ekki alveg viss um hvort ég réði við þetta allt saman.  Tónleikar með Hjaltalín á miðvikudagskvöld, saumaklúbbur hjá Ástu Glennu með hlaupahópnum á fimmtudagskvöld og svo gourmet matarboð hjá Gumma (frmkv.stj. ÁÓ) og Rúnu á föstudagskvöld.  Og ég sem er alla jafna sofnuð upp úr tíu...  En ó hvað ég vildi ekki skipta til baka og ég geispaði nánast ekkert, það var svo gaman hjá mér LoL

Prísa mig sæla með þriggja daga helgi og einum eða tveim bjútí blundum.  Í gær var rabbarbara dagurinn mikli.  Þórólfur og Lilja komu inn með 10-12 kg af rabbarbara sem við Gabríel skárum niður til sultugerðar, í frost og svo henti ég í eitt rabarbarapæ í tilefni dagsins.  Sigrún (ein af þessum gömlu góðu) gerði sér svo lítið fyrir og skokkaði úr Garðabænum í kaffi til okkar, allt of langt síðan við höfum sést en nú verður unnið í hittingsmálum.  Fórum svo með krakkana í sund hérna niðrí Laugardalslaug í kvöldblíðunni.

Í dag byrjuðum við hjónin daginn á langhlaupi (við erum orðnir svo miklir kjúllar að 16 km er langt) en það er í fyrsta sinn sem við hlaupum langan túr saman síðan ég meiddist í mars!  Ég var í voða miklu sumarskapi og fór út á stuttermabol og stríddi karlinum úr jakkanum áður en við fórum, hann hafði þó vit á að vera í langerma...  Fengum á okkur haglél og rigningu við Sæbrautina og ég var orðin frekar blá þegar sólin lét sjá sig aftur og í Nauthólsvíkinni var ég fullþiðin og gerðist meira að segja svo djörf að rífa mig úr bolnum Wink.   Eftir blund og bita, útréttuðum blómakassa á svalirnar hjá okkur fyrir kryddjurtirnar hans Þórólfs og ég keypti líka tvö tóbakshorn því þau minna mig svo á mormor (ömmu mína í Norge).  Skottúr að heils upp á tengdó og þá var tími til komin að fá sér bita á ný og slaka svolítið á, mmmm...

Það sem stendur samt upp úr þessa helgina, hlaupalega séð, er að þrjár vinkonur mínar (fyrir utan gömlu hlaupavinkonur mínar) fóru á Mývatn.  Vinkona mín og nágrannakona, sem er að vinna með mér, rúllaði upp hálf maraþoni með glans og svo voru tvær af stelpurnum mínum í Sigurverara hópnum að hlaupa og stóðu sig með sóma.  Til hamingju stelpur! 

Svo get ég ekki annað en óskað honum Gumma til hamingju með sigurinn í maraþoninu, glæsilegt hjá honum (þó hann hafi tekið tímann minn...GetLost).


Sól, hagl, slydda og 104,6 km.

Ég elska að taka áskorunum.  Nú var það hann Oddur í vinnunni hjá mér sem kynnti undir keppnisskapinu.  Vinkona hans hafði skorað á hann að hjóla alla vega 100 km einn dag í átakinu Hjólað í vinnuna og hann skoraði svo á liðsfélaga sína. 

Í gær var stóri dagurinn, síðasti dagurinn í átakinu og tilvalið að enda þetta með trukki.  Við Oddur hjóluðum bæði 37 km fyrir vinnu og planið var svo að taka 65 km eftir vinnu.  Þegar fór að nálgast hádegið kom Oddur til mín, 'Ég er að spá í að skokka smá hring, það er svo gott verður...'.  Og þá gerðum við það, hlupum úr vinnunni og tókum Stífluhringinn.  Það var reyndar mjög gott að liðka sig aðeins með annarri hreyfingu eftir allt hjóleríið.

Á slaginu fjögur lögðum við í hann og Oddur stýrði ferðinni.  Ég var á racernum og þá er ekki hægt að hjóla í möl sem gerði það að verkum að við þurftum að taka nokkrar slaufur til að halda okkur á malbiki.  Eftir að hafa læðst yfir kanta og smá malarbúta hér og þar vorum við loksins komin á beinu brautina á hjólreiðastíginn sem liggur alla leið út í Mosó.  Bammm!  Þá sprakk á Skotta og við bara búin með rúma 13 af þessum 67...  Hringdi í ofboði í manninn minn, sem var þá á leiðinni í sund með stelpuna.  Hann skutlaðist eftir mér, ég skipti á hjólum og lagði í seinni hlutann af ferðalaginu 'on my own' á fjallahjólinu mínu. 

Ákvað að fara inn í Grafarvog, í gegnum Mosó og upp að Gljúfrasteini, freista þess að ná 25 km og láta mig svo rúlla í bæinn aftur.  Í Mosó rauk úr göngustígunum eftir að það höfðu komið skúrir á sólhitaða stígana.  Ótrúlega fallegt að hjóla meðfram sjónum og ég var eldsnögg að komast upp eftir.  Þegar ég átti svona 3-4 km eftir að Gljúfrasteini þá kom HAGLÉL!!!  Ég ákvað að harka það af mér á peysunni og hjólabuxunum.  Km síðar var komin SLYDDA!!!  Enn hélt ég aðeins áfram á þrjóskunni þar til ég var farin að sjá fyrir mér fyrirsagnir í blöðunum 'Miðaldra kona fannst frosin föst við hjól á stuttbuxum og bol, u.þ.b. 200 m frá Gljúfrasteini...  Vinir og fjölskylda segja þetta hafa verið óumflyjanlegt þar sem hún var búin að ÁKVEÐA að fara alla leið...'. 

Snéri við og tók stefnuna aftur í sólina.  Rosalega verður maður svangur af því að hjóla!  Lilja hafði sníkt hálfan bananann minn þegar þau feðginin komu að sækja mig og í Mosó þá voru garnirnar farnar að gaula þokkalega.  Kom við í Krónunni og keypti mér tvö skinkuhorn, gúffaði öðru í mig og ákvað að geyma hitt þangað til ég væri búin með 90 km.  Ég þurfti aðeins að hugsa út nokkra króka á leið minni heim, hjólaði inn Grafarvoginn og þar var þvílík blíða að ég stoppaði og fékk mér seinna nestið á bekk, í sólinni.  Áfram niður í Bryggjuhverfi og svo Sæbrautina eins og hún lagði sig niður í bæ.  Niður við höfn var seglbátakeppni í gangi, ótrúlega fallegt allt saman.  Ennþá vantaði aðeins uppá og ég ætlaði ekki að taka séns á að vera komin heim og þurfa að snúa við aftur.  Tók nokkra spretti fram og til baka á Sæbrautinni og nú get ég hjólað á fullu án þess að halda í stýrið, vúhúúú...  Hélt svo heim á leið og samtals gerðu þetta 104,6 km.

Þegar ég kom heim var ég aðframkomin af hungri og ekkert smá hamingjusöm að komast í lambalæri sem hafði verið í matinn.  Gat ekki annað en hlegið að sjálfri mér, ennþá í hjólagallanum, með lærið í annarri og hnífinn í hinni, rífandi í mig kjötið eins og villikona.  Eftir langa sturtu var óendanlega gott að henda sér upp í sófa með rauðvínstár í glasi og horfa á Biggest Looser.  Það gerist ekki mikið betra Grin.

 

2009 Hjólað 100

Loksins kapp

Arrrghhh...  Var rétt í þessu óvart að eyða út öllum myndum helgarinnar nema einni!!!

Hún er reyndar mjög sæt, Lilja að skoða á sér tærnar...  En það voru þarna myndir úr sumarbústaðaferðinni okkar sem voru algjört æði, sniff Frown.

IMG 1145

En alla vega þá var þessi langa helgi tær snilld.  Við stungum af í bústaðinn á miðvikudagskvöldið og vorum fram á föstudagskvöld.  Skokk í sveitinni, fótbolti, sundferðir á Selfoss og ísbíltúrar.  Á fimmtudagskvöldið fengum við góða gesti í grill hjá okkur, Jóhönnu og Ívar og þá var nú aldeilis spáð í hlaupaspilin fram og til baka.  Á föstudaginn kíktum við líka á Elfu og Jón á Selfossi og fengum kaffisopa, skoðum dýralífið á bænum og hoppuðum pínu á trampolíninu þeirra.  Eftir allt þetta fjör var Lilja búin að fá nóg og varð eiginlega hálf lasin.  Við ákváðum þess vegna að fara í bæinn um kvöldið bara svona til vonar og vara.

Stelpan var nú reyndar miklu sprækari á laugardaginn og þá kom líka í ljós að það var jaxl að þröngva sér í gegn sem var sennilega skýringin á slappleikanum.    Gabríel fór með pabba sínum á Þróttaradaginn og þeir hlupu 6 km í áheitahlaupi fyrir Þrótt.  Ég tók lengsta hlaupatúrinn minn í 2 mánuði, rúma 16 km og fann ekki fyrir því, nema þá fyrir vellíðan Wink.

Í dag skelltum við Gabríel okkur svo í Árbæjarhlaup Fylkis.  Þar var bæði hægt að hlaupa 3 km, Stífluhringinn í Elliðaárdalnum eða 0,5 km á fótboltavellinum fyrir 11 ára og yngri.  Gabríel var nú á því að hlaupa styttri vegalengdina en skipti um skoðun þegar við vorum komin upp eftir og ákvað að fara 3 km líka.  Hann stóð sig eins og hetja, hljóp á 12:45 (4:43 pace) en ég mældi leiðina 2,7 km. 

Ég var þriðja í hlaupinu og fyrst kvenna á 11:05.  Ég hef náttúrulega ekkert verið að þenja mig undanfarið og fann alveg fyrir þessu, verkjaði í lungun eftir hlaup.   Lappirnar voru alveg þrælsterkar nú vantar bara að ná upp þoli til að geta höndlað hraðann.  Fékk fínan bikar að launum, alltaf gaman að fá bikar.

Annars var hugurinn hjá honum Gunnlaugi af og til alla helgina en hann gerði sér lítið fyrir og sigraði 48 tíma hlaupið í Borgundarhólmi, hljóp samtals 334 km og komst með þessu afreki í 3. sæti heimslistans fyrir árið 2009. 

TIL HAMINGJU GUNNLAUGUR!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Eva Margrét Einarsdóttir
Eva Margrét Einarsdóttir

Ætlar að hlaupa styttra og hraðar...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband