Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Miðaldra kona í bumbubol...

...er bara ekki málið!!!

Fórum á æfingu í Laugum áðan og ég var eitthvað að flýta mér að taka til dótið mitt og greip með mér svart/hvíta hlýrabolinn minn (vel rúmur og síður...).  Þegar ég fer að klæða mig í Laugum þá kom í ljós að þetta var alls ekki svart/hvíti hlýrabolurinn, heldur pínulítill þríþrautartoppur sem nær svona hálfa leið niður að nafla.  Kvartbuxurnar náðu svo rétt upp fyrir mjaðmabein þannig að þarna stóð ég með bumbuna út í loftið eins og asni og ekkert hægt að gera í stöðunni en að bíta á jaxlinn og vona að ég hitti ekki neinn sem ég þekkti.

Blush


Allt að koma

Ja hérna, þessar harðsperrur voru heldur betur þrautseigar.  Fann ennþá verulega fyrir í lærunum í gær en núna er ég orðin nokkuð góð bara.  Eins gott líka þar sem við hjónin ætlum að taka 800 m spretti eftir vinnu.  Var búin að plana að vera með í Hérahlaupinu á fimmtudaginn og ef ég verð spræk og veðrið verður gott þá geri ég það.  Planið segir 30 mínútna tempóæfing, þannig að ég verð aðeins að puða hvort sem ég tek þátt eða ekki...


Læri, læri..

Við erum með hrikalegar harðsperrur í lærunum eftir gærdaginn! 

Er búin að eiga svona ofurkonu dag, skil núna hvernig hægt er að afkasta svona miklu eins og sumir (ÁSTA) á einum degi. 

Lilja spratt á fætur klukkan sex og ég tók vaktina.  Fyrir klukkan átta vorum við búnar að kúra saman í sófanum, borða hafragrautinn, lesa nokkrar bækur, borða kornflex, setja í eina þvottavél, baka vöfflur fyrir Gabríel, prjóna heilmikið og horfa á Dodda.  Þórólfur var ræstur hálf níu og þá fór ég í ræktina á harðakani því klukkan tíu byrjaði badmintonmót hjá Gabríel í TBR.  Guttinn stóð sig með prýði og vann alla leikina nema einn.  Smá blundur með Lilju eftir mótið og svo kom tengdapabbi að hjálpa Þórólfi að mála nýju svalarhurðirnar okkar.  Klukkan er ekki orðin þrú og ég er meira segja búin að renna einn blogg hring (Lilja sefur ennþá Grin ). 

Lykillinn er bara að vakna fyrir allar aldir... 


Síðasta langa í bili

Tengdapabbi kom og sótti okkur í bítið og henti okkur út í hávaðaroki í Skálafelli.  Við vorum frekar illa búin miðað við að vera komin á fjöll, ekki alveg að fatta að við værum að fara á milli veðrakerfa...  En þetta slapp til, ískaldur vindurinn náði ekki að frysta alveg af okkur eyrun þar sem við hlupum í átt að bænum, eins og álfar, ekki með húfu og í léttum vestum yfir þunna peysu.  Prísuðum okkur sæl að hafa ekki farið í kvartbuxum eins og við vorum að spá í... FootinMouth.

Fyrstu 11 km liðu svo fáranlega hratt, við bókstaflega fukum niður fjall og vorum aðallega að passa okkur á að fjúka ekki út af veginum.  Næstu 11 km vorum við komin í blíðuna, ennþá með vindinn í rassinn bara svona rúll.  Síðustu 11 km liðu svo aftur ótrúlega hratt og ég get svarið það ég var næstum með smá samviskubit yfir því hvað þetta var létt.  Ekki það við vorum sko alveg fegin þegar við komum heim, síðasta æfingin búin og enginn hlaupaleiði, ekkert vesen... 

Það er kannski ekki alveg að marka því fyrir okkur hjóninn eru þessa löngu æfingar eiginlega okkar 'quality time', bara tvö saman.  Við förum aldrei í bíó eða eitthvað annað út, öll pössun fer í hlaupin.  Í dag þá vorum við eiginlega bara í hláturskasti fysta hlutann og létum eins og asnar, svo er ósköp gott að þegja með einhverjum sem maður þekkir svona vel og síðasta hlutann þá erum við svo grobbinn með okkur að við skiptumst á að segja hvort öðru hvað við séum nú dugleg og æðisleg og svo flissum við yfir því hvað við erum væmin og asnaleg...

Það var tekin svona þríþrautarskipting þegar heim var komið því Gabríel var að keppa í handbolta og því má maður ekki missa af.  Í sturtu, fötin, troða í sig brauðsneið, vekja Lilju og bruna út í Gróttu.  Gabríel og félagar hans í Þrótti voru alveg ótrúlegir, maður heyrði lýsingarorð eins og mulningsvélin...  Þeir unnu alla leikina sína og það var frábært að sjá hvað þessir guttar voru kurteisir og flottir á vellinum.

Vorum að skríða heim og ekki fyrr komin inn úr dyrunum en að Gabríel klæddi sig í fótboltaskóna og skokkaði niðrá gervigras.  Þórólfur er að herða sig upp í að fara á eftir honum, sýnist hann vera kominn í gallann  Kissing.

Ps. frá síðasta bloggi.  Gleymdi einu mikilvægu varðandi ÍR hlaupið, kenni um súrefnisskorti vegna áreynslu...  Takk fyrir alla hvatninguna!!!  Á tímabili var ég farin að hugsa að það hlytu að vera fleiri Evur en ég þarna, óteljandi 'Komaso Eva', 'Áfram Eva', 'Flott hjá þér Eva'.  Síðustu 2 km þá var hvert hvatningarorð eins og nokkrir bensíndropar á tankinn og hélt manni gangandi að næsta 'Áfram Eva'.  Vona að mér endist ævin til að endurgjalda allan stuðninginn sem ég hef verið svo heppin að fá að njóta í gegnum tíðina.


Dæmalaust góð byrjun

Sumarið byrjaði snemma hjá okkur, mjöööög snemma.  Litli sólargeislinn okkar ákvað að byrja að láta ljós sitt skína kl. 5:42, alveg í þrusustuði GetLost.  Eftir hálftíma samningaviðræður gáfumst við upp og sættum okkur við að þetta sumar byrjaði alveg extra snemma...

Afi Þór mætti til okkar fyrir klukkan ellefu og við lögðum í hann, öll fjölskyldan, niðrí bæ þar sem við Þórólfur tókum þátt í Víðavangshlaupi ÍR.  Ég hafði svona verið að gæla við að reyna að komast undir 20, átti alveg fræðilegan möguleika á því.  Spurning bara hvaða áhrif öll þessi langhlaup hafa á hraðann í svona stuttu.

Í Ráðhúsinu hittum við meðal annarra Bigga Sævars og óskuðum honum til hamingju með frábæran árangur í London Maraþoninu og hann sagðist ætla að taka því rólega í dag, hlaupa á ca. 20 mín.  Gat ekki passað betur og ég hugsaði mér gott til glóðarinnar að reyna að halda í við hann.  Við spjölluðum aðeins meira saman og rifjuðum upp 5 km hlaup sem ég hljóp haustið 2006, þá ólétt af Lilju.  Ég var svona að miða við að hlaupa á ca. 25 mínútum og fljótlega var ég samferða manni sem ég þekkti ekki, svona skiptumst aðeins á að leiða og hlupum svo heilmikið saman.  Í lok hlaupsins kom í ljós að þetta var pabbi hans Bigga og hann náði sínum besta tíma í þessu hlaupi, enduðum á rétt rúmum 24 mín.

'Ég skal bara gefa þér í sumargjöf frá pabba að pace-a þig undir 20'.  Svona er lífið stundum ótrúlega skemmtilegt.  Maður hafnar að sjálfsögðu ekki svona boði og um leið er ekkert inní myndinni annað en að standa sig.  Við hlupum af stað, garmurinn minn fór eitthvað í stöppu og sýndi tóma dellu þannig að ég þurfti bara að treysta á hérann minn.  Fyrstu 3 km voru ekkert mál, létt á mér og mjög ánægð með þetta allt saman.  Fjórði km var erfiður, bara einn tveir og þrír þá var eins og allt bensín væri að klárast.  Fimmta km þurfti ég á allri minni þrjósku, öllum fleygum setning, möntrum og síðast en ekki síst að hugsa um það að ef ég klúðraði þessu núna væri ógeðs km 4 hlaupinn til einskis...  Biggi var ótrúlega góður, hvatti mig áfram á sinn ljúfa máta og skilaði gömlu konunni í mark á 19:42.  Segi nú bara eins gott að ég var ekkert að fylgjast með hraðanum, hefði sennilega panikkað, því við vorum nær því að hlaupa á 3:50 en 4:00 (brautin er rétt rúmlega 5 km).  Þvílíkt kikk, ótrúlega ánægð með að ná þessum áfanga.

Þórólfur hljóp á 18:42 og náði sínum markmiðum að hlaupa undir 19.  Afi Þór tók góðan labbitúr með Lilju á meðan við hlupum og Gabríel hljóp með mér einn hring í kringum Tjörnina eftir hlaupið.

Rukum beint heim og í sparigallan því okkur var boðið í fermingu hjá Agli Fannari, stráknum hennar Þórdísar vinkonu minnar.  Ekki ónýtt að komast í dýrindis veislumat, gúmmelaði og góðan félagsskap svona beint eftir átökin. 

Nú sitjum við hérna hlið við hlið hjónin, frekar lúin en glöð eftir góðan dag.  Trúi því að þetta verði sérstaklega skemmtilegt sumar! 


Heima er best

Undanfarna daga hef ég verið að vinna að verkefni sem krafðist viðveru á Kirkjusandi.  Þegar ég byrjaði að vinna hjá Glitni varð ég fyrir nokkrum vonbrigðum að vinnustaðurinn minn væri hérna upp á Lynghálsi, var búin að sjá fyrir mér að ég gæti rölt í vinnuna samferða manninum mínum. 

Eftir hafa verið á Kirkjusandi í nokkra daga, sem n.b. var mjög skemmtileg tilbreyting og ég á eflaust eftir að vinna töluvert meira þar, þá saknaði ég þess að geta ekki gætt mér á eðal kaffinu okkar hérna, maturinn hérna er líka miklu betri og fólkið í eldhúsinu ótrúlega vinalegt.  Svo gott að setjast eða standa við skrifborðið mitt hérna.  Ég er svo ánægð að vera komin 'heim'  Grin.

Í dag er hlaupahvíld hjá okkur hjónum því við ætlum að reyna að blasta soldið í ÍR hlaupinu á morgun sem við skiptum út fyrir tempó æfingu.  Væri nú ekki leiðinlegt að ná smá bætingu í 5 núna.  Sjáum hvað setur og hvernig þessar langhunda æfingar fara með 'stutta' formið.


Zola Zúber...

Aldrei verið eins spennandi að fylgjast með maraþoni fyrir mig.  4/5 af Glennum að takast á við þessa þrekraun í dag og nú eru allar komnar í mark.  Glenna dagsins er án nokkurs vafa hún Sóla Glenna sem hefur tekið við titlinum hraðskreiðasta maraþon glennan á persónulegu meti 3:24:27 en það er rúmlega 20 mínútna bæting!

Mér sýnist Sigrún líka vera að bæta sig um rúmar 5 mínútur.  Agga er nálægt sínum besta tíma, en af statistikkinni sýnist mér hún hafa farið heldur hressilega af stað og þurft að borga fyrir það.  Ásta kláraði hlaupið eins og hún lagði upp með.

Hamingjuóskir til allra sem luku einu þoninu enn, glæsilegt!


Maraþon pace

Æfing dagsins, 16 km á maraþon pace og nú finnur maður að æfingarnar eru að skila sér, veld vel þessum hraða.  Ég var ein í morgun í Laugum, Þórólfur fór með Gabríel til Keflavíkur á fótboltamót.

Feðgarnir lögðu af stað vel fyrir klukkan átta í morgun og Gabríel spilaði 6 leiki, skoraði 6 mörk og þrennu í einum leiknum!  Þeir komu heim rúmlega þrjú og guttinn var ekki búin að vera heima í meira en korter áður en hann tölti niður á gervigras til að leika sér, þvílíkt úthald.

Við mæðgur fórum í Húsdýragarðinn í dag og það var þvílíkt gaman að sjá hana Lilju skoða dýrin.  Hún skríkti af kæti þegar hún sá selina, grísina, geiturnar en var pínu hrædd við refina og hestarnir voru aðeins og vinalegir.  Hænurnar, kanínurnar og hreindýrin voru líka þvílíkt spennandi.

Hérna er smá myndband af Lilju, er að fíla rappið í botn.  Wazzup....

Annars er hugurinn hjá Glennunum og öðrum félögum sem eiga stóran dag á morgun.  Komaso Glennur!


Best í heimi...

Gabríel snillingur 

Gabríel húmoristi, fékk 'þetta' í verðlaun hjá tannlækni um daginn...

 Lilja með hanakamb

Mamma brjáluð með ryksuguna og Lilja komin með hanakamb eins og brósi.

Stór stelpa

Lilja er orðin svo stór stelpa, á leiðinni á skólaskemmtun hjá brósa sínum.

Kynnir

Gabríel stóð sig með prýði sem kynnir á skemmtikvöldinu.


Pakkað

Einstaklega mikið að gera hjá okkur þessa dagana, sólarhringurinn er bara ekki alveg að duga.  Þegar veikindi, skólaskemmtanir, íþróttamót, námskeið, útréttingar og annað því um líkt bætist við venjulegu dagskránna þá er bara ekki mikill afgangur...  En þetta gengur allt saman einhvern veginn, náum að púsla þessu saman með lagni.

Aðeins rólegra hjá okkur í hlaupunum þessa helgina, planið segir 19 km á laugardag og 16 á maraþonpace á sunnudag.  Við vorum á pace æfingu í gær og við finnum alveg rosalega mikinn mun frá því við byrjuðum, miklu auðveldara núna.


Næsta síða »

Höfundur

Eva Margrét Einarsdóttir
Eva Margrét Einarsdóttir

Ætlar að hlaupa styttra og hraðar...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband