Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Nú er ég svo aldeilis hissa...

Ótrúlegt en satt, maðurinn minn var að vinna úlpu frá 66° Norður í Helgarútgáfunni á Rás 2.  Hann tók þátt í einhverjum leik á netinu og það var hringt í hann í dag þegar við vorum að koma heim af hlaupunum.  Felix Bergsson tók smá viðtal við hann í leiðinni, það byrjar svona þegar rétt tæplega 3/4 af þættinum eru búnir.

Grin Grin


Hún mamma mín :)

Mamma leyfði mér að birta hérna bréf sem hún sendi í pósti í dag ásamt nokkrum bókum:

.

Hallgrímur Helgason.

 .

Ég hef séð myndir af þér í sjónvarpi og dagblöðum undanfarið þar sem þú væntanlega sýnir þitt rétta andlit og innræti.  Mér fannst eins og ég væri að horfa framan í "ljóta karlinn".  Þess vegna vil ég losa mig við þær bækur af heimilinu sem eru höfundarverk þín, og okkur hafa verið gefnar, og senda þær til föðurhúsanna. (Ég veit að við höfum einhverntímann fengið 101 Reykjavík, en finn hana ekki núna, svo hún verður send seinna ef hún kemur í leitirnar).

 .

Friðsamleg mótmæli eiga fullan rétt á sér, en ég hef andstyggð á félögum þínum sem eru svo huglausir að þora ekki að sýna á sér andlitin meðan þeir meiða lögreglumenn og eyðileggja eigur almennings, því undirrita ég með fullu nafni.

 . 

Gerd Ellen Skarpaas Einarsson.


Hrokkið í gírinn, Laugavegurinn fyrir byrjendur..

Það eru 10 manns í vinnunni hjá mér sem ætla að hlaupa Laugaveginn í ár.  Við erum búin að skrá okkur í lið og þegar ég kíkti á hlaupatölurnar eftir fyrstu vikuna þá varð mér aðeins um og ó...  Sendi í kjölfarið póst til vinnufélagana og viðbrögðin létu ekki á sér standa (gamla konan með svipuna).  Vil taka það fram að ég átti engan þátt í að hvetja fólk til að skrá sig en er boðin og búin að gefa góð ráð til þeirra sem vilja þiggja þau.  En hér kemur bréfið sem fékk Lynghálsinn til að skjálfa á beinunum...

Til hamingju með að vera búin að skrá ykkur í Laugavegs Ultra Maraþon 2009 

Langaði bara að koma með smá ráðleggingar til ykkar sem eru að fara Laugaveginn í fyrsta sinn.  Ég er fullviss um að þið eigið eftir að klára þetta með sóma, þ.e. ef þið undirbúið ykkur eins og þarf.   Því miður (eða sem betur fer) er ekki hægt að nota aðferðina ég redda þessu nóttina fyrir próf í þessu tilfelli. 

.

Ég myndi segja að manneskja í góðu formi gæti mjög líklega klárað 10 km hlaup eða jafnvel hálft maraþon án þess að undirbúa sig sérstaklega en að sama skapi get ég eiginlega lofað því að það er ekki hægt að klára Laugaveginn innan tímamarka án undirbúnings. 

. 

Til þess að geta komist í gegnum 12 vikna Laugavegsþjálfun sem byrjar í apríl (og inniheldur nokkrar 30 km æfingar J ) er nauðsynlegt að vera komin með ákveðin grunn í hlaupunum, annað er ávísun á meiðsli.

.

Ég setti upp í smá töflu með þeim km fjölda sem ég tel að sé algjört lágmark, ekki til að rústa Laugaveginum og setja met, heldur til þess að standast tímamörk í Emstrum.

.

Ég myndi hlaupa alla vega 4 sinnum í viku (frá og með þessari viku) og þegar á líður lengja þá eina æfinguna, td. á laugardögum.   Frá viku 12 myndi ég vilja hafa löngu æfinguna alla vega 15 km.  N.b. ég er að tala um lágmörk að mínu mati hér.

. 

Vika

Km
520
622
725
828
930
1033
1135
1240
1342
1445
1545

Ef ég væri að kljást við einhver meiðsli og gæti ekki byrjað strax þá myndi ég hjóla klukkutíma í senn, 4 sinnum í viku á meðan. 

Að klára Laugavegs Ultra maraþonið er stórkostleg upplifun sem þið eigið aldrei eftir að gleyma! Að renna á rassgatið með þetta allt saman og ná ekki að standast tímamörk vegna þess að undirbúningnum er ábótavant er örugglega glötuð reynsla sem þið eigið heldur aldrei eftir að gleyma.... 

Ef það er eitthvað sem ég get aðstoðað ykkur með eða ef þið hafið einhverjar spurningar þá er bara að láta vaða. 

Kv. Eva

  • Laugavegurinn 2003 - 7:42
  • Laugavegurinn 2005 - 6:55
  • Laugavegurinn 2008 -  5:42

Maður veit aldrei

Ég er glöð að vita að það er engin hætta á því að það verði tekin mynd af mér og birt í blöðunum þar sem andlit mitt er afmyndað af hatri.  Ég á það ekki til.

Ég er glöð að vera ekki fljótfær, fullyrðingasöm og orðljót  í garð annarra.  Lögmálið um aðdráttaraflið virkar nefnilega alltaf, ekki bara þegar manni hentar.

Ég er glöð að vera ekki hluti af detox hreyfingunni sem heldur að þegar allt er komið í kúk og skít að þá sé hægt að redda því 1,2 og 3. 

Ég er spennt að sjá hver staðan verður eftir aðra 100 daga.

Ég er glöð að vita að maður veit aldrei og haga lífi mínu þannig. 


Hlaupakonan

Þórólfur er á skriðsundsnámskeiði þessa dagana, æfir tvisvar í viku og er að rokka feitt, þvílíkt gaman hjá honum. 

Í gærkvöldi var hópurinn að spjalla saman og kennarinn, sem er gömul vinkona mín, segir við Þórólf og nikkar í átt að einni konunni í hópnum: "Þessi heitir Eva eins og konan þín.  Ertu nokkuð Einarsdóttir?..."  Þá svarar konan:  'Nei reyndar ekki, en ég heiti Eva Margrét eins og hlaupakonan!". 

Ég veit ekki hvort þeirra var skrýtnara á svipinn, maðurinn minn eða Sóley vinkona....  "ehemm ja það er sko konan hans..."  Grin


Sé til lands

Eftir óvenju miklar annir í vinnu og deadline ofan á deadline í verkefnum er stund milli stríða.  Í rauninni þá hef ég mikið og nánast allt um það að segja hversu mikið álag er í vinnunni en stundum dettur maður bara í einhvern gír, tekur allt of mikið að sér og verður síðan hálf frústreraður út í aðra fyrir að ætlast til of mikils af manni.  Sem betur fer þá rofar nú oftast til í kollinum á manni, oft á hlaupum, og maður áttar sig á því að það er á eigin ábyrgð að segja stopp.

Stundum segir einhver annar nákvæmlega það sem maður er að hugsa en hefur ekki komið orðum að eins og í þessu tilfelli.  Vil samt taka það fram að það samræmist ekki mínum persónulegu lífsskoðunum að nota orku í að mótmæla.  Saga af Móður Theresu getur skýrt það frekar.  Hún sagði einhvern tíma eitthvað á þessa leið:  'Ef þú biður mig um að taka þátt í að mótmæla stríði þá mun ég neita en bjóðirðu mér að ganga með friði þá mun ég gera það'.  Ég trúi því einlægt að til þess að ná árangri þarf fókusinn að flytjast frá því sem er neikvætt og við viljum ekki yfir á það sem er jákvætt og við sannarlega viljum.

Og stundum les maður eitthvað nýtt sem hittir einhvern veginn alveg í mark og lætur mann brosa þegar maður hugsar um það.


Angistaróp meðalmennskunnar

Já það er smá urgur í gömlu konunni, best að blogga hann úr sér. 

Í dag var ég að spjalla við vin minn um Laugaveginn og það kom á daginn að hann hafði orðið vitni að umræðum 'alvöru' hlaupara sem voru að pirra sig á því að það væri búið að loka fyrir skráningu og það væri fullt af 'ekki alvöru' hlaupurum sem væru að taka öll plássin.  Ég sjálf heyrði eitthvað álíka um daginn frá hlaupafélaga og það fór bara inn um eitt og út um hitt, gaf því ekki gaum frekar en annarri vitleysu sem verður stundum á vegi manns. 

En í dag þá var mér ekki sama því að það eru margir vinir mínir að fara Laugaveginn í fyrsta sinn sem þurfa ekkert á því að halda að heyra svona bull.  Bara það að ákveða að fara, skrá sig og hefja æfingar krefst mikils hugrekkis og við sem höfum reynslu eigum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að styðja við bakið á þeim.

Við vorum öll byrjendur einhvern tíma og vei þeim sem ætlar að halda því fram, að þegar ég fór Laugaveginn í fyrsta sinn, hafi ég ekki verið 'alvöru' hlaupari.  Ég varð 'alvöru' hlaupari frá þeirri stundu sem ég ákvað það sjálf að ég væri 'alvöru' hlaupari.  Mikið er ég þakklát fyrir allan þann stuðning og þá hvatningu sem ég fékk þá, frá mér reyndara fólki, þrátt fyrir að hafa aldrei hlaupið lengra en hálft maraþon.    

Ég þekki hlaupara sem hlaupa ekkert sérstaklega hratt eða mikið en eru svo sannarlega 'alvöru' hlauparar sem taka þátt í öllum almenningshlaupum sem þeir geta og leggja þannig sitt af mörkum til hlaupasamfélagsins.  Ég þekki líka hlaupara sem geta hlaupið alveg svakalega hratt en af því að þeir eru ekki bestir eða að ná sínum besta árangri þá taka þeir ekki þátt í almenningshlaupum.  Hvor er 'alvöru'?  Ég sjálf hef örugglega á einhverjum tímapunkti tilheyrt báðum þessum hópum.

Upplýsingar um að skráningu á Laugaveginn hafa verið aðgengilegar á netinu mánuðum saman.  Allir eiga sama möguleika á að skrá sig og reyndir hlauparar, með allar sínar félagslegu tengingar ættu að vera í enn betri aðstöðu en aðrir ef eitthvað er.  Jú, jú, leitt fyrir þá sem voru of seinir að skrá sig.  Lærið af reynslunni!

Megi ég um aldur og ævi reyna að lifa í auðmýkt og aldrei falla gryfju hrokans, sem einkennir meðalmennskuna.

Amen.      


Prinsessan á bauninni

Eitt það allra besta sem hún Lilja veit eru kaldar grænar Ora baunir.  Stundum gengur ekki nógu hratt að skófla þeim upp í sig með skeið og þá reynir hún að sturta þeim upp í sig úr skálinni.  Það veit sá sem allt veit að ekki erfir hún það frá mér, jakkk... 

Hérna eru svo nokkrar myndir frá tveggja ára afmælinu hennar þann 3. janúar.

IMG 0625

 

 

 


Hálftíminn 15.01.09

  • Mættir: Júlli, Kári, Árni og Garðar
  • Pottur: Gunni Richter
  • Veður:  Stillt og fallegt en sérstaklega erfið færð
  • Scoop: Bankafólkið bar saman bankabækurnar sínar á skokkinu og verkfræðingurinn lagði sitt af mörkum.  Náðum verkalýðsforingjann upp á há Cið með ábyrgðarlausu tali um rassskellingar verkalýðsforinga í stjórnum banka og lífeyrissjóða Tounge .  Lítið var gert úr afsökunum þeirra sem ekki hlupu og mikið gert úr því að undirrituð kom Hálftímanum í heimsfréttirnar.  Ritari hljóp beinustu leið heim til sín eftir morgunskokkið og missti þar af leiðandi af potti og Kidda
  • Tími: Vel yfir hálftíman, kennum færðinni um

The Road Less Travelled

Smjatta á bókinni minni eins og Gollum á hringnum, my precious...  Las þessa bók fyrst fyrir svona 15 árum og get með sanni sagt að hún hafi breytt lífi mínu þá og tala nú ekki um skilningi mínum á lífinu.  Las hana aftur fyrir ca. 10 árum og lærði jafn mikið ef ekki meira, eins fyrir nokkrum síðast þegar ég las hana.  Eins og að horfa á góða bíómynd, með hverju skiptinu nærðu fleiri smáatriðum sem gera hana bara enn betri.

Mamma mín á bókina svo það er ekkert mál að fá hana lánaða en í dag pantaði ég mér hana á Amazon og tvær aðrar bækur eftir sama höfund því mig langar til að eiga þær sjálf.  Eiga þær til að lesa reglulega og til þess að lána öllum sem hafa áhuga.

Núna er ég að lesa fysta hlutann sem fjallar um aga og hvaða þýðingu hann hefur í lífi hverrar manneskju.  Næsti hluti fjallar um kærleik.


Næsta síða »

Höfundur

Eva Margrét Einarsdóttir
Eva Margrét Einarsdóttir

Ætlar að hlaupa styttra og hraðar...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband