Bloggfærslur mánaðarins, október 2009
30.10.2009 | 10:17
Föstudagar eru dekurdagar
Við mamma skelltum okkur í Blómaval í gær á konukvöld. Ef þetta er ekki ekta til að gera með mömmu sinni þá veit ég ekki hvað. Hittum fullt af skemmtilegum konum, tókum þátt í happadrætti, fengum bíómiða og Eriku að gjöf og það sem skiptir mestu máli, gáfum okkur tíma til að hafa það notalegt saman.
Ein besta fjárfestingin mín er að fara vikulega í nudd til hennar Betu minnar. Ég á fastan tíma hjá henni kl. 8 á föstudagsmorgnum og þá nuddar hún úr mér erfiði vikunnar og ég sprett upp af bekknum hjá henni, endurnærð og tilbúin í næstu viku. Ég borga fyrir nuddið með pizzunum sem ég borða ekki, sígarettunum sem ég reyki ekki og bjórnum sem ég drekk ekki. Ég á meira að segja fullt í afgang .
Það er ljótupeysudagur í vinnunni hjá mér í dag og svo haustferð á Úfljótsvatn á eftir. Ég fékk alveg skelfilega ljóta peysu lánaða hjá honum pabba, úfff... Við erum ekki mörg í deildinni sem tókum áskoruninni en við njótum þess þá út í ystu æsar að dissa hina með því að hrósa þeim fyrir sérstaklega ljótar peysur, ojjj og bæta jafnvel við... 'vá og líka í ógeðslega ljótum buxum, hvar fékkstu þær???'. Eins gott að það séu verðlaun .
Af hlaupaþjálfun er það að frétta að við tókum hörku sprettæfingu á miðvikudaginn, 3*1200m og 3*300m á brautinni og í gær fórum við 'létt' vaxandi 10 km frá Laugardalshöll, upp að stíflu í Elliðaárdalnum á móti rokinu og til baka. Var vel búin á því eftir þetta og við sem kepptum í 1/2 á laugardaginn vorum sammála um að það mætti nú alveg vera aðeins meira dekur í þessari viku... En ekki ætla ég að kvarta, maður styrkist við hverja æfingu, ekki spurning.
Tek stöðuna í fyrramálið og ef ég er fersk og fín eftir tjúttið í kvöld, þá verður látið vaða á Víðavangshlaup Framfara #3 sem fer fram út á Nesi á morgun.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.10.2009 | 21:40
Allt að koma
Var heldur framlág eftir hlaupið góða og lagðist aftur í mína pest, kláraði í gær og var orðin hitalaus í morgun. Nú getur þetta bara farið upp á við. Var að koma af uppskeruhátíð hjólreiðamanna og kom ekki tómhent heim. Það voru veitt verðlaun fyrir bikarmót sumarsins og ég varð önnur í heildina á götuhjólum, bikarmeistari 30-40 ára í götuhjólum og þriðja í heildina á fjallahjólum.
Ég er heilmikið að prjóna þessa dagana, þ.e. fyrir framan imbann á kvöldin og svo sel ég lopapeysur hæstbjóðanda. Þessa gerði ég fyrir norskan frænda minn, ekki ónýtt að ná sér í smá gjaldeyri. Núna er ég með léttlopa hettupeysu í vinnslu og eina á bið...
Hérna er svo ein sæt mynd af Lilju og Mirru frænku hennar, tekin í fimm ára afmæli Mirru. Lilja tók ekki annað í mál en að mæta í veisluna í prinsessu kjól! Maggi litli frændi Mirru hefur meiri áhuga á súkkulaðikökunum en skvísunum, ennþá alla vega...
Ég fæ bónda minn heim á eftir, mmmm, hlakka til .
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.10.2009 | 05:29
1/2 Haustmaraþon FM 2009
Það var tvísýnt um að ég kæmist í hlaupið, búin að vera lasin síðustu daga, full af kvefi, sár í hálsinum en ekki með hita, sem þýðir að ég var í vinnunni... Ákvað nú samt að hafa allt opið og náði í gögnin mín á föstudaginn, ákvörðun skyldi tekin að morgni keppnisdags. Það var bara ekki hægt annað en að kýla á þetta, þvílík og önnur eins blíða, það er ekki hægt að biðja um betra veður. Þar fyrir utan var þetta fyrsta/eina hálf maraþonið mitt á árinu, ég missti af vorþoninu vegna meiðsla og hef frekar valið að hlaupa stutt í sumar.
En alla vega, var bara nokkuð spræk á startlínunni og hlakkaði til að rumpa þessu af. Birna Varðardóttir tók forystuna í upphafi en áður en langt um leið vorum við þrjár í hóp sem hlupum saman. Þetta er í fyrsta skipti á mínum keppnisferlil hérna heima sem ég lendi í svona aðstæðum, þ.e. frábærri keppni sem dregur fram það besta í manni. Við skiptumst á að halda uppi hraða, um leið og ein slakaði aðeins á þá var önnur komin í gírinn. Alveg magnað. Eftir 16 km var ég orðin vel lúin og sá ekki fyrir mér að vinkonur mínar myndu gefa sig. Ég fór að reikna út á hvaða tíma við myndum enda og skildi ekkert í því en sá að þetta yrði í kringum 1:34... Þar sem ég sá hvorki fram á persónulegt met, né að geta náð sæti þá dró enn frekar úr mér þarna og ég seig töluvert aftur úr stelpunum. Þegar 3 km voru eftir gerði ég mér grein fyrir að ég hafði misreiknað mig um 1 km og jú, ég átti ennþá séns á að slefa undir 1:30!!! Ákvað að hysja upp um mig og gefa allt sem ég átti í að klára þetta. Ekki lítið glöð þegar sá klukkuna og sá að ég gæti ekki klúðrað þessu, lokatíminn 1:29:40, jibbííí...
Tengdapabbi og Lilja mín tóku á móti mér í markinu, 'Áfram, mamma!!!'. Eftir niðurskokk og sturtu var hópnum mínum boðið í gourmet brunch hjá þjálfaranum, þar sem farið var yfir daginn, framtíðarplönin og allt milli himins og jarðar. Mamma og pabbi voru svo búin að bjóða mér og krökkunum í kvöldmat, þvílíkur lúxus dagur.
Þórólfur er í vinnuferð í Köben og var frekar leiður að missa af hlaupinu og tilbehör. Það bætti úr skák að hann fann keppnishlaup þar um helgina. Hann ætlar að hlaupa 10 km, spennandi að sjá hvernig það fer!
Úrslitin komin frá Köben. Þórólfur varð 11. í heildina á 37:04. Honum fannst mjög gaman að taka þátt í þessu hlaupi og var bara mjög sáttur, þó svo hann hafi stefnt á bætingu, því það var töluvert mikill vindur á keppnisdag.
p.s. ef einhver er að furða sig á tímanum sem færslan er sett inn þá sit ég hérna í fullkominni kyrrð, með panodil hot og snýtubréf... Gafst upp á að geltinu í sjálfri mér .
Hlaup | Breytt 26.10.2009 kl. 08:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.10.2009 | 20:10
Námskeið á vegum Heilsuskóla Keilis
Námskeið:
Miðvikudaginn 18. nóvember klukkan 19.30-22.00
Viltu bæta hlaupatíma þinn/skjólstæðings þíns?
Hættu að skokka og byrjaðu að hlaupa!
Ertu að skokka en vilt hlaupa eða hleypurðu og vilt hlaupa hraðar? Vandræðum með að setja upp æfingar? Hvað sem þú æfir mikið, bætirðu aldrei tímann þinn? Orðin/n þreytt/ur á að árangurinn skili sér ekki? Viltu kunna að skipuleggja hlaupin þín, setja upp æfingarnar rétt, læra fjölbreytni í æfingum og bæta tímann þinn?
Ef svarið er JÁ þá ættirðu að lesa áfram.
Gríðarleg vakning hefur verið í hlaupum á meðal almennings undanfarin ár og fólk er byrjað að leggja meira og meira uppúr hlaupum í sinni heilsurækt sem í mörgum tilfellum endar sem brennandi áhugamál þar sem fólk keppist við að bæta tíma sína. En hvernig á maður að hlaupa til að bæta tímann sinn? Er bara nóg að skokka? Gæti verið að það skipti máli hvernig maður skokkar/hleypur?
Miðvikudaginn 18. nóvember klukkan 19.30 mun Sigurbjörn Árni Arngrímsson (Bjössi) dósent í íþróttafræði við Íþróttafræðasetur Háskóla Íslands og hlaupari mikill svara þessum spurningum á námskeiði sem haldið verður hjá Keili á Ásbrú (Reykjanesbæ). Bjössi mun einblína á fjölbreytni í æfingum og uppsetningu á þjálfun þannig að hinn almenni hlaupari fái sem mest úr æfingatíma sínum. Fjallað verður um hvernig fólk getur metið ákefð æfinga sinna og farið verður yfir undirstöðuatriði hlaupaárangurs.
Í framhaldi af fyrirlestri Bjössa mun Eva Einarsdóttir fjalla stuttlega um þá hugarfarsbreytingu sem þarf að eiga sér stað þegar fólk ákveður að gera hlaupin/skokkin sín að markvissri keppni við tíma.
Í lokin munu bæði Sigurbjörn og Eva sitja fyrir svörum við spurningum úr sal.
Námskeiðið er ætlað öllum almennum hlaupurum sem hlaupa sér til kapps og gamans.
Verð á námskeiði: 3.900 krónur
Skráning fyrir 5. nóvember, hér: https://www.inna.is/Kennarar/keilir/
Þátttakendur fá sendan greiðsluseðil þegar þeir hafa skráð sig í gegnum meðfylgjandi hlekk. Ef greiðandi er annar en þátttakandi skal þátttakandi greiða seðilinn sjálfur og fá endurgreitt frá þeim sem greiða á námskeiðið (íþróttafélag eða annað). Mikilvægt er að seðillinn sé greiddur fyrir eða á gjalddaga ellegar er litið á sem svo að þátttakandi ætli ekki að mæta á námskeiðið.
Nánar um leiðbeinendur á námskeiðinu:
Sigurbjörn Árni Arngrímsson (Bjössi) er dósent í íþróttafræði við Íþróttafræðasetur Háskóla Íslands og tók til starfa haustið 2001. Hann útskrifaðist með doktorsgráðu í íþróttafræði vorið 2001 frá University of Georga og tók áður meistaragráðu í íþróttafræði sumarið 1998 og B.S.Ed. gráðu í heilsufræði- og íþróttakennslu í desember 1996 frá sama skóla. Bjössi kenndi við University of Georgia í 5 ár og kenndi m.a. þjálfunarlífeðlisfræði; heilsu-, næringar- og þjálffræði; og hinar ýmsustu íþróttagreinar. Við Íþróttafræðasetur HÍ hefur hann kennt heilsufræði; þjálfunarlífeðlisfræði; næringarfræði; og afkastagetu og íþróttamælingar í B.S náminu og kennir líkamssamsetningu; vöxt, þroska og hreyfingu barna; þjálfunarlífeðlisfræði; og faraldursfræði hreyfingar í meistaranáminu. Sérsvið hans í rannsóknum eru: Líkamssamsetning, áreynslulífeðlisfræði og börn.
Bjössi hefur æft og keppt í hlaupum frá barnsaldri og hefur 35 sinnum orðið Íslandsmeistari í karlaflokki í veglengdum frá 4x400 m boðhlaupi upp í hálft maraþon. Hann er núverandi Íslandsmeistari í 10.000 m hlaupi og hálfu maraþoni. Bjössi hefur auk þess átt Íslandsmet í 4x400 m boðhlaupi sem og 1000 m og míluhlaupum innanhúss. Hann var í landsliðinu í frjálsíþróttum til margra ára og fyrirliði þess í nokkur skipti. Bjössi var aðalþjálfari HSÞ 1992-1993, aðstoðaði við þjálfun skólaliðs Georgíuháskóla 1999-2001 og þjálfaði Skokkhóp Flugleiða 2002-2007. Hann var svo Landsliðsþjálfari íslenska frjálsíþróttalandsliðsins 2005.
Eva Margrét Einarsdóttir stundaði engar íþróttir fram eftir aldri. Var of þung frá 9 ára aldri, með miklar þyngdarsveiflur, óteljandi megrunaraðferðir, toppaði í tæpum 100kg, rótleysi frá unglingsaldri. Eva byrjaði að hlaupa 31 árs og er í dag ein fremsta hlaupakona sem Ísland hefur átt.
Ef einhverjar spurningar koma upp þá endilega hafið samband við mig. Upplýsingar hér að neðan
bestu kveðjur,
Sævar Ingi Borgarsson
verkefnastjóri Heilsuskóla Keilis
Hlaup | Breytt s.d. kl. 20:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.10.2009 | 18:44
Tante Astrid
Í gær kvaddi ég hana elsku Tante Astrid mína en hún lést þann 9. október, 98 ára gömul. Hún Tante var heldur betur örlagavaldur í lífi minnar fjölskyldu, en hún var einmitt ástæða þess að mamma mín kom til Íslands í denn með tilheyrandi afleiðingum .
Á þeim tíma bjuggu Tante Astrid og Jóhann frændi minn á Þingvöllum, þar sem hann var prestur og þjóðgarðsvörður. Mamma fékk sumarvinnu hjá þeim heiðurshjónum og Jóhann frændi var fljótur að hóa í frænda sinn (pabba minn) og segja honum að nú væri hann búin að finna honum fyrirtaks konuefni. Mamma og pabbi hittust svo fyrst í Almannagjá og seinna giftu þau sig í Þingvallakirkju.
Foreldrar mínir ákváðu þegar tími vartil komin að stækka við sig (komin með fjögur börn...) að byggja parhús með þeim Tante og Jóhanni, í Norðurbrún. Þar bjuggum við hlið við hlið þangað til að ég var orðin stálpuð. Jóhann frændi dó reyndar þegar ég var fimm ára svo ég man ekki svo mikið eftir honum en Tante var stór hluti af daglegu lífi okkar allra.
Það eru ekki margar manneskjur sem eiga svona stóran þátt í lífi manns, sem maður á einungis góðar minningar um, en þannig er það með Tante Astrid. Hún var svo skemmtileg, lífsglöð, réttsýn og góð kona. Hún var líka endalaust stríðin, hafði frábæran húmor og eins og ég man hana þá var hún alltaf brosandi. Mér hlýnar um hjartaræturnar að hugsa um hana, dillandi hláturinn hennar og hlýju knúsin.
Tante lifði ótrúlega viðburðaríku lífi. Hún og Jóhann störfuðu sem trúboðar í Kína í mörg ár, m.a. á stríðstímum og hún átti endalausar sögur af ævintýrunum sem þau lentu í á þessum árum og það var ekkert smá spennandi að eiga frænku sem talaði Kínversku. Árin á Þingvöllum gekk hún í öll störf, sá um póstinn, alla gesti, var hjúkrunarkonan á svæðinu, mjólkaði kýrnar og ég veit ekki hvað... Aldrei man ég eftir því að hún hafi kvartað yfir einu né neinu, þetta var bara svona og hún einhenti sér í þau verkefni sem fyrir lágu með bros á vör.
Þegar heilsan fór versnandi með aldrinum, þá fékk maður alltaf sama svarið ef maður spurði hvernig hún hefði það. 'Hue opp og beina ned' og svo hló hún. Það komu margir ættingjar frá Norge til að kveðja Tante Astrid og í minningartölu sem var haldin af frænda okkar, þá kom fram að öllum þótti eins og þeir ættu sérstakan stað í hjarta gömlu konunnar, alveg eins og hún átti sérstakan stað í hjarta okkar allra. Það er ekki öllum gefið að lifa þannig. Það kom líka fram að hún lifði eftir því mottói að: 'Den største gleden en kan ha, er å gjøre andre glad'. Það tókst henni svo sannarlega. Ég er svo þakklát fyrir þann tíma sem ég átti með henni Tante Astrid minni.
Friðarsúlan í Viðey hefur fengið nýja merkingu fyrir mér. Ég veit alveg um hvern ég mun hugsa þegar það verður kveikt á henni í framtíðinni, þann 9. október á ári hverju .
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.10.2009 | 09:12
Heiðmerkurtvíþraut 2009
Var bara nokkuð spræk eftir Víðavangshlaupið og til í aðra lotu á sunnudagsmorguninn. Veðrið var bara gott miðað við fyrri ár, ekki mikill vindur. Við fengum nokkrar góðar hellidembur á okkur á leiðinni en þess á milli glennti sólin sig.
Ég er alltaf með í tvíþrautinni þegar ég get, þetta er ótrúlega skemmtileg keppni (4 km hlaup - 15 km hjól - 4 km hlaup) og eina sem vantar er að fleiri konur taki sig til og mæti. Í gær mættu 12 karlar og tvær konur til leiks. Þrautin gekk vel, ég var bara ánægð með formið, var að bæta tímann minn um ca. 1 og 1/2 mínútu. Ég var ekki með neina klukku í þetta sinn og er ekki frá því að það sé bara þægilegra. Ég hef líka yfirleitt skipt um pedala á hjólinu mínu til að þurfa ekki að skipta um skó en ég nennti því ekki í þetta sinn, tók þetta bara sem æfingu í skiptingum í leiðinni. Ég fann mikinn mun á hjólaleggnum, yfirleitt hafa karlarnir verið að taka mig í nefið þar en ekki í þetta sinn, hélt mínu sæti eftir hlaupið. Ég varð 9. í heildina á 1:13:14, fyrst kvenna, hérna eru annars úrslitin.
Hérna er mynd af hópnum sem hún Alma tók. Á hana vantar Hákon Hrafn sem varð 2. í heildina.
Við Gabríel fórum svo á bæjarrölt saman seinnipartinn. Byrjuðum á að kíkja á DVD markað, fórum svo í Kolaportið, kaffihús og enduðum í Kringlunni. Gabríel var með hluta af afmælispeningnum sínum með sér og það var fyndið að sjá hvað hann pældi mikið í hvort það væri þess virði að eyða honum í hitt og þetta. Hann var t.d. ekki til í að kaupa DVD mynd á 1000 kr. fyrir sína peninga. Hann keypti sér tvo skammta af hákarli á 150 kr. í Kolaportinu sem hann gúffaði í sig af bestu lyst. Bestu kaupin voru samt hrikalega flottir fótboltaskór sem við fundum á spottprís í Útilíf. Þegar hann var búin að kaupa þá var samþykkt að setja restina af peningunum í bankann .
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.10.2009 | 18:06
Víðavangshlaup Framfara í Draugaklettum
Vorum ekki beint í partý stuði eftir veikindaviku barnanna og ákváðum að sleppa Íslandsbanka tjútti í gærkvöldi. Kúrðum okkur bara uppí sófa (ég með prjónana) og horfðum á sjónvarpið. Planið var að við myndum skipta liði í dag, ég færi svona 15 km snemma og þá kæmist Þórólfur í Víðavangshlaup Framfara og ég tæki við hjúkrunarstörfum. Eftir drollið á okkur í gærkvöldi breyttum við um plan og ákváðum að sofa þangað til litla skottið okkar myndi vekja okkur. Lilja svaf til hálf níu en það hefur ekki gerst í háa herrans tíð. Það sem meira var, hitinn var komin niður fyrir 38°.
Í snarhasti var breytt yfir í plan b, við heyrðum í tengdapabba sem var voða glaður að fá að koma og passa afastelpuna sína. Þá gátum við hjónin farið saman í hlaupið . Hlupum að heiman til að hita almennilega upp. Það var hægt að hlaupa styttri og lengri vegalengd. Við ákváðum að vera með í báðum, hlupum stutta hlaupið (1,3 km) í rólegheitum saman en tókum svo á því í lengra hlaupinu (4,3 km).
Ég fann mig mjög vel og náði að hanga í henni Fríðu Rún, sem tók forystuna í upphafi, allan fyrsta hringinn. Hún seig svo fram úr mér seinni tvo en ég missti hana ekkert rosalega langt frá mér og varð önnur í hlaupinu. Ég upplifi það þannig að nýjar æfingar séu að skila sér í miklu meiri styrk og hraða, bara gott mál.
Á morgun er það svo Heiðmerkurtvíþraut en það er alltaf jafn gaman að vera með í henni. 4 km hlaup, 15 km hjól og 4 km hlaup í lokin, delissjuss og mjög mjókkandi . Sá að það voru næstum engar stelpur búnar að skrá sig í gær, hvað er það? Komaso stelpur, láta vaða!
Hlaup | Breytt s.d. kl. 18:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.10.2009 | 21:48
Svínarí, sund og sprettir
Lífið hefur verið í aðeins öðrum gír síðustu daga, bæði börnin okkar hund veik og við skiptumst á að hjúkra þeim. Gabríel er nú reyndar á góðum batavegi núna, var hitalaus í dag, farinn að geta borðað pínulítið og er að ná upp smá þrótti aftur. Lilja er ennþá með háan hita, vorum að gefa henni stíl rétt áðan og koma henni í bólið. Hún er ekki par hrifin af því að það sé verið að pota í hana og mótmælir hástöfum: 'Ég er ekkert lasin!!!' og svo heldur hún varla höfði, freka mikið krútt...
Við Þórólfur fórum á hörku sundæfingu í gær, þjálfarinn var komin í annan gír og við fengum að synda fyrir allan peninginn. Æfingin gerði 1900 m hjá mér og ég hef ekki synt svona hratt síðan Mads var að pína mig í gamla daga. Hún lætur okkur líka synda kafsund til að þjálfa lungun og í fyrsta tíma komst ég tvisvar yfir alla leið (25 m) og þá er maður komin í þá klemmu að geta ekki gert ver... Hrikalega gaman að taka aðeins á því.
Í dag var svo sprettæfing með íR-ingum, ég fékk að fara í þetta sinn. Góð upphitun, (3 * 300m sprettir og 100m skokk á milli) - þrjú sett og 400m skokk á milli setta. Eftir þetta var svo boðið upp á þrek sem innihélt hinar stórskemmtilegu fótalyftur, hnébeyjur, plankann á alla kanta og í desert voru 2 * 40 framstig. Ljúffengt að venju, ég finn strax mikinn mun á hraðanum í stuttu sprettunum .
Á skokkinu um daginn þá rifjaðist upp fyrir mér atvik frá því ég var unglingur og var að passa hana Eyrúnu litlu frænku mína (sem er ekki lítil lengur og heldur virtur dýralæknir á Austurlandi!!!). Í þá daga voru ekki til keyptar barnaspólur en maður tók upp Stundina okkar og annað sem maður vildi horfa á aftur. Eyrún vildi fá að horfa á spólu sem hún hafði séð áður hjá okkur en hún var ekki alveg viss hvað spólan hét. 'Hún heitir eitthvað svona svín...'. Það var ekki búið að gera myndina um Babe eða grísinn Badda og ég var ekki að skilja hvað hún meinti. Eftir langa mæðu og margar tilraunir fann ég loksins myndina sem hún vildi horfa á, döhhhh....
Það var að sjálfsögður Grease .
Hlaup | Breytt 15.10.2009 kl. 08:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.10.2009 | 23:22
Fjölskylduhelgi
Áttum alveg hreint frábæra helgi, fengum fullt af hreyfingu, hellinga af hvíld og nutum þess að vera með fjölskyldunni okkar.
Við hjónin sváfum óvenju lengi á laugardaginn en þegar við loksins dröttuðumst á fætur fórum við með litlu skvísuna okkar í Sprotalandið og hlupum nirðí bæ og öfugan RM hring. Við skiljum ekkert í því hvað við erum slöpp síðustu km... eins gott að það sé liðið hjá fyrir haustþonið!
Mamma og pabbi komu í kaffi til okkar seinnipartinn og svo kom afi Þór og passaði Lilju á meðan við fórum í svaka fjörugt sextugs afmæli hjá vinnufélaga hans Þórólfs. Gabríel fór í sveitina til hans Sverris og fékk að vera yfir nótt.
Í dag tókum við svo stutt hlaup og góða sundæfingu á eftir. Eftir blund kom afi Þór, sótti Lilju og fór með hana í Kolaportið. Við notuðum barnlausan tíma til að versla fyrir vikuna, náðum meira að segja að fara á bókamarkað.
Vorum glöð að fá krakkana heim og eiga kósíkvöld til að binda hnút á góða helgi. Hérna eru nokkrar myndir frá því um helgina:
Lilja skoðar skallann á afa Einari, lánar honum smá hárlokk og kitlar hann á bumbunni...
Afi Þór og Lilja að kubba saman
Gabríel passar Lilju útí garði, sem er bara orðin eins og fínasti róló!
Bloggar | Breytt 12.10.2009 kl. 07:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
9.10.2009 | 21:49
Powerade #1 2009
Ég var ennþá að hugsa um það þegar ég var komin í gallann og út í bíl, hvernig í ósköpunum ég ætti að snúa mig út úr þeirri klípu að þurfa að mæta enn eina ferðina í Poweradehlaup, dauðþreytt og í hífandi roki... Málið var að ég var búin að dissa nokkra (mjög pent samt...) sem ákváðu að mæta ekki og ég gat bara engan veginn hugsað mér að horfast í augu við félagana ef ég myndi svo sjálf skrópa. Það var bara gott á mig .
Hitaði upp með henni Bibbu minni og þá varð þetta allt miklu betra og skemmtilegra. Við fundum svo bónda minn á leiðinni og eftir þennan litla hring var ég bara komin í fínasta stuð. Tætti mig úr svona 4 lögum af klæðnaði sem ég hafði troðið mér í, af því það var svo mikill hrollur í mér þegar við lögðum í hann og skokkaði í besta skapinu mínu að startinu.
Hlaupið var sennilega eitt best útfærða Powerade hlaupið mitt. Ég byrjaði skynsamlega, var sterk og yfirveguð allan tímann og átti nóg eftir síðustu 3 km. Hélt ég væri nú samt eitthvað farin að sjá ofsjónir þegar ég þóttist sjá í skottið á henni Fríðu Rún í Rafstöðvarbrekkunni... Náði henni eftir brekkuna og var mikið að spá í að láta lítið fyrir mér fara og freista þess að koma henni á óvart rétt fyrir endamarkið . Ég stóðst bara alls ekki mátið að hlaupa upp við hliðina á henni og heilsa, mín var fljót að setja í annan gír og kvaddi gömlu konuna pent... Þetta var nú samt alveg nóg til að gera hlaupið ennþá skemmtilegra fyrir mig.
Ég var 4. kona í mark á 43:16. Þórólfur hljóp eins og vindurinn, varð 6. á 38:35, glæsilegt hjá mínum manni. Sérstaklega gaman að sjá nokkra Sigurvegara og aðra vini sem voru að taka þátt í fyrsta sinn. Potturinn var snilld og við hjónin komum heim alsæl eftir enn eitt frábært Powerade kvöld.
Hlaup | Breytt s.d. kl. 22:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Tenglar
Skapandi skrif
- Gjöfin Gjöfin
- Litlu leyndarmálin Litlu leyndarmálin
Hitt og þetta...
- Fyrir myndir... Einu sinni var
- Afrekin mín Þetta getur maður...
- Afrekin hans Þórólfs Þetta getur kallinn...
- Afrekin hans Gabríels Þetta getur guttinn...
- Afrekin hennar Lilju Afrekin hennar Lilju
- VO2 MAX Mæling í þrekprófi - Apríl 2006
- Gamla bloggið mitt Í denn...
Hlaup
- Búdapest Maraþon 2003 Fyrsta maraþonið mitt
- Laugavegurinn 2005
- Reykjavíkur Maraþon 2005 Annað maraþonið mitt...
- Glitnir Copenhagen Marathon 2008
- Laugavegurinn 2008 Laugavegurinn 2008
- Almost Famous
- Viðtal í 24 Stundum Viðtal í 24 Stundum
- Viðtal í Fréttablaðinu Viðtal í Fréttablaðinu
Þríþraut
- Ultra IronMan ÞRÍH Ultra IronMan ÞRÍH
- Þríþrautafélag Reykjavíkur Þríþrautafélag Reykjavíkur
Hinir...
vitleysingarnir...
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar