Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Í stríðu, í blíðu

Fyrsta sprettæfingin í æfingatörninni var tekin á þriðjudaginn.  6 * 1000 m á 15 (4:00) í Laugum, kom mjög ánægjulega á óvart að ég gat hlaupið soldið hratt.  Æfingin var erfið en engin spurning um annað en að klára.

Við erum búin að njóta verðurblíðunnar eins og aðrir landsmenn.  Í vinnunni hjá mér fengum við frí vegna veðurs, e.h. á þriðjudag , vííí...  og svo verður að viðurkennast að maður er ekkert sérstaklega 'dedicated' þegar svona viðrar úti.  Höfum verið dugleg að fullnýta dagana, fór með krakkana í Nauthólsvík eftir æfinguna á þriðjudaginn og svo fórum við Þórólfur með Lilju eftir vinnu í gær.

IMG00208

IMG00211

Amma og afi buðu Gabríel til sín í sveitina í gær.  Við skutluðum honum upp að Litlu kaffistofunni þar sem þau tóku á móti piltinum og buðu okkur í kaffi í leiðinni.

Glennurnar komu í kaffi til mín í gærkvöldi.  Leist ekkert á holdafarið hjá þeim, allar ótrúlega mjóar og ræfilslegar, þannig að ég sá mig tilneydda til að gera eitthvað í málunum og bauð uppá ljúffengar brownies sem minn heittelskaði bakaði eftir uppskrift úr norsku vikublaði og henti svo í eina skyrtertu, því ég hef séð til þeirra þegar þær komast í feitt.  Ótrúlega gaman að hitta skvísurnar, mikið hlegið, spjallað og prjónað.  Sýndi þeim líka gamlar myndir, meðal annar fermingarmyndir.  Held að það sé engin spurning um hver vinnu keppnina 'Ömurlegasta fermingarmyndin', sem mun fara fram næst þegar við hittumst.  Ég er alla vega nokkuð sigurviss....

Lilja fór í skoðun hjá háls, nef og eyrnalæknis í morgun.  Hún hefur aðeins verið með vökva í eyranu og er ótrúlega oft með hor í nös.  Sem betur fer voru eyrun bara í nokkuð góðu standi og ekki ástæða til inngripa.  Spurning með nefkirtlana, ef hún verður ekki skárri í haust þá verða þeir teknir til að létta henni lífið.

Já og svo stóru hlaupafréttirnar fyrir mig.  Sportís, sem er með Asics umboðið, hefur ákveðið að styrkja mig með því að sjá mér fyrir keppnisfatnaði, skóm og aukahlutum í framtíðinni.  Fyrstu hlaupaskórnir mínir voru frá Asics og ég hef aldrei hlaupið á öðrum skóm, enda engin ástæða til að breyta því sem virkar vel.  Ég hleyp alla jafna á Asics Nibus, keppi í Asics Speedstar eða Racer, hjóp Laugaveginn á Asics Gel Trail Atack, á Asics þríþrautarskó og DS Trainer og er alltaf jafn ánægð með skóna mína.  Ótrúlega glöð og með þetta allt saman og þakklát, ég á ekki orð yfir rausnarskapnum í þeim.  Þetta er nú engin smá búbót og tala nú ekki um, hvatning til að halda áfram að reyna að standa sig vel í hlaupunum.

Eins og sjá má, mikil blíða í lífskortunum...

 


Sveitasæla

Fórum að dæmi Gabríels og stungum af í sveitina líka, þ.e. í sumarbústaðinn.  Drifum okkur beint eftir vinnu á föstudaginn, vorum innan við klukkutíma að pakka og koma okkur af stað.  Sundferðir, róló, ísbíltúrar, hádegisblundur með skvísunni, góður matur, prjónaskapur, rauðvínstár og ogguponsulítið nammi (yeah right...).

Fékk hlaupalöngunina aftur á sunnudaginn og skokkaði af stað í blíðviðrinu.  Hljóp fyrst út á glofvöll og þegar þangað var komið datt mér í hug að tékka á því hvort ég myndi drífa að Kerinu, hver veit, gæti verið síðasti séns að skoða það alveg ókeypis...  Gekk eins og í sögu, var á undan umferðinni á þjóðveginum og æðislegt að hlaupa í þessu umhverfi.  Fór niður að vatninu á botni Kersins í fyrsta sinn og hljóp svo hringinn í kringum það áður en ég skokkaði aftur upp í bústað.

Lilja nýtur þess að vera í sveitinni, sefur klukkutíma lengur á morgnana en heima hjá sér við miklar vinsældir foreldranna!  Hún fékk líka að spranga heilmikið um bellarass í blíðunni og eftir að hafa sprænt pínulítið á tærnar á sér var hún til í að pissa í koppinn sinn og gerði það með miklum sóma, ekki bara einu sinni, heldur tvisvar.  Fagnaðarlátunum ætlaði aldrei að linna og svo var skrúðganga með koppinn inn á klósett þar sem Lilja fékk að tæma hann og sturta niður alveg sjálf!

Við hjónin skelltum okkur svo í bíó í gærkvöldi á Batman, The Dark Knight.  Stóðst svo sannarlegaallar væntingar.


Sveitalíf

Hrökk upp við símann klukkan hálf tólf í gærkvöldi (já, já vorum löngu sofnuð...) og sé að þetta er númerið hjá Sverri.  Smá í magann.  Ég svara og heyri titrandi röddina í Gabríel kalla 'Mamma, mamma...'. Mikill hjartsláttur.  'Mamma, ég var að veiða með Sverri frænda og ég fékk 8 punda lax og ég er að fara að bíta uggann af honum.  Mamma, þetta er Maríulaxinn minn!!!'. 

Allir ætla að vera með í Jökulsárhlaupinu og í gær var ég með smá fiðring, æiii það væri nú gaman að vera með.  Svo heyrði ég í Orra bróður og hann ætlar að hlaupa líka...  Fór með Þórólfi út að skokka eftir vinnu og prísaði mig sæla að komast litla hringinn minn skammlaust og öll löngun í 30 km + hlaup rauk út í veður og vind.  Tókum svo aðeins á því í salnum á eftir, aðeins að lyfta, magaæfingar og svoleiðis.  Endaði á upphífingum og nú ætla ég að verða góð í þeim.  Kreisti út úr mér 22 upphífingar í þrem settum, stefnan sett á 20 í einu.


Fuglinn floginn aftur

Gabríel okkar var nú aldeilis glaður í gær.  Sverrir frændi kom til okkar og bauðst til að taka guttann með aftur í sveitina.  Það var samþykkt á stundinni og nú eru þeir búinir að plana mótorhjólakeppni.  Ef Gabríel vinnur fær hann fisk í verðlaun en sá sem tapar þarf að moka skítinn undan kálfunum Joyful.

Við hjónin erum að koma okkur í hlaupagírinn í rólegheitunum, Þórólfur er allur að koma til eftir meiðsl og það er allt annað líf að hafa hann með í prógramminu.  Framundan er 5 km í Vatnsmýrarhlaupinu, MÍ Öldunga og svo ætla ég að fara hálft í RM.  Nú verður megináherslan á að hlaupa hratt, alveg eins og vindurinn....


Hahahahaha...

Ummæli...

Getið ímyndað ykkur hvað mamma og pabbi voru stolt þegar þau rákust á þetta!


Skróp!

Vigtun í morgun og allar vorum við mættar NEMA SIGRÚN!  Ekki það að ég ætli eitthvað að vekja sérstaka athygli á því að hún skrópaði eða neitt svoleiðis, ég er bara ekki þannig gerð...

En alla vega þá komu Jóhanna og Agga sterkar til leiks og voru með 200 og 100 grömm í frávik.  Það er nú ekki svo langt síðan (að ég sé búin að gleyma því) að þær voru að gera grín af gömlu konunni fyrir að vera svo anal að reyna að hitta nákvæmlega á grammið!  Þær eru sko engu betri, þurrkandi á sér hárið eða að fá sér vatnssopa til að negla þetta.

Ég var með 900 grömm í frávik (sem útskýrir skrifin hér að ofan Grin ) og verð að viðurkenna að það var betra en ég átti von á eftir sukkviku dauðans.  Nú er bara að koma sér í normið og ég mun koma ákveðin til leiks í næsta mánuði! 

Hnetuvínarbrauðið var annars sérlega ljúffengt í morgun, enda sérvalið af sérstakri vinkonu minni í sundlaugunum og ekki verður síðra að hitta stelpurnar i hádeginu Á grænum kosti.  Lífið er ljúffengt.


Afmæli og Esja

Laugardagurinn var tileinkaður strákunum mínum, Þórólfur átti afmæli og Gabríel hélt upp á 10 ára afmælið sitt. 

Gabríel 10 ára

Í dag fórum við svo upp á Esjuna.  Við fórum öll saman upp að Steini, strákarnir fóru svo alla leið upp en við Lilja snérum við þegar við vorum komnar langleiðina.  Leist ekki á færið þarna með barn á bakinu.  Frábær ferð og verður pottþétt endurtekin sem fyrst.

Esjan


Ofur... ehemmm... mannleg

3 dagar eru hæfilegur tími til að velta sér upp úr eigin velgengni.  Þá er tími til að koma sér í snarhasti niður á jörðina aftur.  Stóð sjálfa mig að því að vera farin að kíkja kjánalega oft á bloggið mitt, til að athuga hvort það væri komin ný athugasemd.  Sá minn kost vænstan að koma mér í sveitina, fjarri öllu sem heitir net og póstur...  Undecided.

IMG00164
IMG00168

Drifum okkur úr bænum, ég, Gabríel og Lilja, snemma á miðvikudagsmorgun, Þórólfur var því miður fastur í vinnu.  Keyrði austur í Öndverðarnes, þar sem mamma og pabbi eiga bústað, hentum dótinu okkar inn og héldum svo áfram í dýragarðinn Slakka.  Krakkarnir himinlifandi að fá að klappa, halda á og skoða öll dýrin.  'Kanína', Fissskur', 'Drísinn' , 'Kisa'... , get svarið fyrir það, barnið er orðið altalandi!  Ef hún er ekki að blaðra eitthvað þá syngur hún; Gulur, rauður,.. Gamli Nói eða Fuglinn segir bí, bí, bí. 

IMG00169
IMG00154

Eftir rúmlega tveggja tíma stopp í Slakka, í 20 stiga hita og sól, fórum við að Geysi og kíktum á nýja slotið hennar Þórdísar vinkonu.  Ég horfði á hana og dóttur hennar bera heilan helling af pallaefni á meðan ég sat eins og drottning í sólinni, var nefnilega á pæjuskóm sko og var ekki að taka sénsinn á að fá blöðrur.  Næst lá leiðin á Selfoss í sund.  Gabríel passaði uppá litlu systur sína og kenndi henni að fara í sveppinn og næstu tvo tímana var 'Meia renna, meia renna..'.  Grillaði kjöt og pylsur í bústaðnum og svo var að sjálfsögðu ísbíltúr í Þrastarlund.  Það er komin rosalega fín aðstaða fyrir krakka á sumarbústaðarlandinu, nýr róló, fótboltavöllur og körfuboltavöllur.  Vorum úti að leika okkur til að verða tíu og lákum í koju eftir frábæran dag.

IMG00175
IMG00182

Á fimmtudaginn varð frumburðurinn 10 ára!   Eftir morgunsnarl fórum við aftur á leiksvæðið og lékum okkur þangað til að það gauluðu í okkur garnirnar.  Lilja fékk blundinn sinn að venju eftir hádegismat og við Gabríel skriðum inn í rúm líka og lögðum okkur, mmmmm.   Meira sund á Selfossi og svo var hún Elfa vinkona búin að bjóða okkur í kaffi sem breyttist í matarboð (við fórum ekkert...).  Þórólfur ákvað að koma til okkar eftir vinnu, hitti okkur hjá Elfu og Jóni sem buðu upp á nánast spriklandi nýjan lax og hamborgara.  Gabríel fékk nokkra pakka og var svo glaður og ánægður, vá hvað ég er stolt af þessum strák.  Kósíkvöld í bústaðnum eftir ís stoppið í Þrastarlundi .

IMG00176
IMG00180

Meira sund, leika meira, borða meira og nú erum við komin heim aftur.  Á morgun á Þórólfur afmæli og við erum í þessu að undirbúa afmælisboð fyrir strákana.  Hversdagurinn verður aftur velkomin eftir frábæra frí viku!


Laugavegurinn minn

Það var ekki fyrr en í rútunni á heimleiðinni, Gabríel lá sofandi í fanginu á mér, Þórólfur að hugsa um Lilju hinu megin við ganginn, þá kom það af fullum krafti.   Það byrjaði í maganum og læddist upp brjóstið, hálsinn og breiddist svo yfir andlitið.  Ég réði ekkert við það, brosti út að eyrum, ein með sjálfri mér, 'Ég gerði það, ég vann...'.

Svaf svona þokkalega nóttina fyrir hlaup, fór snemma inn en það tók tíma að koma sér almennilega í ró.  Ég vaknaði hálf fjögur og fannst ég hafa nógan tíma enda stutt að fara fyrir mig.  Fór í langa sturtu, borðaði hafragrautinn minn og dúllaðist svo við að útbúa nesti.  Áður en ég vissi af var klukkan rúmlega fjögur.  Smá panikk, klára að taka dótið saman, setja á mig armabandið og kippa með drykkjarbeltinu.  Í dyrunum snéri ég við og ákvað að skjótast á klóið, eins gott því þá fattaði ég að númerið mitt lá ennþá inni á borðstofuborði.  Renndi í hlað á ÍSÍ þrem mínútum fyrir brottför, pjúff, gott að eiga góðar vinkonur sem voru búnar að passa sæti fyrir mig... 

Landmannalaugar - Hrafntinnusker     1:09:36 

Vorum mætt rétt hálftíma fyrir start inn í Landmannalaugar, enginn tími til að stressa sig á neinu, bara gefa sig fram, pissa og koma sér fyrir í startinu.  Æðislegt að komast loksins af stað.  Ég fylgdi Ingu Dagmar fyrsta spottann, vissi að hún var sterk í brekkunum en ég nýtti mér það að vera hraðari á jafnsléttu og vonaði að það myndi duga til að veita mér forskot.  Var fljótlega í samfloti við Ævar og Halldór, gott að hafa einhvern til að elta því fyrirfram var það aðaláhyggjuefnið að rata ekki nógu vel.  Stoppaði nánast ekkert, rétt fyllti á brúsann minn og hljóp á eftir strákunum.   

Hrafntinnusker - Álftavatn    1:06:49 

Fylgdi strákunum eftir langleiðina að Jökultungunum en þegar þangað var komið hurfu þeir á undan mér niður.  Ég fór frekar ákveðið en samt varlega niður og ég fann að Esju æfingarnar skiluðu sér heldur betur, fann ekkert fyrir þessu.  Ég lenti strax aðeins í vandræðum með leiðina þegar ég hafði engan að elta.  Endaði með að ég hægði aðeins á mér, hleypti næsta manni framúr og elti hann þangað til við komum að veginum síðasta spottann og ég sá í hús, þá gaf ég aftur í.  Fékk mér bananabita, fyllti á brúsana og brunaði af stað.   

Álftavatn - Emstrur   1:39:51  (lappaði á leið frá Emstrum) 

Var í bölvuðum vandræðum frá Álftavatni og þangað til ég var vel komin inn á Sandana með að finna réttu leiðina.  Á þessum kafla fór ég alla vega fjórum sinnum af leið og þurfti að taka auka króka.  Það var enginn fyrir framan mig en einn maður sem kom í humátt á eftir mér og ég þurfti sífellt að vera að kíkja aftur fyrir mig til að vera viss um að ég væri á réttri leið.  Á einum stað hljóp ég áfram eftir vegi þegar maður átti að beygja út af og fara yfir brú, á öðrum stað (Hvanngil held ég, nokkur hús við á) þá fylgdi ég veginum lengri leið í staðinn fyrir að taka stíginn, beygði svo af leið þar sem ég sá göngubrú (í staðinn fyrir að fara vaðið) og endaði  í hestagirðingu og þurfti að hlaupa til baka.  Þegar ég kom að húsinu spurði ég starfsmann hvaða leið ég ætti að fara og hún benti mér í rétta átt.  Nokkru síðar skiptist stígurinn í þrennt og ekkert af skiltunum sagði Emstrur/Laugavegur/Þórsmörk.  Ákvað að fara beint áfram og sem betur fer var það rétt og nú veit ég að Botnar og Emstrur eru sami staður...  Í Bláfjallakvísl spurði ég líka hvort það væri ekki pottþétt að ég myndi finna leiðina inná Sandana og fékk þau svör að það væri ekkert mál, það væri drykkjarstöð þar sem maður beygði af leið.  Það var ekki rétt.  Sem betur fer rámaði mig í að hafa farið yfir stóran sandhól og tók sénsinn að fara af veginum þar sem ég sá troðning, vonaði svo að næsti maður myndi elta mig.  Það var ekki fyrr en næst þegar átti að beygja af leið að það var drykkjarstöð og allt á tæru.  Eftir það var ekkert mál að rata og ég var á fínum dampi langleiðina yfir sandana.   Svona 3 km fyrir Emstrur fékk ég algjörlega óvænt krampa í allt vinstra lærið!  Ég hef n.b. aldrei áður fengið krampa, vissi ekki hvað það var.  Var með nokkrar saltpillur með mér og japlaði á þeim og drakk eins og ég gat, teygði aðeins á lærinu og hélt áfram.  Það hægðist töluvert á mér á þessum kafla og ég var svo sem ekkert að stressa mig þannig, þangað til að ég heyri allt í einu óminn af kvenmannsrödd!  Rækatlans, beit á jaxlinn og bætti í og var ótrúlega glöð að sjá brekkuna niður að Emstrum. 

Emstrur - Þórsmörk   1:46:05 

Ívar og Örn náðu mér í Emstrum og sögðu mér að Björg væri á fínu skriði ekkert svo langt á eftir mér.  'Þú verðu bara að vera ákveðin og taka þetta, koma svo, áfram með þig'; o.s.frv.  'Eva, þú þarft að fara af meiri hörku í brekkurnar', kallaði Ívar á eftir mér og Örn á móti 'Þetta er flott hjá þér'.  Ég vissi ekki hvort mig langaði meira að knúsa þá eða berja (Núna knúsa Wink).  Ívar hægði fljótlega á sér og sendi Örn áfram með mér.  Eftir nokkra km var Örn komin með svo mikla krampa að hann þurfti að hægja og sendi mig áfram með hvatningarorðum.

Hérna byrjaði möntru kafli dauðans, fyrst 'Halda áfram, halda áfram, halda áfram' meðan ég var að berjast við verstu krampana í kálfunum.  Svo var það kaflinn sem ég var voða mikið að spá í Björgu, sá hana í fjarlægð þegar ég leit við í stærstu brekkurnum.  Barðist við sjálfa mig, 'Það er nú ekki slæmt að vera önnur'...  'Hættu þessum aumingjaskap og kláraðu þetta'... 'Ég verð samt fyrst í mínum flokki, það er bara flott'... 'Ef þú klárar þetta ekki núna þá færðu kannski aldrei sama tækifæri aftur'.   'Má ekki ná mér, má ekki ná mér, má ekki ná mér'.   Svo allt í einu hrökk ég í kút...'Secretið skilur ekki 'EKKI', shit, þetta þýðir að hún megi ná mér og þá gat ég ekki annað en hlegið upphátt!    Skipt yfir í nýja möntru í snatri, 'Ég skal sigra, ég skal sigra, ég skal sigra...' og næstu 8 km leit ég aldrei um öxl.  Elti Burkna hluta af leiðinni og það hjálpaði að geta neglt sig á hælana á einhverjum.   Fleiri og fleiri kunnugleg andlit á leiðinni, var ekkert svakalega kammó enda átti ég fullnóg með mig.  Þegar ég nálgaðist Kápunu þá fannst mér voða fyndið að hugsa 'Þér verður ekki kápan úr því klæðinu væna mín', vá hvað maður verður steiktur í hausnum. 

Á drykkjarstöðinni hjá Kápu henti ég af mér drykkjarbeltinu, tók einn fullan brúsa með mér og hélt áfram.  Þegar ég var komin upp Kápuna leit ég við og sá að ég myndi hafa þetta.  Þá tók við fínn kafli niður Kápu, yfir Þröngá og upp, upp, upp og svo var bara að rúlla restina.  Þvílík gleði að sjá fyrir endann á Laugaveginum, heyra hrópin í fólkinu, sjá markið.  Maður verður alltaf að taka endasprett og ég veit ekki hvort það er rétt en mér fannst ég svífa síðustu metrana í mark, ólýsanlegt.  Tíminn 5:42:23. 

Eftir hlaup 

Best í heimi að sjá fólkið mitt í markinu, Gabríel rauk upp um hálsinn á mér og svo fékk ég að knús frá  Lilju og Þórólfi.  Man bara eftir óteljandi fallegum, vingjarnlegum, brosandi og hjálplegum andlitum.  Skrokkurinn kveinaði hástöfum yfir meðferðinni og ekki leið á löngu þangað til ég fór að hríðskjálfa úr kulda, enda rennandi blaut í gegn.  Ætlaði að drífa mig í sturtu og hlý föt en þá kom í ljós að taskan mín var í rútu sem festist í ánni á leiðinni.  Engin föt, ekkert handklæði, köld sturta og það hafði gleymst að kveikja á gufunni.  Allir reyndu að gera allt sem þeir gátu til að láta mér líða vel, ég fékk aukateppi, Þórólfur lét mig fá flíspeysuna sína og fékk lánað handklæði.  Staðan var samt ekkert sérstaklega góð.  Hraus hugur við því að fara í kalda sturtu og hafa ekkert annað að fara í en flíspeysu og flísteppi.  Nokkru síðar kom Björg og hún var með aukaföt sem hún bauðst til að lána mér, hún reddaði líka gufunni í gang og þá fór nú að birta til aftur hjá gömlu konunni.  Eftir hálftíma setu í gufunni, komin með il í kroppinn, var lífið aftur orðið eins og það átti að vera og í því skilaði taskan mín sér með öllum Janus ullarfötunum mínum, ohhh dásemd.  Næstu tímarnir liðu bara í hálfgerðri vímu, takk, takk, já þetta var rosalega erfitt, takk... 

Svo vorum við bara allt í einu komin í rútuna, fólkið mitt og ég.  Allt gott í heiminum.

Viðtal

Smá grein í Mogganum í dag.

 


Nokkrar myndir : )

DSC06228

Frekar glöð að koma í mark!!!

DSC06229

Best í heimi að knúsa krakkana mína.

DSC06230

Þrjár fyrstu konurnar skælbrosandi.

DSC06245

Þrír fyrstu karlarnir, mjög alvarlegt mál!  (Thí hí...)

DSC06249


Næsta síða »

Höfundur

Eva Margrét Einarsdóttir
Eva Margrét Einarsdóttir

Ætlar að hlaupa styttra og hraðar...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband