Leita í fréttum mbl.is

Sól, hagl, slydda og 104,6 km.

Ég elska að taka áskorunum.  Nú var það hann Oddur í vinnunni hjá mér sem kynnti undir keppnisskapinu.  Vinkona hans hafði skorað á hann að hjóla alla vega 100 km einn dag í átakinu Hjólað í vinnuna og hann skoraði svo á liðsfélaga sína. 

Í gær var stóri dagurinn, síðasti dagurinn í átakinu og tilvalið að enda þetta með trukki.  Við Oddur hjóluðum bæði 37 km fyrir vinnu og planið var svo að taka 65 km eftir vinnu.  Þegar fór að nálgast hádegið kom Oddur til mín, 'Ég er að spá í að skokka smá hring, það er svo gott verður...'.  Og þá gerðum við það, hlupum úr vinnunni og tókum Stífluhringinn.  Það var reyndar mjög gott að liðka sig aðeins með annarri hreyfingu eftir allt hjóleríið.

Á slaginu fjögur lögðum við í hann og Oddur stýrði ferðinni.  Ég var á racernum og þá er ekki hægt að hjóla í möl sem gerði það að verkum að við þurftum að taka nokkrar slaufur til að halda okkur á malbiki.  Eftir að hafa læðst yfir kanta og smá malarbúta hér og þar vorum við loksins komin á beinu brautina á hjólreiðastíginn sem liggur alla leið út í Mosó.  Bammm!  Þá sprakk á Skotta og við bara búin með rúma 13 af þessum 67...  Hringdi í ofboði í manninn minn, sem var þá á leiðinni í sund með stelpuna.  Hann skutlaðist eftir mér, ég skipti á hjólum og lagði í seinni hlutann af ferðalaginu 'on my own' á fjallahjólinu mínu. 

Ákvað að fara inn í Grafarvog, í gegnum Mosó og upp að Gljúfrasteini, freista þess að ná 25 km og láta mig svo rúlla í bæinn aftur.  Í Mosó rauk úr göngustígunum eftir að það höfðu komið skúrir á sólhitaða stígana.  Ótrúlega fallegt að hjóla meðfram sjónum og ég var eldsnögg að komast upp eftir.  Þegar ég átti svona 3-4 km eftir að Gljúfrasteini þá kom HAGLÉL!!!  Ég ákvað að harka það af mér á peysunni og hjólabuxunum.  Km síðar var komin SLYDDA!!!  Enn hélt ég aðeins áfram á þrjóskunni þar til ég var farin að sjá fyrir mér fyrirsagnir í blöðunum 'Miðaldra kona fannst frosin föst við hjól á stuttbuxum og bol, u.þ.b. 200 m frá Gljúfrasteini...  Vinir og fjölskylda segja þetta hafa verið óumflyjanlegt þar sem hún var búin að ÁKVEÐA að fara alla leið...'. 

Snéri við og tók stefnuna aftur í sólina.  Rosalega verður maður svangur af því að hjóla!  Lilja hafði sníkt hálfan bananann minn þegar þau feðginin komu að sækja mig og í Mosó þá voru garnirnar farnar að gaula þokkalega.  Kom við í Krónunni og keypti mér tvö skinkuhorn, gúffaði öðru í mig og ákvað að geyma hitt þangað til ég væri búin með 90 km.  Ég þurfti aðeins að hugsa út nokkra króka á leið minni heim, hjólaði inn Grafarvoginn og þar var þvílík blíða að ég stoppaði og fékk mér seinna nestið á bekk, í sólinni.  Áfram niður í Bryggjuhverfi og svo Sæbrautina eins og hún lagði sig niður í bæ.  Niður við höfn var seglbátakeppni í gangi, ótrúlega fallegt allt saman.  Ennþá vantaði aðeins uppá og ég ætlaði ekki að taka séns á að vera komin heim og þurfa að snúa við aftur.  Tók nokkra spretti fram og til baka á Sæbrautinni og nú get ég hjólað á fullu án þess að halda í stýrið, vúhúúú...  Hélt svo heim á leið og samtals gerðu þetta 104,6 km.

Þegar ég kom heim var ég aðframkomin af hungri og ekkert smá hamingjusöm að komast í lambalæri sem hafði verið í matinn.  Gat ekki annað en hlegið að sjálfri mér, ennþá í hjólagallanum, með lærið í annarri og hnífinn í hinni, rífandi í mig kjötið eins og villikona.  Eftir langa sturtu var óendanlega gott að henda sér upp í sófa með rauðvínstár í glasi og horfa á Biggest Looser.  Það gerist ekki mikið betra Grin.

 

2009 Hjólað 100

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Flott ferð. En ég hefði nú getað gefið þér að borða:)

vala (IP-tala skráð) 27.5.2009 kl. 19:33

2 identicon

Þú ofurkona

Alma (IP-tala skráð) 27.5.2009 kl. 21:26

3 Smámynd: Eva Margrét Einarsdóttir

Úfff... ef maður væri nú 'ofur' þá væri þetta ekkert mál.  Ég myndi frekar segja að ég væri dugleg að setja mér háleit markmið og nógu vel undirbúin/seig/þrjósk til að ná þeim .

Eva Margrét Einarsdóttir, 28.5.2009 kl. 08:57

4 Smámynd: Gísli Ásgeirsson

Þú ert komin í gírinn. Næst skaltu hafa með þér orkubita í poka. Þá kemstu vel yfir hundraðið!

Gísli Ásgeirsson, 30.5.2009 kl. 06:24

5 identicon

Váááááá - dugnaðurinn í þér - skil þig svooo vel með það að taka áskorunum ;o)

Ása Dóra (IP-tala skráð) 1.6.2009 kl. 22:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Eva Margrét Einarsdóttir
Eva Margrét Einarsdóttir

Ætlar að hlaupa styttra og hraðar...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband