Leita í fréttum mbl.is

Hlaupari verður til

Það gerðist svolítið merkilegt í Reykjanesbæ um daginn.  Það fæddist nefnilega glænýr hlaupari.  Hann Gabríel okkar hefur nú reyndar hlaupið með okkur öðru hvoru frá því hann var smá strákur en það hefur meira verið af því að við 'hvöttum' hann 'mjög mikið' (ok, og mútuðum...) til þess heldur en að hann hafi beint langað.  Á tímabili missti hann allan áhuga, vildi ekki sjá það að vera með og það var eiginlega bara í vor sem hann fór að vera tilkippilegur aftur.  Hann fór í Flugleiðahlaupið, meira bara til að hanga með mömmu sinni, fá að vaka lengur og fá Subway samloku.  Eins fórum við saman í Stífluhlaup í Árbænum.  Hann ætlaði ekki að nenna að vera með í RM en ákvað á síðustu stundu að fara í skemmtiskokkið, langaði líka í bol...

Það er fastur liður hjá okkur fjölskyldunni að vera í Reykjanesbæ á Ljósanótt.  Við tökum þátt í Reykjanesmaraþoni og þannig er það bara.  Gabríel var ekkert að malda í móinn, var alveg til í að hlaupa 3,5 km.  En það var eitthvað aðeins öðruvísi núna, hann var mjög mikið að spá í leiðina, þannig að við keyrðum með hann hringinn fyrir hlaup.  Hann var eitthvað voða spenntur, 'Mamma, mamma, þú verður að festa númerið fyrir mig'.  Hann var í síðum íþróttabuxum og var ekki á því að fara í stuttbuxur.  'Mamma, mamma, þurfum við ekki að fara út núna'...   Við vorum eitthvað að væflast og ég að gera mig klára í að hita upp þegar dóttir vinafólks okkar kom að og ég stakk upp á að þau myndu hita upp saman, sem þau og gerðu.  Eftir upphitun sá minn maður að hann myndi kafna í öllum þessum fötum, fór í stuttbuxur og bol. 

Við Þórólfur vorum ræst aðeins á undan skemmtiskokkinu, afi og Lilja fylgdust með fyrir okkar hönd.  Þegar ég kom í mark eftir mitt hlaup og náði andanum aftur, þá sá ég annan pilt en ég hafði skilið við.  Hann labbaði svona 10 cm fyrir ofan jörðina, brosti hringinn og stökk upp um hálsinn á mér og hvíslaði:  'Mamma, ég vann!'.  Hann hljóp 3,5 km á 15:32, lang fyrstur.  Hann fékk gullpening í verðlaun og pizzuveislu fyrir fjölskylduna.

En það sem gerðist eftir þetta hlaup er það sem ég er svo glöð með.  'Mamma, kannski næst þegar þú ferð í keppnishlaup, má ég þá koma með?'.  Og svo í síðustu viku þegar ég kom heim úr vinnunni hljóp heldur betur glaður strákur á móti mér, 'Mamma, Norræna skólahlaupið var í dag og ég hljóp 10 km á 51:06 og var fyrstur (5., 6. og 7. bekkur)!!!'.  Svo fékk ég alla sólarsöguna um hvernig þeir voru þrír sem leiddu hlaupið fyrstu 5 km, þá fóru hinir tveir að dragast aftur úr og svo þegar km var eftir þá kom annar þeirra í hælana á honum.  Hvernig hann hefði beðið rólegur með að taka endasprettinn þangað til það voru ca. 400 m eftir, sett allt á fullt en þá átti hinn ekki séns... 

Þetta er komið, ég á lítinn hlaupara Joyful.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vá flottur strákurinn þinn! Takk fyrir að leyfa mér að fá að fylgjast áfram með blogginu þínu. Haltu áfram að vera svona jákvæð það er víst nóg af hinu, það veit ég!!

Kv.Hildur

Hildur (IP-tala skráð) 15.9.2009 kl. 09:49

2 identicon

Vá, geðveikt.  Til lukku með hann.  Ég vona að ég nái  mínum í þetta.

Ásta (IP-tala skráð) 15.9.2009 kl. 12:25

3 identicon

Frábær árangur hjá honum! Til hamingju með hann! :)

Helen (IP-tala skráð) 15.9.2009 kl. 14:11

4 identicon

Frábært hjá stráknum..til lukku með hann

Takk Eva mín fyrir aðganginn að blogginu og takk fyrir síðast

Kv. Bubba Sigurvegari

Bubba (IP-tala skráð) 15.9.2009 kl. 16:23

5 identicon

Hi skvís hjartanlega til hamingju með drenginn, það eina sem við getum gert til að fá börnin með okkur er að vera góð fyrirmynd, ég lifi alla vega í þeirri trú og reyni að sýna mínum börnum hvað hlaupin eru góð á alla "kanta".  Takk fyrir lykilorðið, og leyfa mér að eiga hlutdeild í hugsunum þínum.  kv. Erna

Erna Hlín (IP-tala skráð) 15.9.2009 kl. 20:37

6 Smámynd: Eva Margrét Einarsdóttir

Takk, takk og velkomin :)

 Við Gabríel ætlum að fara í 5 km Saucony hlaupið annað kvöld, allir að mæta!

Eva Margrét Einarsdóttir, 16.9.2009 kl. 12:50

7 identicon

Þvílíkur sigur hjá Gabríel. Bæði á Reykjanesi og samt aðallega hugarfarsbreytingin. Frábærir tímar hjá honum í keppnunum báðum. Hann kemur sterkur inn. Hlakka til að sjá hvað hann gerir í kvöld.

Alma María (IP-tala skráð) 17.9.2009 kl. 11:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Eva Margrét Einarsdóttir
Eva Margrét Einarsdóttir

Ætlar að hlaupa styttra og hraðar...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband