Leita í fréttum mbl.is

Nýju fötin keisarans

Akureyri tók aldeilis vel á móti okkur með sól og blíðu.   Við vöknuðum snemma á keppnisdag og vorum mætt tímanlega út á völl til að hitta barnapíurnar okkar og koma okkur í réttan fíling.  Þórólfur tók forystuna í hlaupinu strax í upphafi en það voru 3 á milli okkar fyrstu km.  Hlaupið byrjar á langri brekku niður í móti og fyrstu km liðu ótrúlega hratt.  Á 3 km náði ég öðrum manni og við hlupum samsíða næstu tvo km eða svo.  Á þeirri stundu var ég að velta því fyrir mér hvort það væri möguleiki að ná öðru sæti í hlaupinu og á 5. km jók ég hraðann til að athuga hvort ég gæti hrist hann af mér.  Mér tókst að búa til bil á milli okkar og á bakaleiðinni, þrátt fyrir töluverðan mótvind þá hélt ég mínu og jók bilið.  Bibba og Ásgeir voru fremst meðal jafningja að hvetja og maður fékk auka endorfín skammt þegar maður heyrði hrópin í þeim og sá þau svo skælbrosandi á hliðarlínunni.  Síðustu 2 km var bara að bíta á jaxlinn og klára brekkuna góðu sem var mun skemmtilegri á leiðinni niður...  Um leið og maður kom inn á völlinn fékk maður vængi og spændi í mark.

Við fylgdumst svo með hinum hlaupurunum koma í mark og það var gaman að sjá Sigga sigra maraþonið.  Við urðum líka vitni að því, ásamt tugum eða hundruðum annarra áhorfenda, þegar konan sem hafði verið í forystu í maraþoni kvenna, ráfaði inná völlinn í mjög slæmu ástandi, örmagnaðist algjörlega nokkra metra frá markinu og tókst ekki að ljúka keppni.  Við urðum vitni að því þegar tveir menn, þrátt fyrir andmæli viðstaddra, báru konuna yfir marklínuna þar sem sjúkraliðar hlúðu að henni og í framhaldi var hún flutt á brott með sjúkrabíl.  Skömmu síðar kom fyrsta kona í maraþonin í mark, Sigríður Einarsdóttir.

Við mættum svo á verðlaunaafhendinguna seinna um daginn til að taka á móti glæsilegum verðlaunum en þá urðum við vitni að því að konunni sem ekki lauk hlaupinu voru afhent sigurverðlaunin, sem hún og þáði.  Við urðum vitni að því að langflestir í salnum vissu að þetta var ekki sanngjarnt.  Enginn sagði neitt og ég svo sem ekki heldur en ég óskaði Sigríði til hamingju og lét hana vita að í mínum huga og annarra sem ég þekkti til væri hún sigurvegarinn.  Til að toppa skrípaleikinn vorum við hjónin svo dreginn í myndatöku, þar sem mynda átti alla sigurvegara sem tilheyrðu Laugaskokki og í meðvirknikasti létum við okkur hafa það.

Þessi uppákoma hafði svo mikil áhrif á mig að ég átti erfitt með að sofna í gærkvöldi.  Í mínum huga eru hlaupin nefnilega táknmynd göfugra íþrótta.  Sá sigrar sem lýkur keppni á skemmstum tíma, þannig er það bara.  Það skiptir engu máli hvort þú hættir eftir 10, 20, 30 eða 42,1 km.  Eina leiðin til að sigra maraþon er að hlaupa alla 42,195 km, punktur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

100% sammála.

Laugaskokkari (IP-tala skráð) 12.7.2009 kl. 11:58

2 identicon

sammála þessu algerlega

fjola þorleifs (IP-tala skráð) 12.7.2009 kl. 14:14

3 identicon

Það sama gerðist í Western States 100 mílna hlaupinu 2007, sá sem var fyrstur hneig niður 50 m frá markinu en vinir hans hljálpuðu honum yfir línuna en hann var dæmdur úr leik og næsti maður vann hlaupið. 

Börkur (IP-tala skráð) 12.7.2009 kl. 14:22

4 identicon

Þetta hlýtur að breyta forsendum maraþons - nú hlýtur að vera leyfilegt að fá far með reiðhjóli eða mótorhjóli hluta leiðar eins og að vera borinn hluta leiðar.
Kveðja,
Geir

Geir Harðarson (IP-tala skráð) 12.7.2009 kl. 17:41

5 identicon

Þetta er örugglega allt rétt..... en ég veit ekki betur en flest okkar hafi notið alskonar þjónust í hlaupum ... hjólað með  keppendum og þeim réttir drykkir og annað, vinir og kunningjar að hlaupa með mislangar vegalengdir .... kljúfa vind fyrir keppendur og svo framv... hvort hjálpin kemur eftir 5, 10, 15 kmk eða síðustu 2 metrana eða ekki er það alltaf hjálp....

Pétur H Ísleifsson (IP-tala skráð) 12.7.2009 kl. 17:45

6 identicon

Eva mín er búin að hugsa mikið um þessa færslu þína og vildi að ég hefði nu ekki verið svona fljót að comenta og tek orð mín hér með til baka.

fjola þorleifs (IP-tala skráð) 12.7.2009 kl. 18:58

7 Smámynd: Eva Margrét Einarsdóttir

Ég skil vel blendnar tilfinningar.  Mér fannst þetta ennþá erfiðara þar sem ég þekki viðkomandi persónulega, þykir vænt um hana og það var ótrúlega sárt að horfa uppá þær þjáningar sem hún þurfti að líða síðasta spölinn.  En það breytir ekki skoðun minni á því hver sigraði hlaupið, þ.e. fyrsta konan sem hljóp alla leið í mark, sem þarf að bíta í það súra að einhver annar fékk verðlaunin.  Á hlaup.is undir Ársbesta er úrdráttur úr Alþjóðlegum Reglum í götuhlaupum og þar vil ég benda sérstaklega á lið 6 og lið 9.   Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að ég er ekki að skapa mér neinar vinsældir með því að tala svona opinskátt um þetta en það verður bara að hafa það.  Réttlætiskennd mín leyfir mér ekki að þegja yfir þessu.  Að lokum, þá er alveg sjálfsagt að koma sínum skoðunum á framfæri varðandi þetta mál hérna, á hvorn veginn sem er.

Eva Margrét Einarsdóttir, 12.7.2009 kl. 19:47

8 identicon

Einhvern tímann þegar ég var að hjóla í kringum Rvk. maraþon með gel og svona handa liðinu þá sá ég að mistök starfsmanna urðu til þess að Gerður Rún sem leiddi 21 km í kvennaflokki fékk ekki vatn/orku á drykkjarstöð en það var mjög heitt.  Ætlaði að rjúka af stað á hjólinu með vatnsglas handa henni en áttaði mig svo á því að kona númer tvö myndi kannski sjá til og kvarta undan svona aukaaðstoð sem myndi þá kannski valda því að Gerður yrði dæmd úr leik.  Af þeirri ástæðu að hún hefði fengið aðstoð utan drykkjarstöðvar.   Ræddi þetta við marga en fékk engan botn í það hvort það mætti eða ekki.  

Held að svo lengi sem það er ekki sérstaklega tekið fram í hlaupum þá sé það leyfilegt.   Svo held ég að fólk sé ekki svo að berjast í svona hlaupum að það kippi sér upp við að fólk fái aðstoð, jafnvel síðustu metrana.  

Börkur (IP-tala skráð) 12.7.2009 kl. 21:06

9 identicon

Rétt að rifja þetta upp Börkur. Þetta er frægt dæmi.  

In London 1908, Italian Dorando Pietri needed to be helped across the finish line of the marathon, and was declared the winner before being disqualified in favor of Johnny Hayes of the U.S.

Gunnlaugur (IP-tala skráð) 12.7.2009 kl. 21:09

10 Smámynd: Gísli Ásgeirsson

Ég hef aðstoðað á reiðhjóli mínu hina og þessa í RM undanfarin ár, miðlað drykkjum úr körfu, vaselíni, geli og vatni. Þetta hafa fleiri gert. Allir vita að aðstoð lýkur nokkur áður en komið er í mark.

Fyrst Gunnlaugur rifjar upp London 1908, er rétt að nefna mál Gabriela Schiess. http://en.wikipedia.org/wiki/Gabriela_Andersen-Schiess. Hún afþakkaði alla aðstoð á skjögri sínu að marklínunni því hún vissi að annars yrði hún dæmd úr leik. Sjónvarpsáhorfendum er þetta atvik í fersku minni og þetta má finna á Youtube.

Gísli Ásgeirsson, 12.7.2009 kl. 21:42

11 identicon

Ég héld nú að það þarf að ljúka hlaupið með eigin krafti. Hefði þessi kona getað klárað með að fá vatnsglas eða orkugel???? Mér finnst það ekki rétt og þarf að gera eitthvað í máli. Hvert á það að stefna? Á Íslandi má allt????

Corinna (IP-tala skráð) 12.7.2009 kl. 22:33

12 identicon

Konan komst að marklínunni sjálf, hana vantað u.þ.b. tvo metra til að ná tímatökusnúrunni. Tveir menn reistu hana á fætur en hún stóð ekki undir sér sjálf svo þeir studdu hana yfir marklínuna. Kannski hefðum við sem störfuðum í markinu ferkar átt að hvetja hana til að skríða í markið eða prófa að færa henni vatn eða orku -en það hefði væntanlega verið umdeild aðstoð líka. Ég veit ekki hvað gildir í öðrum maraþonum hvort búið er að ræða um það hvernig á að bregðast við svona aðstæðum. En það greip vissulega um sig svolítið panik þar sem talið var heppilegast að koma konunni sem fyrst alla leið svo hægt væri að veita henni aðhlynningu.
Allar reglur eru góðar og auðvitað eigum við að fylgja þeim í hlaupum sem og öðru. En hve skýrar sem reglurnar eru þá kemur alltaf að því að við lendum á gráu svæði. Eins og bent hefur verið á geta hlauparar fengið allra handa aðstoð á leiðinni sem getur skipt máli. Og það má t.d. deila um það hvort það er meiri aðstoð að styðja manneskju síðustu metrana í mark eða taka af henni vindinn kílómetrum saman í miðju hlaupi.

Rannveig (IP-tala skráð) 12.7.2009 kl. 23:22

13 identicon

UM leið og ég óska ykkur hjónum til hamingju með glæstan árangur þá langaði mig að tjá mig um "sigurvegarann" í maraþoninu. Ég er í fyrsta lagi mjög hissa að það séu ekki skýrari reglur um slíka hjálp og er sammála þér Eva að sigurvegarinn er sá sem lýkur keppni einn og óstuddur.  En mest furða ég mig á keppnismanneskju sem getur tekið við slíkum verðlaunum og finnast það bara allt í lagi.

Dóra (IP-tala skráð) 13.7.2009 kl. 09:49

14 identicon

Þetta eru rosalega erfiðar aðstæður.........

http://www.youtube.com/watch?v=MTn1v5TGK_w

inga dagmar (IP-tala skráð) 13.7.2009 kl. 09:56

15 identicon

"Kannski hefðum við sem störfuðum í markinu ferkar átt að hvetja hana til að skríða í markið eða prófa að færa henni vatn eða orku -en það hefði væntanlega verið umdeild aðstoð líka. "

Þessi tilvitnun í Rannveigu ásamt þeirri fullyrðingu að við framfylgd reglna lendum við alltaf á gráu svæði, er umfjöllunar virði.

1. Starfsmenn hlaupsins hefðu mátt hvetja konuna til að skríða í mark, rétta henni vatn eða orku, en EKKI styðja hana yfir marklínuna.  Í þeim efnum skiptir ekki máli hvort metrarnir eru tveir, 20 eða 2000. Þetta er ekki á gráu svæði. Þetta á starfsfólk að vita og ástæðulaust að reyna að réttlæta aðstoðina.

2. Aðstoð úti á brautinni, s.s. drykkir, vaselín og næring, er fyrst og fremst í boði þegar þjónusta á drykkjarstöðvum fullnægir ekki þörfum hlaupara, þrátt fyrir ríflegt þátttökugjald. 

3. Ef bannað væri að kljúfa vindinn fyrir aðra, væru fjölmenn maraþonhlaup óframkvæmanleg og Tour De France væri ekki svipur hjá sjón.

4. Fyrst ég er byrjaður að afrita og líma þá get ég ekki sleppt þessari setningu Barkar: "Svo held ég að fólk sé ekki svo að berjast í svona hlaupum að það kippi sér upp við að fólk fái aðstoð, jafnvel síðustu metrana.  "

Ég get ekki ímyndað mér að nokkur keppnismaður geti tekið undir þetta, allra síst þegar verðlaunasæti ráðast af hjálp yfir marklínu.

Gísli ritari (IP-tala skráð) 13.7.2009 kl. 10:13

16 identicon

Hvort skipti þátttakan meiru eða sigurinn.

Þessi umræða er ótrúleg fyrir íþróttamenn. Var þetta ekki annar landsmót?

Ég gladdist yfir hverju sigurvegara sem kom í mark. Var alls ekki meðvirk þegar ég fagnaði manni nr. eitt, tvö þrjú..tíu...

Arnar (IP-tala skráð) 13.7.2009 kl. 10:59

17 identicon

Ég er jafn efins og þið um það hvað er rétt og hvað er rant í þessu máli. En þar sem rétt skal vera rétt, þá vil ég taka fram að það voru ekki starfsmenn hlaupsins sem studdu konuna yfir marklínuna, heldur aðrir hlauparar. -En við starfsmennirnir hefðum hins vegar átt að skipta okkur af því. Það var okkar að leysa þetta en ekki annarra hlaupara.

Þegar ég talaði um það í fyrra skeyti mínu að kljúfa vindinn fyrir hlaupara átti ég ekki við það þegar hlauparar hlaupa í skjóli af hver öðrum heldur ef utanaðkomandi aðili -aðstoðarmaður sem er ekki þátttakandi í hlaupinu eða starfsmaður hlaupsins hjólar eða hleypur með hluta leiðarinnar. Það eru fjölmörg dæmi um það í íslenskum hlaupum.

Málið er í athugun hjá mótshöldurum. Og ég hvet þá sem hafa málefnalegar athugasemdir til að senda þær á þá sem hlut eiga að máli frekar en að ausa úr sér á bloggsíðum. Og bendi á netfangið oskar@umfi.is í því sambandi. Öll umræða og gagnrýni um hlaup og framkvæmd þeirra er af hinu góða. En hún verður ekki verulega gagnleg nema hún nái eyrum þeirra sem halda mótin.

Rannveig (IP-tala skráð) 13.7.2009 kl. 11:05

18 identicon

Þá á ekki að þurfa ræða þetta mikið, ef manneskju er hjálpað á þennan hátt í hlaupi þá fellur hún úr leik, segir sig 100% sjálft. 

Björn

Björn V (IP-tala skráð) 13.7.2009 kl. 11:08

19 identicon

Samkvæmt þessu ef ekki má hjálpa neitt þá hafa allir sigurvegarar síðustu maraþonhlaupa á Íslandi verið plat. Allir þessir aðilar hafa fengið hjálp með einum eða öðrum hætti.

Tek undir með þeim sem lýsa yfir vonbrigðum með þá s.k. íþróttamenn sem virðast hafa lítinn íþróttaanda. Þið hafið í það minnsta ekkert á landsmót að gera. 

 Sigur í íþróttum og lífinu er ekki alltaf fólginn bara í því að vera fyrstur í mark. Sigurinn er fólginn í mörgu öðru. Fyrst og fremst að taka þátt og gera sitt besta. Allt annað er hjákátlegt. Það fyrsta sem kemur upp í huga minn við lestur á þessari umræður er VORKUNN

Sigrún (IP-tala skráð) 13.7.2009 kl. 11:47

20 identicon

Eitt enn áður en ég dreg mig út úr þessum umræðum. Mér finnst ekki rétt að áfellast viðkomandi hlaupara fyrir að taka við verðlaununum. Það er mótshaldara að dæma um það hverjir eru sigurvegarar og hverjir ekki. Hlauparinn "svindlaði" ekki vísvitandi svo mér finnst ekki rétt að dæma hana sem lélegan íþróttamann fyrir að taka við verðlaununum. Mistökin eru mótshaldaranna en ekki hennar.

Rannveig (IP-tala skráð) 13.7.2009 kl. 11:52

21 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Þetta mál minnir mann á eitt af frægari atvikum íþróttasögunnar; þegar Dorando Pietri, ítalski brjóstsykursgerðarmaðurinn [það var ég líka sumarið 1974], hné niður aðframkominn af þreytu skammt frá endamarki ólympíuleikanna í London 1908. Þó langfyrstur væri var hann það örmagna að hann var gjörsamlega ófær um að ljúka hlaupi.

Starfsmenn mótsins brugðu á það ráð að hjálpa Pietri en hann féll niður jafnharðan. Þannig gekk það fyrir sig einum fimm sinnum og á endanum skjögraði hann yfir marklínuna studdur í mark. Hann var dæmdur úr leik en fékk gullbikar í sárabætur úr hendi Viktoríu drottningar.

Ég ætti annars kannski ekki að blanda mér í þetta þar sem ég var ekki viðstaddur, líklega var ég um 3.500 km í burtu.

En samkvæmt frjálsíþróttareglum er strangt til tekið öll aðstoð meðan á keppni stendur óheimil. Undantekning er þegar keppendum er veitt vatn eða aðra hressingu á tilgreindum drykkjar- eða svampstöðvum. Þá aðstoð má t.d. ekki veita annars en á fyrirfram ákveðnum stöðum sem mótshaldari ákveður.  

Þess vegna er klárlega ólöglegt að hjóla með drykki og annað sem menn láta ofan í sig eða á. En á það er sennilega komin löng hefð og í raun finnst mér persónulega sjálfsagt að líta framhjá slíku þegar um almenningshlaup er að ræða eins og Reykjavíkurmaraþon. Eigum við að gera sömu kröfur og til heimsmeistaramóts eða ólympíuleika? Verum aðeins mannlegri en að njörva okkur of mikið niður í ströngustu reglur. Menn eru ekki að keppa um heimsmeistaratitla eða önnur met í almenningshlaupum á Íslandi en að sigra sjálfan sig.

Úrskurður dómara landsmótsins stendur, allavega meðan honum er ekki breytt.  

Ágúst Ásgeirsson, 13.7.2009 kl. 11:52

22 identicon

Ég er sammála Rannveigu. Það er ekki keppandans að túlka hvort reglur hafi verið brotnar eða ekki ef mótshaldarar og aðstandendur keppninnar verða vitni að atvikinu.

Annars finnst mér furðulegt ef leyfilegt er að fá utanaðkomandi aðila til að kljúfa vind fyrir sig, er leyfilegt að fá hjálp svo lengi sem keppandi er ekki studdur bókstaflega?

Var hlaupið ekki annars sýningargrein?

Karma (IP-tala skráð) 13.7.2009 kl. 12:21

23 identicon

Hlaupið var áhugamannahlaup en ekki olympiuleikar. Skrifin byggja ekki á réttum forsendum eins og 'Asgeir bendir réttilega á. Allir hafa fengið einhverja hjálp í hlaupum hér heima en slíkt gerist ekki í alvöru hlaupum.  Ég verð einnig að taka undir sjónarhorn þeirra sem eru hissa á nálgun þinni ekki síst þar sem þú segist þekkja sigurvegarann. Það ætti að halda fyrir þér vöku en ekki úrslit hlaupsins. Afhverju olli þetta þér hugarangri nú þar sem þér er velkunnugt um margvíslega hjálp í öðrum hlaupum eins og marsinnis hefur verið bent á hér á í umræðunni.

Hefjum hinn sanna íþróttanda til vegs og virðingar.

Siggi (IP-tala skráð) 13.7.2009 kl. 12:24

24 identicon

Frændi minn var að biðja mig um að hjóla samsíða honum í Reykjavíkur maraþoninu með súrefnistjald yfir honum. Mér sýnist á öllu að það sé í lagi, svo framarlega að tjaldið snerti hann ekki.

Jónas (IP-tala skráð) 13.7.2009 kl. 12:28

25 Smámynd: Gísli Ásgeirsson

Þótt hér hafi komið fram munurinn á aðstoð meðan á hlaupi stendur og beinni hjálp til að komast í mark, eru sumir enn staðráðnir í að misskilja kjarna málsins, ráðast á Evu fyrir að segja skoðun sína og halda mætti að einn sem hér hefur lagt orð í belg (Sigrún) sé beinlínis mótfallin umfjöllun. Við eigum að geta rætt þetta eins og fólk.

En þegar athugasemdirnar eru svo komnar á fávitastigið og mogglingaplanið eins og hjá Jónasi hér fyrir ofan,  fallast manni hendur.

Gísli Ásgeirsson, 13.7.2009 kl. 12:45

26 identicon

Vissulega var þetta áhugamannhlaup eins og öll hlaup á Íslandi en keppendur hafa margir hverjir lagt á sig jafnmikið ef ekki meira en atvinnumenn til að ná sínum besta árangri. Maraþonið er lokahnykkur á löngum og erfiðum undirbúningi.

Ég var vitni að þessum atburði og þótti leitt að konunni skyldi ekki hafa verið veitt tækifæri til að komast sjálf yfir marklínuna en vill ekki sakast við þá sem hjálpuðu henni enda gerðu þeir það í bestu trú og erfitt að horfa aðgerðalaus á vin þjást. Þykist fullviss að hún hefði eftir á séð hafa fengið tækifæri til þess að komast af sjálfsdáðum í mark. Henni hefur þótt eðlilegt að taka við verðlaunum enda búin að standa sig vel í hlaupinu, var fremsta konan nánast alla leið.

Fylgdist vel með hlaupinu á brautinni og varð ekki vitni að því að hjólreiðamenn væru að skýla keppendum í mótvindinum enda vill keppandi ekki taka áhættuna á því að vera dæmdur úr leik fyrir svoleiðis kjánaskap.

Fagna þeirri umræðu sem komin er upp og þá sérstaklega varðandi aðstoð á brautinni. Persónulega sé ég ekki mun á því að standa á kantinum og rétta gel og drykki(utan drykjarstöðva) eða hjóla í humátt á eftir keppandanum. Aðstæður voru frekar erfiðar, heitt var í lofti undan vindi, sólin sterk og það er mjög misjafnt hvað hentar hverjum og einum á milli gel inntöku eða drykkja.

Vona bara að málið verði íhugað vel og yfirvegað áður en einhver ákvörðun verður tekin varðandi úrslit í maraþonhlaupi kvenna. 

Saknaði þess að sjá dómara við markið en eins og Óskar segir í viðtali við mbl.is, átti enginn von á þessu og vonandi verður þetta víti til varnaðar.

Ásgeir (IP-tala skráð) 13.7.2009 kl. 12:46

27 identicon

Vil bæta því við að ég þakka Evu fyrir að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og vekja umræðuna. Er ekki að segja að ég sé sammála en málið er umdeilt og full þörf á umræðu.

Ásgeir (IP-tala skráð) 13.7.2009 kl. 12:51

28 identicon

Var fólk ekki alveg örugglega að hlaupa sér til skemmtunar þarna? Er ekki verið að tala um nokkra metra í markið? Eigið einfaldlega að samgleðjast henni og þakka fyrir að þetta hafi ekki verið eitthvað verra en ofþreyta sem amaði að henni.

Hinrik (IP-tala skráð) 13.7.2009 kl. 12:57

29 identicon

Ég er aldeilis sammála Evu - þó ég sé ekki reynd í hlaupunum og þekki ekki reglurnar til hlýtar setti ég strax spurningamerki við þetta - það getur varla skipt máli hvort maður gefst upp í miðju hlaupi eða rétt við marklínuna - öðru máli hefði gegnt ef hún hefði náð að koma sér sjálf yfir........mér finnst það mikill munur á að hlaupa sjálfur og þiggja aðstoð með vatn og annað á leiðinni - eða að vera hálf borin í mark......sé ekki alveg íþróttaandann í því.....

.......og þar fyrir utan heyrði ég að áhorfendur, þar á meðal ung börn voru í hálfgerðu sjokki yfir þeirri upplifun að horfa á þetta.....spurning hvort þetta hefur hvetjandi áhrif á fólk til að taka þátt í langhlaupum ???


Aðstæðurnar voru auðvitað öðruvísi en við eigum að venjast hér á landi - en kannski hefði samt mátt gera ráð fyrir miklum hita - miðað við hvernig veðrið er búið að vera síðustu vikur og hvernig veðurspáin hljómaði fyrir þennan dag???

 ég tek undir með Gísla með að það verður að vera hægt að ræða hlutina á málefnalegan hátt og læra af orðnum hlut og bæta seinni tíma hlaup...

Ása Dóra (IP-tala skráð) 13.7.2009 kl. 12:57

30 identicon

Hvað er áhugamannahlaup, er það hlaup án reglna, er það hlaup sem ekki er talið alvöru, var 48t hlaupið hans Gunnlaugs áhugamannahlaup? Marathon krefst mikils undirbúnings og skipulags, það vita allir sem hafa hlaupið marathon að pacið verður að passa alla leið.  Aldrei hef ég áður heyrt að vatnsgjafir á hlaupaleið dæmdu mann úr leik, en að stytta sér leið er bannað og til að hlaupi sé lokið þarf maður að komast í mark, á eigin fótum.

Ekki gera lítið úr metnaði einstakra hlaupara, að sigra/komst það er sumum mjög mikilvægt, allt tal um olympiuleika er bull, auðvita vilja allir/flestir sigra, ef ekki keppnina þá hlaupafélagann eða sinn besta tíma.

Jón (IP-tala skráð) 13.7.2009 kl. 13:00

31 identicon

Ég sá ekki umrætt atvik þar sem ég var sjálfur ekki kominn í mark og get því ekki dæmt en sýnist að ábending Evu sé fyllilega réttmæt og þakka henni hér með fyrir að vekja mál á þessu. Sömu leiðis finnast mér innlegg Rannveigar og fleiri áhugaverð og bendi á að báðar eru þessar góðu konur í hópi okkar öflugustu hlaupara, keppnismanneskjur og margfaldir sigurvegarar í ýmsum hlaupum. Ég hef lengi velt fyrir mér hversu langt má ganga í að láta aðstoðarfólk taka þátt í hlaupum, eins og hefur viðgengist í öllum þeim 4 maraþonum sem ég hef tekið þátt í hérlendis, og þakka Evu því einnig fyrir að benda á alþjóðlegu reglurnar um keppni í götuhlaupum á hlaup.is. Vissulega er verulegur munur á hvort aðstoðarmaður er með drykki og orku sem hann réttir eða hvort hann hjólar á undan og veitir skjól. Í hlaupi eins og þessu, þar sem voru samtals 11 drykkjarstöðvar í heilu maraþoni, skil ég reyndar ekki að þörf sé á aðstoðarmanni og velti fyrir mér hvort ekki sé hreinlegast að banna alla utanaðkomandi aðstoð nema þá sem er í boða á drykkjarstöðvum og veitt er af mótshöldurum, eins og áðurnefndar reglur kveða á um. Fólk verður þá að skipuleggja hlaup sitt í samræmi við það, fylla á drykkjarbrúsa á drykkjarstöðvum ef það telur sig þurfa meira og miða hraða sinn við að komast hjálparlaust í mark - alla leið.

Halldór Arinbjarnarson (IP-tala skráð) 13.7.2009 kl. 13:46

32 identicon

Við nánari talningu sé ég að drykkjarstöðvar á hlaupaleiðinni voru 10 auk endamarks. Er það ekki svipað og í Rv.maraþoni?

Halldór Arinbjarnarson (IP-tala skráð) 13.7.2009 kl. 14:05

33 identicon

Þetta er vissulega áhugaverð umræða sem á rétt á sér eins og allar skoðanir almennt. Hér á undan falla menn (Gísli)í þá gryfju að kalla skoðanir annarra rugl eða fávitaskap. Slíkt dæmir sig sjálft enda telja hinir sömu sína skoðun vera hina einu réttu. Ekki satt?

Ég varð, eins og sumir hafa lýst hér á undan, fyrst og fremst undrandi á nálgun Evu. Vorkunn er ekki fráleitt hugtak eins og einhver lýsti því. Hér skortir svo sannarlega á ungmennafélagsandann. Þeir sem geta ekki unnt öðrum sigri hver sem dómarinn var ættu að snú sér að öðru. Sigurvegarinn var úrskurðaður sigurvegari og sá dómur er eins og allir aðrir dómar í íþróttum endanlegur. Við ættum síðan að ræða reglur í öðru samhengi og það er sjálfsagt og eðlilegt að fylgja og hafa reglur svo allrar sanngirni sé gætt. Var manni númer tvö eða þrjú aldrei hjálpað?

Ég gladdist svo sannarlega með sigurvegaranum og geri það enn. Sú gleði hefur ekki valdið mér neinum svefntruflunum.

Lárus (IP-tala skráð) 13.7.2009 kl. 14:51

34 identicon

bla bla bla....tuði tuði tuð, vælubílinn er á leiðinni..... Hvað með það þó einhver hafi aðstoðað hana síðasta spölinn, er ekki um að gera að hafa gaman að þessu, frekar en að væla yfir því að hafa ekki sigrað? Er ekki fúttið að hafa gaman að þessu og vera með? ég spyr.......

mr. blabla (IP-tala skráð) 13.7.2009 kl. 14:51

35 identicon

Ég var á staðnum og horfði á þetta gerast og tek undir með Ásu Dóru að viðstöddum var brugðið að horfa upp á konuna örmagnast.  Það var gargað á hana að ljúka hlaupinu og kunningja dreif að og krupu þeir niður við hlið hennar og reyndu að hjálpa henni á fætur en hún féll aftur niður, gat ekki staðið í fæturnar.  Ég man ekki eftir að hafa heyrt neinn hvetja hana til að skríða í mark, en í fullri alvöru sýndist mér hún ekki heldur hafa þrek til þess.  Þá tóku tveir hana á milli sín og báru hana yfir marklínuna og að því búnu var hún lögð til hliðar og fékk aðhlynningu og stuttu seinna kom sjúkrabíll og sótti hana.

Ég er einnig sammála Ásu Dóru að það mátti vita fyrirfram hvernig aðstæður yrðu, þ.e. mjög heitt og sólríkt og hefðu mótshaldarar, sem mætti ætla að hefðu vit og jafnvel reynslu af maraþonhlaupum, mátt gera sér í hugarlund að einhverjar svona aðstæður gætu komið upp.  Hlaupið endaði á góðum kafla upp brekku, og þess þá heldur hefði mátt ætla að hún yrði mörgum erfið á síðustu metrunum. 

Það að dómari hafi ekki verið við marklínuna er að mínu mati fyrirsláttur, tugir áhorfenda urðu vitni að þessu, auk starfsmanna sem sátu við marklínuna.  Myndir eru til sem sýna konuna studda í mark.  Enginn vafi er á því að það var gert.  Þótt hún hafi verið í forystu meiripart hlaupsins er ekki undan því vikið að hún lauk því ekki sjálf.  Mér finnst hálf skrítnar athugasemdir þeirra sem tala um "landsmótsandann" og að þetta sé bara allt í lagi, er þá landsmótsandinn að gefa afslátt af viðurkenndum reglum í íþróttagreinum?  Þetta er leiðinda mál bæði fyrir skipuleggjendur og "sigurvegarann", að taka við fyrsta sæti á þessum forsendum.

Ég get hins vegar tekið undir með keppandanum að merkingum var ábótavant, ég var með hlaupara í styttri vegalengd, sem náði að villast einu sinni, og engir starfsmenn voru sjáanlegir til að hjálpa.

Sunny (IP-tala skráð) 13.7.2009 kl. 15:03

36 identicon

Á maður ekki að kynna sér leiðina vel áður en lagt er af stað? Svo er yfirleitt ekki langt í næsta mann á undan sem hægt er að elta. Fannst þetta ekki hafa verið flókin leið, tvisvar sinnum farið um sumar götur.

Í upphafi hlaups voru hlauparar kvattir til að nýta sér drykkjarstöðvarnar því það var heitt og útlit fyrir að svo yrði áfram.

Verðum við ekki að kyngja úrskurði mótshaldara? 

Sigga (IP-tala skráð) 13.7.2009 kl. 16:04

37 identicon

Það fær enginn úr þessu skorið nema dómarar Landsmótsins. Vissulega orkar svona aðstoð tvímælis, ég var ekki þarna og sá ekki konuna en ef hún hefur verið í mjög slæmu ástandi hefur væntanlega verið skynsamlegast að hjálpa henni og koma henni til lækna sem fyrst. Að því gefnu vinnur hún ekki hlaupið.

En talandi um aðstoð þá sé ég mikinn mun á því að fólk sem er ekki að keppa sé að kljúfa vind fyrir keppendur, á móti því að aðstandendur rétti keppendum drykki. T.d. vegna þess að skv. reglum IAAF um götuhlaup lengri en 10km skulu vera "refreshment" stöðvar á ca. 5km fresti og svo eingöngu vatnsstöðvar mitt á milli þeirra. Það þýðir drykkjarstöð á ca. 2,5 km fresti. Ég hef ekki séð það í hlaupum hérlendis og þangað til úr verður bætt mun ég skipuleggja mínar eigin drykkjarstöðvar.

Reynir Bjarni Egilsson (IP-tala skráð) 13.7.2009 kl. 17:01

38 Smámynd: Pétur Hafsteinn Stefánsson

Verð nú bara að viðurkenna það að sum "comment" um þetta atvik er eins og þau séu skrifuð að einstaklingum sem eru sófaíþrottaiðkenndur.  Áhugamannahlaup, ungmennafélagsandinn eru greinlega í huga þessa fólks íþróttir þar sem svindl í hvaða formi sem þau myndast leyfileg. Hvar endar íþróttaíðkunn á íslandi ef svona hugsunarháttur verður í hávegum hafður? Þessi manneskja verður að meiri manni ef hún skilar "verðlaununum". Hún hlýtur að átta sig á því að þetta hlaup verður lengi í manna minnum og verður væntanlega skráð í bækur. Það var í raun ílla gert af mótshöldurum að skrá hana í fyrsta sætið. Þeir bera mikla ábyrgð í þessu máli. Ég vona að manneskjan sé búin að jafna sig og komi sterkari og reynslunni ríkari í næstu keppni.

Pétur Hafsteinn Stefánsson, 13.7.2009 kl. 18:07

39 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Í keppnisíþróttum er miðað við aðstæður, reglur og lög, og til þess að framfylgja þeim eru mannlegir mótskipuleggendur og dómarar. Það eru gerð mistök og þau eru hluti af keppninni.

Í nánast hverjum boltaleik, koma upp atvik sem geta haft áhrif á úrslit leiksins, en dómarinn annað hvort tekur ekki eftir eða metur rangt. Það er hluti af leiknum og þroskaðir íþróttamenn vita að þeir geta ekkert við því gert og sætta sig því niðurstöðuna. Það er reyndar hluti af þroskaferli hvers íþróttamanns. Sama á við um aðrar íþróttir.

Það er frábært að maraþon skuli hafa verið tekið upp á þessu Landsmóti. Að sjálfsögðu má alltaf gera betur og þess vegna fer fram endurmat á hverju landsmóti, til þess að gera betur næst.

Það sem skiptir mestu máli er að Landsmótið hafi tekist jafn vel og raun ber vitni, Akureyringum og Eyfirðingum til mikils sóma.

Sigurður Þorsteinsson, 13.7.2009 kl. 19:35

40 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Ég hef tekið þátt í keppnisíþróttum, nánar tiltekið alpagreinum skíðaíþrótta. Þar er ekki óalgengt að keppendur falli í brautinni og þá er þeim undantekningalaust óheimilt að þiggja nokkra aðstoð frá utanaðkomandi nema þeir hafi gefið skýrt merki um að hafa hætt keppni eða augljóst sé að þeir hafi slasast og þurfi læknisaðstoð en þá er líka keppni þeirra þar með lokið hvort sem er!

Hef líka verið brautarstarsfsmaður (hliðvörður) í alþjóðlegum skíðamótum hér á landi, og þar er farið yfir gildandi reglur með starfsfólki áður en keppni hefst, meðal annars að ef keppandi missir af sér skíði og það rennur niður brekkuna er óheimilt að stoppa það nema áhorfendum stafi beinlínis hætta af, keppandinn verður sjálfur að sækja það. Einnig ef keppandi missir af hliði er starfsmönnum óheimilt að gefa keppanda merki um það t.d. með því að kalla til hans, eingöngu er leyfilegt að svara ef keppandin stoppar og spyr að þessu sérstaklega.

Algengt er að starfsmenn þekki einhverja af keppendum persónulega, en samt mega þeir ekki einu sinni hvetja þá á neinn hátt á meðan keppni stendur. Þessar reglur ganga að öllu leyti út á það starfsmenn hafi engin afskipti af keppendum sem geti haft nein áhrif á framgang keppninnar. Hvernig nákvæmlega þetta á við í frjálsíþróttum veit ég ekki, en nefni þetta bara hér sem dæmi.

Guðmundur Ásgeirsson, 13.7.2009 kl. 19:37

41 identicon

Ég er ánægð að sjá hvað það eru margir sem er ekki skítsama. Takk Eva fyrir að byrja á umræðunni.

Corinna (IP-tala skráð) 13.7.2009 kl. 20:35

42 identicon

Ég er búin að eiga erfitt með mig í dag að detta ekki ofan í þessa umræðu.   Ég get ekki orða bundist þó að mér finnist flest það sem ég hef hugsað um þetta vera komið fram.   Þó ekki allt.
Það geta mörg leiðindaverk fylgt þeirri ábyrgð að stýra keppni.   Það er ekki langt síðan ég þurfti sem keppnisstjóri að standa í því að framfylgja reglum sem ég hafði sjálf haft frumkvæði að því að setja.   Reglurnar útilokuðu einstakling frá keppni sem ég hefði gjarnan viljað leyfa að vera með.   Það mátti deila um hversu sanngjarnt það væri en málið var að reglurnar höfðu verið settar og að gefa undanþágu hefði ekki verið réttlátt gagnvart öðrum sem hlýddu þeim.
Keppnisstjórn fylgir semsagt sú kvöð að þurfa að taka óvinsælar ákvarðanir og standa við þær.
Svo er til fólk eins og þú Eva sem þorir að hafa skoðanir og standa við þær og ég ber mikla virðingu fyrir slíku fólki, líka þegar ég er ekki sammála því :)
Mér finnst allt þetta mál hið leiðinlegasta og ég bið til guðs að þurfa aldrei að lenda í aðstæðum sem þessum.    Guð forði mér frá því að þurfa nokkurn tíma sem keppnisstjóri að takast á við það að dæma fólk úr keppni fyrir brot á leikreglum. 
Guð forði mér frá því að lenda nokkurn tíma í því að horfa á félaga hníga niður fyrir framan marklínuna og þurfa að taka ákvörðun um það hvort ég eigi að drösla honum í mark svo hægt sé að veita honum læknishjálp eða bíða og athuga hvort hann fer af stað eða drepst kannski bara þar sem hann er.
Guð forði mér líka frá því að lenda í því nokkurn tíma að örmagnast fyrir framan marklínu, vera borin í mark, lenda á spítala, vera afhent sigurlaun sem menn rífast svo um úti um allt internet og meira að segja í blöðunum hvort var svindl eða ekki og fá síðan haft eftir mér í mogganum að ég hafi verið að skammast yfir því að hlaupið skuli hafa endað á brekku.
Mér finnst allt þetta mál vera farið að snúast um persónu konu sem hefur ekkert af sér gert.   Það geta allir lent í því að misreikna sig með orku og vökva.    Það geta allir lent í því að þola illa hita eða ganga að öðru leyti of nærri sér.    Það er alveg fullt af fólki sem kynnir sér ekki keppnisbrautina áður en þeir hlaupa hana.   Það var ekki hennar að ákveða hvort hún væri sigurvegarinn í þessu hlaupi eða ekki, heldur keppnishaldaranna.   
Mér skilst að ástæðan fyrir því að konan var ekki dæmd úr keppni hafi verið sú að fólk hafi talið það á gráu svæði hvað væri að fá utanaðkomandi hjálp og hvað ekki.   Að fólk hafi verið með aðstoðarmenn á brautinni sem hafi brotið vind og rétt drykki, og að úr því að hinir sem fengu utanaðkomandi hjálp voru ekki dæmdir úr keppni hafi heldur ekki verið hægt að dæma þetta tilfelli út.
Ég er ekki  sammála þessu.     Reglur eru reglur og til þess eru keppnishaldarar að passa upp á að fólk fari eftir þeim.    Það er ekki hægt að dæma það sem dómarinn ekki sér, en það sem gerist fyrir augunum á honum ætti að vera einfalt.     Að gefa undanþágur frá reglum býður upp á grá svæði.    Má þá til dæmis bera manneskju yfir marklínu þegar hún á bara tvo metra eftir en ekki ef þeir eru tíu?  
Það er eiginlega þannig með þennan ungmennafélagsanda sem einhverjir eru svo hrifnir af hér í þessum umræðum að hann er sprottinn upp úr keppnisandrúmslofti þar sem hlutirnir ganga út á að keppa þar sem sá besti vinnur með því að fara eftir þeim reglum sem gilda í leiknum.   

Bibba (IP-tala skráð) 13.7.2009 kl. 23:26

43 Smámynd: Sigurjón

Keppnisíþróttir eru stórhættulegar og óeðlilegar líkamanum og ætti því enginn að stunda.  Þessi manneskja hefði getað drepið sig á þessu hlaupi...

Sigurjón, 14.7.2009 kl. 00:51

44 identicon

Athyglisverð umræða. Eftir lýsingum að dæma er alveg ljóst að þarna fékk keppandi ólögmæta aðstoð við að klára hlaupið og hefði átt að dæmast úr leik. Það er ekki til neitt sem heitir grátt svæði þarna. Óskiljanlegt dómgreindarleysi hjá þeim aðilum sem tóku að sér að bera/styðja hana yfir línuna. En í framhaldinu væri athyglisvert að víkka út umræðuna. Í erlendum almennings maraþonhlaupum hefur það verið látið ótalið þó áhorfendur meðfram hlaupaleiðinni afhendi hlaupurum drykk, enda nær ómögulegt að fylgjast með og koma í veg fyrir slíkt í fjölmennum hlaupum. Í meistarakeppnum er slíkt hins vegar stranglega bannað, aðeins má taka drykk á viðkurkenndum drykkjarstöðvum. Mér virðist það hins vegar vera sér algjörlega íslenskt fyrirbæri að aðstoðarmenn séu inn á hlaupaleiðinni, ýmist hlaupandi eða hjólandi með ákveðnum keppendum hluta leiðarinnar. Þetta er hvimleiður ósiður sem mætti gjarnan leggjast af.

Anna (IP-tala skráð) 14.7.2009 kl. 02:35

45 identicon

Við skulum varast upphrópanir eins og "óskiljanlegt dómgreindarleysi".    Vökvatap er lífshættulegt ástand.   Ég skil þessi viðbrögð bara mjög vel.

Bibba (IP-tala skráð) 14.7.2009 kl. 09:31

46 identicon

Fór inn á vef maraþonhlauparafélagsins en fann engar reglur um framkvæmd maraþonhlaupa og alþjóðlegur reglurnar eru bara eins góðar og þær ná.  T.d stendur:  Þátttakanda er óheimilt að taka við drykkjum á öðrum stað en merktum drykkjarstöðvum. En samt segist Gísli (og fleiri) umhugsunarlaust græja gel og drykki til hlaupara utan þeirra.  Ég hef líka gert það eins og allir hinir.

Svo segir: Aðstoð utanaðkomandi er ólögleg og getur haft í för með sér að árangur verði ógiltur.  Þ.e. aðstoðin er ólögleg en bara "getur haft í för með sér", þ.e. árangurinn getur staðið áfram þrátt fyrir ólöglega hjálp. Dálítið skrýtin regla og hér er keppnistjórnendum eftirlátin túlkun á þessari ”reglu”.  Skv. henni er alveg opið yfir keppnisstjórn að velja á hvort viðkomandi er inni eða úti.  Þannig að ákvörðun hlauparahaldara á Akureyri getur t.d. byggst á þessari reglu, enginn sem getur mótmælt því. 

Það er mjög algengt að hlauparar jafnt í fyrstu sætum sem þeim öftustu fá utanaðkomandi hjálp og ekki langt síðan aðili vann sigur í sínum flokki í maraþoni með aðstoð pacers sem var ekki skráður í hlaupið.  Það var enginn að pirra sig yfir því enda mjög oft gert. 

Stend því við það sem ég sagði hér að ofan að fólk er almennt ekkert að stressa sig þótt hinir eða þessir fái meiri eða minni hjálp.  Keppnisstjórar eins og Gísli geta tekið undir með mér með það að menn taka reglur ekki beint hátíðlega enda engar reglur til um framkvæmd almenningshlaupa, í besta falli gamlar munnmælasögur. 

Það er því góður punktur hjá Bibbu að hún var að framfylgja reglum sem hún hafði haft frumkvæðið að því að setja og þörf spurning eftir á: hvar eru keppnisreglur fyrir maraþon og hlaup almennt á Íslandi?   Man ekki eftir að vísað hafi verið í reglur þegar menn auglýsa hlaup, ekki einu sinni á vegum Félags maraþonhlaupara eða Rvk. maraþons.

Keppnistjórnendur eru álíka margir og hlaupin eru mörg og því ekki hægt að tala um að þeir hafi óendanlega reynslu af hinum eða þessum atvikum og hafi ávallt réttu viðbrögðin við öllum uppákomum. 

Tek líka undir það sem Rannveig segir hér að ofan að það er kannski stigsmunur á því hvort einhverjum er hjálpað yfir marklínu án þess að hann biðji um aðstoð eða hvort planað er frá upphafi hlaups að aðstoða viðkomandi aðila til sigurs með utanaðkomandi hjálp.  Mér finnst það seinna snöggtum meiri hjálp.

Það er samt mín skoðun að hvorttveggja sé disqualification.

Er svo ekki hægt að slá botninn í þetta með því að óska eftir því að málsmetandi menn setjist niður og berji saman reglur fyrir keppnishlaup af þessu tagi svo allt stórt sem smátt sé á hreinu?

Að lokum sagan frá Western States hlaupinu sem ég minnist á framar.

http://www.ncctrackclub.com/articles/WesternStates.html

Börkur (IP-tala skráð) 14.7.2009 kl. 12:03

47 Smámynd: Gísli Ásgeirsson

Ég held að ef ætti að banna alla drykki, gel, vaselín og annað sem aðrir en starfsmenn viðkomandi hlaups miðla til keppenda á merktum drykkjarstöðvum, yrði mjög erfitt að framfylgja því. Auðvitað væri hægt að hafa borðin á drykkjarstöðvunum stærri og gefa hlaupurum kost á að koma sérmerktum drykkjum og geli þar fyrir.  Hitt er svo annað mál hvort það er framkvæmanlegt í fjölmennum hlaupum.

Oft sammælist fólk um það í upphafi hlaups að halda uppi ákveðnum hraða og hjálpast þannig að til að ná settu marki. Flest þekktustu stórhlaupin úti í heimi ráða héra til að halda uppi ákveðnum hraða til að fá góðan sigurtíma, jafnvel nýtt brautarmet. Þetta er alþekkt og hefur enginn amast við því. Sumir hérar hafa meira að segja tekið á rás og sigrað. (Dæmi: Paul Pilkington).

Það er vissulega rétt, Börkur, að við höfum ekki farið stíft eftir bókstaf laganna, heldur treyst því að hjálp miðist við meðalhóf og almenna skynsemi. Ég man heldur ekki eftir öðru tilviki en þessu á Akureyri, þar sem hjálpin hefur verið meiri en góðu hófi gegndi.

Ég fylgdi Guðmanni í RM fyrir allnokkrum árum þegar hann hljóp á 2:48, rétti honum gel og vatnsflösku á 5 km bili. Ég var vel birgur þennan dag og gaf fleirum að drekka sem um það báðu, var líka óspar á vaselínið. En þegar 5 km voru eftir, var þessari aðstoð minni lokið. Ef Guðmann hefði dottið á Skúlagötunni og helst, hefði ég ekki boðið honum far á bögglaberanum. Hann hefði alltaf orðið að fara á tveimur jafnfljótum í markið. Þetta eiga menn að vita.

Ég skil vel að félagar Ólafar hafi stokkið til þegar ljóst var að henni leið illa og viljað hjálpa henni. Þetta er öllum eðlislægt. Um eftirmálann og ummæli hennar, tjái ég mig ekki frekar en vísa í bloggfærslu Gunnlaugs.

Akureyrarmálið verður vonandi til þess að hefja umræðu á skynsamlegum nótum um framkvæmd hlaupa, reglur og þar fram eftir götunum.  Auðvitað væri gott að setja reglur á blað og treysta því að keppendur og starfsmenn fari eftir þeim. Ég er fús til að leggja mitt af mörkum í þeim efnum.

Gísli Ásgeirsson, 14.7.2009 kl. 13:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Eva Margrét Einarsdóttir
Eva Margrét Einarsdóttir

Ætlar að hlaupa styttra og hraðar...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband