Leita í fréttum mbl.is

Kjarninn

Little did I know...  Þegar ég settist niður og skrifaði þessar hugleiðingar mínar eftir aldeilis frábæran dag með vinum og kunningjum á Landsmóti á Akureyri, þá óraði mig ekki fyrir þessum viðbrögðum.  Meginmarkmiðið með pistlinum mínum var að sparka í rassinn á sjálfri mér fyrir að hafa ekki haft kjark til að segja það sem mér fannst á tilteknum stað, á tilteknum tíma og læra rækilega af reynslunni með því að blogga um það.  Það var ástæðan fyrir því að ég átti erfitt með að sofna, ég var svekkt út í sjálfa mig.  Að þessi sjáfsskoðun mín skyldi vekja upp svona sterk viðbrögð er ágætt, umræðan er greinilega mjög þörf og mér finnst mörg góð sjónarmið hafa komið fram.  Mér finnst ekkert skemmtilegra en að skoða vel rökstuddar og málefnalegar ábendingar, hinar trufla mig ekki.  

Svona umræður (engin fundarstjórn...) eiga það til að fara út um víðan völl og það er allt í fína líka, hvort teygja megi reglur, hvenær eiga að framfylgja þeim eða hver sé hinn sanni íþróttaandi o.s.frv.  Það eru til fullt af samkomum þar sem takmarkið er ekki að keppa til sigurs, þ.e. tilgangurinn felst í því að taka þátt.  Til dæmis er skemmtiskokk oft haldið í tengslum við keppnishlaupin og þar er það klárt markmið atburðarins að taka þátt, vera með, skemmta sér.  Ég hef sjálf síðustu 10 árin eða svo, verið með í Kvennahlaupinu, ólétt, með mömmu eða með börnin mín í kerru og skemmt mér konunglega.  Ég hljóp með dóttur mína á öxlunum í Blóðbankahlaupinu um daginn, sem er skemmtiskokk haldið til að vekja athygli á málstað, án tímatöku.  En ég er líka metnaðarfullur íþróttamaður og ég legg heilmikið á mig til að ná eins langt og ég get í minni íþróttagrein og keppi iðullega til sigurs.  

Margar íþróttagreinar eru þannig að árangur er metinn huglægt, þar sem stíll og fagurfræði skipta máli (sbr. skíðastökk, fimleikar o.s.frv.).  Hlaupin eru ekki þannig. Sá sem hleypur hraðast alla leið í mark vinnur.  Hann má vera alveg eins og njóli á leiðinni og satt að segja þekki ég nokkra þrusu góða hlaupara, sem ég ber mikla virðingu fyrir, sem hafa mjög áhugaverðan stíl Grin.    

Það voru einkum tvær spurningarnar sem ég var að velta upp í mínum pistli:

a) Er hægt að sigra maraþon án þess að ljúka maraþoni?

b) Er í lagi að taka á móti sigurverðlaunum í maraþoni án þess að hafa lokið keppni?

Í mínum huga eru svörin við báðum þessum grundvallarspurningum, nei.  Með því að svara báðum spurningunum neitandi er ég annars vegar að gagnrýna þá sem standa að hlaupinu og hins vegar að gagnrýna þátttakanda.  Mér finnst báðir aðilar eiga sína ábyrgð í þessu tilviki, annars vegar þá ábyrgð að fylgja grundvallarreglunni að nauðsynlegt sé að ljúka þeirri keppni sem tekið er þátt í til að sigra (burtséð frá öllu öðru) og siðferðislegri ábyrgð á hvað er rétt og hvað er rangt, svona almennt.  Mín skoðun er að enginn atburður né persóna sé hafin yfir alla gagnrýni, gagnrýni er af hinu góða sé hún málefnaleg, þannig lærum við að gera betur.  Sem íþróttamaður þá borga ég fyrir að fá uppbyggilega gagnrýni (þjálfun/gagnlega rýni).  Heyri ég aldrei hvað það er sem ég geri rangt eða hvernig ég get bætt mig, myndi ég staðna og ekki ná neinum framförum.  Eins er það í lífinu, ég elska að skoða, analysera og velta fyrir mér hinum og þessum siðferðilegum spurningum.  Mér finnst ekkert skemmtilegra en að komst í kynni við fólk sem getur komið sinni skoðun þannig á framfæri að það fær mig til að skipta um skoðun, það er mikið spunnið í svoleiðis fólk finnst mér.  Ég var farin að gæla við að svara hverri og einni athugasemd en ég hafði vit fyrir sjálfri mér, sem betur fer Tounge.

En aftur að Landsmótinu...  Ég vil taka það skýrt fram að upplifun mín og minnar fjölskyldu á Landsmóti var aldeilis frábær!  Við mættum ekkert nema frábæru viðmóti starfsfólks og brautarvarða, upplýsingar um hlaupaleiðir voru skýrar og starfsfólk á drykkjarstöð stóð sig með mikilli prýði.  Það var sérstaklega gaman að hlaupa inn göngugötuna, þar var hópur starfsmanna hlaupsins að hvetja og sprella, fékk mann til að brosa hringinn. 

Það er mannlegt að gera mistök og mér sýnist að allir sem standa málinu nærri sjái að mistök hafi verið gerð.  Það sem mér finnst skipta öllu máli hér (sem og annars staðar) eru viðbrögðin við mistökum.  Sé einhver leið að leiðrétta mistökin skal það gert og allir bera virðingu fyrir því.  Í fótbolta geri dómari mistök sem kosta annað liðið sigurinn og því er ekki haggað.  Séu aftur á móti reglur í leiknum þverbrotnar, t.d. ólöglegir leikmenn á vellinum þá eru úrslit kærð og leiðrétt.  Jafnvel dögum eftir leik.  Það geta líka allir lent í því að þurfa að hætta keppni, það er engin skömm af því.  Í flestum tilfellum kemur maður tvíefldur til baka.  Ég ber mikla virðingu fyrir þeim sem átta sig á mistökum sínum sjálfir og leiðrétta þau, hverjar svo sem afleiðingarnar verða.  Það er göfugt. 

Ég persónulega er mjög 'anal' í að fylgja öllum reglum, ekki fyrir aðra, heldur vegna þess að þegar ég hef lokið einhverri keppni eða þraut, þá vil ég geta staðið teinrétt og brosað út að eyrum, fullviss um að ég hafi ekki notið fríðinda umfram aðra keppendur.  Ég tók ekki þátt í maraþonhlaupinu, (það var enginn vafi á því hver sigraði 10 km hlaupið Tounge )og átti því engra hagsmuna að gæta persónulega.  Ég hef aldrei áður séð konuna sem sannarlega lauk hlaupinu fyrst kvenna, þó svo ég þekki nafnið hennar og veit af afspurn að hún er hörku keppnismanneskja.  Ég get rétt svo ímyndað mér hvað sú kona hefði kallað yfir sig hefði hún kært úrslitin!

Ég er ekki tapsár.  Ég tapa reglulega í keppnum fyrir mér fremri íþróttamönnum.  Ég ber ómælda virðingu fyrir þeim sem sigra mig, hugsa 'djö... er hún góð mar...', fyllist aðdáun, tilfinningin er pínulítið eins og þegar maður varð skotin í einhverjum sem krakki Blush.  En ég er alveg svakalega svindlsár og kannski er það eitthvað sem ég þarf að vinna í með sjálfa mig.  Það er sama hvort það er vinnustaðaleikur, íþróttakeppni eða annað (hér mætti t.d. setja inn dæmi að eigin vali úr íslensku viðskiptlífi síðastliðin ár). 

Læt þetta vera mín lokaorð um þetta mál, fagna áframhaldandi umræðu þar sem hún á heima.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Eva Margrét Einarsdóttir
Eva Margrét Einarsdóttir

Ætlar að hlaupa styttra og hraðar...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband