Leita í fréttum mbl.is

Hvað ef...

Lenti í smá atviki að kvöldi til fyrir um tveim, vikum eftir sundæfingu.  Ég stóð í andyri sundlaugarinnar að spjalla við vinnufélaga þegar ég tók eftir unglings pilti hlaupa í áttina að bílaplaninu á fleygiferð.  Nokkru síðar komu fleiri hlaupandi og mér datt helst í hug að þetta væru krakkar í eltingaleik eða eitthvað svoleiðis þangað til ég heyrði stelpu sem kom hlaupandi á eftir garga; 'Ekki gera þetta, hættið þessu!!!'.  Það lék enginn vafi á, að eitthvað mikið var að.

Ég henti frá mér sundtöskunni og hljóp á eftir krökkunum án þess að hugsa.  Ég fann hópinn á bak við sendibíl þar sem einn unglingurinn hélt öðrum föstum með hálstaki upp við bílinn og var að berja hann.  Ég reif í hnakkadrambið á stráknum og henti honum frá og hugaði að hinum stráknum.  Villingurinn varð alveg brjálaður og ætlaði í gömlu konuna, sagði mér að drullast í burtu svo hann gæti barið helvítis negrann.  Hann slæmdi hnefanum í áttina til mín en hefur sennilega ekki áttað sig á því að hann ætti í höggi við kellu sem tekur 50 armbeygjur og 30 upphífingar án þess að blása úr nös...   Ég greip í handlegginn á honum og horfði í augun á honum meðan ég sagði honum ósköp rólega að hér yrði ekki slegist og hann og hans pakk skyldu hypja sig í burtu.  Hann blótaði eitthvað út í loftið og hypjaði sig svo.

Strákurinn sem varð fyrir ofbeldinu, var að sjálfsögðu í mjög miklu uppnámi, skalf og náði varla andanum.  Ég tók hann undir handlegginn á mér og sagði honum að slaka á, ég ætti strák sem væri alveg eins og hann, bara nokkrum árum yngri, hann þyrfti ekkert að óttast, ég sæi til þess.  Ég spurði hvort hann myndi treysta sér til að komast heilu á höldnu heim en svo var ekki.  Ég spjallaði við hann á meðan hann róaðist og svo skutluðum við hjónin honum heim að dyrum.  Á leiðinni sagði hann okkur undan og ofan af sinni sögu og ég reyndi að gefa honum öll góð ráð sem ég gat hugsað mér á leiðinni.

Þó ég hafi hugsað heilmikið um þetta þá ræddum við þetta svo sem ekkert mikið.  Þetta kom aðeins til tals í vinnunni, fleiri vinnufélagar voru á staðnum og fyrstu viðbrögð hjá mörgum voru að spyrja mig, hvað ef?  Hvað ef þeir hefðu verið með hnífa?  Hvað ef allir hefðu ráðist á þig?  Hvað ef...?  

Ég er svo glöð að vera ekki með svona mörg 'hvað ef...' í hausnum á mér.  Eina 'hvað ef-ið' sem skipti máli í þessu tilfelli var, hvað ef þetta væri barnið mitt?

Ég skrifaði einu sinni bloggfærslu um útlendingahatur.  Ég skrifaði hana í kjölfarið á umræðum í þjóðfélaginu og jú, jú, það voru ýmsir meira segja nálægt mér sem fengu mig til að hugsa og kryfja hvað mér fyndist í raun og veru um þessi mál.  Færslan var ekki hugsuð sem árás á einn, né neinn og henni var ekki beint að neinum persónulega.  Það hvarflaði reyndar ekki að mér að nokkur sem ég þekkti sæi sjálfan sig í þessari færslu (þ.e. í hlutverki útlendingahatarans), ekki í raun og veru og það kom mér algjörlega í opna skjöldu, þegar ég komst að því að svo væri.  Færslan átti bara að vekja fólk til umhugsunar um hvaða áhrif útlendingahatur getur haft.

Hvað ef ég hefði aldrei skrifað einhverja bloggfærslu?  Hvað ef ég segði ekki það sem mér fyndist?   Hvað ef ég myndi passa mig á að gera aldrei eitt né neitt nema vera alveg viss um hvaða afleiðingar það hefði?  Hvað ef...

En í allt aðra sálma.  Skelltum okkur í Víðavangshlaup Framfara á laugardaginn og höfðum mikið gaman af.  Rok og rigning á Seltjarnarnesi eyðilagði ekki stemmninguna og ég held að þetta hafi verið fjölmennasta hlaupið hingað til (alla vega í ár).  Við tókum þetta eins og síðast, hlupum styttra sem upphitun og létum svo vaða í lengra hlaupinu.  Fríða Rún sigraði, Arndís Ýr varð önnur og Íris Anna þriðja.  Ég var fjóða, 15 sek. á eftir Írisi og var bara ánægð með daginn og formið.

Í dag fórum við á langa æfingu, lengstu æfinguna mína í heilt ár held ég!  Hittum þjálfarann í Laugum og við þrjú lögðum upp í rólegu æfingu vikunnar (rólegt hvað...).  Gekk þokkalega að hanga í þeim fyrstu 8 km en var svo aðeins farin að síga aftur úr.  Þá var ég á 4:46 pace-i!!!  Hékk í þeim út á Nes, kvaddi þar með kurt og pí og fór sömu leið heim, ekki á sama hraða Wink.  Hlaup dagsins gerði 19,52 km og svei mér þá ef ég fann ekki langhlauparann í mér aftur, þetta var bara gaman.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vá hvað ég verð reið við að lesa svona! En gott hjá stelpunni og gott hjá þér! Vildi óska þess að fleiri myndu bregðast við þegar að þeir sjá svona.

Ragnhildur (IP-tala skráð) 2.11.2009 kl. 10:59

2 identicon

Flott viðbrögð hjá þér Eva! Ég hefði brugðist nákvæmlega eins við og hef meira að segja gert það. En ég skil vinnufélaga þína þó vel, Ísland er því miður ekki eins saklaust land og maður vill trúa.

En varðandi þessi orð þín: "Það hvarflaði reyndar ekki að mér að nokkur sem ég þekkti sæi sjálfan sig í þessari færslu (þ.e. í hlutverki útlendingahatarans), ekki í raun og veru og það kom mér algjörlega í opna skjöldu, þegar ég komst að því að svo væri."

Þá get alveg lofað þér að einstaklingarnir sáu sig ekki í hlutverki útlendingahatarans. En aftur á móti töldu þeir að þú sæir þá í þessu hlutverki.

Rakel Ing (IP-tala skráð) 2.11.2009 kl. 18:21

3 Smámynd: Eva Margrét Einarsdóttir

Takk fyrir þetta Rakel, mér fannst hrikalega leiðinlegt að heyra af því máli.  Það var svo sannarlega ekki þannig að ég væri að tala um einhvern sem ég þekkti eða ásaka einhvern ákveðinn um útlendingahatur.  Þetta voru og eru bara mínar pælingar um málið almennt í kjölfarið á fjörugum umræðum. 

En alveg eins og í því tilfelli ætla ég að biðja þig og aðra sem lesa bloggið mitt um að reyna ekki að lesa á milli línanna í textanum sem ég skrifa.  Ég er ekki að reyna að senda leynileg skilaboð til eins né neins.  Það sem ég er að vísa í hérna hefur ekkert með það að gera sem þú ert að tala um, heldur það sem raunverulega stendur í textanum, þ.e. einstakling sem sá sig í hlutverki útlendinahatarans og það kom mér á óvart, ekkert flóknara eða duldara en það.

Ég er reyndar mjög forvitin að vita hvað þér finnst um færsluna, bara svona almennt. 

Að lokum, þá máttu vita það að mér (og mínu fólki) þykir alveg svakalega vænt um þig og finnst mikið til þín koma.  Við værum stolt af að eiga stelpu (konu...) eins og þig, meira hrós geturðu ekki fengið.

Að lokum þá sakna ég þín á hlaupabrautinni!

Eva Margrét Einarsdóttir, 2.11.2009 kl. 20:10

4 identicon

Gott að ég hef lesið á milli línana. Það er allavega skárra en að ég hafi verið að lesa "rétt" . Skal passa mig á millilínulestri í framtíðinni.

Færslan "hvað ef..." finnst mér mjög góð því eins og ég sagði áðan hef ég sjálf verið í nákvæmlega sömu stöðu.

Hvað varðar útlendingahaturs færsluna þá er ég alveg viss um að þessi umræða sé þörf(því miður). Það er til fólk á Íslandi sem vill ekki sjá aðra en Íslendinga á Íslandi, alveg sama hvernig eða hverjir þessir aðrir eru. Það er útaf fyrir sig ekkert nema fáfræði. En svo eru aðrir(t.d. ég) sem setja þær kröfur á innflytjendur (og þá er ég ekki að tala um farandverkamenn) að þeir leggi sig fram við það að aðlagast samfélaginu m.a. með því að læra að bjarga sér á tungumálinu og auðvelda þannig samskipti. Eins hef ég sett sömu kröfur á sjálfa mig þegar ég hef búið erlendis (að sjálfsögðu). Ég geri mér þó grein fyrir því að íslenskan er gífurlega erfitt mál fyrir flestar þjóðir og eins koma margir hingað sem eiga kannski ekki annarra kosta völ (og því engan vegin samanburðarhæft við íslenskan námsmann sem flytur tímabundið til útlanda). En ég trúi því þó að ef innflytjandi nær þeim áfanga að geta skilið/gert sig skiljanlegan við innfædda á þeirra tungumáli þá græða báðir .

En svo er það líka þannig að hvort sem við erum að tala um innflytjendur eða ekki innflytjendur - það er "gott" og "slæmt" fólk í báðum hópum.

Þakka hrósið! Og ég verð að viðurkenna að ég sakna hlaupabrautarinnar líka en koma tímar koma ráð. Ætli ég verði ekki að  klára eitthvað af þessu námi mínu áður en ég kem að fullu inn í sportið aftur. Gangi þér vel með allt þitt - hlaupin, hjólið og þríþrautina að sjálfsögðu!

Rakel Ing (IP-tala skráð) 2.11.2009 kl. 21:19

5 identicon

Flott færsla og heiðarleg og falleg skoðanaskipti hjá ykkur hlaupasnillingunum.  Alveg til fyrirmyndar.

Sóla (IP-tala skráð) 2.11.2009 kl. 22:09

6 Smámynd: Eva Margrét Einarsdóttir

Gaman og fróðlegt að fá svona feedback.  

Ég er ekki í vafa um að það sé kostur fyrir innflytjendur að læra tungumálið.  Það sem mér fyndist erfitt, er að meta er hvenær farandverkamaður verður innflytjandi?  Þ.e. hvar á að setja línuna og er það yfirleitt hægt, um hvernær gera eigi kröfu um að viðkomandi geti talað tungumálið.  Eftir eitt ár, tvö, þrjú?  Og þá, hvað um þá sem eru vonlausir í tungumálum, hvað á að gera við þá?  Senda þá til baka...?, sekta þá...?  Hvernig ætti að fylgjast með að þessi krafa sé uppfyllt, með prófi?  O.s.frv., er ekki analysti fyrir ekki neitt.  En pælingar á þessum nótum eru bara af hinu góða.   

Gangi þér allt í haginn og vonandi verð ég ennþá á fleygiferð einhvers staðar þegar þú kemur með þitt 'come back'. 

Eva Margrét Einarsdóttir, 2.11.2009 kl. 22:21

7 identicon

Alveg sammála þér með það að línan á milli farandverkamanns og innflytjanda er ansi grá og örugglega ekki alltaf skýr í huga einstaklingsins sjálfs. Og ég treysti mér heldur ekki til þess að greina þar á milli.

Spurningarnar þínar eru mjög góðar og eiga fyllilega rétt á sér. Ég hef reyndar átt svipaða umræðu áður(við mág minn sem bjó þá í DK). Þá fannst mér hans hugmyndir alveg út í hött en eftir að hafa búið erlendis sjálf sá ég að það var nokkuð til í því sem hann sagði. Sjálf er ég raungreina manneskja og alveg vonlaus í tungumálum en ég trúi því að með tíð og tíma(2-5 ár) geti flestir lært að bjarga sér að einhverju leyti á hvaða tungumáli sem er og jafnvel væri þá hægt að fylgjast með þróun í tungumálakunnáttu hvers einstaklings með prófi/viðtali með reglulegu millibili. Það gæti hvatt fólk til þess að setja sér markmið sem unnið væri að í samvinnu við einhverja námsstofnun (t.d. námsflokkana). En það að sekta - senda til baka myndi aldrei ganga upp(að ég held). Mannréttinda- og siðferðissjónarmið myndu fella það undir eins.

Þetta eru bara skyndihugmyndir og kannski illframkvæmanlegar en ég er líka frekar bjartsýn .

Rakel Ing (IP-tala skráð) 2.11.2009 kl. 23:31

8 identicon

Ég er útlendingur en er ágætlega búin að aðlagast eftir mínu mati og aðra. Þegar ég sótti um ótimabundið dvalarleyfi þurfti ég að sýna fram á tungumálakunnáttu með að taka próf skrifleg og munnleg (sem var nú samt virkilega einfalt) plús að sýna fram á að ég er í vinnu (eða á fjármagn), borgar skatta, fæ ekki penningar frá ríkinu. En nú þarf ekki lengur að sækja um eða amk. fyrir landa nær. En að sjálfsögðu þarf að aðlagast. Ég er ekki hér til að stofna þýsk ríki.

Corinna (IP-tala skráð) 3.11.2009 kl. 09:38

9 identicon

Frábær viðbrögð og þetta með hvað ef...

Einu sinni var ég rænd í París, gangandi niður tröppur á leið í Metró þegar strákur, ca. 12 ára,  fór í töskuna mína og hirti seðlaveskið mitt. Ég stökk á eftir honum þegar ég áttaði mig á því hvað gerst hefði, alveg án þess að hugleiða hvað ef.... hann væri með hníf, hvað ef... þeir væru fleiri saman... hvað ef... Ég náði kauða, skellti honum upp að vegg og skipaði honum að skila veskinu. Hann gerði það en var þá búinn að taka úr því peningana og ég sá það strax svo ég skipaði honum að skila seðlunum. Drengræfillinn skalf og nötraði af ótta við þessa brjáluðu litlu konu sem hljóp hann uppi án þess að blása úr nös, meðan eiginmaðurinn var enn ekki búinn að átta sig á málsatvikum og tölti í rólegheitum á eftir, haldandi að við værum kannski bara að missa af lestinni. Ég hefði þarna tapað bæði kortum og peningum ef ég hefði hugsað hvað ef...  Og skelfing hefði nú Parísardvölin orðið snautsleg þá, því þetta var bara á öðrum degi. Adrenalínsjokkið kom svo þegar frúin var sest inn í lestina og farin að slaka á eftir allt saman; þá skalf hún eins og hrísla lengi á eftir.

En það er ósköp léttvægt miðað við það sem var í húfi í því tilviki sem Eva lýsir hér að ofan, slíkt framferði á aldrei rétt á sér, hvort sem það tengist litarhætti eða ekki.

Nanna Gunnarsdóttir (IP-tala skráð) 3.11.2009 kl. 10:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Eva Margrét Einarsdóttir
Eva Margrét Einarsdóttir

Ætlar að hlaupa styttra og hraðar...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband