Leita í fréttum mbl.is

Jólastemmning

Enn ein góð helgin í safnið.  Byrjuðum laugardaginn á þrusu æfingu með ÍR-ingum, tók 21,6 km á 5:00 pace í frábæru veðri.  Toppurinn að fá góðan félagsskap til að halda sér við efnið.  Eftir hlaup fórum við í Langholtsskóla þar sem haldin var laufabrauðsdagur og Þórólfur tók eina vakt í að steikja og stóð sig með miklum sóma.  Ég fór svo á randið með mömmu í jólagjafastúss á Laugaveginn og í Kringluna.  Við vorum snarar í snúningum því við áttum miða á Jólasögu í Loftkastalanum klukkan fimm.

Við vorum voða spennt að fara í leikhúsið.  Gabríel var boðið í afmæli á sama tíma og ákvað að láta það ganga fyrir svo við buðum Mirru frænku með, en hún er fimm ára.  Stelpurnar voru að springa úr spenningi að sjá jólaleikrit.  Jaháhhh, það var nefnilega það.  Við erum ennþá aum í ras.... eftir þessa aftanítöku!  Tíuþúsundkall fyrir að sjá Ladda í sínum eigin fötum standa fyrir framan hvítt lak með tvo pappakassa á sviðinu og þylja upp texta...  Stelpurnar (og við) vorum alltaf að bíða eftir að sýningin myndi byrja, þangað til að við áttuðum okkur á því (ásamt hinum í salnum) að þetta var allt og sumt!  Ég hef ALDREI áður farið út af sýningu í miðjum klíðum áður en í þetta sinn var ég þeirri stundu fegnust að komast út með börnin og við breyttum leikhúsferðinni í snarhasti í ísbíltúr.  Mirra greyið sagði 'veistu það Eva, þeir hafa örugglega fært jólsýninguna, þetta var bara gamall kall að tala...'.  N.b. þessi sýning er auglýst sem metnaðarfull uppfærsla... fyrir alla aldurshópa...   VARÚÐ!  Mesta prump sem ég hef upplifað og aldrei séð eins mikið eftir aurnum.

Í dag fórum við í almennilega jólastemmningu í bæinn og horfðum á þegar kveikt var á Óslóartrénu.  Lilja var alsæl með jólasveinana og allt fólkið.  Kostaði ekkert Wink.

IMG_1896

Ég bjó til lítinn snjókarl fyrir Lilju meðan við biðum eftir jólasveinunum.

Með pabba sínum

Búið að kveikja á jólatrénu.

Og með mömmu gömlu

Jólasveinarnir rosa fyndnir.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hvernig er það, tekur það langan tíma að byggja upp svona svakalegt þol að geta hlaupið í 5 klst?

Ég þarf nauðsynlega að koma mér í form eftir nokkurra ára leti en á mjög erfitt með að koma mér af stað.  Ég var í ágætis formi hérna áður fyrr og er að vona að það sé fljótt að skila sér aftur...

Ég fór reyndar á frumsýninguna á jólasýningunni með Ladda.  Og hljóp ekki út eins og þú heh (og það var ekki bara útaf leti) :D

Mér fannst þetta flott sýning.  Fór með 4 ára dóttur minni sem hló heilmikið og var alveg til í að sitja og horfa, þó hún væri orðin smá óróleg í lokin, en yfirleitt tekst mér ekki að hafa hana sitjandi nema í nokkrar mínútur í einu (mjög erfitt við matarborðið).

Ég fer að vísu voðalega sjaldan í leikhús, en mér fannst þetta flott (reyndar er seinni hlutinn jólalegri en sá fyrri), sérstaklega hljóðið, en ég held allavega að það sé ekki oft svona mikið af allskonar hljóðum (eins og þegar draugarnir komu á svæðið)... en reyndar fer ég voða sjaldan í leikhús.

Hins vegar missti ég af því þegar kveikt var á Óslóartrénu, lét mér nægja að keyra framhjá í gærkvöldi (kannski letin aftur :)

Andri (IP-tala skráð) 30.11.2009 kl. 10:28

2 Smámynd: Eva Margrét Einarsdóttir

Thí, hí, jú, það tekur dágóðan tíma að byggja upp þol til að hlaupa í 5 klukkutíma í einu en ég var nú reyndar bara 1:48:32 í þetta sinn eða 5 mínútur með hvern kílómeter.  Ég hef nú samt nokkrum sinnum á ævinni hlaupið í meira en 5 klukkustundir og var þá vel undirbúin .

Varðandi sýninguna þá get ég núna, sólarhring eftir vonbrigðin, alveg verið glöð yfir því að einhver geti haft gaman af þessari sýningu, það er bara af hinu góða.  Það, eins og annað sýnir hvað við getum verið ólík og haft mismunandi væntingar og þannig upplifað sama hlutinn á gerólíkan hátt.  Og það er bara hið besta mál! 

Eva Margrét Einarsdóttir, 30.11.2009 kl. 21:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Eva Margrét Einarsdóttir
Eva Margrét Einarsdóttir

Ætlar að hlaupa styttra og hraðar...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband