Leita í fréttum mbl.is

Mæðra og dætrakvöld

Fyrir 12 árum síðan hóaði gömul nágrannakona úr Norðurbrúninni, í okkur mömmu og bauð til veislu þar sem saman komu allar mæðurnar og dæturnar úr hverfinu sem ég ólst upp í.  Felstar fjölskyldurnar í hverfinu byggðu þarna rétt áður en ég fæddist og flestar fjölskyldurnar voru barnmargar, 5 krakkar voru normið.  Mamma og pabbi eru þau einu sem eftir eru af upprunalegu íbúunum í götunni.  Við krakkarnir vorum öll heimagangar hjá hvort öðru og ég þekki sumar mömmurnar betur en marga náskylda ættingja mína.  Í fyrsta boðinu var ég með bumbuna út í loftið, gekk með hann Gabríel minn.  Við höfum síðan hist reglulega, stefnum á einu sinni á ári heima hjá einhverri mömmunni eða dótturinni.

Í gær var einmitt komið að því að hittast aftur, reyndar eftir óvenju langan tíma en í síðasa boði var ég líka með bumbuna út í loftið fyrir 3 árum eða svo.  Við komum með góðgæti með okkur og spjölluðum langt fram eftir kvöldi, rifjuðum upp skemmtilegar sögur og skiptumst á fréttum. 

Í þessum hóp var mikið hlegið og lítið kvartað.  Frábært kvöld og við erum búnar að plana næsta boð í mars.

 


Brekkur à la Þorlákur

Var óvenjulega þreytt eftir annasama helgi sem innihélt lengri hlaupaæfingar en venjulega og voða mikið stúss á heimilinu.  Gengum frá sumarblómunum, hér voru teknar upp kartöflur, græjuðum hjólið hans Gabríels og ýmislegt smálegt annað sem tók einhvern veginn miklu meiri tíma en maður ætlaði. 

Mætti með hálfum huga á æfingu en sem betur fer erum við með þjálfara sem fær allt einhvern veginn til að hljóma viðráðanlegt.  Jafnvel brekkusprettir á brekkuspretti ofan í Elliðaárdalnum og þrek á eftir...  Reyndi að búta æfinguna niður í huganum og plan b var að læðast í burtu á milli spretta, þykjast þurfa að leysa barnapíuna af.  En það var svo skrýtið að þetta var erfiðast áður en við tókum fyrsta sprettinn, um leið og við byrjuðum þá var þetta bara, já svei mér þá, gaman??? 

Þrisvar sinnum upp skíðabrekkuna, einu sinni upp Rafstöðvarbrekkuna, einn lítill hringur á malarstígnum handan við Elliðaárnar og að lokum einn stór hringur.  3 * (10 armbeygjur og 20 magaæfingar) í desert, ljúffengt! 

Æfingin var rétt tæpir 15 km samtals og ekki gleyma upphitun og niðurskokki á 4:50 pace.  Við skildum við hópinn 2 km að heiman og um leið og við vorum komin í hvarf þá sunkaðist hraðinn niður í þægilegt 5:15 pace, mmmm...

Núna:  Södd og sæl með rauðvínstár í glasi og prjónarnir bíða Joyful.


Langt og mjótt

Í dag fórum við hjónin í lengsta hlaupatúrinn okkar í margar vikur.  Ég hef reyndar ekki hlaupið svona langt síðan í hálfa járnkarlinum, hef látið 12 - 14 km duga.  Lögðum af stað í blíðunni í morgun og hlupum niður í bæ, tókum 10 km RM hringinn og heim aftur, en þetta gerðu 18,74 km.  Svona hlaup heitir 'Langt og mjótt' hlaup heima hjá mér, maður verður svo svakalega slank á eftir.  Við stefnum á að vera með í paraþoninu í lok október þannig að ekki veitir af því að lengja aðeins.  Það er skemmst frá því að segja að við vorum við eins og aumingjar síðustu km, alveg búin á því og rétt skriðum heim í brunch, gátum ekki beðið eftir að henda okkur í bólið á meðan Lilja lagði sig... Shocking.

Á fimmtudagskvöldið var date-night hjá okkur Þórólfi, þ.e. við vorum með barapíu og gátum skotist út.  Það var skipulagsdagur í skólunum hjá krökkunum á föstudaginn og frí, við ákváðum þess vegna að breyta aðeins til í þetta skiptið.  Þórólfur bauð Gabríel í bíó á strákamynd, sem þýddi að ég átti fríkvöld og mátti ákveða alveg sjálf hvað ég gerði!!!    Ég var heillengi að ákveða mig, hver veit hvernær næsta tækifæri kemur... og á endanum fann ég út hvað það var sem mig langaði mest til að gera. 

Það var að heimsækja eina af mínum bestu vinkonum, sem ég var að vinna með í mörg ár og eyddi meiri tíma með, en manninum mínum og börnum á tímabili.  Svo skipti ég um vinnu og einhvern veginn þá ætlum við alltaf að hittast í kaffi eða eitthvað og ekkert gerist.  Ég boðaði komu mína í kvöldkaffi og við vorum báðar eins og smástelpur að deyja úr spenningi að hittast.  Hún var meira að segja búin að kveikja á kertaljósum, taka fram súkkulaði ostaköku og fullt fat af niðurskornum ávöxtum, mmmmm...   Svo sátum við með prjónana okkar og möluðum látlaust í tvo tíma, þangað til að ég þurfti að sækja strákana mína.  Erum búnar að plana matarboð hjá mér í byrjun nóvember til að halda áfram þar sem frá var horfið.

Var að klára að prjóna trefil sem ég fékk uppskrift af hjá prjónandi hlaupakonum í ÍR.  Gabríel tók að sér að vera módel Joyful:

2009 10 Trefill

Uppskrift:

Fitja upp 150 lykkjur á t.d hringprjóna nr.4.5 
Prjóna fram og til baka 4X , þá auka út um 150 lykkjur
Prjóna svo aftur fram og til baka 4X, þá auka aftur um 150 lykkjur
Endurtekið þangað til að eru 1200 lykkjur sem gera 7X
Fellt síðan af og lagt fallega að hálsi og borið með þokka :)
Í þetta má nota hvaða fína garn sem er t.d. einband og færeyska ull sem fæst á Ísafirði. Hægt að hringja í búðina sem heitir Heitt á prjónunum. :)
Ég sjálf notaði Dale Baby ullargarn því mér finnst ekki gott að hafa eitthvað sem klæjar of mikið um hálsinn Wink.

Kvöldskokk með einkasyninum

Var með hroll allan daginn í gær, var komin í 3 peysur í vinnunni og ekki dugði það til.  Ákvað þess vegna að sleppa sundinu í hádeginu (ekki að sjá það fyrir mér að vera á bikiní...Shocking ) og þegar ég kom heim úr vinnunni langaði mig meira undir teppi en á sprettæfingu (þá hlýtur eitthvað að vera að...).  Kúrði mig upp í sófa í smá stund með börnunum mínum og náði loksins hita í kroppinn. 

Við kíktum svo á hana Sólu sætu, fengum lánaðan flottan útigalla fyrir Lilju, fullt af fötum og skóm.  Lilja var sérstaklega ánægð með strigaskó með blikkandi hjartaljósum, alla, malla þvílíkt flott!

Ég var svo endurnærð og hress eftir heimsóknina að mig langaði bara að skjótast út að skokka.  Fékk Gabríel með mér og við mæðginin hlupum rétt rúmlega 7 km í myrkrinu og ræddum heima og geima.  Guttinn var meira segja í svo góðu stuði á skokkinu að hann sagði mér frá því hvaða stelpu hann væri skotin í!  Gaman Joyful.

Hlaup.com niðri þá er best að skrá æfingarnar hér:

  • 30.09.09   7,03 km    - 42:20   Kvöldskokk með Gabríel
  • 01.10.09        8 km    - 22:16   Hjólað í vinnuna
  • 01.10.09     7,8 km  - Upphitun 1,35km/5 km á 23:59/Niðurskokk 1,45km.  Sub æfing hjá Margréti.

 

 


Réttlætið sigrar að lokum

Í dag fékk ég þær fréttir að úrslitum í Akureyrarmaraþoni hafi verið snúið.  Sigurvegari í maraþoni kvenna á Landsmóti á Akureyri þann 11. júlí 2009 var Sigríður Einarsdóttir.  Hún fékk bikarinn afhentan á sunnudaginn.  

Í dag finnst mér allt vera þess virði.

Í dag er ég þakklát fyrir allt sem ég hef lært síðustu mánuði.

Í dag er ég sérstaklega stolt af fólkinu mínu, sem stendur með mér þegar á móti blæs. 

Í dag er ég sterk, glöð og bjartsýn.


Sprettir, meiri sprettir og þrek

Hreyfði mig fyrir allan peninginn í gær.  Hjólaði í og úr vinnu en það eru rétt tæpir 15 km samtals.  Í hádeginu þá var sprettæfing hjá vinkonu minni sem er á sub 50 prógramminu.  Það og brjálæðislega gott veður gerðu það að verkum að ég stóðst ekki freistinguna, varð að komast út og viðra mig, gat þá í leiðinni aðstoðað við sprettina.  8 km lágu í valnum, þar af 5 á 4:40 pace. 

Sprettæfing hjá ÍR beint eftir vinnu, 5 km upphitun, 6 * 600 m sprettir á grasinu í Laugardalnum (enduðu upp brekku...) með tæplega mínútu labbi á milli.  ERFITT.  Hrikalega gaman að æfa með svona góðum stelpum, það er ekkert gefið eftir og maður þarf að hafa sig allan við að halda í við þær!  Eftir sprettina var farið í þrekhring 3 * (10 froskahopp/10 bangsahopp/20 magaæfingar/10 armbeygjur), sprett á milli stöðva.  Eftir þetta lufsuðumst við hjónin smá hring í Laugardalnum áður en við kvöddum hópinn og komum okkur heim.  Dagurinn gerði þá tæplega 15 km hjól og rúmlega 20 km hlaup. 

Ég var búin að taka út fisk í matinn og það var ekkert verið að krúttast við að elda, henti bara fisknum í pott, hann sauð á meðan ég fór í sturtu og svo var gúffað eins og villimaður.  Þegar fór að róast hjá okkur og litla skottið komin í rúmið bakaði ég tvö (lífsnauðsynleg) All Bran brauð því ég sé fram á að með áframhaldi á þessu æfingaálagi þá þarf ég að bæta aðeins við næringuna.

Dásamlegt að kúra í sófanum eftir langan dag, með Gabríel á lærinu, prjónana í höndunum og rauðvínstár innan seilingar...  Þórólfur var að mála annars hefði hann verið hjá okkur Smile.


Hjartadagshlaupið 2009

Þetta var dagurinn hans Gabríels.  Loksins, loksins fékk hann að halda upp á afmælið sitt (frá því í júlí) og hér var búið að bjóða hátt í 20 krökkum í partý seinnipartinn. 

En fyrst var það Hjartadagshlaupið og í tilefni dagsins ákvað ég að hlaupa með stráknum mínum, honum veitti ekkert af stuðningi í rokinu í dag.  Hann stóð sig þræl vel, hljóp á 24:03 og var 9 karl í mark og skilaði mömmu sinni 3. sætinu, en það voru 169 sem hlupu!!!  Flestir voru langt frá sínu besta í erfiðri braut og miklu roki, þannig að hann getur verið virkilega ánægður með tímann sinn.  Pabbi hans gerð sér lítið fyrir og vann 5 km hlaupið á 19:11 og komst í fréttirnar fyrir vikið!   Hlaupafélagar okkar í ÍR tóku reyndar öll verðlaunin í dag, Ásdís var fyrst kvenna í 5 km og Birkir og Fríða Rún unnu 10 km hlaupið.  Áfram ÍR LoL

Eftir brunch hjá ömmu og afa í Garðabær var haldið á uppskeruhátíð yngri flokka Þróttar í fótbolta á Broadway.  Við skiptum þess vegna liði, ég fór í að undirbúa afmæli meðan Lilja svaf og Þórólfur fór með guttann á hátíðina. 

Klukkan fjögur hófst svo fjörið hérna hjá okkur.  Fyrst var chillað svolítið, hlustað á tónlist og hinkrað þangað til allir voru kominir.  Upphífingar græjan okkar sló heldur betur í gegn hjá krökkunum, stelpurnar voru bara ekkert að gefa strákunum mikið eftir og sumir komu þvílíkt á óvart.  Svo var það bíó og á meðan fór ég að sækja pizzur í liðið og ná mér í Sing Star græjur.  Eftir bíó og pizzur var svo barist hatrammlega í ABBA og Queen Singstar og ég fékk að vera með, jeiii...  Flottir krakkar og ég skemmti mér ótrúlega vel (án þess að gera út af við frumburðinn) og partýið endaði á því að Gabríel skoraði á mömmu gömlu í Bohemian Rhapsody Grin

Krakkarnir í SingStar
Lilja tók svo lagið fyrir bróður sinn þegar henni var hleypt heim aftur :)

Góður díll ;)

Eitt af því sem við fengum í verðlaun í Reykjanesmaraþoni var Adidas hlaupabolur að eigin vali.  Við áttum erindi í Kringluna í gær og kíktum á úrvalið.  Við gátum valið um hlýrabol, stuttermabol, þunnan síðerma eða þykkan síðerma.  Af þessum þá voru þykku síðerma lang dýrastir en sennilega það sem okkur síst vantaði.  Þá hrökk hagsýna húsmóðirin í gírinn.  Ég spurði verslunarstjórann hvort að ég mætti, fræðilega, taka tvo dýrustu bolina, skila þeim svo og fá ódýrari í staðinn og nota mismuninn til að kaupa eitthvað á krakkana...  Hún horfði á mig í smá stund og 'Þetta er nú það besta sem ég hef heyrt í langan tíma.  Að sjálfsögðu máttu það, ég á hérna flottan galla á litlu skvísuna.'   Við enduðum með að fá sitt hvorn síðerma þunnan hlaupabol, hrikalega sætan jogginggalla á Lilju og Liverpool stuttbuxur á Gabríel í stíl við bolinn hans!

Gabríel í Liverpool gallanum
Gabríel pósar fyrir framan afrakstur keppna sumarsins :)

Unglingurinn okkar

Við Gabríel skelltum okkur í Kringluna eftir kvöldmat í gær.  Erindið var að græja krakkana upp fyrir veturinn.  Við erum reyndar heppin með að fá mikið af fötum gefins á litla skottið en það þarf alltaf að kaupa eitt og annað eins og boli, nærföt og sokkabuxur.   Við vorum ekki lengi að afgreiða dömuna í Name it og meðan við vorum að bíða eftir afgreiðslu þá datt mér í hug að spyrja hvort það væru til einhver föt nógu stór á herramanninn.  Það var eitthvað pínulíðið til og konan kom til baka með gallabuxur sem Gabríel leist vel á.  Kom í ljós að þær smellpössuðu og voru alveg eins og hann hafði dreymt um.  Ekki skemmdi verðið fyrir en þær kostuðu heilar 2.990,- !  

Gabríel fékk pening í afmælisgjöf sem hann mátti eyða í það sem hann vildi og maður fékk smá 'reality check' þegar hann sagði hvað hann vildi kaupa sér.  Litli strákurinn minn vildi fara í Zöru og kaupa sér 'GEÐVEIKT' flotta skó!  Skórnir voru ekki til í hans númeri í Kringlunni en afgreiðslukonan athugaði fyrir okkur í Smáralind og þeir voru til í réttri stærð þar.  Við brunuðum upp eftir og náðum rétt fyrir lokun. 

Í morgun brosti minn maður svo hringinn þegar hann var búinn að kría út leyfi til að fara í skólann í nýju gallabuxunum og skónum.  Hann þurfti reyndar í staðinn að sitja undir ræðu frá foreldrunum um að hann mætti þá ekki fara í fótbolta, klifra yfir girðingar, renna sér niður brekkur á rassinum, draga tærnar á eftir sér á hjólinu eða bara eiginlega að gera nokkurn skapaðan hlut sem 11 ára strákum finnst gaman Tounge.


Sammála :)

Mér finnst svo gaman þegar einhver segir það sem ég hugsa og setur það fram skýrt og skilmerkilega.  Við þennan lestur rifjaðist upp fyrir mér gömul og hundfúl færsla Tounge.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Eva Margrét Einarsdóttir
Eva Margrét Einarsdóttir

Ætlar að hlaupa styttra og hraðar...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband