Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Selfoss

Ég er alveg viss um að heimurinn sé húmoristi. 

Fyrir u.þ.b. tveimur mánuðum var ég beðin um að halda fyrirlestur hjá Rótarý klúbbnum á Selfossi.  Þetta byrjaði með því að einhver sem var staddur á fyrirlestrinum mínum á vegum RM, var eitthvað að tala um hann á kaffistofunni í vinnunni hjá sér og þar var einhver staddur sem tilheyrði Rótarý klúbb Grafarvogs.  Ég fékk símtal í kjölfarið og var spurð hvort ég væri til í að koma og halda smá fyrirlestur fyrir þau.  'Um hvað?'  Á RM var ég með fókusinn á hlaupin en þetta er bara alls konar fólk.  'Bara eitthvað jákvætt, svona til að peppa upp mannskapinn áður en við höldum inn í haustið'.  Ég sló til og einn af gestunum þar var frá Selfossi og vildi endilega fá mig þangað í kjölfarið, bara eitthvað á svipuðum nótum.

Þannig að ég er sem sagt að fara núna á eftir, á Selfoss að hitta fólk sem ég hef aldrei hitt áður, borða með þeim og halda svo fyrirlestur á jákvæðu nótunum.  Spennandi!

Annars hitti ég eina hérna á göngunum fyrir helgi og brosti eins og venjulega, 'Hva brosir þú bara...'.  Það er alveg á hreinu að þegar ég á ekki fyrir brosi, þá er komin kreppa!

 


Geðhlaupið 2008

2008.10.11. Geðhlaup Geðhjálpar   2008 023

Hann var svo sætur, hann Sveinn Magnússon, einn af aðstandendum Geðhlaupsins að senda okkur myndir frá laugardeginum.  Ég þorði ekki annað en að biðja hann um að hafa frekar hraðar hendur að senda mér myndirnar á vinnu netfangið...  Tounge


19.960 kr. á tímann

Ef einhvern tíma hefur verið ástæða fyrir bankamann að taka þátt í Geðhlaupinu þá var það núna.  Ótrúlega fallegur dagur og við hjónin bara í besta skapinu okkar.  Félagarnir voru mættir, engin kreppa í hlaupunum, bara eintóm gleði.

Sigurvegari Geðhlaupsins 2008 er enginn annar en minn ástkæri eiginmaður, sem mætti ákveðinn til leiks og setti persónulegt met, hljóp á 38:12!  Ótrúlega stolt af mínum manni sem brosir hringinn hérna við hliðina á mér.  Í verðlaun fékk hann forláta bók, Jörðin í öllu sínu veldi, sem er í öllu sínu veldi töluvert stærri en prinsessan (sú yngri...) á heimilinu.

Gamla konan var líka nokkuð seig og dró björg í bú.  Hljóp á 42:17 og var önnur á eftir henni Veroniku.  Ég fékk Stóru myndaorðabókina í verðlaun en þar sem ég fékk hana í fyrra líka (þá var ég fyrst sko...Wink) þá fór ég og skipti henni í Kringlunni í dag.  Nú á ég inneignarnótu upp á 14.760 krónur sem er náttúrulega algjör snilld, svona þegar líða fer að jólum. 

Mér reiknast til að ég hafi þar með verið með rétt tæpar tuttugu þúsund krónur á tímann þegar ég er búin að draga keppnisgjöldin frá.  Við fengum líka sinn blómavöndin hvort (bónusgreiðsla) svo hér ilmar allt eins og í aldingarðinum í denn.  Lífið er gott!

 


Heimspeki Charles Schultz

Charles Schultz er höfundur teiknimynda syrpunnar Peanuts. Þú þarft ekki að svara spurningunum.  Lestu verkefnið og þér mun verða þetta ljóst:

 

1. Nefndu fimm auðugustu einstaklingana í heiminum.

2. Nefndu fimm síðustu sigurvegara í fegurðarsamkeppni Evrópu.

3. Nefndu tíu einstaklinga, sem hafa unnið Nobels verðlaunin.

4. Nefndu sex leikara og leikkonur, sem unnu Óskars verðlaunin á síðasta ári.

 

Hvernig gekk þér?

 

Niðurstaðan er, að enginn okkar man fyrirsagnir gærdagsins. Þetta eru ekki annars flokks afreksmenn. Þeir eru þeir bestu á sínu sviði.  En klappið deyr út.  Verðlaunin missa ljómann. Afrekin eru gleymd.  Viðurkenningarnar og skírteinin eru grafin með eigendum sínum.

 

Hér eru nokkrar aðrar spurningar. Sjáðu hvernig þér gengur með þær:

 

1. Skrifaðu nöfnin á fimm kennurum sem hjálpuðu þér á þinni skólagöngu.

2. Nefndu þrjá vini, sem hafa hjálpað þér á erfiðum stundum.

3. Nefndu fimm einstaklinga, sem hafa kennt þér eitthvað mikilvægt.

4. Hugsaðu um fimm einstaklinga, sem kunnu að meta þig að verðleikum.

5. Hugsaðu um fimm einstaklinga, sem þér þykir gott að umgangast.

 

Auðveldara?

 

Lexían: Fólkið sem skiptir þig mestu máli í lífinu eru ekki þeir, sem hafa bestu meðmælabréfin, mestu peningana eða flestu verðlaunin.  Heldur þeir, sem finnst þú skipta mestu máli.

 

Hafðu ekki áhyggjur af því, að heimurinn sé að farast í dag. Það er nú þegar morgun í Ástralíu. (Charles Schultz)


Efst í huga...

er að sjálfsögðu að halda áfram með hannyrðahornið!  Ég kláraði lopapeysuna hans Þórólfs um daginn og fékk hann til að pósa fyrir mig:

DSC00344

'Mamma, ég er meira spenntur núna en á jólunum!!!'   Loks fékk hann sonur okkar afmælisgjöfina sína síðan í júlí.  Það var reyndar ekki við okkur að sakast, því það var bara eitt sem kom til greina, síðerma Liverpool treyja.  Eftir margra mánaða bið eftir að hún kæmi til sölu í Jóa Útherja, gáfumst við upp og pöntuðum hana á netinu.  Við pöntuðum í leiðinni eina fyrir Bjarka vin hans, sem á afmæli bráðum (m+p gefa honum!).  Þá var líka hægt að velja leikmann og fá sérstakar merkingar á hana.  Viktor, félagi minn úr vinnunni var svo sætur að taka hana með sér frá London og koma henni til okkar. 

Nóttina fyrir afhendingu gistu þeir félagar saman hérna hjá okkur og þeir vöknuðu fyrir allar aldir, 'Hvenær kemur hann, hvenær kemur hann...'.  Þegar loks var von á Viktori upp úr hádegi stóðu þeir úti í skítakulda og biðu.  Í hvert skipti sem bíll nálgaðist eða hægði á sér í götunni, þá hljóp annar hvor þeirra inn og spurði; 'Er hann með gleraugu?' , 'Er hann dökkærður?´'...

Loksins, loksins kom Viktor og glaðari stráka er ekki hægt að finna!

DSC00340

 


Innipúki

Ohhh hvað mér leið eins og innipúka í dag, mmmm...   Fór reyndar skylduæfinguna mína, 10 km í bleytu og hálku í morgun og hlustaði á Bloodgroup (iPodinn minn gleymdist í vinnunni) sem var bara ágæt tilbreyting.  En ég var voða glöð að komast heim til mín í notalegheit.

Þórólfur og Lilja fóru í sunnudagaskólann og Gabríel var úti að leika þegar ég kom heim, svo ég hafði alveg klukkutíma til að lesa blöðin og fá mér gott kaffi.  Lilja sofnaði svo eins og klessa um leið og hún kom heim og við hjónin slökktum á öllum truflitækjum og sváfum líka eins og sveskjur í tvo tíma!

Henti svo í nokkur brauð (sjá sparnaðarráð Aðalritarans) og svo lufsuðumst við bara í kringum hvort annað hérna heima, fjölskyldan.  Lilja lús var eitthvað lítil í sér og vildi ekki borða neitt af ráði í kvöldmat, kom í ljós að hún var komin með hita.

Annars var þetta frábær helgi sem hófst á morgunhlaupi með Laugaskokkurum í blíðskaparveðri.  Átti góðar viðræður við annan háttsettan bankamann á hlaupunum og er ekki frá því að við höfum leyst fjármálakreppuna eins og hún leggur sig.  Um kvöldið fórum við á Riff kvikmyndahátíðina með Öggu/Andra og Sólu/Hirti, skelltum okkur á ungverska spennumynd, The Investigator.  Góð mynd og nokkur atriði sem maður á ekki eftir að gleyma í bráð. 

Fyrir utan frábæra mynd átti ég stórleik í stóra kreppuleiknum.  Við fengum gefins átta miða á hátíðina og komum bara út sex af miðunum.  Bauð tvo miða til sölu í andyrinu á Regnboganum meðan við vorum að bíða eftir félögunum.  Fyrst kom til mín ungur maður sem leit út eins og hann ætti ekki mikla peninga og hann fékk miðann á 500 kr.  Næst kom eldri konan, vel skreytt af glingri og ég sagði henni að hún mætti velja hvort hún borgaði 500 eða 1000.  Hún vildi heldur borga mér þúsund kall því eini fimmhundruð kallinn í veskinu hennar hafði sérstaka þýðingu fyrir hana og hún vildi ekki láta hann.  Held að hún hafi fundið hann á ögurstund einhverntíma.  Alla vega var litli rithöfundurinn sem blundar í mér komin á fleygiferð áður en ég vissi af og ég er ekki frá því að næsta saga verði um eldri vel skreytta konu sem á sér merkilega sögu... 

Bíó fyrir sex, popp, kók og nammi og við komum heim með afgang, toppiði það Grin.


Ertu ekki að grínast!

Rauðvínslottó í vinnunni í dag.  Þarf ég að segja meira...  Þið getið skoðað þessa færslu til að vita nokkurn veginn hvernig þetta fór fram í dag, eini munurinn er að ég þorði ekki að draga sjálf og bað Nönnu um að draga fyrir mig.  Eins gott að ég kom með góða köku... Shocking.


Ja, vi rike...

Stórfurðuleg upplifun að vera í miðjum ólgusjónum eða þannig.  Það fer ansi mikill tími í fundi á ganginum og almennt spjall um atburði liðinna daga og spár um framhaldið.

Ég persónulega hlaut engan skaða til að tala um, hafði fengið örfáa hluti í Glitni í bónus og í staðinn fyrir að eiga fyrir leikhúsferð og út að borða, þá á ég fyrir bíóferð og poppi, losi ég mig við bréfin núna.  Alltaf gaman í bíó og svo eigum við ennþá leikhúsmiða sem við fengum í jólagjöf Grin.

En það er óneitanlega erfitt að horfa uppá samstarfsfólk sem er búið að vinna allan sinn starfsaldur í bankanum, hefur aldrei verið nálægt því að vera á ofurlaunum, eiga stutt í eftirlaun og varasjóðurinn sem það hélt það ætti er horfinn út í buskann. 

Hugsa til hennar ömmu minnar, mor-mor, sem samkvæmt skilgreiningum nútímans hefði verið flokkuð langt undir fátæktarmörkum.  Hún var trúboði í Afríku, missti tvö ung börn þar, missti manninn sinn þegar mamma mín var 9 ára, var ein með 4 börn og einhverjar smotterís lífeyrisgreiðslur o.s.frv.   Ég veit ekki hversu oft ég heyrði hana segja, skælbrosandi: 'Ja, vi rike har det godt!'.

Mor mor  Madagaskar

Mor-mor eins og ég man eftir henni.  Mamma fremst í flokki á Madagaskar með systkinum sínum, Björn, Evu og Knut.  Dúkkurnar fremst standa í staðinn fyrir litlu systurnar tvær sem þau misstu, Liv og Ingrid.

p.s. Vísan frá henni Guðrúnu Hörpu vinkonu minni, sem fór eitthvað illa í athugasemdakerfinu.

  • Åtte øyne i hverandre
  • fire munner rundt et bord.
  • Fire vegger kring en lykke:
  • Vesla, Påsan, far og mor.
  • Åtte hender hektet sammen
  • til en ring om stort og smått.
  • Herregud – om hele videverden
  • hadde det så godt

« Fyrri síða

Höfundur

Eva Margrét Einarsdóttir
Eva Margrét Einarsdóttir

Ætlar að hlaupa styttra og hraðar...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband