Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008

Álafosshlaupið

Dreif mig í Álafosshlaupið í gær, þurfti þá reyndar að sleppa fyrri partinum af Skapandi skrif námskeiðinu en þá var bara að reyna að hlaupa hratt og ná seinni hlutanum... 

Fann fyrir töluverðri þreytu í lærunum eftir Esjuhlaup og önnur hlaup í vikunni og strax eftir fyrsta km fann ég að ég þurfti að slaka aðeins á.  Ég var svo heppinn að hafa fyrirtaks héra sem hélt mér við efnið, hana Hrönn.  Hún hljóp þetta hlaup alveg rosalega vel, orðið 'fallega' kemur upp í hugann.  Ansi hrædd um að tíminn minn hefði verið miklu lakari ef ég hefði ekki haft það sem markmið að missa ekki sjónar af henni.  Tíminn 38:42 en það er bæting um rúmar tvær mínútur.

Lukkan hefur verið mér heldur betur hliðholl eins og svo oft.  Fékk tvo frosna kjúklinga í úrdráttarverðlaun, Janus ullarpeysu í 2. verðlaun í hlaupinu og svo var ég rétt í þessu að landa rauðvínspottinum í vinnunni!  Verð seint valin vinsælasta stúlkan af vinnufélögunum í rauðvínslottóinu...

Skapandi skrif stóð svo sannarlega undir væntingum og ég hlakka til að fara á framhaldsnámskeið í haust.  Reikna með að gefa út fyrstu skáldsöguna fyrir jól (ekki alveg búin að ákveða hvaða jól samt Grin ).  Er komin með nafnið á hana, aðalpersónurnar, plottið og endinn.  Þarf bara að koma þessu á blað!

Annars bara löng og góð helgi framundan.  Byrja á að fara í 90 mínútna 'Heildræna meðferð' í Laugar Spa núna eftir vinnu, afmælisgjöf frá Glennunum.  Útskriftarveisla hjá Guðrúnu Hörpu vinkonu á laugardaginn.  Gullspretturinn á Laugavatni á sunnudaginn. 

Það er svo aldrei að vita nema maður verði bara í bústaðnum eitthvað fram í næstu viku, verðum í frí fram á miðvikudag.  Getur ekki verið betra.


Esja #5

Sprakk nánast á limminu eftir allar æfingarnar um helgina og var gjörsamlega búin á því mánudag og þriðjudag, með kvef í ofan í allt saman.  Dagskráin var pökkuð af öðru en hlaupum á mánudaginn, var að non stop frá hálf sjö til hálf ellefu um kvöldið...  Skokkaði heim úr vinnunni á þriðjudaginn, þreytt, þreytt, þreytt... 

En í gær fór ég að koma til aftur.  Hádegisskokkið var frábært í góða veðrinu og Esjan var aftur orðin freistandi seinnipartinn.  Fór lengri leiðina upp og var ekkert að þenja mig.  Labbaði meira upp fyrri partinn en síðast og þetta var allt saman miklu auðveldara.  Var mjög ánægð með tímann miðað við álag, 34:56 og ekki síst niður aftur en ég finn það ennþá betur á leiðinni niður hvort ég sé þreytt eða ekki.  Var rétt innan við 20 mínútur niður án þess að hafa of mikið fyrir því. 

Fólk er alveg ótrúlega vinalegt í fjallinu og flestir bjóða góða kvöldið þegar maður mætir þeim.  Ég þarf að passa mig á því á leiðinni niður að vera ekki að líta upp og brosa til fólks því það er eins gott að hafa augun á jörðinni svo maður stígi ekki feilskref.  Á samt alltaf til nóg af 'Góða kvöldið' það verður að duga svo ég fljúgi ekki á hausinn...   

IMG00071

Ótrúlega fallegur dagur og útsýnið engu líkt.  Þvílík forréttindi að hafa eitt stykki Esju nánast í bakgarðinum.


Hvað segir...

Takið sérstaklega eftir hananum LoL ...


Gabríel sigurvegari

Gabríel og félagar hans í B-liði Þróttar í 6. flokki gerðu sér lítið fyrir og unnu Þróttarmótið ásamt Álftanesliðinu.  Þessi tvö lið sigruðu sína riðla og börðust síðan hatrammlega í úrslitaleik sem fór 1-1.  Það var tekin ákvörðun um að bæði lið sigruðu enda ekki komin þroski til að takast á við vítaspyrnukeppnir ennþá.  Þeir voru alveg hrikalega flottir strákarnir og alveg til fyrirmyndar.  Það rétt sést í guttann undir bikarnum Smile.

DSC06137

Verð að skella inn myndum að kvenpeningnum í fjölskyldunni, niðurrigndar og krúttlegar eftir Kvennahlaupið á laugardaginn.

IMG00057  IMG00060

Og svo var það Esja #4 í kvöld.  Ohhh svo þreytt að það hálfa væri nóg.  Með tæplega 50 km í lærunum eftir helgina og búin að vera á fótboltamóti í allan dag...  Erfitt, 31:58 upp að Steini, samtals 55 með dágóðu stoppi á rólegheitaskokki niður aftur í ánni.  Ákvað að nota tækifærið og prófa að rennbleyta skóna, fyrst engin Esjumet væru slegin í dag.  Skórnir alveg frábærir, fann ekki fyrir vatninu, annað en þegar ég hljóp með hálfa Þröngánna í GoreTex skónum, með mér í mark síðast þegar ég fór Laugaveginn!

IMG00070 IMG00069

 


100 km hlaup

Ótrúlega gaman að fá að taka aðeins þátt í upplifuninni hjá þessum hetjum sem kláruðu fyrsta 100 km hlaupið á Íslandi! 

TIL HAMINGJU ÖLL SAMAN, ÉG DÁIST AÐ YKKUR!

Fór strax í morgun og hljóp 26,5 km, mestan hlutann með Sigrúnu Glennu.  Eftir hádegisbita hjá mömmu og pabba fórum við stelpurnar, mamma, Lilja og ég í Kvennahlaupið í Garðabæ.  Þetta var 10. Kvennahlaupið sem við mamma tökum þátt í og í þetta skipti fórum við litla hringinn, 2 km í ausandi rigningu!  Eftir kaffi hjá tengdó og smá slökun hjá mömmu og pabba þá gat ég ekki hamið mig og skaust niðrí Elliðaárdal aftur og tók einn hring til og rúmlega það.  Samtals gerði dagurinn þá hjá mér rétt tæpa 40 km!   

Nú er maður komin í partýgallann, þrítugsafmæli hjá Ings vinkonu minni og samstarfskonu!


Skapandi skrif

Átti aðra frábæra kvöldstund í hópi listamanna.  Í gær fengum við að upplifa 13 nýja einleiki fyrir svið og ræða þá.  Tala nú ekki um allar lífslexíurnar sem fylgdu með í kaupbæti.  Magnað.

Skrifaði ljóð #2

 

Maður veit aldrei.

Nema maður sé alltaf hræddur.

Þá veit maður.

 

og áður en ég vissi af ljóð #3

 

Hvernig líður þér?

 

Ég líð.


Einleikur og Hugleikur

Settist niður í gærkvöldi og skrifaði einleik, verkefni fyrir Skapandi skrif. 

Við fórum í mat til pabba og mömmu í gær og ég var að segja frá því að ég þyrfti nú að kaupa mér almennilega bók til að skrifa í.  Mamma spratt allt í einu upp og inn í herbergi til sín, kom svo aftur með forláta bók, gerða úr endurunnum pappír, með þurrkuðum blómum utan á og auðum síðum.  Akkúrat svona bók eins og ég var að hugsa um, bara miklu flottari.  'Þú mátt eiga þessa bók, hún hefur örugglega verið að bíða eftir þér...'. 

Mamma fékk bókina í sextugsafmælisgjöf (fyrir 12 árum) frá þremur vinkonum sínum og henni fylgdi alveg sérstaklega fallegt kort.  Inní kortinu voru nokkrir fjögurra blaða smárar sem mamma hafði fundið á leiðinni í vinnuna fyrir einhverjum árum síðan og þurrkað.  Ein af vinkonunum er systir hans Þorvalds Þorsteinssonar, sem er kennarinn minn á námskeiðinu.  Skemmtilegt.

Gabríel var að taka saman bækur til að skila á bókasafnið og þar á meðal var bók eftir Hugleik Dagsson, Elskið okkur.  Ég rak upp stór augu.  Gabríel hafði tekið hana fyrir barnateiknimyndasögu og var í sjokki yfir innihaldinu, 'Mamma, ég veit...' og þvílíkur hneykslunarsvipur á barninu, hann átti ekki orð.  Ég renndi yfir hana í gær, vá...

Frábær tónlistarsíða HÉRNA


Esja #3

Skaust upp eftir um leið og Þórólfur kom heim úr vinnunni.  Fékk reyndar smá upphitun um miðjan daginn, mamma kom og passaði Lilju og leyfði mér að viðra mig aðeins.  Fór rúma 10 km, niðrí bæ og í kringum Tjörnina í blíðunni.

En að Esjunni, fór upp hægra megin í dag.  Ég gleymdi Garminum í þetta sinn en var með klukku á símanum.  34 mínútur upp að Steini, 20 mínútur niður aftur.  3 mínútna bæting á þessari leið síðan í síðustu viku.  Mökkur af hlaupurum í fjallinu, sumir fóru upp og niður, upp og niður aftur og jafnvel upp og niður enn einu sinni...  Ég hef nú ekki tíma í svoleiðis, vanda mig bara sérstaklega í þeim ferðum sem ég fer og segi svo bara 'Less is more...' Tounge

IMG00054

Þetta á sko að standa fyrir 34 mínútur...


Lasin lús

Lilja litla er lasin, með hita og hor.  Ég var heima hjá henni í gær og æ það er nú bara ágætt að vera 'píndur' í að taka það rólega með unganum sínum. 

Var nú annars nokkuð afkastamikil þegar ég hugsa um það.  Bakaði tvö bananabrauð og tvö döðlubrauð eftir nýrri uppskrift.  Hringdi í leikskóla úthlutunarkonuna og hún var nú bara á því núna að það væri möguleiki fyrir Lilju að komast inn í haust.  Tók á móti mömmu og pabba í kaffi og bakkelsi.  Tók svo mömmu í smá yfirhalningu, litun, plokkun, klippingu og blástur.  Tók á móti smiðnum sem kláraði að ganga frá nýju svalarhurðunum og gaf honum líka kaffi og bakkelsi.  Útbjó fiskrétt fyrir okkur hjónin og hafði matinn í fyrr fallinu.  Sat og knúsaði stelpuna mína þess á milli en þetta var allt fyrir klukkan sex. 

Þá byrjaði nefnilega nýtt ævintýri.  Í miðjum maraþonundirbúningi rakst ég nefnilega á auglýsingu sem kveikti áhuga minn.  Námskeið í Listhúsinun sem heitir Skapandi skrif, kennarinn er Þorvaldur Þorsteinsson (skrifaði m.a. Blíðfinn og Skilaboðaskjóðuna).  Ég skráði mig og í gærkvöldi var fyrsti tíminn.  Ótrúlega gaman.  Á fjórum tímum skrifaði ég ævintýri og teiknaði u.þ.b. 20 smámyndir, hlustaði á 10 glænýjar sögur og lærði allt mögulegt.  Magnað.

Píanó

Lilja að spila á píanó hjá ömmu og afa í Norðurbrún.


Esja #2

Fór með Sigrúnu, Öggu og Ólöfu hans Davíðs.  Var nú ansi þungt yfir og hífandi rok en sem betur fer fengum við það í rassinn á leiðinni upp.  Í þetta sinn fór ég vinstra megin upp og tíminn upp að Steini 31:02.  Hífandi hávaðarok og ég sat í hnipri bak við Stein þangað til stelpurnar komu og við blöstuðum niður aftur.  Samtals tími upp og niður (lengri leiðina, niður) var 50:32.  Ég reyndi að taka mynd af klukkunni uppi með merkið í baksýn en það var ekki séns að halda höndinni stöðugri!  Náði myndi í skjóli, verður allt að vera skráð og myndað...

IMG00049
IMG00051
IMG00053

« Fyrri síða

Höfundur

Eva Margrét Einarsdóttir
Eva Margrét Einarsdóttir

Ætlar að hlaupa styttra og hraðar...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband